Landsfundur UVG, sem haldinn var um helgina, samþykkti alls níu ályktanir: um ríkisstjórnarsamstarfið, sem þau eru hlynnt; um Piu Kjærsgaard, sem þau eru mótfallin; um hvalveiðar og Hvalárvirkjun: mótfallin; um „stöðugleika á vinnumarkaði“, velferðarþjónustu og styttingu vinnuvikunnar: hlynnt; og um endurvinnslu sem þau eru afar hlynnt. Þá ályktaði landsfundurinn með friði og gegn NATO.
Í ályktuninni gegn NATO var minnst sérstaklega á undirgefni Íslands við aðgerðir hernaðarbandalagsins og aðildarríkja þess, til dæmis „sjálfkrafa stuðning“ landsins við árásir Bretlands, Frakklands og Bandaríkjanna á Sýrland. Hvorki í því samhengi né í öðrum ályktunum landsfundarins var minnst á mál Hauks Hilmarssonar.
Hlutverk ungliðahreyfinga
Hefð er fyrir því að ungliðahreyfingar íslenskra stjórnmálaflokka séu nokkurs konar hugmyndafræðileg samviska þeirra: meðlimir og stjórnendur ungliðahreyfinganna sitja yfirleitt ekki í æðri embættum, fara því ekki með formleg völd og bera því ekki ábyrgð á þeim málamiðlunum sem sú staða virðist einatt krefjast. Ungliðahreyfing Sjálfstæðisflokksins, SUS, hefur þannig ítrekað gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn fyrir að draga lappirnar í að gera áfengi aðgengilegt í matvöruverslunum, á meðan UVG gagnrýndi sinn flokk, á eftirhrunsárunum, fyrir að taka þátt í aðildarviðræðum við ESB án undanfarandi þjóðaratkvæðagreiðslu, svo dæmi séu tekin.
Að því leyti getur verið forvitnilegt að sjá hvaða áherslur ungliðahreyfingarnar leggja: þær eru ekki aðeins vísbending um hvers vænta má af framtíðarforystu flokkanna – Katrín Jakobsdóttir var eitt sinn formaður UVG – heldur má segja að í þeim birtist ídealísk sjálfsmynd flokkanna: það sem fullorðinsflokkarnir, ef svo má segja, vildu gjarnan, eða líta svo á að þeir vildu, koma í kring, ef ekki væri fyrir tilfallandi aðstæður sem standa í veginum.
„Fyrirvari“ við ríkisstjórnarsamstarfið
Í fyrstu ályktun landsfundarins ítrekar ungliðahreyfingin „fyrirvara við að Vinstri græn hafi gengið í ríkisstjórnarsamstarf með sjálfstæðisflokki“. Í ályktuninni er þessi fyrirvari rökstuddur með „síendurteknum spillingarmálum og óheiðarlegum vinnubrögðum“ Sjálfstæðisflokksins „sem leitt hafa til þess að frá hruni hefur engin ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki staðið heilt kjörtímabil.“ Þá krefst UVG þess að þingflokkur VG „veigri sér aldrei við að gagnrýna þegar spillingarmál komi upp“.
Þá má í ályktunum fundarins finna sérstaka ályktun um boð Piu Kjærsgaard til hátíðarfundar Alþingis á Þingvöllum í sumar, sem UVG segir „ólíðandi … í ljósi andstöðu hennar gegn fjölmenningu og fordóma í garð innflytjenda“.
Að því sögðu, aftur á móti, feli samstarfið í sér:
„tækifæri fyrir Vinstri gæræn til þess að hafa gríðarleg áhrif. Ung vinstri græn fagna því sem hefur nú þegar áunnist á þeim stutta tíma sem Vinstri græn hafa verið í ríkisstjórn, og þeirri vinnu sem hefur verið hrint af stað í hinum ýmsu mikilvægu málefnum.“ Eru í kjölfarið talin nokkur þeirra mála sem VG tíndi saman fyrir landsfundinn og þegar hefur verið fjallað um á þessum vettvangi.
Ályktuninni lýkur á því að UVG lýsa yfir trausti til ráðherra VG, en segjast munu „fylgjast grannt með ríkisstjórnarsamstarfinu og fordæma gjörðir sem eru þvert á stefnu Vinstri grænna og í andstöðu við vilja grasrótarinnar.“
Ungliðahreyfing VG er með öðrum orðum ekki mótfallin ríkisstjórnarsamstarfinu.
