Evu Hauksdóttir skrifar grein á vef Kvennablaðsins þar sem hún fjallar um slæma upplifun hennar við kaup sín á grænmeti en þar lýsir hún því að hafa keypt ónýta tómata sem er að sjálfsögðu afleitt. Undirritaður fagnar allri umræðu um íslenskt grænmeti en vill bregðast við nokkrum atriðum sem fram koma hjá Evu og auðvitað er alltaf hægt að gera betur.
1. Tómatar hér á landi eru tíndir rauðir þ.e. full þroskaðir. Það er gert til þess að sætleiki sé komin fram í afurðinni áður en hún fer á markað og neytandinn kaupir vöruna. Ef tómatar eru tíndir hálf grænir/rauðir kemur það niður á bragðinu. Vegna þess að framleiðslan hér á landi er í nánasta umhverfi við megin markaði afurðanna er þetta hægt.
2. Tíminn frá því að tómatar eru tíndir hér á landi og þeir hafna í smásöluverslunum er oftast ekki lengir en 18-36 klukkutímar enda um ferskvöru að ræða. Innfluttir tómatar þurfa hins vegar 4-5 daga í skipi auk tímans frá tínslu og pökkun.
3. Líftími tómata er 20-25 dagar eftir að þeir eru tíndir við kjör aðstæður. Kjörhiti tómata er 10-12 gráður.
4. Ekki eru notuð varnar- eða rotvarnarefni við framleiðslu á tómötum. Einungis er notast við lífrænar varnir gegn skaðdýrum þ.e. „vinsamleg“ dýr eru notuð til þess að vinna á skaðdýrum.
5. Frá því að tómatar eru afhendir frá framleiðanda til smásöluaðila er ábyrgðin fyrst og síðast smásöluverslana. Eins og Eva bendir réttilega á þá eru það starfsmenn verslananna sem eiga að fylgjast með grænmetinu og taka frá það sem er farið að láta á sjá. Þetta atriði er ítrekað af framleiðendum þar sem um gæðamál neytenda er að ræða. Enginn kaupir „dautt“ salat!
6. Það er því mjög mikilvægt að allir aðilar í keðjunni, framleiðandi, dreifingaraðili og smásalan tryggi að aðstæður séu sem bestar. Bílarnir sem sækja afurðirnar eru t.d. kældir til þess að halda réttu hitastigi.
7. Varðandi „Best-fyrir“ merkingar þá er sá hængur á að ef einn aðili í ofan nefndri keðju bregst rangt við þá styttist þessi tími og ekki er hægt að bera ábyrgð á að uppgefinn tími standist.
8. Varðandi gulræturnar sem Eva nefnir þá eru þær innfluttar og hafa greinilega lent í ýmsu!
Eftirlit neytenda
Ég tek fyllilega undir með Evu að það er ekki ásættanlegt að lenda í að kaupa ónýta vöru og því mikilvægt að halda uppi þessari umræðu. Ráð mín eru ávallt þau sömu. Hafa samband við verslunina og benda þeim á að varan sé ónýt. Ég hef þann sið, þegar ég kem í græmetisdeildir verslana, að ef ég sé eitthvað athugavert t.d. að salat sé „dautt“, rangar merkingar eða hvað annað að tala við þann aðila sem ber ábyrgð á deildinni. Þetta er í raun einföld hagfærði. Ef ástand grænmetis er slæmt minnkar salan verulega!
Aðeins of djúpt
Eva segir í grein sinni:
„Þegar ég tala um grænmetismarkaðinn á Íslandi sem skipulagða glæpastarfsemi er alltaf einhver sem heldur að ég sé að fara með gamanmál. En mér er fúlasta alvara. Á Íslandi getur maður reiknað með að grænmeti sé farið að skemmast 2-3 dögum eftir að maður kaupir það ef það er þá ekki ónýtt í búðinni“
Það er fulldjúpt tekið í árinni að saka fólk um „skipulagða glæpastarfssemi“ varðandi grænmetisframleiðslu hér á landi. Ég get fullvissað Evu um að mikil alúð er lögð í ræktun íslensks grænmetis. Framleiðendur grænmetis eru að innleiða notkun gæðahandbókar við sína framleiðslu til þess að tryggja neytendum að við hana sé farið eftir ákveðnum verkferlum m.a. að tryggja meðhöndlun vörunnar áður en hún fer á markað.
Einnig verð ég að gera athugasemd við þá staðhæfingu að á Íslandi „. . . getur maður reiknað með að grænmeti sé farið að skemmast 2-3 dögum . . .“ Það er beinlínis rangt. Ég hef lýst líftíma tómata og svipað gildir fyrir allt annað grænmeti. Ef það er rangt meðhöndlað bitnar það á gæðum þess. Sjálf nefnir Eva reyndar í grein sinni og fullyrðir að líftíminn sé lengri en 2-3 dagar og rétt að leggja mikla áherslu á að engin efni eru notuð í framleiðslunni hvorki varnarefni eða rotvarnarefni. Framleiðslan er laus við slíkt og hefur verið svo í áratug eða lengur.
Sjálfsagður réttur neytandans
Ég tek einnig ég undir með Evu að neytendur eiga ekki að sætta sig við ónýta vöru. Það á að kvarta og byrja t.d. í versluninni en einnig er ég ávallt reiðubúinn að taka á móti samtölum til þess að ræða þessi mál.
Að nota samfélagsmiðla og fara rétt með
Ég vara hins vegar við að setja á samfélagsmiðlana slík mál fyrr en búið er að sannreyna hvert vandamálið er og hvar orsökin liggur. Ef frásögnin sem verið er að koma til annarra neytenda er röng getur hlotist af mikill og alvarlegur skaði bæði fjárhagslegur sem og ímyndarlega séð.
Fyrir rúmu ári síðan deildi aðili á Facebook þeirri „uppgötvun“ sinni að framleiðendur grænmetis og kjöts á Íslandi væru að svindla á neytendum. Hann hafði verslað og vigtað þessar vöru og komist að því að verið væri að svindla á vigt vörunnar. Þessari „uppgötvun“ var deilt 1700 sinnum á FB (prófið að margfalda með 300 vinum!). Tveimur dögum síðar barst afsökunarbeiðni frá þessum aðila sem upplýsti að vigtin hans hefði verið biluð! Þessu var aðeins deilt af 17 aðilum!
Ég veit að við fyrstu deilinguna fór allt á annan endann innan grænmetisgeirans því niðurstöður gæðaeftirlits stönguðust á við „uppgötvun“ mannsins. Viðbrögðin kostuð gríðarlegan tíma og fjármagn til að sannreyna að allt væri í lagi sem svo reyndist.
Að lokum þetta!
Að lokum vil ég bjóða Evu að koma með mér í heimsókn til framleiðenda tómata, sjá hvernig menn bera sig að, skoða lífrænu varnirnar og tína síðan nokkrar tegundir tómata og gera prufu á líftíma miðað við kjörhitastig! Við getum síðan birt sameiginlega grein t.d. á vef Kvennablaðsins með niðurstöðum!
Bjarni Jónsson
Framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda