Kári Stefánsson, læknir og forstjóri, er hlynntur því að beitt verði þvingunarúrræðum til að knýja fram bólusetningar barna, til dæmis með því að meina óbólusettum börnum um aðgang að leikskólum. Þessari afstöðu lýsir hann fram í grein sem Fréttablaðið birti í dag, og tekur þar undir tillögu Hildar Björnsdóttur, borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Hann segir það „rugla sig í ríminu“ að íhaldsmaður vilji beita slíkum þvingunarúrræðum til að „einstaklingarnir færi lágmarksfórn til þess að hlúa að hagsmunum samfélagsins“ á meðan sósíalistar andmæli.
Gunnar Smári Egilsson, sósíalisti, svarar Kára í langri Facebook-færslu, þar sem hann segist heldur vilja hlusta á mat sóttvarnarlæknis, sem segir enga lýðheilsulega ógn stafa af óbólusettum börnum á Íslandi. Gunnar Smári skrifar:
„Sóttvarnarlæknir sagði um daginn að 2 prósent fólks vildi ekki bólusetja börn sín en að um 91 prósent barna væru bólusett. Það eru því 7 prósent foreldra sem vilja bólusetja börn sín en gera það ekki, af einhverjum ástæðum. Í þeim löndum þar sem mislingar hafa blossað upp hefur bólusetningin fallið niður fyrir 80 prósent. Við erum ekki í þeim vanda og sá vandi er ekki tilkominn af einarðri afstöðu foreldra um að vilja ekki bólusetja börn sín.“
„Við erum ekki í hættuástandi“
Gunnar Smári lýsir tillögu sjálfstæðismanna í borgarráði sem „klassískum for-fasisma“, þar sé:
„verið að mála skrattann á vegginn í fyrsta lagi (við erum ekki í hættuástandi), í öðru lagi er verið að persónugera vandann í tilteknum fámennum hópi (fólki sem beygir sig ekki undir viðurkennd sannindi kerfisins) og í þriðja lagi að beita afli hins opinbera til að þröngva hinni viðurkenndu skoðun upp á fámennan minnihluta, ekki vegna þess að það sé nauðsynlegt heldur vegna þess að hið opinbera býr yfir afli til að gera það. Það eina sem það þarf er umboð almennings og það ætlar xD að sækja með því að magna upp andúð gagnvart þessu fólki, sannfæra almenning um að okkur standi ógn af fólki sem er ekki sammála okkur.“
Gunnar Smári ítrekar tengsl þessarar hugmyndar við fasískar tilhneigingar hægrisins um þessar mundir, og segir stjórnmálaflokkar „sem eru að máta sig við létt-fasisma“ ættu alls ekki að komast upp með að „nota þetta dæmi til að fá okkur til að prufukeyra vald hins opinbera gegn fámennum hópi“. Í því samhengi minnir hann á að Sjálfstæðisflokkurinn er formlegur aðili að alþjóðlegu bandalagi slíkra flokka, ásamt flokki Erdogans í Tyrklandi og flokknum Lög og réttur í Póllandi.
Ekkert sem kallar á „heilagt stríð“
Stofnandi Sósíalistaflokksins segist alfarið hlynntur bólusetningum og tekur fram að börn hans séu „þræl-bólusett“. Hann segist telja andúð gegn bólusetningum byggða á blekkingum og þvælu. En hann vilji fá að stunda rökræður við þau „án afskipta hins opinbera“.
„Þessi örþunni hópur foreldra er enginn ógn við allsherjarreglu eða almannaheill. Hann gæti orðið það, ef hann fær vind i seglin, en ekkert bendir til að hópurinn fari stækkandi. Minni bólusetningar eru afleiðingin slælegra aðhalds og verklags, kannski vegna þess að samfélagið er ekki eins einsleitt og fyrr. Við skulum því laga kerfin en láta það fólk í friði sem er með skrítnar skoðanir. Okkur stendur engin ógn af því.“
Það er ekkert, segir Gunnar Smári, sem kallar á „heilagt stríð“ gegn þeim 2 prósentum foreldra sem vilja ekki bólusetja börn sín, „að þröngva því að gera eitthvað við börn sín sem það er sannfært um að skaði börnin“. Hann bætir við: „Holí shitt, hvað það er ljót hugmynd.“
Gunnar Smári bendir á þá meginreglu í stjórnsýslu að velja skuli mildari aðgerðina fram yfir þá sem er meira íþyngjandi. Sóttvarnarlæknir vilji ekki vísa óbólusettum börnum frá leikskólum. Hann vilji þó halda bólusetningarhlutfallinu sem nú er um 91 prósent nær 95 prósentum. Gunnar Smári segist myndu vilja spyrja sóttvarnarlækni „hvað hann vilji gera til að lyfta hlutfallinu upp og hjálpa honum við það.“