Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Spéspegill

$
0
0

Ragnar Þór Pétursson skrifar.

Frá því um 1950 og fram á miðjan níunda áratug síðustu aldar minnkaði kosningaþátttaka jafnt og þétt í Bretlandi. Kosningaþátttaka er nátengd við áhuga fólks á stjórnmálum. Hvort sem það er tilviljun eða ekki þá kom snarpur kippur í hana árin 1987 og 1992 en svo vill til að á því tímabili var farin ný og fersk leið í að vekja áhuga fólks á stjórnmálum.

Um var að ræða sjónvarpsþætti sem kölluðust Spéspegill (Spitting image). Í þættinum var gert miskunnarlaust grín að helstu persónum stjórnmálanna. Þær voru leiknar af ferlega ljótum latexdúkkum, einhverskonar þrívíðum skopteikningum. Þættirnir komu í beinu framhaldi af öðrum háðsþáttum, Já, ráðherra (Yes, Minister). Munurinn á þáttunum var kannski sá að í ráðherraþáttunum var gert grín að skrifræðinu, embættismannakerfinu og almennum löstum – en í Spéspegli voru einstakar persónur tættar í sundur í eitruðu háði.

Mig grunar að komið sé að Spéspegli í íslenskum stjórnmálum. Spjallþættir um stjórnmál eru lúið og þreytt fyrirbæri. Okkur leiðist að hlusta á stjórnmálamenn og okkur leiðist tal um stjórnmál. Besti stjórnmálaskýrandi seinni tíma hér á landi er Halldór Baldursson, skopmyndateiknari, og honum tekst oftar en ekki að útskýra með einni mynd það sem heilu hjarðirnar af samfélagsrýnum reyna að segja í pistlum.

ragnar 2

Það er líklega komið að þeim tímapunkti að Íslendingar fari að hæðast meira að stjórnmálamönnunum sínum. Þótt ekki sé til annars en að auka áhuga fólks á stjórnmálum.

Skop hefur alltaf fylgt stjórnmálum. Síðustu ár hefur dregið verulega úr því hér á landi. Einu sinni þótti Spaugstofan fyndin og meira að segja Sigmund gamli í Mogganum var kærður fyrir að fara yfir strikið.

Í dag sammælast stjórnmálamenn úr mörgum flokkum um að þetta sé of langt gengið:

ragnar 3

Samanborið við Spéspegil er þetta auðvitað barnaefni. Hver valdamaður á fætur öðrum var meðhöndlaður með þeim hætti að þessi mynd hans Gunnars hefði talist blíðuhót. Reagan var skotinn í hausinn með skammbyssu en sakaði ekki, því það vantaði í hann heilann. Breska íhaldsflokknum var ítrekað líkt við nasista og Magga gamla Thacher fékk sína pólitísku ráðgjöf frá kunnuglegum, þýskum eldriborgara sem bjó í næsta húsi undir dulnefni eftir flótta úr Þriðja ríkinu. Hér má sjá hann slökkva eldana sem kviknuðu þegar hann ákvað að brenna skordýrin sem reyndu að flýja garðinn hans:

ragnar 4

Tony Blair var ævinlega afgreiddur sem innistæðulaus kjaftaskúmur eins og þetta atriði ber ágætlega með sér:

Nú má auðvitað pæla í því hversu málefnalegt svona grín er og eins er ástæða til að hugsa alvarlega um það hversu langvarandi pólitískur áhugi er sem komið er á með háði. Raunar hrundi kjörsókn í Bretlandi enn frekar um það bil sem þættirnir luku göngu sinni.

Ég held samt að svona þættir komi ekki fram af tilviljun. Þeir koma þarf af einhverskonar þörf. Og mig grunar að komin séu fram vaxtarskilyrði þeirra hér á landi. Það kæmi mér allavega lítið á óvart ef eitthvað af þessu tæi skyti upp kollinum fyrr en seinna í stað hrútleiðinglegra pallborðsþátta.

 

Pistillinn birtist áður á Pressan/Eyjan en Ragnar Þór skrifar þar. Pistill er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283