Ég bý með tíu manns í húsi sem áður var unglingaheimili en er nú Kvennafangelsið í Kópavogi. Það er ekki frjálst val. Andinn er frjáls en líkaminn í járnum.
Ég las Úr djúpunum eftir Oscar Wilde þegar ég kom inn og bar mig saman við hann fangelsaðan. Ég veit nú meira um glæpaheiminn en mig langaði nokkru sinni að vita.
Hér eru sex karlar og fjórar konur. Ég var siðferðilega á röngunni eins og við öll. Ég vil helst gleyma því að ég sé í fangelsi þegar ég skrifa þetta. Það kemur upp skömm, kvíði og þunglyndi. Ég er læst inni klukkan tíu á kvöldin í mínum níu fermetra klefa ef klefa skyldi kalla því við vistmenn, eins og við erum kölluð hér, viljum kalla hann herbergi.
Lífið innan fangelsisveggjanna
Herbergið er opnað klukkan átta á morgnana og þá komumst við niður í eldhús í morgunmat og kíkjum í Moggann, Fréttablaðið og Fréttatímann. Ég horfi á sjónvarpið, CCTV, Bíórásina, Stöð 2 sport, Stöð 2, Bravó, Popp tv og RÚV, hlusta á útvarpið og ég læri að prjóna, hekla og sauma. Ég les bækur sem ég fæ sendar að heiman en hér er fábrotið bókasafn um 60 bækur. Ég fæ DVD hjá fangavörðunum eða sendingar frá Aðalvídeóleigunni. Ég teikna, skrifa og hugsa og hugsa.
Hér eru líka kennd fög úr MK, t.d. íslenska, enska og stærðfræði. Við fáum borgað fyrir að vera í skólanum 600 krónur á tímann. AA-fundir eru þrisvar í viku og við megum fá sponsor í heimsókn.
Leyfðar heimsóknir eru tvær á viku. Gestirnir verða að vera samþykktir af Fangelsismálastofnun og sumir koma í svokallaða „glerheimsókn“ þar sem talað er saman í gegnum síma en aðrir fá að koma í „snertiheimsókn“ og þá getum við setið saman í litlu herbergi og spjallað.
Hér er líka vinna, fangavinna, við brutum saman og límdum möppurnar fyrir Íslenska erfðagreiningu, sem landsmenn fengu senda heim eins og við, við gerðum barmmerki fyrir stjórnmálaflokkana fyrir kosningarnar, við límdum Tryggjó yfir orðið tyggjó á extra tyggjópakka fyrir Sjóvá, settum kynningarbæklinga fyrir Háskólann í Reykjavík í umslög, bjuggum til fataslár úr vírum fyrir listamanninn Krumma, og svo mætti lengi telja. Fyrir þetta fáum við 380 kr á tímann.
Við spjöllum saman í vinnunni, hlustum á útvarpið eins og þið og veltum fyrir okkur spurningum eins og hver launin séu í unglingavinnunni og hvað kosti nú í strætó.
Hér sitjum við inni fyrir að hafa keyrt undir áhrifum, við vorum á fylleríi, stálum úr verslunum, vorum í blakkáti eða í ruglinu, svikum undan skatti, vorum með lyfjaglas í vasanum á röltinu eða spítt heima hjá okkur inni í frysti, stungum fólk, lömdum fólk, hræktum á lögguna, komum til landins á fölsuðu vegabréfi, smygluðum dópi til landsins, prentuðum okkar eigin fimmþúsundkalla í húsi Hjálpræðishersins eða stráðum lúpínufræjum í garðinn hjá þeim sem við skulduðum. Löggunni fannst víst nóg um en flestallt var þetta gert á ruglinu.
Þegar ég kom inn var White musk ilmvatnið tekið af mér, Lancome kornamaskinn, Dove brúnkukremið, Listerine munnskolið, Esteer lauder rakakremið og Moroccan oil sjampóið því það stendur litlum stöfum „alcohol“ á þeim og svoleiðs nokkuð hefur einhvern tímann verið drukkið í fangelsum.
Augnhárauppbrettarinn var líka tekinn, plokkarinn, yddarinn og meikið því það er í gleri. Ég hef ekki enn komist að því hvernig ég get skaðað mig eða aðra með augnhárauppbrettara eða yddara en ef ég fæ bjálæðiskast, sem ég geri aldrei, gæti ég eflaust brotið meikdolluna og meitt mig. Ég þurfti líka að senda til baka strigaskóna mína sem voru skreyttir tveimur 3ggja sentimetra keðjum því allar keðjur eru bannaðar í fangelsum.
