Jæja, þá er það byrjað, heimsmeistaramótið í fótbolta. Ég stillti mér upp við sjónvarpið korteri fyrir útsendingu á setningarathöfninni og horfði á klukkuna. Setningarathafnir stórleika eru ómissandi að mínu mati, mætti líklega segja að ég væri opnunarhátíðarsjúk(sökker). Enda ekki furða, hver man ekki eftir opnun ólympíuleikanna síðustu? Vá, ég held ég sé enn með gæsahúð. Opnunarhátíð HM að þessu sinni var ósköp krúttleg. Ekkert yfirdrifin, heldur bara sönn og gleðileg. Náttúru Brasilíu var hampað, fjölbreytileika mannlífsins og fótboltanum að sjálfsögðu. Pittbull, Jennifer Lopez og einhver suður-amerísk gella sáust syngja HM-lagið en ekki heyrðist mikið. Þau voru líka stödd inn í fótbolta með trilljón ljósum utan á sem opnaðist á miðjum vellinum. Litagleði og dans var það sem stendur upp úr en engu að síður einhver dapurleiki líka. Það er nefnilega alveg heljarinnar pólitík í kringum þessa fótboltaveislu heimsins. Báknið (FIFA) að baki leikunum er nefnilega angandi af spillingu þannig að fólki verður jafnvel illt. Stór hluti brasilísku þjóðarinnar er því á móti því að halda þessa keppni og mótmæli voru fyrir utan völlinn á fyrsta leik. En það er ekki til sýnis.
En burt frá allri pólitík í bili. Setjum nú bara á okkur einfeldnisgleraugun og horfum á boltann. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að fótboltinn vekur upp tilfinningar, jafnt innan sem utan vallar. Strax í fyrstu útsendingu heyrast raddir(í netheimum) sem eru orðnar þreyttar á þessum fótboltaútsendingum … HALLÓ ýtið bara á off-takkann á sjónvarpinu og farið að gera eitthvað annað. Ég á svo erfitt með að skilja hvernig fólk getur verið að ergja sig á þessu. Það er sumar og það er svo margt annað hægt að gera en að horfa á sjónvarpið. Því misjafn er smekkur manna. Fögnum því bara og förum til dæmis að taka til í geymslunni eða út að hjóla.
En ekki ég. Nei, geymslan hjá mér verður öll í drasli næsta mánuðinn eða svo og hjólið safnar kóngulóarvefjum. Leikar eru hafnir! Vandræðalega mómentið í HM-stofunni er komið í hús (vatnsglas, say no more), dómaraskandall og leikrænir falltilburðir einnig. Því fyrsti leikur HM, opnunarleikurinn svokallaði, er yfirstaðinn. Hann var á milli gestgjafanna sjálfra, Brasilíumanna og Króata, sem slógu HM-draum Íslendinga út af borðinu. Það örlaði á beiskju hjá undirritaðri við þá hugsun að þarna hefðu Íslendingar getað verið að spila opnunarleik á HM. En samt var mér líka létt. Nógu hátt er nú spennustigið. Og leikurinn var skemmtilegur. Mikil pressa er á Brössunum að standa sig, enda hálfklökkir, greyin, þegar þeir gengu út á völlinn. Króatarnir eru hins vegar bardagamenn og greinilega til í allt. Og þeir spiluðu hraðan og harðan bolta. Brassarnir höktandi í upphafi og skoruðu sjálfsmark. En settu svo í næsta gír (sem þýðir meiri hraði og örari sendingar) og jöfnuðu metin.
Ég hélt eiginlega ekki með neinum í þessum leik og það er oft mest spennandi, finnst mér. Því þegar líður á leikinn fer maður óhjákvæmilega að hallast með öðru liðinu, tilfinningalega. Króatarnir náðu mér að þessu sinni með óseðjandi baráttu og krafti, en þeir voru bara einum færri ef svo má að orði komast (og það má í fótboltatali). Því dómarinn gaf Brössum vítaspyrnu sem gerði í raun út um leikinn. Að gefa vítaspyrnu þýðir að dæma á brot innan teigs (hvíta línan kringum markið) sem var ekki brot(samkvæmt reglum). Þetta er oft mjög flókið því það er mikill handagangur í öskjunni í kringum markið og menn láta sig falla í gríð og erg til þess að fá vítaspyrnu sem er oftast ávísun á mark. Það er því töluvert í húfi. Og dómarinn stóð ekki alveg sína vakt í þetta sinn, að mínu mati. Brassarnir skoruðu reyndar eitt mark enn eftir vítið og hefðu því að öllum líkindum unnið þennan leik án hennar. En það er endalaust hægt að velta sér upp úr því. En þar sem þetta er leikur, þá er dómgæslan líka hluti af leiknum, og það gleymist allt of oft. Dómarar eru nefnilega líka manneskjur og gera mistök, líkt og leikmenn. Það verður að virða og sætta sig við.
Ég ætla nú ekkert að fara að skrifa hér um hvern einasta leik á HM, enda horfi ég ekki á þá alla. Ég vel úr. Ég vil bara reyna að gefa innsýn inn í þessa skemmtun sem svona íþróttaveisla getur verið. Það er svo gott að láta kippa sér aðeins út úr raunveruleikataktinum og fá að taka þátt í mómentum í átökum með einhverjum sem hlaupa á eftir bolta. Það verður allt eitthvað svo einfalt og þægilegt. Sameiginleg fjölskyldustund. Dýrmæti í körfu gleðistundanna. Það er því alveg þess virði að gefa boltanum tækifæri í stað þess að pirra sig á honum.
Ég ætla að gefa hinum óvönu fótboltaáhorfendum nokkur atriði til leiðbeiningar í gegnum þessa pistla. Fótbolti snýst ekki bara um að elta boltann heldur um svo miklu meira. Leikmenn þurfa að hreyfa sig án boltans, plata aðra leikmenn með hreyfingum, berjast um boltann og elta mann og annan. Frasar sem má slá um sig með við áhorf eru t.d. „skipta yfir núna“ (þýðir að senda boltann af öðrum helmingi vallarins yfir á hinn helminginn til þess að gera tilraun til að dreifa mönnum hins liðsins og fá meira pláss til þess að nálgast mark andstæðingsins). „Hlauptu í gatið“ (leikmaður þarf að fara á þá staði sem opnast þegar liðsfélagi hefur dregið til sín leikmenn úr hinu liðinu.
Þangað til næst – áfram HM