Yfir 240.000 manns komu saman í mótmæla- og samstöðuviðburði í Berlín síðastliðinn laugardag, kröfðust opins samfélags, mótmæltu uppgangi öfgahægrihreyfinga og rasisma.
Mótmælin fóru fram undir merkinu Unteilbar – óaðskiljanleg eða ósundrandi. Skipuleggjendur vonuðust eftir um 150.000 þátttakendum. Þar af höfðu 40.000 tilkynnt komu sína. Fór viðburðurinn þannig fram úr björtustu vonum. „Stórkostlegt samstöðuhaust,“ sagði Anna Spangenberg, talsmaður skipuleggjenda.
Mótmælendur gengu frá Alexanderplatz, niður Unter den Linden, framhjá Brandenburgarhliðinu, að sigursúlunni í almenningsagarðinum Tiergarten. 240.000 manns er allnokkur mergð. Þegar fremsti hluti göngunnar kom á áfangastað er haft fyrir satt að aftasti hlutinn hafi enn varla komist úr sporunum.

Hér sést mannfjöldinn teygja sig eftir 17. júní-stræti, gegnum Tiergarten, frá Brandenburgarhliðinu í fjarska, að sigursúlunni þar sem ljósmyndarinn er staðsettur.
Ósætti milli stjórnarflokkanna
Það má ef til vill hafa til marks um spennu innan þýsku ríkisstjórnarinnar, sem er samsteypustjórn krata og kristilegra demókrata, að á meðan Heiko Maas, utanríkisráðherra úr röðum sósíal-demókrata (SPD) lýsti yfir stuðningi við mótmælendur, beindi Stefan Evers, aðalritari íhaldsflokksins (CDU), athyglinni að einum forsprakka mótmælanna, sem hann sagði starfa sem lögmann samtakanna Rote Hilfe.

Wir sind nicht Volk, wir sind Klasse: Við erum ekki þjóð, við erum frábær, mætti þýða slagorðið, en orðaleikurinn tapast óhjákvæmilega: Klasse er bæði nafnorð sem þýðir „stétt“ og lýsingarorð með merkinguna „frábært“.
Rote Hilfe veitir þeim aðstoð sem verða fyrir aðkasti og áreiti yfirvalda, sæta málaferlum eða annars konar ofsóknum vegna þátttöku í verkföllum og réttindabaráttu. Evers lýsir samtökunum sem „öfgavinstrisinnuðum lögbrjótum“, og samstaða með þeim væru annað hvort „barnaskapur eða pólitískt óforsvaranleg“.
Einn þingmaður Die Linke á móti
Í viðbrögðum við göngunni hefur ekki aðeins birst spenna innan ríkisstjórnarinnar, heldur einnig titringur utan hennar, innan vinstriflokksins Die Linke, sem er í stjórnarandstöðu. Forysta flokksins kallaði eftir þátttöku og samstöðu í viðburðinum, í aðdraganda hans, eins og búast mátti við. Það gerði einnig rétt flokksforysta Græningja og Sósíal-demókratra, ásamt kirkjudeildum, stéttarfélögum og fjölda annarra samtaka.
Sahra Wagenknecht, þingmaður Die Linke á þýska sambandsþinginu, lýsti því aftur á móti yfir, í aðdraganda göngunnar, að hvorki hún né mótmælahreyfingin Aufstehen, sem hún er í forsvari fyrir, myndu styðja gönguna, vegna kröfu þátttakenda um opin landamæri. Hún sagði opin landamæri vera óraunhæfa hugmynd. Fyrir þetta hefur hún hlotið lof frá fulltrúum öfgahægriflokksins AfD, sem frá síðustu kosningum á fulltrúa á sambandsþinginu. Flokksforysta Die Linke hefur boðað til fundar um málið.