Heimurinn fyrir utan og við
Við fáum yfirleitt að fara í svokallaða útivist tvisvar á dag ef við biðjum um hana en samkvæmt lögum á hún að standa í 90 mínútur. Þá fæ ég teskeið fulla af fresistilfinningu. Að anda að mér útiloftinu eins og aðrir Íslendingar.
Úti geng ég í hringi hlusta á i-podinn minn, sem er ekki með nettengingu, upptökutæki eða myndavél því það er bannað. Ég spila krikket, badminton, ligg í sólbaði, leik mér í fótbolta, körfubolta, gróðurset rófur, kartöflur, rabbabara, gulrætur, slæ grasið og horfi á krakkana í leikskólanum, sem er staðsettur alveg við hliðina á okkur, leika sér.
Þau horfa líka á mig og foreldrar þeirra sem koma með þau og sækja þau og svo horfa líka allir sem búa í húsunum á móti á okkur.
Ertu bófi eða lögga?
Leikskólakrakkarnir spyrja mig hvort ég sé bófi eða lögga. Lítill snáði af leikskólanum spurði mig hvenær ég kæmist út og áður en mér gafst tækifæri til að svara spurði hann hvort það væri þegar ég væri búin að hugsa málið.
Það er rétt hjá honum ég er að endurhanna líf mitt eins og flestir hér og ákveða hvað við ætlum að gera að afplánun lokinni. Ég er að hugsa málið.
Stóri bróðir
Það versta fyrir alla er að við vitum aldrei hvenær við losnum héðan. Ekki fyrr en á síðustu stundu, þegar pappírarnir koma frá Fangelsismálastofnun, og því er erfitt að ákveða hvað við ætlum að gera, hvort við viljum fara í skóla, vinnu eða hvar við ætlum að búa.
Það er litla aðstoð að fá hér við það enda einn félagsfræðingur í vinnu hjá Fangelsismálastofnun sem annar vart að sinna öllum föngum í öllum fangelsum landsins. Við eigum að hitta félagsráðgjafa aðra hverja viku sem og sálfræðing en það stenst ekki alltaf. Eiginlega aldrei. Sálfræðingurinn fór líka í barneignarfrí, fyrir nokkrum mánuðum og verið er að ráða nýjan.
Fangaverðirnir hugsa vel um okkur og eru hjálplegir og góðir við okkur en við verðum alltaf að fylgja reglunum, sem eru fjölmargar, og alltaf að breytast. Það eru myndavélar í öllum hornum hér, hverjum krók og kima nema á salerninu. Stóri bróðir fylgist með 24 tíma á sólarhring.
Við getum sótt um að komast á reynslulausn. Það er að segja að losna út eftir að hafa afplánað í fangelsinu helming eða tvo þriðju refsitímans. Eins getum við sótt um að fá að afplána í meðferð, í opnu úrræði eins og að Sogni, á Kvíabryggju eða áfangaheimilinu Vernd, en þá verðum við að stunda vinnu og ef við erum með 12 mánaða dóm eða lengri fáum við ökklaband að Verndardvölinni lokinni.
Þangað komumst við þó ekki ef við fáum agabrot hér fyrir brot á reglum fangelsins eins og að tala við dómstóla, fjölmiðla, önnur fangelsi, saksóknara, vera með netpung, dóp eða ofbeldi eða að fylgja ekki öllum fjölmörgu reglunum. Enginn hér vill fá á sig agabrot og allt er gera til að forðast það. Konur mega ekki fara inn á karlaklefa og öfugt þá getum við fengið skýrslu á okkur. Margar skýrslur sýna hegðunarbrot okkar og koma sér illa þegar sótt er um frekari fríðindi eins og áður var upp talið.
