Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

En Pia segir satt: Ísland framkvæmir stefnu Danska þjóðarflokksins

$
0
0

vitum við að Danir brúka purkunarlaust orðið koloni um stöðu Íslands gagnvart Danmörku á árum áður, nýlenda. Ekki hjálenda, sem á dönsku væri víst biland, og breytir ekki heldur öllu: nýlendur Danmerkur í Karíbahafi teljast, eftir að Danir seldu þær, hjálendur Bandaríkjanna. Íbúar þeirra hafa þó enn ekki, til dæmis, kosningarétt.

Orðið kolóní virðist hafa borist í debattinn við Piu Kjærsgaard, um Piu Kjærsgaard, í þýðingu: Guðmundur Andri talar um Danmörku fyrri alda sem herraþjóð, og það jafnvel hjálpsama herraþjóð. Hann talar um „Stórdani“ og framkomu þeirra við Íslendinga eins og börn sem þurfi að siða til og ala upp en hann skautar, kanski að íslenskum sið, hjá alþjóðlega samhenginu og einfalda, skýra orðinu nýlenda.

Samhengið og eiginlegt inntak skrifanna sprettur þannig ekki fram fyrr en í fyrirsögn Information við sömu grein, þar sem úr áráttukenndri ljóðrænu íslenskrar samfélagsumræðu verður hið kýrskýra hugtak koloniherre: Nýlenduherrann Kjærsgaard. Og, þarmeð, nýlendan Ísland.

Þýðandinn, ritstjórnin og Kjærsgaard hafa þarna gert okkur svolítinn greiða, ekki síst Kjærsgaard, því hún færir samtalið burt frá hinni eilífu íslensku sérstöðu og þvingar það í átt að almennum prinsippum.

Kólónía og kólónía

Almennt segist Kjærsgaard mótfallin því að fyrrum nýlendur þykist eiga eitthvað sökótt við fulltrúa herraþjóðanna, fólk sem var ekki einu sinni á lífi þegar þær léku nýlendurnar verst. Kjærsgaard er ekki ein um þá afstöðu heldur stendur þar öðru megin við víglínu í átökum sem eru alþjóðleg, varða grundvallaratriði og hafa staðið frá miðri síðustu öld.

Frá 1670 til 1802 fluttu Danir um 100.000 manns frá Afríku nauðuga, til þrælkunarvinnu á sykurekrum á nýlendum sínum í Karíbahafi. Í því ljósi er kannski engin furða að það hafi reynst viðkvæmt á dögunum þegar borgarfulltrúi Sósíalista vitnaði í Malcolm X um greinarmuninn á þræl og húsþræl: í samanburði við bókstaflega þræla Danmerkur á bókstaflegu ekrunum í bókstaflegu nýlendunum í Vestur-Indíum var Ísland heilt yfir alla tíð eins konar húsþræll. Í hundrað ár hefur landið loks einhvern veginn talist til herraþjóða, um það snerist sjálfsmyndarbaráttan, og nú neytum við ekki minna sætabrauðs en Danir sjálfir.

Þrælahald Dana í nýlendunum var ekki afnumið með öllu fyrr en 1848. Guðmundur Andri ætlaði að tala um þóttafulla framkomu danskra erindreka á Íslandi en Kjærsgaard svarar: eins og ég geti bætt fyrir afdrif þessara 100.000 þræla? Ég át ekki þann sykur, kom ekki nálægt honum, ég var ekki einu sinni þarna.

Fjarvistarsannanir

Íslendingar eru þaulvanir svona fjarvistarsönnunum. Ekki bara „ég var ekki einu sinni þarna“ heldur jafnvel „ég er ekki þarna“ og „ég er ekki einu sinni hérna“. Samstaða þjóðarinnar er einkum samstaða um fjarvistarsannanir, og nær þvert yfir markalínur hægri- og vinstriflokka. Sjá: „Ekki í okkar nafni“ auglýsingarnar vegna Íraksstríðsins 2003, „Do I look like a terrorist, Mr Brown?“-herferðina 2008, og önnur tilbrigði við stefið „Ha, ég?“.

