Yfirgnæfandi meirihluti Breta, 78%, telja ríkisstjórn landsins standa sig illa í samningaviðræðum um úrgöngu konungsríkisins úr Evrópusambandinu, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Sky News. Aðeins fyrir örfáum mánuðum, í mars, voru 55% aðspurðra á þeirri skoðun. Þá töldu 23% stjórnvöld standa sig vel – nú eru það 10% á þeirri skoðun. Könnunin leiðir í ljós að tveir þriðju hlutar íbúa í landinu telja að niðurstaða viðræðnanna verði Bretlandi í óhag, en í mars var um helmingur landsmanna á því máli. Fréttastofan orðar það svo að stjórnin blæði nú stuðningi meðal almennings.
Forsendur og markmið í samningaviðræðum
Fulltrúar Bretlands og Evrópusambandsins eiga í viðræðum um hvernig viðskiptum og pólitískum tengslum sambandsins og konungsríkisins verður háttað eftir að úrsögn Breta tekur gildi, þann 1. apríl á næsta ári. Náist ekki samningar verður staða Bretlands, fyrirtækja landsins og almennings gagnvart sambandinu sú sama og hvers annars lands sem ekki á aðild að sambandinu. Áhyggjur af þeirri niðurstöðu snúast ekki síst um að þá missir Bretland aðgang að mörkuðum ESB, og evrópsk fyrirtæki aðgang að Bretlandsmarkaði.
Eftir fund með helstu ráðherrum ríkisstjórnarinnar þann 6. júlí tilkynnti Theresa May að stjórnin hefði komist að sameiginlegri niðurstöðu um markmið í samningaviðræðunum: að stofna til sameiginlegs fríverslunarsvæðis Bretlands og ESB, sem eftirláti Bretlandi svigrúm til að gera eigin viðskiptasamninga við önnur lönd og skuldbindi landið ekki til að fallast á svonefnt „fjórfrelsi“ Evrópusambandsins: á hinu sameiginlega svæði yrðu vöruviðskipti frjáls, en viðskipti með þjónustu, fjárfesting og ekki síst fólksflutningar yrðu háð skilmálum Bretlands. Ein lykilbreyting frá fullri þátttöku í Evrópusambandinu fælist þannig í að draga úr fjölda og réttindum innflytjenda til Bretlands.
Að verja markmið stjórnarinnar er „að pússa feitan lort“
Það voru þessi markmið sem Boris Johnson, þáverandi utanríkisráðherra, kallaði „feitan lort“, samkvæmt fréttaflutningi Sunday Times, og allar varnir fyrir slíkan samning fælu það eitt í sér að „pússa lort“. Í andmælaskyni sagði hann af sér ráðherraembættinu, en Johnson er á meðal þeirra sem hafa farið fram á sem afdráttarlausastan aðskilnað konungsríkisins frá sambandinu.
Í nýlegum leiðara The Independent er ríkisstjórn Theresu May sögð sækjast eftir tveimur andstæðum markmiðum í samningaviðræðunum: að eiga náið samstarf við Evrópusambandið um aðgang að innri markaði þess, en geta um leið vikið frá viðmiðum hans eftir hentugleikum. Fyrra markmiðið er sagt lífsspursmál fyrir breskt hagkerfi til skamms tíma litið, án áframhaldandi aðgangs að innri markaði ESB sé kreppa óhjákvæmileg. Síðara markmiðið snúist um að þóknast kröfum harðra Brexit-sinna, en geti um leið falið í sér efnahagslegan ávinning til lengri tíma. Ritstjórn blaðsins hvetur ríkisstjórnina til að fækka sérkröfum og setja áframhaldandi aðgang að tollabandalagi Evrópusambandsins og innri markaðnum í forgang, eins þó að það þýði að landið yrði í reynd, að minnsta kosti um hríð, „atkvæðalaust aðildarríki ESB“.
Spurningin um „norsku leiðina“ —EES— snýr aftur og aftur
Í Telegraph skrifar Tim Stanley, sagnfræðingur og blaðamaður, og segir tímabært að stjórnvöld taki „norsku leiðina“ alvarlega – það er EES-samninginn, sem Ísland á einnig aðild að, ásamt örríkinu Liechtenstein. EES-samningurinn veitir þessum þremur ríkjum aðgang að innri markaðnum, en án atkvæðaréttar eða beinnar pólitískrar aðkomu að þróun hans. Samningurinn grundvalallast á samþykki ríkjanna við fjórfrelsi innri markaðarins: ekki bara frjálsu flæði fjármagns, vöru og þjónustu, heldur þarmeð frjálsum ferðum og flutningum fólks milli ríkja svæðisins.
Spurningin um fordæmi EES-samningsins hefur verið uppi á borðum í umræðum um Brexit allt frá þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016. Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, er á meðal þeirra sem segja slíkt fyrirkomulag ekki koma til greina, enda yrði Bretland þá „regluþegi“ Evrópusambandsins, án áhrifa eða valds yfir reglugerðum þess.
Örfáum dögum eftir að May tilkynnti um samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar, í byrjun júlí-mánaðar, kaus hins vegar lávarðadeild breska þingsins með viðauka við Brexit-frumvarp ríkisstjórnarinnar, sem myndi, ef neðri deild þingsins samþykkir það einnig, þvinga ríkisstjórnina til að fara EES-leiðina. 83 fulltrúar Verkamannaflokksins í öldungadeildinni gengu gegn fyrirmælum Corbyns og kusu með frumvarpinu, ásamt 84 fulltrúum frjálslyndra, 17 fulltrúum íhaldsflokksins og 60 þingmönnum utan flokka: alls 245 atkvæði með viðaukanum gegn 218 á móti honum.
