Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Varúð! Mesta ferðahelgi landsins!

$
0
0

Stór ferðahelgi fram undan, sagði einhver í útvarpinu í dag og merkilegt nokk þá tengi ég instantlí ferðahelgi við útihátíð.

Það fór um mig hrollur minnug þess að ég fór einu sinni á útihátíð í Þórsmörk.

Þegar ég var unglingur og ríflega lengur en það, þá hafði ég ekkert í kollinum.

Ég gekk á impúlsum og það eina sem komst að hjá mér var að fá að ráða mér sjálf, en foreldrar mínir voru mér ósammála.

Beisiklí allir fullorðnir í kringum mig höfðu húrrað sig saman um að koma í veg fyrir að ég gæti svalað mínum óslökkvandi lífsþorsta, ég var tryllt úr óþróa.

Draumar mínir voru auðvitað metnaðarfullir eins og gefur að skilja, ég átti tvo.

Þeir gengu út á að fá að koma og fara eins og ég vildi og komast á útihátíð.

Hugsið ykkur frelsið, vera bara í tjaldi upp í sveit með vinkonunum þar sem við gætum gellað yfir okkur.

Vinkonurnar fóru ár eftir ár á útihátíðir. Ég sat heima.

Ég var fyrsti unglingur foreldra minna og þau tóku hlutverk sitt alvarlega.

17 ára gömul átti ég samningaviðræður við foreldra og aðra sem að mér stóðu (SALT-viðræður hvað?) og viti menn, ég kríaði út leyfi að fara á útihátíð í Þórsmörk.

Ég var svo hamingjusöm og ó svo spennt að allur júlímánuður fór í undirbúning.

Þetta var á hárkollutímabilinu, ég setti kolluna á hárgreiðslustofu. Tékk. Ætlaði ekki að láta hanka mig á hárinu.

Ég dressaði mig upp … Keypti mér djammföt, hefði frekar fengið drep í alla útlimi en að klæða mig í úlpu eða eitthvað álíka plebbalegt.

Enívei …

Kótilettur voru steiktar, brauð smurt og kríað út áfengi með þar til bærum ráðum.

Við fórum á fimmtudegi. Meira djöfuls fíflið sem ég var.

Í rútunni, sem var að springa úr hormónatryllingi, hófum við útihátíðina og já, það þýðir að áfengi kom við sögu og hárkollurnar sveifluðust á höfði okkar, hvítur sanseraður varalitur lýsti upp andlitið og gerviaugnhárin voru kirfilega ásett til að þola fjögurra daga álag.

Við komum í Þórsmörk, einhver tjaldaði og svo kom kvöld og ég sá ekki handa minna skil, það var kalt og ég þvældist um kjarr og svona og mér fannst þetta vera lífið.

Svo vaknaði ég ein í tjaldinu, mér var svo ískalt að ég gat ekki hreyft mig.

Óbragðið í munninum var rammur andskoti og þegar ég sneri höfðinu sá ég fljóta fram hjá mér samloku eða tvær, kótilettur og klósettpappír svo ekki sé nú minnst á kremkexið frá Frón.

Þarna flaut bara innihald malsins við andlitið á mér, eins og endur á tjörn í góðum fíling.

Vitið þið hvað tjald getur verið klístrað? – Ég hentist út til að æla.

Það höfðu verið smá skúrir svona um nóttina, ég gleymdi að reikna með veðráttunni.

Ég stóð og horfði yfir vígvöllinn, fólk lá þarna eins og hráviði, allt sofandi offkors, ég var í sjúskaðra lagi.

Gerviaugnhárin á öðru auga höfðu séð ástæðu til að að flytja sig um set og sat nú á kinninni á mér. Ég var droppdeddgjordjius.

Ég hafði tapað húmornum, lífsþorstanum og ég tók af sjálfri mér heilagt loforð.

Héðan í frá yrði ég bindindismaður sem ferðaðist eingöngu um í flugvélum og svæfi á hótelum.

Ég hafði svo sterka heimþrá að ég grét.

Ég skildi hafurtask eftir, fór og gerði allt vitlaust í sjúkratjaldinu og fékk far í bæinn með vegaeftirlitsmanni.

Hann stoppaði í hverjum bæ, þorpi eða vottever og fór í kaffi til fólks, ég var látin dúsa úti í bíl.

Heimkomin henti ég mér um hálsinn á ömmu minni glaðari yfir því að vera komin heim en ég var að fara af stað.

Daginn eftir frelsaðist ég svo á trúarsamkomu Hjálpræðishersins á Lækjartorgi.

Ókei, segisonna, en ég er enn staðráðin í að fara ekki rassgat.

Einkum ekki um ferðahelgar.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283