Recep Tayyip Erdogan, forseti landsins, átti fund með Vladimír Pútín, forseta Rússlands, á miðvikudag, þar sem hann leitaði stuðnings Rússa við áform um „öryggissvæði“ í Sýrlandi, sem yrði undir tyrkneskum yfirráðum. Samkvæmt fréttum af fundinum lýsti Erdogan fyrirhuguðu öryggissvæði sem 8.000 ferkílómetrum í norðaustur-hluta Sýrlands, þar sem nú heitir Rojava.
Héraðskosningar eru framundan í Tyrklandi, en þær verða haldnar þann 31. mars. Líklegt þykir að ríkisstjórn Erdogans leggi sig fram um að grípa til sýnilegra aðgerða fyrir kosningarnar. Enn er óvíst um afstöðu rússneskra stjórnvalda, en Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, lýsti því nýverið yfir að Rússland geri ráð fyrir að Sýrlandsstjórn, undir forystu Assads, fari með yfirráð svæðisins þegar Bandaríkjaher hverfur á brott þaðan.
Íbúðabyggð sem vegatálmi
Öryggið sem Erdogan sækist eftir felst í að binda endi á yfirráð Kúrda á svæðinu og lýðræðistilraunina í Rojava. Um leið, hins vegar, er Erdogan sagður hugsa sér leik á borði, að flytja töluverðan fjölda sýrlensks flóttafólks frá Tyrklandi til öryggissvæðisins. Samkvæmt fréttum af fundinum á miðvikudag yrðu það mögulega um 300.000 manns.
Þrjár og hálf milljón sýrlenskra flóttamanna hafast nú við í Tyrklandi. Þetta er í það minnsta talan sem flestar áreiðanlegar heimildir sammælast um. Í febrúar 2016 voru það tæpar 2,7 milljónir, og hefur sýrlensku flóttafólki í landinu því fjölgað um 800.000 á tveimur árum. Til samanburðar er um milljón sýrlenskra flóttamanna talin dvelja í löndum Evrópu samanlagt.
Tyrknesk stjórnvöld segja að kostnaður Tyrklands vegna móttöku sýrlensks flóttafólks hafi alls numið yfir 30 milljörðum Bandaríkjadala. Þar af hefur Evrópusambandið lagt til 7–8 milljarða, samkvæmt samkomulagi frá árinu 2016 og síðari viðbótum, um að Tyrkland sæi til þess að fólkið leggið ekki leið sína til Evrópu.
Hagkerfi Tyrklands er nú sagt standa frammi fyrir hugsanlegri niðursveiflu. Merki eru um að stjórn Erdogans hafi áhuga á því annars vegar draga úr kostnaði landsins við móttöku flóttamanna, að því leyti sem hana er til staðar, hins vegar að gera sem mest úr hlut flóttafólks í hugsanlegum efnahagsvandræðum.
Hinn mikli fjöldi flóttafólks í Tyrklandi leikur þannig nokkurt hlutverk í þróun stjórnmála í landinu, og hernaðaráforma utan þess.
„Tveggja hæða hús með görðum“
Í upphafi janúarmánaðar fyrirhuguðu skipulagi svæðisins í óvenjulegum smáatriðum og sagðist hafa í hyggju að „byggja tveggja hæða hús með 500 fermetra görðum, þannig að íbúarnir geti hafið nýtt líf“. Um leið myndi öryggissvæðið „hindra alfarið alla fólksflutninga“. Íbúðabyggðin sjálf yrði þannig eins konar vegatálmi þeirra sem annars hygðust ferðast landleiðina frá Sýrlandi til Tyrklands.
Bandaríski fréttamiðillinn VOA hefur eftir fyrrverandi tyrkneskum sendiherra, Aydin Selcen, að Tyrkland leiti nú stuðnings Evrópusambandsins við „uppbygginguna“. Bandaríkin hafi gert ljóst að þau muni ekki koma að uppbyggingu í Sýrlandi á meðan Assad er við völd en „Evrópusambandið virðist viljugt til að taka að sér það hlutverk, því þar óttast menn nýtt innstreymi flóttafólks frá Sýrlandi. Erdogan sá það skýrt í viðræðum við ESB,“ hefur miðillinn eftir honum. Aðrir viðmælendur miðilsins segja fulltrúa ESB þó leggja áherslu á að ríki sambandsins muni ekki styðja undanfarandi innrásarstríð Tyrklands á svæðinu nema að fengnu samþykki Sameinuðu þjóðanna.