Að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði
Landsfundurinn ályktaði um kjarasamningana framundan, og segist ungliðahreyfingin „telja nauðsynlegt að stjórnvöld leggi sitt af mörkum til þess að samningar náist og tryggi þannig stöðugleika á vinnumarkaði“. Þau fagni „því samtali sem átt hefur sér stað milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins á undanförnum mánuðum fyrir tilstilli forsætisráðherra“. Þá hvetja þau „ráðherra Vinstri grænna í ríkisstjórn að nýta forréttindastöðu sína og völd til þess að skapa pólitískan þrýsting í þágu láglauna- og kvennastétta“.
Segja má skyld viðfangsefni birtast í annarri ályktun fundarins, um styttingu vinnuvikunnar, en landsfundur UVG segir að stefna beri að því að stytta vinnuvikuna niður í 30 tíma. Styttingin myndi sérstaklega gagnast „fjölskyldufólki með lágar tekjur, sem þyrftu þá að vinna minna til þess að ná endum saman“. Þá geti stytting vinnuvikunnar „ýtt undir kynjajafnrétti hvað varðar vinnu innan sem utan heimilis, þar sem algengara er að konur séu í hlutastarfi en karlar og sinni heimili meðfram vinnu. Það að stytta vinnuvikuna eykur líkur á að konur og karlar vinni jafnlanga vinnuviku og að heimilisstörf og umönnun barna á heimilum gagnkynja para verði þá með jafnara móti.“
Gegn hvalveiðum og Hvalárvirkjun, með endurvinnslu
Nokkrar ályktanir landsfundarins snúa að umhverfis- og náttúruverndarmálum. Landsfundurinn ályktar vegna virkjunar í Hvalá, sem hann leggst gegn. Þá var ályktað gegn hvalveiðum, enda skili þær „litlu til þjóðarbúsins“. Þá krafðist landsfundurinn þess að „öll sveitafélög sinni lögbundinni skyldu sinni til þess að veita velferðarþjónustu til íbúa sinna“, og sagði ljóst að ríkisstjórnin þurfi að „grípa til lagasetninga“ til að fylgja eftir þeirri kröfu. Loks hvetur landsfundurinn ríkisstjórnina til að „styðja við fyrirtæki og verslun sem að byggja á endurnýtingu, viðgerðum og ábyrgri framleiðslu, og þannig sporna gegn neyslumynstri þar sem hlutum er hent í stað þess að gert sé við þá eða þeir notaðir aftur,“ til dæmis „sem hefur það markmið að gera við og deila neysluvörum í stað þess að selja nýjar“. Neysla sé komin „langt fram úr því sem plánetan þolir“.
Úr NATO —en hvar er Haukur?
Þá ályktar landsfundurinn „í þágu friðar“, og skorar á forsætisráðherra að beita sér „fyrir endurskoðun þjóðaröryggisstefnu Íslands með friðarmál í forgrunni“ og að „vinna að úrsögn Íslands úr Atlantshafsbandalaginu“. Í því samhengi er minnst á að vera Íslands í NATO birtist í sjálfkrafa stuðningi Íslands við árásir Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands á Sýrland síðastliðið vor, og því að Ísland hafi ekki skrifað undir sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Landsfundurinn vill einnig segja upp varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna.
Þessari ályktun lýkur þó á jákvæðum nótum, og segir að gleðjast megi yfir því:
„að Katrín Jakobsdóttir hafi nýtt veru sína á ríkisoddvitafundi NATÓ í júlí síðastliðnum til þess að ræða friðsamlegar lausnir, afvopnunarmál, loftslags- og jafnréttismál.“
Hvorki í þessu samhengi né öðrum ályktunum landsfundarins var minnst á mál Hauks Hilmarssonar. Næstkomandi fimmtudag, 6. september, verður hálft ár liðið frá því að tyrkneskir fjölmiðlar greindu frá því að hann hefði fallið í árásum tyrkneska hersins á Afrin. Enn hafa engar frekari upplýsingar komið fram um afdrif Hauks. Þar sem andlát hans telst ekki einu sinni staðfest, enda hafa hvorki komið fram vitni að því né líka hans fundist, fara íslensk lögregluyfirvöld fara enn með málið sem mannshvarf. Íslensk stjórnvöld hafa sætt gagnrýni fyrir að hlýða tilmælum tyrkneskra yfirvalda í málinu, þrýsta ekki á um svör, og taka ekki afstöðu til yfirlýsinga tyrkneskra stjórnvalda, sem lýst hafa Hauki sem hryðjuverkamanni.
Kvennablaðið sendi UVG fyrirspurn um hvort mál Hauks hefði borið á góma, sem hluta af formlegri dagskrá eða með óformlegri hætti, á landsfundinum. Þegar þessi frétt er birt hefur ekki borist svar við þeirri spurningu.