Að rækta sínar eigin kryddjurtir er auðveldara en margur heldur. Þú þarft ekki að gera mikið annað en að setja mold í pott, sá fræjum og vökva og þá ætti kryddjurtin að láta sjá sig fljótlega. Þessar aðgerðir eru allt of einfaldar til að þú getir haldið áfram að réttlæta kryddjurtakaup í stórmörkuðum fyrir sjálfri/sjálfum þér. Hægt er að rækta þær hvort sem er í glugga, í útipottum eða í matjurtabeðinu, eftir því hvaða aðstæður bjóða upp á. En ef vel á að takast til er eins gott að vanda sig.
Best er að setja þykkt lag af næringarríkri gróðurmold í pott eða bakka sem hleypir vatni í gegnum sig. Ofan á það leggur þú svo þunnt lag af sáðmold og bleytir vel. Þá eru fræin sett í moldina og þunnu lagi af sáðmold dreift yfir. Þetta tvöfalda lag af mold er lykilatriði til að hægt sé að rækta plönturnar í endanlegum potti og þannig sleppa við að færa þær á milli potta eftir forræktun, sem er gott því öllum er okkur illa við að vesenast meira en nauðsynlegt er.
Ef sáðmoldinni er sleppt og fræin sett beint í gróðurmoldina er hætt við að plönturnar nái ekki fótfestu þar sem þær þola illa sterka mold á spírunartímabilinu, en um leið og því lýkur og rótarmyndun byrjar þurfa þær á meiri næringu að halda en finnst í sáðmoldinni. Þegar fræin eru sett niður er best að setja ekki of þétt lag þannig að þau komist öll á legg og séu ekki að berjast um birtuna og næringuna, en það leiðir af sér veikari plöntur. Kryddjurtirnar okkar eiga helst að vera stórar og sterkar til að þær séu fyrirhafnarinnar virði.
Næsta skref er þá að vökva varlega yfir og passa að fræin haldist á sínum stað. Þá er gott að leggja dagblað yfir pottinn til að viðhalda rakastigi þar til fræin eru búin að spíra, en það tekur sirka 1-2 vikur. Passa þarf vel upp á það að moldin þorni alls ekki á spírunartímabilinu og best er að úða bara duglega yfir á hverjum degi eða leggja pottinn í bakka fullan af vatni og leyfa moldinni að drekka í sig vökvann. Þegar spírur eru farnar að stingast upp úr moldinni er óhætt að taka dagblöðin af og dást að vextinum. Hér eftir er það bara spurning um að passa uppá vökvun, en flestar kryddjurtir vilja helst ekki þorna.
Þegar inniræktun er annars vegar er hægt að byrja um leið og næg birta er fyrir hendi, eða í kringum mars. Það er þó blessunarlega hægt að rækta alllt árið um kring sé heimilið búið einum lampa eða svo með gróðurperu í. Ef ætlunin er að rækta kryddjurtir utandyra getur þó verið sniðugt að byrja á því að forrækta plönturnar inni, þannig að þú getir nýtt þær til dásamlegrar matseldar sem fyrst.
Trjákenndar kryddjurtir á borð við rósmarín, blóðberg, oregano og fleira duga allt sumarið og jafnvel lengur en þegar kemur að þeim kryddjurtum sem eru aðallega blaðvöxtur, svo sem kóríander, basil og tarragon, er best að sá reglulega fyrir þar sem þær klárast oft mjög fljótt. Um leið og hlýna tekur er svo hægt að lóðsa jurtirnar út í beð, standi það til. Í slíkum tilfellum þykir gott að venja þær aðeins við og styrkja áður en þær eru settar endanlega niður, með því að viðra þær úti yfir daginn í nokkra daga en leyfa þeim að sofa inni að nóttu til. Ekki er verra að þekja þær með akrýldúk fyrst um sinn eða þegar von er á kuldakasti.
Flestar kryddjurtir er svo hægt að taka inn að hausti og viðhalda í eldhúsglugganum. Það er gert með svipuðu móti og þegar þær eru settar út á vorin, með því að venja þær smám saman við. Þá eru þær settar í pott, hafi þær verið í matjurtabeði, og passað að ræturnar hafi nægt pláss. Potturinn er svo tekinn inn yfir nóttina en leyft að standa úti yfir daginn í eins og eina eða tvær vikur.
Nú ættu allir að vera komnir með græna fingur af þessari lesningu og ekki seinna vænna en að hefjast handa við að rækta sinn eiginn kryddjurtagarð. Garðheimar selja mikið úrval af kryddplöntum í litlum pottum svo ekki láta hugfallast þótt þú hafir ekki sáð fyrir plöntunum snemma í vor. Skelltu þér á nokkrar plöntur og settu þær saman í stóran pott og njóttu fersks krydds í allt sumar.