Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Vandræðalegt að vera íslenskur þingmaður erlendis vegna Klausturmálsins

$
0
0

Í dagskrárliðnum „umræður um störf þingsins“, á miðvikudag, gerði Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, nýja skýrslu Evrópuráðsins og Alþjóðaþingmannasambandsins um kvenfyrirlitningu, kynbundið áreiti og kynferðislegt ofbeldi í 45 þjóðþingum.

Skorar á þingforseta að prenta spjöld og taka mynd

Birgir sagði í ræðu sinni að niðurstöður skýrslunnar væru sláandi þar komi meðal annars fram að þingkonur í Evrópu verða fyrir kynferðislegu ofbeldi á degi hverjum. Þá hafa 40% þingkvenna í þjóðþingum Evrópu orðið fyrir kynferðislegri áreitni, í meirihluta tilfella af hendi karlkyns þingmanna. Birgir sagðist hafa sótt þing Evrópuráðsins í liðinni viku, þar sem hleypt var af stokkunum átaki gegn kynferðislegu ofbeldi í þjóðþingum, undir yfirskriftinni #NotInMyParliament eða #ekkiáokkarþingi. „Tekin var mynd af hverjum og einum þingmanni með þetta spjald hér,“ sagði Birgir og sýndi spjald með þessari áletrun, „og þingmenn beðnir um að dreifa þessu á samfélagsmiðlunum.“ Þá sagðist Birgir skora á þingforseta að láta prenta slík spjöld á íslensku, „taka síðan mynd af okkur þingmönnum saman þar sem við sýnum samstöðu og berjumst gegn kynferðislegu ofbeldi gegn þingkonum.“

#NotInMyParliament —þingmenn á fundi Evrópuráðsins.

#NotInMyParliament —þingmenn á fundi Evrópuráðsins.

Styr hefur staðið um flokksformann Birgis og þingflokksformann, ásamt tveimur öðrum þingmönnum Miðflokksins, eftir að samræður þeirra á barnum Klaustur urðu opinberar. Ekki síst hefur fólki blöskrað kvenfyrirlitningin í tali þeirra.

Vandræðalegt að vera íslenskur þingmaður vegna Klaustursmáls

Síðar í umræðunum tók Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, til máls, en hún sótti einnig þing Evrópuráðsins í liðinni viku. Í ræðunni sagði Rósa að hingað til hafi verið litið til íslenska þjóðþingsins sem fyrirmyndar, meðal annars vegna góðra viðbragða Alþingis við #metoo-hreyfingunni. „Það var gott að vera þingmaður Íslands og geta sagt frá Barbershop-deginum hér og uppfærslu á siðareglunum.“ Nú sé öldin önnur:

„En nú er svo komið að það er vandræðalegt að vera íslenskur þingmaður erlendis. Þar sem kynjajafnrétti ber á góma spyr fólk um Klaustursmálið. Erlendir ráðherrar, þingmenn annarra þjóðþinga og starfsfólk Evrópuráðsþingsins spyr allt um þetta mál, enda vant því að Ísland sé í fararbroddi þegar kemur að jafnréttismálum.“

Rósa sagði orðspor Íslands í jafnréttismálum, „okkar helsta stolt í alþjóðasamstarfi“ vera í mikilli hættu. Málið verði að leysa. Vilji þjóðarinnar sé skýr og það sé vilji þingsins líka. Rósa skírskotaði breytingar á siðareglum sem „hnykktu á reglunum vegna #metoo“ til að tryggja að fólk gæti sinnt starfi sínu „án þess að eiga á hættu að þurfa að þola kynferðislega áreitni“. Þá sagðist hún hvetja þingheim til að rifja þessar samþykktir upp

„og láta ekki eins og ekkert hafi í skorist. Annars er ekkert að marka þessar fínu ályktanir okkar. Það er kominn tími til að viðbrögð Alþingis verði afdráttarlausari og að Alþingi taki skýra afstöðu gegn kvenfyrirlitningu og með þeim sem fyrir henni verða. Það er kominn tími til að hætta að draga málið í pólitíska dilka eða láta undan frekjukallapólitík. Virðing Alþingis er undir.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283