Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Nike refsað um 400 milljarða fyrir tengsl við réttindabaráttu svartra

$
0
0

Íþróttavöruframleiðandinn Nike tilkynnti á þriðjudag að andlit nýrrar auglýsingaherferðar fyrirtækisins væri Colin Kaepernick, stjörnuleikmaður í bandarískum fótbolta og forvígismaður í réttindabaráttu svartra Bandaríkjamanna. Þessu mótmælti bandaríska hægrið harkalega á samfélagsmiðlum og féllu hlutabréf Nike um 3 prósent, samdægurs. Verðrýrnun bréfanna nemur alls 3,75 milljörðum dala eða um 400 milljörðum króna.

Auglýsingaskilti úr nýju herferðinni: Andlit Colins Kapernick undir slagorði og vörumerki Nike.

Forsagan: sprengikraftur þess að krjúpa

Ein af sterkustu og umdeildustu birtingarmyndum réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum á síðustu árum hefur verið að ýmsir svartir íþróttamenn og bandamenn þeirra hafa neitað að rísa á fætur og hylla þjóðfánann á meðan þjóðsöngur landsins er leikinn, við upphaf leiks, eins og venja er, og þess í stað kropið á kné. Fyrstur til að víkja þannig frá venju í mótmælaskyni var Colin Kaepernick, stjarna í amerískum fótbolta.

Í viðtali eftir leikinn sagðist Kapernick ekki myndu standa upp til hyllingar fána lands sem kúgi svarta og litaða. „Fyrir mér er þetta stærra en fótbolti og það væri eigingjarnt af mér að líta undan. Það eru lík á götunum,“ sagði hann, þeir sem beri ábyrgð á því fái „launað orlof og komast upp með morð“. Vísar Kaepernick þar til mismununar og ofbeldis bandarískra lögreglumanna gegn svörtum. Hann sagðist myndu halda mótmælunum til streitu þar til bandaríski fáninn „standi fyrir það sem honum er ætlað að standa fyrir“.

Eins og að flagga í hálfa stöng

Þetta var árið 2016. Kaepernick lék þá með liði San Francisco, 49ers. Eric Reid, samherji Kaepernicks, tók sömu stöðu í næsta leik liðsins. Hann útskýrði að þeir hefðu rætt og velt vöngum um hvernig væri best að útfæra mótmælin, klukkustundum saman. Meðal annars hafi þeir þegið ráð frá fyrrverandi sérsveitarmanni í bandaríska hernum, og komist að þeirri niðurstöðu að þeir myndu ekki sitja kyrrir heldur krjúpa:

„Við ákváðum að krjúpa vegna þess að því felst virðing. Ég man að ég hugsaði með mér að stelling okkar væri áþekk fána sem er flaggað í hálfa stöng, til vitnis um harmleik.“

Forsetinn heimtaði brottrekstur og útskúfun

Síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar. Annars vegar hefur fjöldi íþróttamanna fylgt í fótspor Kaepernicks. Hins vegar hefur andstaða við réttindabaráttu svartra magnast, ekki síst í kringum og í kjölfar forsetakjörs Donalds Trump. Árið 2017 lét Trump, þá orðinn forseti, meðal annars frá sér nokkrar orðsendingar á Twitter þar sem hann lýsti harðri afstöðu gegn þessari táknrænu baráttuaðferð leikmannanna, og sagði rétt að reka þá eða víkja frá störfum standi þeir ekki upp fyrir þjóðsöngnum. Þetta var þegar einörð afstaða margra stuðningsmanna forsetans.

Sjálfur segir Kaepernick að lið sem taka þátt í NFL, úrvalsdeild íþróttarinnar, hafi eftir að hann lýsti afstöðu sinni með þessum hætti, tekið saman höndum um að ráða hann ekki til starfa. Kaepernick hefur kært liðin fyrir samráðið.

Eiga fasistarnir ekki lengur neinar bækur?

Og nú þegar Nike gerir baráttu Kaepernicks að hornsteini eigin markaðsherferðar svarar hægrið — götuhægrið, nethægrið, alt-hægrið, þetta hægri sem enn er ekki ljóst hvað beri að kalla en liggur frá þeim sem neita að gangast við öðrum merkimiðum en „venjulegt fólk með áhyggjur“, gegnum einarða stuðningsmenn Trumps að opinskáum fasistum — með sniðgönguherferð: myllumerkin #justburnit og #boycottnike eru vopnin sem netgönguliðarnir beita til að refsa fyrirtækinu, um leið og þeir dreifa myndum og upptökum af sjálfum sér fleygjandi skóm, treyjum og golfkúlum með merki fyrirtækisins í ruslið. Sumir ganga skrefinu lengra og halda Nike-brennur. Hér að neðan má sjá ungan, yfirlýstan íhaldsmann brenna Nike-skóna sína í kamínu, við undirleik bandaríska þjóðsöngsins, í tilefni hinnar nýju auglýsingaherferðar.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283