Hernaður í þágu hagvaxtar
Byggingariðnaður í Tyrklandi nemur að jafnaði um tíu prósent af þjóðarframleiðslu, og veitir fjölda starfa. Í þeim geira ríkir þegar lægð. „Uppbygging“ á öryggissvæðinu þar sem nú heitir Rojava, eftir árárstríð til að ryðja núverandi íbúum svæðisins úr vegi, er talið að myndi veita hagkerfi Tyrklands verulegt „búst“.
Samkvæmt þessu hyggst stjórn Erdogans slá nokkrar flugur í einu höggi: skapa „öryggissvæði“, já, í þeim skilningi að losna við byggðir Kúrda í grennd við Tyrkland; flytja verulegan fjölda flóttafólks frá Tyrklandi, sem efli um leið varnir landsins með nýjum byggðum; og efla tyrkneskan iðnað með „uppbyggingu“ á hinum herteknu svæðum.
Þó heyrast einnig efasemdir um að áhrifin yrðu veruleg: hugsanlega myndu byggingarframkvæmdir í Sýrlandi aðeins nema um tíund af því magni sem þegar er byggt og selt í Tyrklandi árlega. Þá sé ekki ljóst hversu stór hluti sýrlenskra flóttamanna kæri sig um að hefja „nýtt líf“ á núllreit, í landi sem lagt hefur verið í rúst.
Óttinn við hið óttalausa líf í Manbij
Stærsta borgin á svæðinu sem Erdogan vill gera að öryggissvæði Tyrklands er Manbij. Shervan Derwish, talsmaður kúrdíska herráðsins í Manbij, skrifar grein í New York Times á miðvikudag þar sem hann lýsir þeirri uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað á meðan styrjöld hefur geisað víðast annars staðar í Sýrlandi. Þar búi nú 700.000 manns, en stjórnvöld séu skipuð Aröbum, Kúrdum, fólki af tyrkneskum uppruna og kákasískum. Konur hafi jafnan fjölda fulltrúa við karla í öllum ráðum. Og:
„Í fyrsta sinn í sögu Sýrlands, höfum við haldið frjálsar borgarstjórnarkosningar. Við opnuðum eða byggðum nokkur sjúkrahús og 350 skóla sem 120.000 nemendur sækja. … Það sem mestu varðar er að hér lifir fólk óttalausu lífi.“
Derwish segir að tvennt hafi þurft til að gera þetta mögulegt: annars vegar baráttu kúrdískra sveita sem frelsuðu Manbij undan valdi ISIS árið 2016. Hins vegar alþjóðlegan stuðning. Hermenn bandalagsríkja hafi barist við hlið YPG/YPJ-liðum í baráttunni gegn ISIS, og flugherir veitt stuðning úr lofti á meðan bardagar geisuðu á jörðu. Það sé þessari sameiginlegu baráttu að þakka að fórnarlömbum hryðjuverka í heiminum hefur fækkað á hverju ári síðan 2015.
Eftir sigurinn á ISIS standi íbúar Manbij og víðar í Rojava nú frammi fyrir nýrri ógn, sem stafi af yfirlýstum áformum Erdogans um innrás. Derwish segir að Erdogan óttist ekki hersveitir Kúrda heldur „friðsamlegar og lýðræðislegar samvistir Araba, Kúrda, kristinna og annarra í Norðaustur-Sýrlandi“.
Alþjóðlegt lið þurfi að tryggja öryggissvæðið
Derwish segir í greininni að yfirvöld í Manbij séu ekki mótfallin því að skapa öryggissvæði kringum landamæri Tyrklands og Sýrlands, en þau muni ekki fallast á innrás Tyrkja á svæði sem þau hafa frelsað, hvaða orðfæri sem viðhaft er um innrásina. Slíkt öryggissvæði þurfi því að vera tryggt af alþjóðlegum herafla, en ekki herafla Tyrkja eða „jihadista“ á þeirra vegum.
Styrjöldinni í Sýrlandi er að ljúka, skrifar Derwish. Eftir að vinna sögulega sigra með bandamönnum sínum í baráttunni við ISIS í Kobani og Raqqa þurfi Kúrdar nú á því að halda að þessir bandamenn standi siðferðilega í lappirnar frammi fyrir síðustu áskoruninni.