Eftirfarandi kveðja var flutt við útför Jónasar Kristjánssonar þann 12. júlí 2018. Úlfar Þormóðsson skrifaði.
Jónas margra morgna
Kveðja frá stéttarfélögum
Hann var margur maður. Hann var risi íslenskrar blaðamennsku. Hann var liðsmaður réttlætis. Hann var heimspekingur. Hann var vígamaður. Hann var náttúrubarn. Hann var hestamaður, borgarbúi og bílamaður. Hann var kaffidrykkjumaður. Hann var við öll. Við vorum líka hann. Hann var margur maður.
Og hann var líka Jónas margra morgna á Kaffistéttinni við Skólavörðustíg. Stundum þungt hugsi, oftar glaðbeittur, og alltaf ræðinn. Á Stéttinni beitti hann einu undirstöðuatriði samræðulistarinnar, að hlusta á tal annarra. Svo stakk hann orði að. Skarpri athugasemd, hárbeittri skýringu hins lífsreynda og uppreisnargjarna unga anda í einum og sama manninum. Ein tunga tveggja tíma. Og samræður breyttust, urðu markvissari.
Jónas margra morgna var ekki orðhákurinn, vígamaðurinn þjóðkunni. Hann var gæflyndur við kaffidrykkju og til viðræðu um hvaðeina. Hin mikla þekking hans gerði það að verkum, að hann gekkst við því þegar hann vissi ekki hót. En auðvitað hvein í honum á stundum. Þó það nú væri. Við hlustuðum. Af áhuga. Og tókum mark á honum. Svo hlógum við með honum og að honum og okkur öllum. Og léttum lundina.
En svo kom haust
Og svo kom vetur.
Og svo kom þungbúið vor sem stendur enn. Það lagðist drungi yfir allt. Og okkur líka. Á stundum. Og Jónas fór að tala um að flytja til Spánar. Ítrekað. Ekki bara skreppa eða fara heldur flytja. Hann vildi drekka morgunkaffi í sólskini.
Þegar Spánarræðan stóð yfir hvarflaði stundum að okkur að honum þættu morgnarnir orðnir nógu margir. Hann virtist einmana. Það var í honum tregi.
Þá var það einn grámyglumorgun að við spurðum:
“Heyrðu Jónas, er ekki eitthvert félagslíf þarna á elliheimilinu?
“Jú”, sagði hann. “Þau prjóna. Og spila. Svo gaf kona mér kleinu og bauð mér síðan í kvöldkaffi.”
“Var hún að fara á fjörurnar við þig?”
“Ætli það ekki, en ég hef ekki þegið það ennþá”, sagði hann, hestamaðurinn, steig upp í jeppann og ók inn í daginn sem við vissum ekki hvernig yrði við hann, en höfðum grun.
Og við fengum eftirþanka. Var Spánn ekki Spánn? Var Spánarreisan annar túr um lengri veg? Ferð sem hann var sáttur við að halda í? Búinn að fá staðfesta? Reisa sem hann vildi láta okkur vita um og af án þess að orða það?
Þetta upplýsist ekki. Hitt er ljóst; hann er lagður í´ann með öll sín andlit. Farinn í óvissuferð. Við sem eftir stöndum á Stéttinni, líka þau okkar sem efumst um allt nema veðrið, vonumst til þess, ef þetta ferðalag heldur áfram á einhvern veg, þá fái Jónas margra morgna kaffi í sólskini og kleinu í áfangastað.
Vertu kært kvaddur þangað eða annað, félagi. Við eigum eftir að sakna þín af Stéttinni.
Ljósmynd: Kjartan Þorbjörnsson – Golli