Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

7 x ávarp fjallkonunnar eða I miss Iceland

$
0
0
Anton Helgi Jónsson

Anton Helgi Jónsson

7 x ávarp fjallkonunnar eða I miss iceland

1

Það er bara óreiðufólk sem notar ekki smokk.
Það var hún amma mín vön að segja.
Bara óreiðufólk.

Við afi þinn notuðum alltaf smokk.
Það sagði hún amma mín oft og tíðum.
Alltaf smokk.

Við sýndum alltaf fyrirhyggju.
Útí skemmu.
Inní búri.
Uppá lofti.
Á morgnana í hádeginu um sólarlagsbil.
Smokk smokk smokk.

Grandvarar manneskjur notuðu smokk.
Við afi þinn notuðum alltaf smokk.
Það var hún amma mín vön að segja.

2

Það er svo mikið af hval í hafinu að hann étur allan þorskinn.
Það er svo mikið af þorski í hafinu að hann étur alla loðnuna.
Það er svo mikið af loðnu í hafinu að hún étur allt sandsíli.
Það er svo mikið af sandsíli í hafinu að það étur allan fiskifræðing.
Það er svo mikið af fiskifræðingi í hafinu að hann étur allan sægreifa.
Það er svo mikið af sægreifa í hafinu að hann étur allan íslending.
Það er svo mikið af íslendingi í hafinu að hann étur allan hvalinn.

3

Mig langar í sparnað.
Mig langar í lífeyrissjóð.
Mig langar svo mikið í lífeyrissjóð.
Ó gvuð hvað mig langar í lífeyrissjóð.

Mig vantar svo handsmíðað úr.
Mig vantar svo brekku í Ölpunum.
Mig vantar svo fótboltalið.
Mig vantar svo nýja klósettpappírinn frá Gucci.

Mig vantar svo vantar svo
vantar svo vantar svo vantar svo
vantar svo vantar svo vantar svo
vantar

4

Ég bið ekki um þakklæti
en vissulega fyllist ég stolti
yfir framlagi mínu til samfélagsins
ég finn til skyldleika með alþýðunni
hef ekkert á móti því að mínar hægðir
blandi geði við vandalausa í holræsum borgarinnar.

Öll erum við Íslendingar.

Við erum eina þjóðin í heiminum sem les Njálu á frummálinu
segir forsetinn.

Sagði forsetinn.
Fyrrverandi.

Við erum eina þjóðin í heiminum
segir forsetinn.

Við erum stolt þjóð.
Við erum dugmikil þjóð.
Við erum menntuð þjóð og stefnum alltaf hærra.
Við þurfum ekki að skeina gamalmenni eins og Taílendingar.
Við þurfum ekki að verka fisk eins og einhverjir Pólverjar.
Við látum ekki kúga okkur.
Við Íslendingar.

5

Ekki hafa þeir dauðu miklar áhyggjur
ekki kvíða þeir dauðu morgundeginum
samt eru þeir alltaf í fréttunum

en hér ligg ég
andvaka og ein
hálfsjötug óbyrja
lýðveldið Ísland
lýðskrumið Ísland
vörumerkið Ísland
ungfrú Ísland í vetrargarðinum
hver ef ekki ég er fjallkonan sjálf
hálfsjötug óbyrja með talsverðar áhyggjur.

Hvað verður um barnabörnin mín?

Heimspressan fjallar ekkert um það
bara eitthvert fólk að deyja í Bagdað.

Hvernig eiga barnabörnin mín
nokkurn tíma að geta borgað sínar stöðumælasektir?
Ekkert fjallar heimspressan um það.

Hvar eru meðulin mín?
Hvar eru náðarmeðulin mín?
Núna eru liðnir fjórir dagar
síðan ég fékk að heyra í hagfræðingi
ég veit ekki hvort ég þoli þetta ástand mikið lengur.

6

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Það er gífurlega mikilvægt að reiði almennings fái útrás.

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Enginn mannlegur máttur bætir krónuna en réttlætið sigrar.

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Þjóðin fær kost á því að koma með beinum hætti að refsingum.

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Líkt og fyrrum verður eiginkonum þeirra gert skylt að bera auðkenni.

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Allar bænaskrár fara til Franeks landstjóra og jafnvel beint til Evu sjálfrar.

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Guð blessar Ísland og refsar hann refsar hann refsar hann refsar og refsar og refsar.

7

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum á blogginu
gekk kona frá Grenivík niður Strikið á fimmtudaginn
núna á fimmtudaginn
niður Strikið
í mesta sakleysi

þá glotti danskur kaupmaður!

Það glotti danskur kaupmaður:
Það hata allir Íslendinga.

Það hata allir Íslendinga.
Það grætur enginn Íslending
yst á ránar slóðum.

Yst á ránar slóðum er sumarnóttin hörð.
Yst á ránar slóðum er lengi vakað frameftir.
Yst á ránar slóðum finnst öllum erfitt að lifa daginn eftir.

Jafnvel í hefðbundnu kaffisamsæti okkar framsóknarmanna
hafa silfurskeiðarnar bauga undir augum.

Ég lenti bara í því að vera í flokki.
Ég lenti bara í því að segja já og amen.
Ég lenti bara í því að eiga frændur og vini.
Ég lenti bara í því að gera tæknileg mistök.

Hvar ertu Hekla?
Það vantar svo samúð.
Það vantar svo samband.
Það vantar svo samtaka þjóð.

Nú væri gott að fá eldgos
vaknaðu vinan
drífðu þig Hekla að gjósa.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283