Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Breskt sprotafyrirtæki strikamerkir heimilislausa

$
0
0

Í Danmörku er nú rætt um áform um að útrýma reiðufé á næstu örfáu árum. Allar greiðslur í peningahagkerfinu yrðu rafrænar og þar með rekjanlegar, sem sagt er að geti dregið úr peningaþvætti og fjármögnun ólöglegrar starfsemi. Svipaðar hugmyndir hafa komið til umræðu á Íslandi á síðustu árum.

Óháð því hvort reiðufé verður útrýmt fyrir fullt og allt er þegar staðreynd að greiðslur fyrir vörur og þjónustu fara fram rafrænt og fyrir vikið er fólk sjaldnar með reiðufé í fórum sínum. Það skapar ýmsan vanda, meðal annars fyrir þá meðal heimilislausra sem háðir eru fjárframlögum ókunnugra.

Bresk samtök sem bera heitið Greater Change vinna nú að tilraunaverkefni þar sem heimilislausum er úthlutað QR-kóða, tvívíðu strikamerki, sem gerir fólki kleift að greiða þeim með millifærslu gegnum snjallsíma í stað reiðufjár. Tilraunaverkefnið fer fram í Oxford. Greater Change er skráð sem góðgerðarsamtök en verkefnið nýtur stuðnings nýsköpunarmiðstöðvar Oxford-háskóla og Said viðskiptaskólans í Oxford. BBC greindi frá.

Skjáskot frá samtökunum Greater Change.

Strikamerki á spjaldi hengt um háls heimilislausra

Heimilislausum þátttakendum í verkefninu er úthlutað strikamerki á spjaldi sem hengt er með borða um háls þeirra. Þegar vegfarandi skannar strikamerkið með síma sínum birtist mynd á skjánum, ásamt upplýsingum um hinn strikamerkta, stöðu hans og í hvaða augnamiði hann leitar eftir fjárframlögum.

Kjósi vegfarandi þá að gefa viðkomandi fé er það fært á reikning sem þiggjandinn hefur takmarkað vald yfir. Stofnandi samtakanna Greater Change, Alex MacCallion, sagði í samtali við BBC að hugmyndin væri að hjálpa heimilislausum að safna fé í þágu langtímamarkmiða, og koma í veg fyrir að þeir neyðist til að verja því samstundis og þeim berst það í hendur. Félagsráðgjafar á vegum samtakanna stýri sjóðnum með hinum heimilislausa til að tryggja að féð nýtist í fyrirfram ákveðin markmið, til dæmis til að greiða leigu eða sækja um vegabréf.

Líður svolítið eins og vöru í stórmarkaði

Vegfarendur sem BBC ræddi við um verkefnið voru ekki sannfærðir um ágæti hugmyndarinnar. Ungur maður sagði að honum þætti þetta vera í ætt við að setja nafnspjald um hálsinn á gæludýri. Kona á miðjum aldri sagði aftur á móti gott að geta fengið upplýsingar um hvort hinn heimilislausi hefði í reynd þörf á fjárframlögum og væri staðráðinn í að gera breytingar á eigin lífi. Fréttamaður BBC spurði heimilislausa konu hvort henni liði eins og vöru í verslun, með því að vera skönnuð með þessum hætti. Hún svaraði já, en það væri engu að síður góð hugmynd ef það yrði til að auka fjárframlög.

Ef tilraunaverkefnið reynist vel á götum Oxford er gert ráð fyrir að því verði áfram haldið um allt Bretland. Heimilisleysi í landinu hefur aukist um 73 prósent á síðustu þremur árum.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283