Sumarið er tíminn segir einhvers staðar. Sérstaklega finnst mér það eiga við þegar hugsað er til barnæskunnar. Sumrin mín einkenndust af rútuferðum, hvolpalykt, berbakt reiðferðum, kleinunum hennar ömmu, kínaskóm, hlátri, heyskap, franskbrauði með rabarbarasultu, steinastökki í fjörunni, ferðum í vitann með afa, hamagangi í hlöðunni og svo mörgu fleira.
Sumarið er dýrmætur tími, sérstaklega á Íslandi, með sína birtu og liti sem gleypa grámyglu haustsins og nísting vetrarins. Þessi dýrmæti tími glatast hins vegar oft í gin vonbrigða. Þá aðallega vonbrigða með veðrið, sem lætur illa að stjórn. Veðrið kristallast enn betur í íslensku þjóðarsálinni á sumrin en veturna. Því væntingarnar eru miklar og oft algerlega út úr kortinu. Hugurinn heypur með okkur í ógöngur og skemmir í raun þessa árstíð.
Því segi ég, reynum að vera bara glöð með hverja sólarglætu þótt rigningin vilji oft fá að vera með. Tökum jákvæða manninn á þetta og kyngjum veðrinu eins og gamalli pylsu eftir sundferð, hún mætti alveg vera betri en stemningin er eitthvað sem hún getur ekki skemmt þrátt fyrir vonbrigðin með bragðið af henni.
Færum sumarið inn í huga okkar. Tilraun til þess kemur fram í eftirfarandi tillögu minni. Förum út og látum eins og tíminn sé ekki til. Tíminn sem öllu stjórnar verður nefnilega hálfafstæður á sumrin. Með birtunni hverfur krafan um rútínu. Krafan um að vera og gera. Kannski óraunhæf óskhyggja hjá mér en bíðið aðeins við. Tímaleysið er hægt að upplifa, ekki bara á flugvöllum (helst í útlöndum), heldur hér og nú.
Ég skora á þig, ágæti lesandi, að taka einn dag, hvort sem er frídag eða dag í sumarfríi, og taka tímaleysið alla leið. Fara út að ganga, símalaus og klukkulaus, ganga bara eitthvað út í buskann, með krökkunum þínum, hundi eða aleinn. Frelsið verður algert, því lofa ég. Umhverfið opinberast einhvern veginn í núinu.
Engar kröfur eru hér í þessari tillögu, um fjallgöngu eða langhlaup, bara um afstöðu til tímans. Þetta er hægt að framkvæma t.d. bara á rölti út í búð. Ákvörðunin um að njóta verður til inni í hausnum á þér. Prófaðu.
Frekari sönnur á hugarfarslegheit sumarsins vil ég undirstrika með eftirfarandi sögu. Ég átti einu sinni vinkonu sem hataði sumrin. Þegar árin færðust yfir hana og dýrð barnæskunnar hvarf inn í heim hins fullorðna með sínum vonbrigðum, ábyrgð, óréttlæti og sorgum, varð hugur hennar fjandsamlegur sumrinu. Hún þoldi ekki kröfurnar sem fylgdu hækkandi sól. Allt átti að vera svo frábært, allir svo glaðir með birtuna og ylinn.
En það voru einmitt þessar væntingar sem gerðu hana brjálaða. Hin bjarta sumarnótt varð hennar heitasta helvíti. Tvöfaldar myrkragardínur gerðu ekkert gagn gegn þessari uppáþrengjandi kátínu og gagnslausu hamingju. Hún reyndi í nokkuð mörg ár að vinna bara sem mest á næturnar á sumrin en ekkert gekk við að útrýma þessari árstíð. Hún kom alltaf aftur.
Angistin sem fylgdi árstíðarskiptunum hélt áfram að angra hana vinkonu mína, þrátt fyrir viðreynslu við eðlilegar upplifanir sumarsins. Aldrei leit hún hins vegar glaðan dag, nema kannski helst á dimmustu vetrarnóttum, þegar kertaljósið ruggaði hennar þjáða hjarta í einhvers konar ró.
Reyndar kom svo að því að þetta sumarhatur fékk nýtt nafn hjá vinkonu minni. Þunglyndi hét það og þunglyndi af verstu gerð. Þunglyndi sem drap gleðina áður en hún birtist, sem deyfði liti sumarsins og eyddi öllu því sem kalla má útsýni hugans.
Vinkona mín áttaði sig á því að þunglyndið hafði byrgt henni sýn í mörg ár, af sífellt meiri krafti. Hún sá hvorki né heyrði í hita sumarsins né gleði barnanna. Hjarta hennar varð blindni hugans samofið og ákvað að sökkva lengra í fylgd hans.
Saman svömluðu þau svo í myrkrinu og urruðu á sumarsins helvítis birtu.
En vinkona mín er farin að sjá til bakkans, er hætt á sundnámskeiði hjá sumarhatrinu. Og hún er farin að sjá litina, finna lyktina, upplifa gleðina. En það gerðist ekki yfir nótt. Gangan var löng, opna þurfti nokkur sár, kyngja stolti, taka ákvarðanir og halda einbeitingu, alltaf.
Sáttin við sjúkdóm sem liggur í leyni er komin en baráttan verður eilíf, það er henni ljóst. Hún er hins vegar tilbúin og situr nú í sólbaði og heyrir í vindinum í leik við vængi fuglanna, sér gleðina í brosum barnanna sinna þegar sólin kyssir þau á kollinn og bakar á þeim kinnarnar. En hún fær aldrei til baka sumrin sem hurfu í þoku þunglyndisins, dýrmæti hvers sumars er því margfaldað. Og hún veit það og við leiðumst vongóðar áfram veginn.
Sumarið er nefnilega að svo stórum hluta í huga okkar. Huganum sem öllu stjórnar, meðvitund okkar sem hvíslar í eyru okkar á hverjum degi, jákvæðum vísum og neikvæðum harmkvæðum, valkvæður kveðskapur og opinberlega á okkar ábyrgð.
Því segi ég við þig kæri lesandi: Ef einhver möguleiki er á því að njóta sumarsins af hug og hjarta, þó ekki nema eitt andartak, gríptu það og faðmaðu fast.
Gleðin er áföst sumrinu, gerum ekki lítið úr því, virðum það og umvefjum þakklæti. En látum ekki væntingar og kröfur um hið fullkomna sumarveður eða sumarfrí hrifsa burt það sem máli skiptir. En það eru andartökin dýrmætu sem geta fangað þig í gleði og tímaleysi, í leik við liti og lykt sumarsins ljúfa, ef þú leyfir því það. Njótum og verum góð hvert við annað.
Ljósmyndin Green fields of Iceland eftir Fougerouse Arnaud