Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Að standast freistingarnar!

$
0
0

Flestir glíma við hindranir. Eitthvað sem dregur úr árangri og hægir á því að við náum markmiðum okkar.

Eitt sem margir kljást við er löngun í óhollan mat eða sætindi.

Bara það að ná að sigrast á þessum löngunum okkar hjálpar til við að komast nær þeim markmiðum sem við viljum ná.

Freistingar eru alls staðar. Hvað getur þú gert til að standast þær?

Hér er smá listi yfir það hvernig þú getur náð stjórn á þínum löngunum.

1. Forðastu að eiga til fæðuna sem þú getur ekki staðist!
Ef þú ert ekki með freistingarnar fyrir framan þig þá er mun auðveldara að sigrast á lönguninni. Ef þú þarft að hafa fyrir því að nálgast það sem hugurinn girnist þá velur maður oft þann kost að sleppa því.

2. Drekktu vatn!
Þegar þú finnur þörfina hellast yfir þig fáðu þér þá tvö stór vatnsglös. Kannski ertu ekki svöng heldur bara þyrst.

3. Fáðu þér mintu eða burstaðu tennurnar!
Þegar við erum með hreinar tennur eða mintuferskan munn þá langar okkur yfirleitt ekki að eyðileggja það með því að fá okkur að borða. Oft þegar maður kemur heim eftir langan vinnudag þá er löngunin í óhollt oft yfirþyrmandi. Ég mæli með því að fyrsta verkið sem þú gerir þegar heim er komið sé að bursta tennurnar. Ferskur andardráttur dregur úr lönguninni.

4. Fáðu þér „power nap“!
Þegar við erum þreytt og orkulaus þá skríður oft sætindapúkinn upp að manni. Leggstu upp í rúm í 15 mínútur, lokaðu augunum og fylltu á orkuna.

5. Losaðu alla streitu!
Þegar við erum undir miklu álagi og stressi þá viljum við oft leyfa okkur alls konar freistingar. Taktu smá slökun. Andaðu djúpt og dragðu inn jákvæðar hugsanir. Ég get, ætla og skal!

6. Fáðu þér prótein!
Oft kveikir líkaminn á þessum löngunum þegar okkur vantar í raun bara prótein. Þetta gildir ekki fyrir alla en ég mæli samt með að þú prufir. Fáðu þér eitt harðsoðið egg, harðfiskbita eða tvær matskeiðar af hreinu skyri næst þegar löngunin hellist yfir þig. Sjáðu hvort þú nærð að slökkva á henni.

7. Farðu út í göngutúr!
Stundum leiðist okkur bara og þá förum við beint í það að borða. Nýttu þessar langanir í mat heldur til þess að hreyfa þig frekar en að opna ísskápinn. Farðu út í göngutúr, út að hjóla eða jafnvel í sund. Þegar við komum svo heim þá langar okkur mest af öllu í eitthvað hollt.

8. Veldu þér eitthvað hollt í staðinn!
Ef þig langar í ís búðu þér þá til smoothie með ávöxtum. Ef þig langar í sælgæti fáðu þér þá fjórar döðlur með hnetusmjöri. Veldu hollari kost en svalaðu þörfinni.

9. Borðaðu reglulega.
Ekki gleyma þér í amstri dagsins og borða bara morgunmat og síðan næst þegar þú kemur heim síðdegis. Þá ertu bara að bjóða hættunni heim. Borðaðu reglulega og hóflega skammta í einu. Þannig heldur þú blóðsykrinum í jafnvægi og þá er minni hætta á blóðsykurfalli sem fær mann til að leita í sætindi og óhollustu.

10. Mundu að þetta er val!
Þú velur hvort þú vilt færa þig nær eða fjær markmiði þínu. Þú veist að það að velja óhollari kostinn þá mjakastu hægt að markmiðum þínum, stendur í stað eða jafnvel bakkar um nokkur skref. Þitt er valið.

Þetta eru aðeins 10 ráð af trilljón sem ég gæti gefið þér. Listinn er alls ekki tæmandi.

Eitt langar mig samt að segja í lokin. Við erum öll mannleg og þó að við veljum suma daga að fá okkur bara það óholla sem okkur langar í gerir það okkur ekki að verri manneskjum.

Stundum koma bara dagar þar sem maður verður að leyfa sér að svala þörfinni. „Svindla“!

En svo daginn eftir þá stöndum við upp. Réttum úr okkur. Lesum yfir markmiðin okkar og höldum áfram. Við fitnum ekki af einum snúð alveg eins og við léttumst ekki af einni papriku. En ef við veljum alltaf óhollar freistingar þá vitum við alveg hvað það þýðir, það hægir á framförum og árangri. Það að borða hollt er æðislegt. Okkur líður vel á líkama og sál. Það skemmtilega við það er líka að hollur matur er líka svo unaðslega góður!

Svona ykkur að segja þá borðaði ég
fimm karamellur á meðan ég skrifaði þennan pistil!
Ég réttlætti það með þeirri afsökun
að ég hafði átt mjög annasaman dag.
Það er samt bara enn ein afsökunin
og hefði ég frekar átt að drekka tvö vatnsglös!
Já, við eigum öll okkar veikleika.

Mitt ráð til þín
Ertu vön að borða fyrir framan sjónvarpið?
Það er vani sem þú getur breytt. Settu lime og jarðaber í vatnskönnu, klaka og ískalt vatn! Drekktu það á meðan þú horfir á uppáhaldsþáttinn þinn.  Gerðu það að nýja vananum þínum þegar þú hefur það huggulegt uppí sófa, undir teppi fyrir framan sjónvarpið.
Mundu líka þetta: Ef þú ákveður að „svindla“ njóttu þess þá! Það er ekki í boði að gera það með samviskubiti ;)

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283