Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Grimmdin hrósar sigri!

$
0
0

Ekki verður annað sagt en Ríkharður hefji sögu sína með stæl: hann gerir okkur, áhorfendur, meðseka í glæpum sínum með því að ljóstra upp um fyrirætlanir sínar, sem hver er annarri ógeðfelldari, ógeðslegri, viðbjóðslegri, grimmilegri, dýrslegri, já … þennan lista mætti gera langan. Þegar kemur að því að fara yfir strikið er Shakespeare enginn aukvisi. Og við sitjum með öndina í hálsinum, hlustum á elskulegt hjal Ríkharðs við okkur, fylgjumst með athöfnum hans, orðaskiptum við vitorðsmenn og fórnarlömb og fyllumst heilagri vandlætingu þegar við sjáum hann efna viðurstyggileg loforð sín hvert á fætur öðru. Hann kemur vinum og vandamönnum fyrir kattarnef, hann giljar hverja þá konu sem hann vill niðurlægja og vanvirða – því ekki nálgast hann þær af ást; hana á Ríkharður III ekki til. Nema hina sjúku ást narsissistans á eigin ágæti og þeirri grimmd sem hann getur sýnt öðrum.

Elskulegur, alúðlegur, slóttugur Ríkharður

Eftir að Ríkharður er búinn að útskýra hvað rekur hann til óhæfuverka og þegar hann er búinn að gera grein fyrir áformum sínum erum við á hans ofurvaldi. Sú sýning sem nú fer af stað er sýningin hans, og hvort sem hún gerist í raunheimi eða í hans brenglaða hugarheimi getum við ekki annað en látið forvitni okkar svalað. Við gerumst meðsek. Enginn rís á fætur til að stöðva atburðarásina, enginn reynir að tala um fyrir Ríkharði, sýningin – blóðbaðið – heldur áfram allt til loka sýningarinnar og endaloka Ríkharðs sjálfs.

Þetta er vel heppnað listbragð – og ákaflega leikhúslegt! – að gera okkur áhorfendur að trúnaðarmönnum Ríkharðs. Við fáum að vita allt sem gerist áður en því fer fram, Ríkharður talar alúðlega til okkar, „afhverju ekki?“ spyr öll hans orðræða og allt hans fas og hans mottó er „ég get það, ég geri það“. Sykópat eða siðleysingi? Hann hnykkir á með því að benda á að hann hefur svo sannarlega ástæðu til að stjórnast af biturð – er hann ekki verr í sveit settur en aðrir af náttúrunnar hendi – aumur krypplingur, alla tíð sniðgenginn og hunsaður.

Hann vinnur samúð okkar og býður okkur til leiks, elskulegur, alúðlegur og með brosi á vör. Hann er snjall, kænskur, slóttugur og hefur úr fylgsnum fötlunar sinnar lært á mannskepnuna. Andrúmsloftið í upphafi sýningar er þannig að ef einhver áhorfandi risi á fætur og andmælti Ríkharði, þá er allt eins víst að færi af stað áhugavert samtal um rétt og rangt – en það er alveg ljóst að þá orðræðu myndi Ríkharður vinna. Þannig er sýningin unnin frá grunni – Ríkharður er sympatískur maður, það er bara alltof auðvelt að láta sér líka vel við hann.

Hjörtur Jóhann eins og öflug eimreið

Þetta er lögnin í sýningunni allri og á hlutverki Ríkharðs eins og Hjörtur Jóhann Jónsson skapar hann. Ríkharður er fyrst og fremst leiksigur Hjartar Jóhanns, hann ber sýninguna á herðum sér og dregur hana áfram eins og öflug eimreið, ekkert gerist nema af því Ríkharður hrindir atburðarásinni af stað og grípur afleiðingar gerða sinna á lofti eins og fjöllistamaður og gerir svo eitthvað enn verra úr en áhorfendur gátu ímyndað sér.

Sú mun vera hefðin þegar Ríkharður III er annars vegar að leika hann mjög á eintali við sjálfan sig. Hjörtur Jóhann fer aðra leið og í fullu samræmi við það listræna yfirbragð sem Brynhildur Guðjónsdóttir velur sýningunni allri og gerir hann bæði geðfelldan og félagslegan. Þannig skapast trúverðug tengsl milli Ríkharðs og áhorfenda, á grundvelli þeirra vinnur hann sín grimmdarverk og öðlast samt samúð okkar; hann verður eins og andstæðan við trúðinn og jafnvel skyldur trúði hryllingssagna, við vitum að honum mun mistakast á endanum, spurningin er bara hversu mikið blóð þarf að renna áður en yfir lýkur.

Hjörtur Jóhann hefur á tiltölulega stuttum ferli – ekki áratugur síðan hann útskrifaðist frá leiklistardeild LHÍ! – sýnt og sannað að hann er í hópi okkar færustu yngri leikara. Hann hefur örugga og sterka sviðsnærveru, geysigott vald á tali og tungu svo unun er á að hlýða og hann hefur að öllu leyti hvern þann kost sem prýða þarf góðan leikara. Sjálfsagt að gefa honum færi á að spreyta sig í hlutverki þar sem á mæðir og Hjörtur Jóhann skilar Ríkharði frá sér með sóma, hefur fullt vald á hlutverkinu frá fyrsta andartaki til hins síðasta og er þó sannarlega lagt upp með líkamlega krefjandi frammistöðu.

Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur er vel útfærð; frá upphafi til enda er haldið utan um þá hugmynd að sýningin geti verið hvort sem er, sýning í raunheimi eða hugarfóstur Ríharðs. Það er gaman þegar gælt er við efann eins og hér er gert og hnykkt á því í áhrifaríku lokaatriði. Leikmyndin – og vel unnin lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar – verður sterkur hluti af frásögninni, óaðskiljanlegur frá öðrum þáttum sem bera hana uppi, texta, leik og heildartúlkun.

Elísabet yngri, prinsessa af Jórvík

Saga Shakespeares af Ríkharði III er aðlöguð af Brynhildi leikstjóra og dramatúrg Borgarleikhússins, Hrafnhildi Hagalín. Þær skerpa á hinum kvenlæga þætti, og bæta hér við Elísabetu yngri, prinsessu af Jórvík. Með þessu er gerður sýnilegur sá kvenkostur sem Ríkharður hyggst kvænast og ná með því völdum, en hér rís hún upp af eigin krafti og lætur í ljósi þá ósk í lokin að samfélagi manna verði ekki stýrt af þeim körlum sem stjórnast eingöngu af eigin hag en ekki heildarinnar.

Auðvitað má ávallt deila um hvort breyta skuli textum höfuðskálda á borð við Shakespeare, en á það má benda að leikhúsið segir sína sögu í núinu og núið núna eru okkar tímar – og það er hreint ekkert á móti því að leikhúsið segi sínar sögur í því ljósi að á okkar tímum er lögð meiri áhersla á hið kvenlæga sjónarhorn. Ég hugsa að Shakespeare sjálfum hefði bara þótt það sniðugt.

Þýðingin, röddin, framsögnin

Ekki verður svo skilið við sýningu Borgarleikhússins á Ríkharði III öðruvísi en að farið sé nokkrum orðum um meðferð hins talaða máls. Oft hefur verið á það bent að íslensku leikhúsfólki er ábótavant þegar kemur að meðferð talaðs máls, og er það sérstaklega áberandi þegar kemur að texta í bundnu máli og upphöfnu, eins og finna má ekki síst í verkum Shakespeares. Hér verður ekki slíkra hnökra vart í neinum mæli og hlýtur það að skrifast til tekna leikstjóranum, Brynhildi Guðjónsdóttur. Hún hefur augljóslega tekið á sínum leikhóp með það að vanda til framsagnar og framburðar, enda lærð í sama landi og verkið verður til. Það er vissulega auðheyrt að leikarar búa að mismunandi styrk og þjálfun þegar kemur að hinu talaða máli og skilur þar einkum milli eldri og yngri kynslóðar. Það er hrein unun að hlýða á Kristbjörgu Kjeld, Jóhann Sigurðarson, Val Frey Einarsson, Hilmar Guðjónsson og Sigrúnu Eddu Björnsdóttur fara með texta – hann er lifandi, kvikur og eðlilegur í þeirra munni og sem fyrr segir gefur Hjörtur Jóhann sínum eldri kollegum ekkert eftir hvað þetta varðar.

Þeim er líka styrkur að þýðingu Kristjáns Þórðar Hrafnssonar, sem er lipur og fer vel í munni, nútímaleg en þó í góðu sambandi við þá hefð sem hið upphaflega verk er sprottið úr. Í höfuðdráttum má segja að tveir skólar gildi um framsögn bundins texta úr smiðju Shakespeares: annars vegar leggur leikarinn áherslu á hverja línu fyrir sig og lætur kraftinn úr hverri línu bera sig yfir í þá næstu; hins vegar er talað um að línur nái saman þannig að ekki sé höfð nein dvöl milli lína og látið sem um samfellt mál sé að ræða, en þá dokað við í miðri línu til að anda eða leggja áherslu á þá hugsun sem verið er að miðla hverju sinni. Hvorugur þessara skóla er rangur, hvorugur réttur. Leikari verður í samráði við leikstjóra að finna hvað er rökrétt hverju sinni, en þannig verður framsögnin bæði dýnamísk og ófyrirsjáanleg – og þar með spennandi. Athygli áhorfandans er vakin, sjálfkrafa og án fyrirhafnar og helst óbrotin frá upphafi til enda. Hér hefur auðheyrilega verið lögð áhersla á vandaðan framburð og er það til fyrirmyndar. Hins vegar má vel minna á það, að talandi leikara – framburður og framsögn ásamt öllu sem því heyrir til – verður ekki til fullnustu unnin á æfingatímabili einnar sýningar. Það krefst þrotlausrar vinnu og þjálfunar, símenntunar, elju og þrjósku að vinna með það, enda eru röddin og talfærin með mikilvægustu verkfærum leikarans. Það var mikill sjónarmunur og til hins betra eftir að hreyfiþjálfarar fóru að starfa við íslenskt leikhús og jók gæði leikhúss til muna. Sams konar átak þarf hvað varðar röddina, framsögnina og framburðinn.

Í sýningu Borgarleikhússins á Ríkharði III birtist Shakespeare okkur alþýðlegri og húmorískari en oft áður, sýningin einkennist af hraða og kæti – kannski meira að segja nær því sem einkenndi sýningar Shakespeares á hans tímum! – og gerir hana að skemmtun sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283