Íslensk bjartsýni, dugur og þor er greinilega enn á fullu blasti í brjóstum Íslendinga, enda milljón ár frá hruni. Kommon.
Sömu hugmyndinni slær niður í koll margra samlanda minna, eins og t.d. að opna veitingastað.
Það er ekki leiðinlegt – ónei.
Annars var ég að pæla í því, ég hef ekki farið út að borða ótrúlega lengi, fyrir utan nokkrar heimsóknir á góða veitingastaði í London fyrir x-mörgum árum síðan.
Hvað gerðist eiginlega?
Hehemm, eins og ég viti ekki að ég er á örorkubótum og hrunið er enn að berja okkur, láglaunahópana og eldra fólkið, svo úr blæðir, alveg reglulega.
Ég sem var alltaf eins og grár köttur alls staðar-búfokkinghú.
Þó er ekki einungis við hrunið að sakast, peningum og mér er áskapað að skiljast og það á methraða.
Svo er ég einfaldlega orðin svo elsk að heimilinu mínu að til vandræða horfir.
Innréttingar og ég erum eitt.
En það er samt gaman að fara út að borða, kertaljós, ljúf tónlist í bakgrunni, dempuð samtöl milli fólks á næstu borðum, allt ótrúlega stemmingsaukandi en svo flutti ég út á landsbyggðina.
Ég man þá tíma þegar það voru sirka þrír veitingastaðir í Reykjavík (fyrir utan hótelin) og tilbreytingarleysið var í takt við þann raunveruleika, offkors.
Brauðbær: Hammari, Kjúklingar og Mínútusteik (hvaðan kom sú nafngift?), nammi, nammi fannst okkur, enda ekki með mjög þróaða bragðlauka og er þá ekki verið að ýkja neitt sérstaklega.
Gamli Askur: Allskyns steikur, franskar, kokteilssós og hrásalat.
Ég skil ekki af hverju enginn hefur látið svo lítið að skrifa lærða ritgerð um hrásalatið.
Hallú – hrásalat? Er salat soðið einhvers staðar?
Við gætum sagt: Þjónn ég vil fá salat dagsins og hafðu það well done.
Sælkerinn: Allt sem að ofan greinir ásamt platfrönskum. Ég man enn bragðið. Það var viðbjóður.
Kokteilsósan er dásamleg uppfinning og flókin samsetning hennar skýrir margt þegar kemur að því að skilja þá snilld sem lá að baki uppbyggingu bankakerfisins og látið það síðan falla með ótrúlegum glæsibrag, eins og við og heimurinn urðum vitni að.
Við erum greinilega útvalin af Guði þegar kemur að gáfum, verkviti og frjóum huga.
Halló! Miðnætursól hvað?
Ég má ekki gleyma Umfó. Ésús minn, kjamminn með músinni. Köldu kótiletturnar með raspinu. Vont, vont, vont nema þegar við höfðum drukkið vel yfir hættumörk.
Í norðangarra um miðjar nætur stóðu íslensk ungmenni við lúguna á Umferðamiðstöðinni, uppkrulluð af kulda, undirrituð með frosin læri og bókaða blöðrubólgu á mánudeginum, og úðuðum í okkur torfbæjarskyndibita, þjóðlegri en flaggið og fjallkonan til samans.
Áningarstaður á leið heim frá Tjarnarbúð eða Glaumbæ, allir hálf sjúskaðir enda gera afmynduð og frosin andlit engin kraftaverk fyrir yndisþokkann, angandi af svörtum rússa eða brennivíni í kók.
Ó þú ljúfa fortíð. Eða þannig. Maður gerir það besta úr efniviðnum hverju sinni.
Og við komust flest til manns og rúmlega það, eða?
Nú þarf ég að fara asnarnir ykkar á bjargbrúninni.
Ég ætla að slást við hundinn minn um harðfiskafganga.
Þíjú……