Kjærsgaard spyr hvort enginn megi elska ættjörð sína nema Íslendingar og í sömu mund: Hversu mörgum útlendingum hefur Ísland annars tekið á móti? Guðmundur Andri svarar þegar í stað á Facebook með þeirri fjarvistarsönnun að á Íslandi sé bara víst fullt af útlendingum. Og þar er hætt við að debattinum ljúki. Kjærsgaard spyr auðvitað ekki til að hvetja Íslendinga til að gera betur heldur leyfa sér og sínum að gera verr. En spurning hennar er, þrátt fyrir það hvaðan hún berst og í hvaða augnamiði, bæði réttmæt og nauðsynleg og það væri gott að finna betra viðbragð en hið hefðbundna: Við? Við erum ekki einu sinni hérna.

Stærri Norðurlöndin hafa öll, áratugum saman, framfylgt langtum mannúðlegri stefnu gagnvart innflytjendum og flóttafólki, sýnt ókunnugum langtum meiri gestrisni, en Ísland hefur gert. Eins og Gunnar Smári Egilsson tók saman á dögunum og Guðmundur Andri má vita kemur einn af hverjum 13 Svíum frá Afríku eða ríkjum þar sem múslimar eru í meirihluta, og einn af hverjum 19 Dönum en aðeins einn af hverjum 180 Íslendingum. „Það eru innan við tvö þúsund manns frá þessum heimshlutum á Íslandi en væru tæp 19 þúsund ef hlutfallið væri það sama og í Danmörku,“ reiknaði Gunnar Smári.

Sú útlendingastefna sem rekin hefur verið á Íslandi er í reynd í miklu samræmi við þá stefnu sem flokkar á við Danska þjóðarflokkinn boða. Ísland sker sig hins vegar úr að því leyti að þar hefur stefnunni að mestu verið framfylgt þegjandi og hljóðalaust. Raunar finnst orðið „útlendingastefna“ aðeins í einni þingræðu á vef Alþingis, frá Adda Kitta Gau vorið 2008.

Málstefna sem flótti undan merkingu

Það skiptir máli hvað við segjum, hvernig við tölum. En það skiptir ekki síst máli vegna þeirrar hættu að orðunum sé fylgt eftir með athöfnum. Stundum virðist meiri ótti ríkja á Íslandi við að athöfnum sé fylgt eftir með orðum.

Um þessar mundir taka Vinstri-græn að sér það hlutverk að styðja við hefðbundin störf innanríkisráðherra með þögn. Núverandi ráðherra á sviðinu er raunar stórtækari en margir forverar hennar. Eins og fornhetja úr Íslendingasögunum bregst hún ekki við meðlíðan almennings með fólki í neyð með orðavaðli heldur með þögulli atorkusemi og markvissum aðgerðum í þá átt að minnka sýnileika neyðarinnar: banna heimsóknir til hælisleitenda, halda fjölmiðlum frá, „stytta málsmeðferðartíma“ og þrengja skilyrði fyrir vernd í reglugerð ef þingumræður skyldu trufla lagasetningu.

Í landinu virðist ríkja útbreidd sátt um þessa hætti, svo lengi sem því er ekki þrengt upp á okkur að þurfa að tala um þá, svo lengi sem ráðherrann og aðrir fulltrúar stjórnvalda fylgja ekki aðgerðum s´num eftir með orðum, sem gætu ljóstrað upp um að við erum hérna. Við erum hérna, að gera þetta.

Kjærsgaard blandar loks íslenskri málnefnd í málið og tilskipaðri óbeit Íslendinga á tökuorðum: „Ekki einu sinni danski þjóðarflokkurinn hefur barist fyrir viðlíka hreinstefnu í málpólitík.“

Hér gerir Kjærsgaard okkur enn einn greiðann, ef okkur ber gæfa til að þiggja hann, og bendir á að málstefna er ekki saklaust fyrirbæri, stendur hvorki utan stjórnmála né hugmyndafræði. Það er skemmtilegt að eiga orð eins og Stórdani – eða, segjum, búðarlokusamfélag. En það væri ekki síður gagnlegt að eiga orð eins og kólónía, prinsipp, mígrant, þó ekki væri nema til að bera okkar eigið samfélag upp við sömu mælistiku og önnur lönd.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283