Ég hef gengið með ökklaband í 10 ár og nú er nóg komið.
Í 10 ár hef ég ekki getað um frjálst höfuð strokið, eða gert áætlanir til framtíðar og nú vil ég klára málið og fara í fangelsi. Ég vil vera „dregin“ fram fyrir dómara þar sem öll vafaatriði eru reiknuð mér í vil og fá réttláta dómsmeðferð.
Munurinn á mér og „þeim“ er að ég er verri
Menn sem stundum voru kallaðir „útrásarvíkingar“ fengu 2 – 3 ára dóma fyrir sína glæpi og héldu eigum sínum að öllu eða mestu leiti. Þeir sátu svo inni á fínu tímakaupi í 8 – 10 mánuði og flugu svo á þyrlum út í frelsið með allt það fé sem þeir náðu að afla sé á árunum fyrir hrun.
Guð forði mér frá því að hljóma eins og ég sé öfundsjúk, því auðvitað voru mín afbrot alvarlegri en afbrot þessara björtu víkinga. Ég lét blekkjast og tók lán sem svo reyndist vera ólögmætt. Það hljóta allir að sjá hve mikið verri mín afbrot eru Svo bætti ég náttúrulega gráu ofan á svart með því að vilja ekki sætta mig við ökklabandið og hafa þannig truflað bankamenn og stjórnkerfið í að fara sínu fram.
Það er alls ekki vel séð „í kerfinu“ að maður sé með vesen. Stjórnmálamenn, embættismenn og bankamenn eru á því að maður eigi bara að velta sér á bakið í uppgjöf eins og hlýðin hundur. Það væri líka svo rosalega slæmt fordæmi fyrir „alla hina“ að sýna veikleika t.d. með því að dæma samkvæmt lögum. Þá er möguleiki á því að fleiri fari að ybba sig, og þar með gæti svo margt hrunið og einhverjir jafnvel fengið lægri bónusa. Það væri augljóslega svakalega slæmt. Ég biðst því innilega afsökunar á því að hafa ekki verið þæg og hlýðin og tilbúin til samstarfs þegar ég átti að afhenda heimilið fyrir að hafa látið blekkjast.
Ég er smátt og smátt að læra að það borgar sig ALDREI að standa á lögum, stjórnarskrá og réttindum gegn ofurvaldi löggjafans á Íslandi.
Að sýnast fyrir umheiminum
Við íslendingar erum, sem betur fer, nokkuð góð í að sýnast fyrir umheiminum. Til dæmis með því að innleiða alls konar evrópskar reglugerðir og lög um neytendarétt og slíkt, án þess að ætla okkur að fara eftir þeim. Við förum ekki einu sinni eftir tilmælum EFTA dómstólsins um að okkur beri að fara eftir þessum lögum, enda kemur það „bestu vinum aðal“ alls ekki vel og við á eyju úti á ballarhafi – hvað geta þeir svo sem gert? Svo erum við líka komin í Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna og erum þar í góðum félagsskap Sádi Araba og getum þannig hreykt okkur af því að handhöggva ekki fólk fyrir þjófnað. Enda væri erfitt að reka bankanna ef þeir væru fullir ef einhentu fólki, sérstaklega ef það er örvhent.
Nei, á Íslandi tökum við bara heimilin af fórnarlömbum þjófanna. Svo er hægt að skála í appelsínusafa við Sádana, sæl í þeirri trú, að þrátt fyrir allt séum við „góða fólkið“ og „betri en þeir“, hrópandi „Ísland best í heimi!“
Ég vil vera dæmd!
Það eru samt aðeins að renna á mig tvær grímur. Mér finnst eins og það þurfi að dæma mig seka fyrir eitthvað til að það sé hægt að dæma mig til þungrar refsingar. Ég er nefnilega komin ansi langt í ferlinu „hirðið af henni heimilið og lífsstarfið“ og það er eitthvað sem truflar mig virkilega við þetta. Ég hef nefnilega aldrei verið dæmd. Mér hefur ekki einu sinni verið sagt í hverju brot mín felast, öðru en því að hafa orðið fórnarlamb fjármálaglæps og hafa barist á móti því að vera refsað.
Gallinn við mitt mál er að það er „einkamál“ en ekki „sakamál“. Það er víst mjög sniðugt að þetta sé einkamál af því það einfaldar málin svo mikið. Í einkamáli þarf nefnilega engan dómstól því í einkamálum máttu í raun ekki mótmæla neinu, það er a.m.k. aldrei tekið mark á því. Það sem „ákærendur“ þínir segja er „rétt“ og þeir þurfa aldrei að sanna réttmæti krafna sinna alveg sama hvað þú segir. Auk þess sem ALLUR vafi er ALLTAF reiknaður þeim í hag, sama hvað lög eða sannanir segja.
Þetta fyrirkomulag hefur allt stjórnkerfið komið sér saman um og það hefur bara virkað vel – fyrir það.
Öðru gegnir um 10.000 heimili.
Refsiramminn sprunginn
Þetta “góða“ fyrirkomulag sprengir alla refsiramma. Ef ég hefði framið hrottalegt morð hefði ég aldrei fengið þyngri dóm en 16 ára fangelsi og ef ég hefði rænt banka að innan hefði ég sennilega sloppið því ekki hefði verið hægt að sanna neitt á mig og hvað þá sekta mig, því milljarðarnir hefðu allir verið í „money heaven“. Hrunið sem ekki mátti persónugera hefur hins vegar verið rækilega persónugert í fórnarlömbum þess. Fólkinu sem trúði því að bankarnir væru vel reknir og að á Íslandi giltu lög og mannréttindi og að dómstólar færu ekki í manngreinarálit í dómum sínum eða dæmdu eftir hagamunum hinna fjársterku. Það er ekki hægt að persónugera neitt meira en gert er með því að svipta fólk heimili sínu og öryggi ásamt tiltrúnni á landið sitt. Það er líka ansi langt seilst að refsa fórnarlömbum blekkinga með því að afhenda lífsstarf þeirra gerendum glæpsins og hörð refsing fyrir að vera fórnarlamb glæps.
Ég vil fá minn „dag“ fyrir rétti. Ég vil að „glæpir“ mínir séu sannaðir fyrir dómi þar sem allur sá umtalsverði vafi sem er fyrir hendi verði reiknaður mér í hag, en ekki þeim sem brutu á mér. Aðeins þannig er jafnræði tryggt.
Ég neita að láta fórna mér ásamt þúsundum annarra á altari bankanna fyrir þá ómennsku stjórnmálamanna að geta ekki horfst í augu við eigin sök!
Ykkar er skömmin og hún er mikil!