Verið velkomin á fjórðu sýningaropnun Sugar Wounds í Ármúla 7 föstudaginn 14. september kl. 18.00 – 21:00.
Steinunn Gunnlaugsdóttir fremur gjörninginn Perlur_Framfarir_Hamfarir.
Sunneva Ása Weisshappel fremur gjörninginn Innöndun_Útöndun: Þjöppun.
Gjörningarnir verða aðeins framkvæmdir á opnun Sugar Wounds No.04 og hefjast kl 18:15, föstudaginn 14 september, 2018.
–––––––––––––––––––––––––––––––––––
Leiðir Sunnevu og Steinunnar lágu saman fyrir áratug í gegnum óspektir á almannafæri. Það varð fljótt ljóst að með fundi þeirra hafði djöfullinn hitt ömmu sína. Systralag óskammfeilninnar var í kjölfarið stofnað og hefur dafnað og vaxið í gegnum súrt, sætt og salt. Föstudaginn 14. september leiða þær ótemjur sínar saman með gjörningum, innsetningu, skúlptúrum og hljóðverki. Sýningin fer fram í Ármúla 7 og opnar tímanlega kl. 18.00.

Steinunn Gunnlaugsdóttir
Steinunn Gunnlaugsdóttir fæst við myndlist og brúkar til þess ýmsa miðla svo sem skúlptúr, myndband, hljóð, teikningu, gjörninga og innsetninga. Kjarninn í verkum hennar er tilvistarátök innra með hverri mannskepnu og togstreita, samspil, uppgjöf og átök hennar við allar þær ytri formgerðir og kerfi sem umkringja hana.

Sunneva Ása Weisshappel
Myndlist Sunnevu Ásu Weisshappel sækir þvert á miðla. Hún leitar inn á við og vinnur út frá sjálfsævisögulegri togstreitu, pólitíkinni innra með listamanninum, áhorfandanum og þar með samfélaginu öllu. Úr verður vettvangur til sjálfs-skoðunnar og speglunnar, vettvangur til að skoða tilfinningar okkar, samskipti, valda-baráttu, kynhlutverk og birtingar-myndir þeirra, líkamann, fegurð og grótesku. Myndlistin er fremsta víglínan í rannsóknarvinnu Sunnevu, þaðan sem hún sækir efnivið í aðra miðla.
–––––––––––––––––––––––––––––––––
Boðið verður upp á léttar veitingar á opnun.
Sýningin er fjórði hluti í fjögurra sýninga röð undir titlinum Sugar Wounds í Ármúla 7.
Opnunartímar:
Föstudaga: 18-21
Laugardaga og sunnudaga: 13-17