Afstaða til ábyrgðar — Félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun fanga, hefur sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:
Á u.þ.b. einum mánuði hafa tveir fangar á Litla Hrauni reynt að fremja sjálfsmorð og aðrir tveir hafa greint Afstöðu frá því að þeir hafi haft sjálfsvígshugsanir á þessum tíma.
Fangelsismálastofnun hefur neitað að hlusta á Afstöðu með þessi mál og hefur Páll Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunar sent öllum föngum á Litla Hrauni bréf að framvegis sé föngum bannað að fara inn á klefa annara en sína eigin, þrátt fyrir að þrír helstu sérfræðingar Fangelsismálastofnunar vilji að fangar séu hvattir til aukinna samkipta þeirra á milli vegna andlegrar líðan þeirra.
Í skýrslu þessara þriggja sérfræðinga Fangelsismálastofnunar um sjálfsvíg í fangelsum frá árinu 2005, er einnig sagt að alls ekki eigi að einangra fanga, en það er akkúrat það sem Fangelsismálastofnun gerir með þessari reglu.
Páll Winkel hefur einnig sent Afstöðu bréf þess efnis að hann telji ekki geta komið upp alvarleg atvik þar sem Fangelsismálastofnun þurfi að vera í samskiptum við Afstöðu. Páll Winkel hefur með öllu hafnað öllum samskiptum við Afstöðu þrátt fyrir að í gegnum tíðina fyrir hans forstjóratíð, hafi verið mjög gott og mikið samstarf einmitt í mjög alvarlegum málum eins og með líðan fanga, einelti og forvörnum.
Í dag eru tveir sálfræðingar í vinnu hjá Fangelsismálastofnun, annar þeirra er í barneignarfríi og hinn er í sérstökum verkefnum á skrifstofu Fangelsismálastofnunar, því er enginn sálfræðingur í dag að veita föngum þá nauðsynlega aðstoð sem þeir þurfa á að halda.
Það er alveg ljóst að þessir atburðir eru grafalvarlegir og í raun alger heppni að ekki hefur tapast líf síðastliðinn mánuð á Litla Hrauni, þeir einstaklingar sem um ræðir eru bæði íslenskir og erlendir sem hafa lítið sem ekkert tengslanet á Íslandi og því telur Afstaða það skyldu sína að upplýsa almenning og ráðamenn um þessa alvarlegu atburði.
Engin innlend eftirlitsnefnd er til á Íslandi til að fylgjast með stofnunum sem vista einstaklinga sem hafa verið sviptir frelsi, en CPT eftirlitsnefnd Evrópu hefur frá árinu 1999 marg ítrekað bent stjórnvöldum á að það sé bráðnauðsynlegt fyrir Ísland að samþykkja OPCAT samninginn sem öll lönd sem við berum okkur við hafa samþykkt, svo einmitt sé hægt að rannsaka og hafa eftirlit með málum eins og þessum.
F.H. AFSTÖÐU
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður stjórnar
Fangelsinu Akureyri.