Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Öruggur akstur og að vera fyrirmynd í umferðinni

$
0
0

Við erum margir Reykvíkingar sem við hvert tækifæri sem gefst, smölum fjölskyldunni upp í bíl og yfirgefum borgina. Sumir í bústað, aðrir í fellihýsi og þeir allra fátækustu nota enn tjöld. Ekki það að það sé neitt að því en maður sem hefur ekki efni á að sofa betur en í tjaldi hefur varla efni á því að ferðast á Íslandi. Sums staðar kostar flatkökusneið 600 krónur og kökusneið færðu aðeins á afborgunum.

Tilfinningin sem maður fær þegar maður kemur út á land er frelsandi. Manni líður eins og maður sé nýstiginn út úr svínastíu um leið og Reykjavík hverfur í baksýnisspeglinum. Sáttur við guð og menn keyri ég þjóðveginn undir hámarkshraða. Því þetta er jú eingöngu mesti hraði sem vegurinn leyfir. Eðlilegt er að vera vel undir. Eftir því sem fleiri bílar safnast fyrir aftan mig fæ ég meiri og ríkari ábyrgðartilfinningu. Eins og ég beri nú ábyrgð á þessari bílalest sem ég skapa með öruggum akstri mínum og það í bland við víðáttuna og fagurt landslagið er með betri tilfinningum sem ég þekki.

Ég keyri aldrei hraðar en á 80. Eitthvað hraðar en það og mér finnst ég missa allt vald á bifreiðinni. Þegar ég kem í beygjur eða finnst kind vera óútreiknanleg í vegkantinum þá lækka ég hraðann í samræmi við það. Stundum lækka ég hraðann eingöngu til að athuga hversu vel ökumaðurinn fyrir aftan mig er að fylgjast með. Mönnum hættir nefnilega til að missa athygli ef þeir eru lengi fastir fyrir aftan sama bílinn. Því brýt ég aksturinn upp með því að rokka upp og niður í hraða. Halda mönnum á tánum segi ég alltaf.

Glannaskapur er því miður allt of algengur og hann drepur. Menn eru takandi fram úr bílum, keyrandi allt of hratt og virða ekki nauðsynlegt bil milli bifreiða. Ef ekki er hægt að lenda lítilli farþegaflugvél á milli tveggja bíla þá getur maður engum kennt um nema sjálfum sér ef af aftanákeyrslu verður.

Auðvelt er að sjá út hver er góður ökumaður og hver ekki. Ef menn eru með Bylgjulímmiða í afturglugganum þá er nokkuð pottþétt að viðkomandi sé góður ökumaður. Traust fólk hlustar á Bylgjuna. Einnig veit maður að ef ökumaður er með hatt við stýrið þá er vanur maður á ferð. En ef ökumaður virðist ungur eða syngur með útvarpinu þá er vissara að vera hvergi nálægt. Allt ungt fólk er tímasprengja í umferðinni.

Það er skylda hvers ábyrgs ökumanns að draga úr áhættuhegðun annarra ökumanna með öllum ráðum. Til þess eru ýmsar leiðir. Draga á eftir sér tjaldvagn eða fellihýsi er góð leið. Sífellt fleiri ökumenn velja að vera einhvers konar hraðahindrun á hjólum og stuðla þannig að betri umferð og draga úr hraða. Afar ánægjulegt er að sjá kannski tvo slíka ökumenn fremsta með fjölda bíla fyrir aftan sig. Þar verða engin slys. Hægt er að keyra skrykkjótt og draga þannig úr vilja ökumanna til að taka fram úr þér og stofna öllum í lífshættu. Þeir halda vonandi að þú sért drukkinn og hafa sig hæga. Annars virkar líka vel að hleypa aldrei bíl sem er í framúrakstri aftur inn á akreinina. Það kennir þeim að þessi glannahegðun sé óviðunandi og ber að láta af henni.

Markmið okkar allra hlýtur að vera það sama. Að komast örugg á áfangastað og ekki deyja í bifreiðinni. Þótt maður komi kannski klukkutíma eða tveimur of seint skiptir það engu máli og mikið betra hlutskipti en að brenna inni í bílflaki af því maður fór yfir hámarkshraðann. Sem betur fer eru þarna úti ökumenn eins og ég og vonandi þú sem leiðbeina vitleysingunum þarna úti með öruggu aksturslagi og eru góð fyrirmynd.

Keyrum varlega í sumar. Og ef þú sérð einhvern taka fram úr á þjóðveginum, hringdu þá í lögregluna og tilkynntu brjálæðinginn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283