Örvæntingin ekki langt undan
Stundum grípur um sig kúgfylli af örvæntingu, þunglyndi, kvíða og vonleysi og er þá stundum tekið til ýmissa ráða til að losna út í smástund. Einni datt í hug að éta ljósaperu til að rispa sig að innan til að komast á spítala í augnabliks frelsi í sjúkrabílnum og á spítalanum. Rúður hafa verið brotnar, reynt að klifra yfir girðinguna, hengja sig með bandi af slopp í gardínustönginni, skera sig á púls með geisladiskahulstri, skera sig á púls með DVD, sprauta sig með penna, hvernig sem það virkar, stinga sig til blóðs til að reyna að fá blýeitrun, drekka hreinsivökva, borða rottueitur og svo mætti lengi telja. Það er líka gott að fá að fara til tannlæknis en þangað erum við keyrð af bílstjórum fanganna.
Oft er þó kúltúrsjokk að komast í bíltúrana eftir langa dvöl innan veggjanna. Að horfa á bílana, fólkið, umhverfið, húsin og allt sem fyrir augun ber á leiðinni.
Mikill munur er á milli fangelsa. Í Kvennafangelsinu er líkamsræktaraðstaðan bágborin, lóðin hafa verið fjarlægð því einhver notaði þau sem vopn, eins voru kókflöskurnar sem fylltar voru af vatni og notaðar sem handlóð teknar, skíðavélin er biluð, teipuð saman og vart nothæf, flakkarar eru bannaðir hér en leyfðir á Skólavörðustíg, usb lyklar eru bannaðir alls staðar og tölvur ef ekki er skóli. Við megum ekki vera með síma eða netið.
Í opnum fangelsum eins á Sogni og Kvíabryggju eru tölvur leyfðar og símar og netið og þar er útivistartími yfir daginn frjáls. Á Skólavörðustíg eru flakkarar leyfðir en ekki tölvur. Á Vernd sem er áfangaheimili borgarðu sjálfur fyrir dvölina og þér er skylt að vera í vinnu.
Á ökklabandi eru nú aðeins sjö manns en þar þarftu að fylgja útivistarreglum og skilyrðum settum fyrir hvern og einn af Fangelsismálastofnun. Þú finnur fyrir því að þú sért fangi hvar sem þú ert hvort sem þú afplánar í meðferð, í opnu úrræði á ökklabandi eða á reynslulausn. Stóri bróðir er alls staðar hér inni og eftir að út kemur.
Ég er að hugsa mig um
Sumir hafa engan stað að fara á eftir fangelsisvistina. Okkur er hleypt út á slaginu átta að morgni þegar við losnum og fáum ekki að vera lengur inni. Þá stöndum við kannski með farangurinn okkar fyrir utan að bíða eftir að vera sótt. Sumir eru ekki sóttir og hafa engan stað til að fara á. Einn tók til dæmis stætó fyrir restina af fangalaununum og gisti á BSÍ í nokkurn tíma á meðan verið var að finna heimili. Og til að getað fundið heimili þarftu hjálp góðra manna en ekki kannski þeirra sem fylgdu þér í lífinu fyrir fangelsið. Því við erum jú flest að hugsa okkur um og við viljum á beinu brautina.
Úrræði fyrir konur eru færri en fyrir karla. Konur geta einungis afplánað í Kvennafangelsinu, nokkrar fá að fara á Kvíabryggju, Sogn og Vernd og ökklaband en karlarnir hafa fleiri úrræði eins og Litla Hraun, Fangelsið á Akureyri, Kvennafangelsið, Hegningarhúsið, Kvíabryggju, Sogn, Vernd, og ökklaband. Þeir eru og í miklum meirihluta í yfirfullum fangelsum landsins. Alls eru fjórar konur í Kvennafangelsinu, engin á Sogni, fjórar á Kvíabryggju og tvær á Vernd. Lofað er að fangelsið á Hólmsheiði ætti að leysa þessi vandamál en hjá mér er komið að skuldadögum, ég þarf að biðjast fyrirgefningar.
Ég er að hugsa mig um eins og litli drengurinn sagði og þarf að bæta fyrir brot mín.
En ég hlakka til að frelsast. Ég hlakka til að faðma fjölskylduna, hitta vini mína, keyra bíl, fara í matvöruverslun, þurfa ekki að biðja um ilmvatnið mitt og sjampóið, getað farið út þegar ég vil, farið í göngutúra og þurfa ekki alltaf spyrja leyfis.
Við sem höfum verið á röngunni í samfélaginum erum að bæta okkur. Gangi okkur vel!
Það verður gaman að sjá og hitta ykkur hin!
Kveðja úr Kópavogsfangelsi