Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ég vil ekkert kvenréttindi ég vil jafnrétti

$
0
0

Ástbjört Viðja Harðardóttir er nemandi í 9. bekk í Stóru-Vogaskóla. Kvennablaðið birtir með ánægju ritgerð hennar um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir

Bríet Bjarnhéðinsdóttir, var ein mikilvægasta konan í sögu Íslands, stofnaði Kvenréttindafélagið á Íslandi og var hörkukona. Hún fæddist 1856, lifði í 84 ár og dó árið 1940. Bríet ólst upp á Norðurlandi, nánar tiltekið á Böðvarshólum í Vestur-Húnavatnssýslu. Hún fór í kvennaskólann á Laugalandi þegar hún var 24 ára gömul, útskrifaðist síðan úr þeim skóla og sneri sér síðan að barna- og unglingakennslu.

Þegar Bríet var aðeins 16 ára skrifaði hún grein sem hún birti ekki fyrr en 13 árum seinna þegar hún var rétt tæplega þrítug, 29 ára að aldri í blaðinu ,,Fjallakonan“ undir dulnefninu ,,Æsa“.

Greinin kom út í tveimur hlutum, fyrst 5. júní 1885 og síðan 22. júní á sama ári. Greinin heitir „Nokkur orð um menntun og réttindi kvenna (Eptir unga stúlku í Reykjavík) „Allstaðar er sá nýtur, sem nokkuð kann““ og markaði í raun upphaf kvenbaráttu á Íslandi. Þetta var fyrsta opinbera baráttugreinin fyrir íslenska kvenmenn.

Tveimur árum seinna fluttist Bríet til Reykjavíkur og hélt fyrirlestur um hagi og réttindi kvenna. Sá fyrirlestur var haldinn í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík 30. desember árið 1887 og kom seinna út á prenti.

Ári síðar giftist Bríet Valdimari Ásmundssyni og eignaðist með honum tvö börn, Laufey og Héðin, en Valdimar lést skyndilega árið 1902.  Árið 1895 gaf Bríet út „Kvennablaðið“ og var ritstjóri þess alveg að árinu 1926 svo á milli 1898 og 1903 gaf hún út „Barnablaðið“.

Bríet fór síðan í ferðalag um Danmörku, Noreg og Svíþjóð og þá komst hún í kynni við kvenréttindafrömuði, og í gegnum þá frétti Carrie Chapman Catt, sem stofnaði Alþjóðakosningaréttarsamtökin af Bríeti og þær fóru að skrifast á.
Árið 1906 bauð Cat, Bríeti að koma á þing samtakanna í Kaupmannahöfn þótt að engin samtök væru í gangi á Íslandi.

Mér persónulega finnst kvennabaráttan á Íslandi vera orðin of ýkt og öfgakennd. Mér finnst framtakið hennar Bríetar voðalega frábært og flott, ég er mjög þakklát fyrir að hún hafi komið svona fram og komið af stað þessari byltingu en mér finnst að nú ættu kvenmenn að slaka á.

Ef að þú ert að ráða fólk í vinnu sem þarfnast styrks og úthalds og fyrir framan þig stendur stæltur karlmaður og smávaxin kona, þá auðvitað ræður þú manninn í þá vinnu ef þú heldur að hann muni standa sig betur í henni. Ekki það að það sé verið að neita kvenmönnum, heldur einfaldlega að finna fólk með betri eiginleika í starfið. Aftur á móti myndir þú frekar velja smávaxna konu frekar en stæltan karlmann í vinnu sem þarfnast liðleika og því að hafa vald á fíngerðri vinnu vegna þess að hún myndi líklega standa sig betur í því frekar en karlinn.

Mér finnst öfgakennt þegar konur eru að kvarta undan því að það sé verið að gera konur of kynferðislegar í auglýsingum, það eru auðvitað mörk en mér finnst of mikið að banna bera leggi í ilmvatnsauglýsingum. Við konurnar eigum að gera nákvæmlegu sömu hluti og karlmenn, láta þá stilla sér upp eins og við viljum, til að selja ákveðnar vörur. Þetta er alveg eins og ef við myndum banna að sýna barnarassa í þvottaduftsauglýsingum.

Svo er líka það að þegar kona segist ekki ætla að gera eitthvað vegna þess að þetta er „karlmannsverk“ en ef að karlmaður myndi sleppa einhverju og kalla það „kvenmannsverk“ þá yrði allt brjálað og grey maðurinn húðflettur.

En eins og með fötin að gera, karlmenn mega klæðast hverju sem er og jafnvel ekki neinu og það er allt í lagi, en það er stranglega bannað fyrir konur að klæðast hverju sem er. Hvað ef að konu langar til þess að ganga í jakkafötum eða stuttu pilsi, stórri skyrtu eða litlum topp ? Mér finnst klæðnaður annarra ekki eiga að hafa svona mikil áhrif á aðra og það að fólk kenni fórnarlömbum um vegna þess hvernig „þau voru klædd“ gerir mig svo reiða af því klæðnaður hennar kemur þér ekkert við og hún hefur fullan rétt til þess að klæðast hverju sem hún vill.

Þótt að manneskja standi nakin fyrir framan þig þá hefur þú ekki leyfi fyrr en hún segir já. Svo er líka fáránlegt að ef að kona segir nei þá er hún álitin tík en ef hún segir já þá er hún álitin of auðveld í augum stelpna.  Mig langar að geta verið jafn frjáls varðandi klæðnað og kynlíf og karlmenn eru.

Málið er aðallega bara það, að mér finnst konur og karlar jöfn að mestu leyti og mér finnst óþarfi að gera svona rosalegt mál út úr öllu þessu í dag, og allt í lagi að taka smá gríni. Það eru nokkrar félagslegar aðstæður sem mig langar þó að bæta eins og ég fjallaði um hérna uppi, bæði með karlmenn og kvenmenn.

Við getum öll bætt okkur og lært að bera meiri virðingu fyrir hvort öðru :) Karlar og kvenmenn eru ekki eins í heildina séð en hafa svipaðar þarfir og drauma – þó ekki eins.

Við erum jafn breytileg og við erum mörg og ég vil ekkert KVENréttindi, ég vil JAFNrétti.

Ástbjört Viðja Harðardóttir
1999 – 9.bekkur í Stóru-Vogaskóla.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283