Um skyldur sveitarfélaga segir í lögum um sveitarfélög:
„7. gr. Almennar skyldur sveitarfélaga.
Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum. Ráðuneytið gefur árlega út leiðbeinandi yfirlit yflir lögmælt verkefni sveitarfélaga, flokkuð eftir því hvort verkefni eru skyldubundin eða ekki.
Sveitarfélög skulu vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært þykir á hverjum tíma.
Sveitarfélög geta tekið að sér hvert það verkefni sem varðar íbúa þeirra, enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum.“
Að öðru leyti fjalla lögin mest um stjórnsýslu sveitarfélaganna og hvernig hún tengist ríkinu og örðum sveitarfélögum. Þetta er það eina sem segir um skyldur sveitarfélagsins og markmið með starfi þeirra.
Höfuðskylda sveitarfélaganna er samkvæmt þessu að „vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært þykir á hverjum tíma.“ Aðrar skyldur snúa að innra starfi, sem ætlað er síðan að uppfylla þessa skyldu vaðandi velferðarmálum. Velferðarmálin eru ástæða þess að við höldum þessum félögum uppi, sveitarfélögunum.
Undanfarin ár, frá 2011, hefur geisað versta húsnæðiskreppa í Reykjavík frá stríðslokum. Þessi húsnæðiskreppa hefur kippt fótunum undan tug þúsunda heimila, þeirra sem borgin átti helst að vernda og síst mátti við alvarlegum efnahagslegum áföllum; láglaunafólk, öryrkjar, eftirlaunafólk, námsfólk, innflytjendur, sjúklingar og aðrir hópar sem standa veikt félagslega; og þar með efnahagslega.
Aðgerðarleysi borgaryfirvalda gagnvart þessari vá eru með allra stærstu svikum stjórnmálanna gagnvart almenningi á síðustu áratugum, mögulega þau stærstu og svívirðilegustu. Í stað þess að bregðast við vanda almennings lögðust borgaryfirvöld í bandalag með spákaupmönnum, bröskurum, leigufélögum og verktökum gegn almenningi og til að hámarka sem mest gróða hinna ríku af húsnæðiskreppu hinna fátækustu. Niðurstaðan er sífellt grimmari húsnæðiskreppa og hundruð óseljanlegra rándýrra blokkaríbúða sem engin bað um og enginn vill.
Það er í ljósi þessara svika Reykjavíkurborgar gagnvart grunnskyldum sínum og samkrull borgaryfirvalda með bröskurum, spákaupmönnum, fjárglæfrafólki (Ólafur Ólafsson, sem kenndur er við Samskip, er helsti lóðareigandinn í nýju Vogahverfi) og leigufélögum sem meta ber sífellt háværari mótmæli gegn dekurverkefnum borgarinnar; mathöllum, hamborgarbúllum í bröggum, pálmum í glerhólkum.
Fólki ofbýður stjórn borgarinnar, og með réttu. Yfirstjórn borgarinnar sinnir ekki því sem hún á að gera, að vinna velferðarmálum íbúanna, en hellir sér út í allskyns dekur og tildur, sem sjálfsagt er að skoða þegar grunnskyldunum hefur verið sinnt.
Það afhjúpar svo algjört andlegt og pólitiskt hrun þeirra flokka sem mynda meirihlutann í borginni, að stuðningsmenn þeirra saka það fólk um fáfræði, plebbaskap og gaspur, sem krefst þess að borgin standi við skyldur sínar gagnvart þeim sem veikast standa og benda á dekurverkefnin sem sönnun þess að nægir peningar eru til; að aðeins viljann vanti; viljan til að standa undir frumskyldu sveitarfélaga.