Frá unga aldri hefur draumaheimurinn heillað mig vegna myndanna sem þar birtast. Myndir sem líkjast oft málverkum frekar en raunveruleika og eru stundum líkt og ruglaðar túlkanir á því sem gerist í vöku. Listastefna surrealismans byggir á draumum og því ómeðvitaða. Þegar maður skoðar verk manna líkt og Dali og Magritte getur maður áttað sig betur á þeim tilfinningum sem liggja djúpt í okkar ómeðvitaða sjálfi og birtast í draumum okkar sem myndir. Þaðan sprettur líka hugmynd Svissneska sálgreininsins Carl Gustav Jung (1875-1961) um arkitýpuna (Animus) eða frummyndina sem Jung telur byggða á erfðum og því að í erfðabanka okkar séu sameiginleg mengi geymd frá frumbernsku sem birtast okkur í draumum.
Skuggaveran Animus er eins og Animan, „hin“ hliðin á sjálfinu, eiginleikarnir sem við ýtum frá okkur í vöku og viljum oft ekki meðtaka sem sjálfsagðan þátt tilverunnar. Ég sem karlmaður hef lært af reynslu að treysta „Animu“ minni (mínu kvenlega eðli) sem ég tel í raun vera það sem við köllum innsæi. Það má líka orða þetta svona; „Hlustaðu á hjarta þitt“, „láttu hjartað ráða“.
Þessi skuggavera konunnar sem birtist í draumum er samkvæmt Jung hinn karllægi þáttur sálarinnar og kemur hann fram í því gervi sem hentar aðstæðum hverju sinni. Það getur verið faðir, eiginmaður, bróðir eða fræg persóna sem Animus klæðist til að sýna lausn á því máli sem draumurinn fjallar um.
Arkitýpan „Animus“ er því í raun sannur draumaprins. Hann er þinn góði hirðir sem leggur sig fram um að gera veg þinn sem bestan í vökunni með vinnu sinni í draumum þínum handan við tjöld svefnsins.
Með því að gefa þessum þætti gaum og pæla ögn í tilgangi skuggaveru sjálfsins getur þú orðið um margt fróðari um þitt innra líf og þarfir en einnig aukið skilning þinn á sálarlífi þeirra manna sem á vegi þínum verða.
Í klippunni hér fyrir neðan er farið dýpra í kenningar Jung um skuggaveruna Animus.
Draumar lesenda
Lesandi góður, það er gaman að pæla í draumum og draumur þinn er þar engin undantekning. Að skoða táknin og sjá möguleikana sem í draumum felast getur veitt manni nýja sýn á eigið sjálf og hvernig maður viðri tilfinningar sínar sér og öðrum til hagsbóta. Hér er draumur frá lesanda Kvennablaðsins sem nefnir sig „Silvý“. Hann fjallar um tilfinningar.
Draumur „Silvý“
Mig langar til að spyrja þig um draumbrot sem ég mundi í dag… þar sem ég var að ganga upp á fjall og sá Lóu hlaupa framhjá mér. Það var þannig að ég gekk ofan í fallega fjöru hér á landi. Ég var með manninum mínum. Allt í einu verður mér litið niður og sé að það er hreiður með litlum og loðnum ungum við fætur mér. Þeir voru þarna í eins konar sandhreiðri, og það var heill hellingur af þeim. Ég sá þá skyndilega og var næstum búin að stíga niður á þá, en rétt passaði mig. Þá sé ég að öll fjaran er full af hreiðrum með litlum og loðnum ungum. Mér fannst þetta sniðug hreiðurgerð, að grafa hreiður/holu ofan í fjörusandinn bara. Ungarnir voru í dökkbrúnum/gráum lit, ég man ekki sérstaklega hvaða fuglategund. Mér leið vel í draumnum.
Ráðning
Soldið snúinn draumur þar sem hann fjallar öðrum þræði um þig og þitt sjálf (tilfinningar) og svo þinn hráa jarðbundna veruleika og hvernig þú munir höndla hann.
Litlu loðnu ungarnir hafa tvíþætta merkingu. Annars vegar eru þeir mynd af þínu sjálfi sem er hlýtt en ekki vel mótað, líkt og það tilheyri einni löngun í dag en sé komið á annan stað á morgun.
Hin myndin er af þér manneskjunni sem á tiltölulega auðvelt með að koma ár sinni vel fyrir borð og hagnast. Þá koma ungarnir aftur inn í myndina og segja að sú ráðvendni sé til lítils ef kjölfestan er létt og dreifist víða. Sem sagt, þá er hér spurning um mótun og byggingu sjálfsmyndar þinnar á báðum vígstöðvum.
Draumaráðningar
Ef þú vilt fá draum þinn ráðinn er þér frjálst að senda inn drauminn með fullu nafni, fæðingardegi og ári ásamt netfangi og dulnafni á: draumar@kvennabladid.is
Myndskreyting: Kristján Frímann Kristjánsson