Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

„Alls ekki óþægilegra en að standa á 10 metra háum vegg“ sagði fallhlífarstökkvarinn nývígði

$
0
0

„Skrítið er að þetta er alls ekki óþægilegra en að standa á 10 metra háum vegg,“ skrifaði Páll Bergþórsson, veðurfræðingur og nú fallhlífarstökkvari, eftir fyrstu reynslu sína af slíkri iðju á fimmtudag. Páll er nýorðinn 95 ára gamall.

Sonur Páls, Bergþór, skrifaði rétt fyrir stökkið að „Pabbi Páll“ sé „nú svolítið spes“:

„Þegar hann horfði á okkur Albert fara í fallhlífarstökk um daginn, vildi hann fara líka í tilefni 95 ára afmælisins nokkrum dögum seinna. Á afmælinu viðraði ekki til stökks, en í dag, á afmælinu hans Alberts viðraði svona ljómandi vel, svo að nú er hann á leið út í vél, og á eftir að klifra í 3000 m áður en honum verður fleygt út. Alltaf gaman að lifa lífinu!“

Páll Bergþórsson, ásamt leiðbeinanda sínum, fyrir stökkið.

„Það var ekki seinna vænna fyrir gamlan veðurvita að bregða sér í fallhlífarstökk og komast í nánara samband við loftið sem maður þykist allltaf vera að fræða aðra um,“ skrifaði Páll að stökkinu loknu:

„Við flugum frá Hellu á Rangárvöllum upp í þriggja kílómetra hæð, og þar dembdi maður sér út úr flugvélinni, horfði til himins og skaut fótleggjunum aftur fyrir sig, því að bráðum átti fallhlífin að opnast, og þá er kippt ansi harkalega í mann þegar fallhraðinn er orðinn meiri en 200 kílómetrar á klukkustund. En skrítið er að þetta er alls ekki óþægilegra en að standa á 10 metra háum vegg. Svo gat maður bara farið að skoða dýrð fjallahringsins, hafs og lands þangað til maður „settist“ í loftinu og renndi sér eftir nýslegnum grasvelli. Vildi ekki hafa misst af þessu.“

Meinilla við að staðna

Um afmælisbarnið föður sinn skrifar Bergþór að honum sé meinilla við að staðna:

„þekkingarþorsti og galopinn hugur fleyta honum langt í þeirri viðleitni að halda sér ferskum. Eftir að hann hætti sem Veðurstofustjóri vegna aldurs fyrir 25 árum, hefur hann verið á kafi í rannsóknum og tilgátum, til dæmis um þorskstofninn við Ísland, uppruna Vínlandsferða o.m.fl.

Undanfarin fjögur ár hefur Páll, að sögn sonarins:

„sökkt sér ofan í rannsóknir á loftslagsbreytingum og er nú u.þ.b. að leggja lokahönd á grein í alþjóðlegt vísindatímarit þar sem niðurstöður eru kynntar, en þeir sem vit hafa á, segja mér að þar sé um mikilsverðar uppgötvanir að ræða, til að spá áratugi fram í tímann um breytingarnar, en líka um hitafar almennt á jörðinni.“

Á 94 ára afmælinu, fyrir rétt um ári síðan, bað Páll um í afmælisgjöf að fjölskyldan gengi með honum á Esjuna. Og nú ári síðar pantaði hann fallhlífarstökk. „Gen hafa auðvitað mikið að segja,“ skrifar Bergþór, „en þessi eðlislæga forvitni og takmarkalausi áhugi á nýjungum er hugsanlega galdurinn við að gefa Elli kerlingu langt nef. Það er til eftirbreytni!“

„ Á 94 ára afmælinu bað hann um í afmælisgjöf að fjölskyldan gengi með honum á Esjuna og þessi mynd var tekin af honum þá,“ skrifar Bergþór Pálsson.

Til hamingju með afmælið, Páll Bergþórsson!


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283