Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Nóg að fletta upp á auðlindum Venesúela til að sjá hvað klukkan slær

$
0
0

„Í venezuela eru mestu olíubirgðir heims – þarf að segja meira?“ er yfirskrift greinar sem Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður VG til áratuga, birti á vef sínum, ogmundur.is, á sunnudag. Í greininni spyr Ögmundur hvort íslensk stjórnvöld hyggist fordæma þá „hrikalegu valdbeitingu sem við nú verðum vitni að gagnvart Venezuela“. Hann spyr einnig hvort sú stefna utanríkisráðherra að auka samvinnu við Bandaríkin á sviði „varnarmála“ sé stefna ríkisstjórnarinnar, spyr hvort stjórnin eða utanríkismálanefnd Alþingis hafi yfirleitt tekið þá þróun til umfjöllunar.

Fátækt land —með mestu olíuauðlindir veraldar

Í greininni segir Ögmundur bandarísk og evrópsk stjórnvöld, með afstöðu sinni til ríkisstjórnar Maduro í Venesúela og viðbrögðum við yfirstandandi valdaránstilraun Juan Guaido, vera við „sama heygarðshornið og þau voru á nýlendutímanum svokallaða, þegar þau fóru rænandi og ruplandi um heiminn kinnroðalaust fyrir opnum tjöldum“. Nú séu gripdeildirnar aðeins sveipaðar lygavef og „heiminum talin trú um að drottnunarvaldið sé í raun umhyggja fyrir mannréttindum og lýðræði“. Til að gera sér grein fyrir hvatanum að baki tilraunum til að steypa Maduro af stóli sé nóg að „fletta upp á auðlindum Venezuela til að sjá hvað klukkan slær“ en þar er að finna „mestu olíuauðlindir veraldarinnar“.

Ögmundur segir efnahagsöngþveitið í Venesúela eiga „að verulegu leyti rót að rekja til efnahagsþvingana“ sem undanfarin ár hafi grafið undan stuðningi við stjórnvöld. Ástandið sé skelfilegt, og „ekki að undra, arðinum af olíusölu erlendis er haldið frá þjóðinni.“ Ögmundur segir að fleira komi þó til, meðal annars að bandarískum fjármálafyrirtækjum sé „fyrirskipað að koma í veg fyrir hvers kyns greiðslumiðlun á vegum stjórnvalda í Venezuela, hvað þá að semja um endurfjármögnun lána.“

Fátækt land —með mestu olíuauðlindir veraldar

Um undirtektir alþjóðasamfélagsins við þann gjörning Juan Guaidó, þingforseta Venezuela, á dögunum að vígja sjálfan sig í embætti forseta og lýsa því yfir að „Maduro, hinn réttkjörni forseti, sé „ólögmætur““ spyr Ögmundur hvernig vænta mætti að Donald Trump brygðist við ef:

„heimsbyggðin segðist hafa komist á þá skoðun að lýsa hann ólögmætan en dmókratann Steny Hamilton Hoyer, leiðtoga fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, þar sem demókratar hafa meirihluta, hinn eina sanna forseta Bandaríkjanna“.

Nákvæmlega það eigi sér nú stað í Venesúela.

Fulltrúi BNA í Venesúela hvítþvoði Reagan-stjórnina af fjöldamorðum

Þá nefnir Ögmundur að bandarísk stjórnvöld hafi nýverið skipað Elliott Abrams sem forystumann sérstakrar sendinefndar til Venesúela. Um það var tilkynnt síðastliðinn föstudag. Í forsetatíð Ronalds Reagan var Abrams aðstoðar-utanríkisráðherra á sviði mannréttinda og mannúðarmála. Það var í því hlutverki sem hann tók að sér að bera blak af stríðsglæpum hersveita sem Bandaríkin fjármögnuðu í Mið-Ameríkuríkinu El Salvador, meðal annars í kjölfar fjöldamorðs árið 1982, þar sem allir 800 íbúar í þorpi nokkru, karlar, konur og börn, voru tekin af lífi.

Elliott Abrams svarinn í embætti aðstoðar-utanríkisráðherra á sviði mannréttinda- og mannúðarmála.

Elliott Abrams svarinn í embætti aðstoðar-utanríkisráðherra á sviði mannréttinda- og mannúðarmála, 1981.

Abrams tók að sér að draga frásagnir vitna af atburðunum í efa og lýsti því meðal annars yfir við þingnefnd sem skipuð var til rannsóknar á málinu að fréttaflutningur af því væri „ekki trúverðugur“. Síðar varð ljóst að Hvíta húsinu var kunnugt um ódæðið frá upphafi. Á tíunda áratugnum komst loks sannleiksnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna að því að yfirgnæfandi meirihluti 22.000 voðaverka sem unnin voru í borgarastyrjöldinni í El Salvador hefðu verið framin af hægrisinnuðum hersveitum sem Reagan-stjórnin veitti stuðning. Abrams svaraði því til að árangur stjórnvalda í El Salvador hefði verið stórkostlegur — „fabulous achievement“.

Fyrirheit um nánara hernaðarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Þennan mann, Elliott Abrams, hafa Donald Trump og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, nú gert að sérstökum fulltrúa sínum í málefnum Venesúela. Þá bendir Ögmundur á að eftir fund Guðlaugs Þórs og Pompeo þann 7. janúar sl. hafi ráðherrarnir, í sameiginlegri yfirlýsingu, heitið auknu samráði og samstarfi á sviði hernaðarmála.

Guðlaugur Þór Þórðarson og Mike Pompeo, 7. janúar 2019.

Guðlaugur Þór Þórðarson og Mike Pompeo, 7. janúar 2019.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur heitið því að auka framlög til hernaðarmála almennt, og til NATO sérstaklega, eins og fram hefur komið í umfjöllun Kvennablaðsins um utanríkisstefnu stjórnarinnar. Ekki hefur farið mikið fyrir andmælum framáfólks í VG gegn þessari þróun, en Ögmundur Jónasson ríður á vaðið og spyr í lokaorðum greinar sinnar á sunnudag:

„Varla er þetta ákvörðun ríkisstjórnarinnar? Hafa þessi mál verið rædd á fundum hennar eða í utanríkismálanefnd Alþingis? Sú nefnd hefur verið kölluð saman af minna tilefni.“

Ögmundur fylgir greininni eftir með styttri pistli á mánudag, þar sem hann beinir spurningum til utanríkisráðherra sérstaklega, og spyr hver stefna Íslands sé í málefnum Venesúela. Þá vitnar Ögmundur í eftirfarandi ummæli ráðherrans, í nýlegri Morgunblaðsgrein, þar sem Guðlaugur skrifar: „Ég ræddi málefni Venesúela í ræðu minni í mannréttindaráðinu á síðasta ári og því hefur verið fylgt eftir af fólkinu okkar í Genf.“ Ögmundur spyr:

„Hverju hefur verið fylgt eftir og hvernig „af fólkinu okkar í Genf“?“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283