Hagstofan lét á fimmtudag frá sér talnagögn um íslenskan vinnumarkað á öðrum ársfjórðungi þessa árs, það er tímabilið apríl til júní. Atvinnuleysi var á tímabilinu 3,1%. Atvinnuleysi meðal karla var 3,5% en atvinnuleysi kvenna 2,6%: 4.000 karlar voru atvinnulausir og 2.500 konur.
Utan vinnumarkaðar töldust því til viðbótar 16% íbúa á aldrinum 16–74 ára. Í þeim hópi eru konur fjölmennari: 25.700 andspænis 14.100 körlum. Utan vinnumarkaðar teljast þeir sem hvorki eru starfandi né í atvinnuleit, þar á meðal námsmenn, eftirlaunaþegar og öryrkjar.
Fólki í þessum hópi fjölgar þannig nokkuð milli ára. Í júní í fyrra töldust 35.000 utan vinnumarkaðar, en nú alls 39.800.
Konur í láglaunastörfum vinni frá sér heilsuna
Í skýrslu ASÍ um vinnumarkaðinn sem kom út í mars á þessu ári var greint frá því að „fjöldi kvenna, sem eru utan vinnumarkaðar vegna veikinda eða annarra ástæðna sem gera þær ófærar til vinnu, hefði fjórfaldast frá því á þriðja ársfjórðungi ársins 2010“.
Í viðtali við Fréttablaðið sagði Ellen Calmon, fyrrverandi formaður Öryrkjabandalagsins, ástæðuna vera þá að konur í láglaunastörfum vinni frá sér heilsuna með álagi:
„Lægstu laun á vinnumarkaði eru allt of lág og konur í láglaunastörfum og þá sérstaklega í umönnunarstörfum, svo sem sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar, leikskólakennarar og ófaglært starfsfólk á leikskólum, eru með allt of lág laun og það gerir það að verkum að það eru fáir bara í 100 prósent störfum. Fólk er að stunda tvö til þrjú launuð störf til að hafa ofan í sig og á. Það þarf að hækka lægstu laun og húsnæðisverð er allt of hátt.
Þetta gerir það að verkum að fólk með lægstu launin og þá sérstaklega konur eru einfaldlega að vinna frá sér heilsuna.“