Í hollensku útgáfu tímaritsins Business Insider eru reifaðir kostir slíks samnings: þar segir að EES-samningur fæli í sér fullan aðgang að innri markaði ESB, um leið og Bretland gæti sagt skilið við sumar af umdeildari sameiginlegum reglum sambandsins, til dæmis sameiginlega fiskveiðistefnu og landbúnaðarstefnu. Þá hafi Evrópudómstóllinn enga lögsögu yfir EES-ríkjum, en dómstóllinn hafi verið aðskilnaðarsinnum mikið bitbein. Þá er nefndur sá kostur við slíkt samkomulag að ekki þyrfti að endurreisa tollamúra og landamæravörslu milli Írlands og Norður-Írlands, en Írland er og verður áfram aðildarríki ESB.
En verður til matur?
Ríkisstjórn Bretlands segist vonast til að landa samningi við Evrópusambandið fyrir lok október-mánaðar á þessu ári. Þar sem enn er deilt um grundvallaratriði í samningsmarkmiðum Bretlands, innan flokka, innan ríkisstjórnar, innan þingdeilda og í bresku samfélagi, og enn alls óljóst hvers konar samning fulltrúar ESB myndu fallast á, er opinn sá möguleiki að þann 1. apríl á næsta ári taki úrsögn Bretlands úr ESB gildi án þess að samist hafi um nýtt fyrirkomulag á tengslum þeirra. Viðskipti milli Bretlands og ESB myndu stöðvast, á sumum sviðum, en verða fyrir mikilli og skyndilegri röskun á öðrum. Í breskri umræðu er rætt um slíka niðurstöðu sem brotlendingu – „crashing out“. Það er í ljósi þess möguleika sem tekið hefur að bera á umfjöllun, og nokkrum ótta, um fæðuöryggi í landinu.
Síðastliðinn þriðjudag tilkynnti Theresa May að Dominic Raab, sem í tvær vikur fram að því var ráðherra úrsagnarmála eða „Brexit-ráðherra“, myndi ekki lengur leiða samningaviðræður landsins við ESB, heldur tæki hún sjálf að sér forystu þeirra. Raab yrði þaðan í frá falið það hluterk að sinna viðbúnaði innanlands og undirbúningi, meðal annars, við mögulegri brotlendingu.
Sama dag gerði Raab opinbert að bresk stjórnvöld undirbyggju nú þegar viðbragð til að tryggja aðgang Breta að matvælum ef kemur til samningslausrar úrsagnar. Þá tilkynnti heilbrigðismálaráðherra að stofnanir ráðuneytisins eigi í viðræðum við fulltrúa lyfjaiðnaðarins um að safna birgðum af lyfjum og öðrum nauðsynjavarningi, af sama tilefni.
Hvað með ólífuolíu? Hvað með parmesanost? Hvað með vín?
49% matvæla í Bretlandi eru framleidd innanlands, 30% eru aðflutt frá löndum Evrópusambandsins: þaðan flytur Bretland inn matvæli og drykkjarvarning fyrir 22 milljarða punda á ári. Miðstöð Lundúnaháskóla um rannsóknir á sviði matvælastefnu lét frá sér álit í liðinni viku, þar sem bent var á að jafnvel þó að samið yrði með hraði um innflutning, til dæmis, á bandarískum matvælum í stað þeirra sem Bretar hafa vanist að berist frá ríkjum Evrópu, þyrfti til þess átak í uppbyggingu innviða og flutningaleiða sem jafnaðist á við birgðaflutninga síðari heimstyrjaldar.
Stjórnvöld segja að þau hafi ekki í hyggju að safna birgðum sjálf, heldur aðgæta að þeir birgjar sem þegar starfa í geiranum eigi nóg til. Formaður samtaka smásala í landinu, Helen Dickinson, segir aftur á móti að það sé með öllu óhugsandi. „Það er ekkert pláss til að geyma mat. Dreifingarferlin eru mjög viðkvæm fyrir raski.“ Ian Wrigt, formaður samtaka matvælaframleiðenda í Bretlandi, tekur undir þetta og segir að fyrirtæki í landinu hafi ekki yfir stórum birgðaskemmum að ráða, enda væri slíkt undir venjulegum kringumstæðum afar óhagstætt. Matur berist að jafnaði til landsins rétt í tæka tíð til að neyta hans. „Ég held að ríkisstjórnin skilj það ekki,“ sagði hann.
„Svona vanhæfum stjórnvöldum er ekki treystandi til að fæða okkur,“ skrifar Ian Jack í The Guardian. Burtséð frá því að án sérstakra ráðstafana gæti orðið tímabundinn matvælaskortur í landinu, við hugsanlega brotlendingu úr ESB, lýsir pistlahöfundurinn yfirvofandi sorg yfir tilveru án þeirra tilteknu matvæla sem Bretar hafi vanist í krafti innri markaðarins: „Endurkoma tolla og sennilegt gengisfall pundsins myndi þýða að ólífuolía og vín yrðu aldrei aftur jafn ódýr. Miðstéttarlíf sem tók að þróast á sjöunda áratug síðustu aldar gæti verið að líða undir lok.“
Við þetta bætist yfirvofandi uppskerubrestur innanlands, vegna mikilla þurrka. Í ljósi alls þessa skrifaði á sunnudag matargagnrýnandinn Jay Rayner í The Guardian að yfirvofandi samdráttur í úrvali matvæla, ef kemur til brotlendingar Bretlands úr Evrópusambandinu, sýni að stjórnvöld hunsi meginhlutverk sitt. Þau sem hlut eiga að máli ættu með réttu „að hengja haus af skömm“.