Það njóta ekki allir þeirra forréttinda að eiga garð við heimilið sitt þar sem hægt er að rækta allt sem hugurinn girnist. En örvæntið eigi, því draumurinn um uppskeru þarf ekki að vera úti þótt garðurinn sé ekki til staðar. Ef svalir eru fyrir hendi er hægt að koma sér upp ansi fjölbreyttri ræktun.
Í Garðheimum er t.d. hægt að finna margar skemmtilegar nýjungar sem ætlaðar eru til svalaræktunar. Þar er hægt að verða sér úti um hinar ýmsu tegundir ræktunarkassa og kerja sem eru sérhönnuð til að auðvelda ræktun matjurtategunda sem ekki hafa verið algeng sjó á svölum hérlendis hingað til. Þá eru vatnskristallar einnig gott hjálpartæki í svalaræktun en þeir hjálpa til við að halda moldinni rakri þar sem regnvatn á ekki endilega greiða leið (þó regnleysi sé ekki beinlínis helsta áhyggjuefni okkar Íslendinga þetta sumarið). Kristöllunum er einfaldlega blandað saman við moldina og stuðla að því að plönturnar þarf sjaldnar að vökva en ella.
Salat og kryddjurtir
Salat og kryddjurtir sjást mjög víða á svölum, enda þurfa þær plöntur ekki að taka sér mikið pláss til að dafna vel. Salat og kryddjurtir má rækta í hvers kyns pottum sem hæfa hverjum svölum fyrir sig. Það má notast við svalaker, leirker eða annars konar ílát, svo lengi sem rennsli er í gegnum pottana. Gott er að miða við a.m.k. 20 cm undirlag af mold til að ekki þurfi stöðugt að vera að vökva.
Ef aðstæður leyfa er gott að forrækta salat og kryddjurtir inni á vorin til að fá uppskeru sem fyrst. Þá er best að notast við sáðbakka, hálffylla hann af sáðmold og vökva vel. Þar ofaná er fræjunum stráð og yfir þau örþunnu lagi af mold eða vikri. Loks er vatni dreypt varlega yfir og bakkinn hulinn með plasti eða dagblaði. Þá þarf að passa vel upp á rakastig moldarinnar, að hún sé alltaf rök meðan spírun á sér stað. Um leið og sést í spírur þarf að fjarlægja dagblöð eða plast.
Forræktunarferlið tekur um það bil 4 vikur en fer eftir tegund. Salatinu skal svo dreifplanta þegar komin eru 4-6 blöð. Skynsamlegast er að fara eftir leiðbeiningum á umbúðunum um hversu þétt skal setja plönturnar til að koma í veg fyrir ringulreið í pottinum, en það getur verið nokkuð mismunandi eftir stærð og eiginleikum plantnanna. Blaðsalati er almennt óhætt að strá nokkuð þétt meðan höfuðsalat þarf töluvert meira pláss. Sama ferli gildir um kryddjurtir, en einnig má sjá leiðbeiningar í grein um kryddjurtir ef meiningin er að sá beint í endanlegan pott.
Rótargrænmeti
Smágerðari tegundir rótargrænmetis, eins og radísur og parísargulrætur henta einstaklega vel til ræktunar á svölum. Þeim dugar um 20 cm djúpt moldarundirlag og geta því verið í svalakössum, pottum eða kerjum. Þeim er sáð beint út í maí, eða um leið og veður leyfir. Stærra rótargrænmeti er einnig vel hægt að rækta á svölunum fyrir þá allra hugrökkustu, en það þarf töluvert meira umfang. Gulrófur, rauðrófur og næpur þurfa allar um 40cm djúpt moldarundirlag og henta því vel saman í ræktun. Gulrófurnar þurfa þó meira ummál, eða um 30-40 cm, meðan rauðrófum og næpum dugar 15-20 cm. Hentugast er því að vera með sekki eða nokkuð myndarlegt ker fyrir þessar plöntur. Ef ætlunin er að rækta kartöflur er best að hafa þær aðskildar frá öðru grænmeti. Moldarundirlag þeirra þarf að vera um 60 cm og ummálið 25 cm.
Annað grænmeti
Í Garðheimum er hægt að finna ágætis úrval af forræktuðum grænmetisplöntum sem auðvelt er að stinga niður í ker úti á svölum. Má þar nefna vorlauk, graslauk, blómkál og spergilkál sem dæmi. Graslaukur og vorlaukur eru báðir mjög einfaldir í ræktun og eru skemmtilegir að því leyti að mjög fljótlega má fara að klippa ofan af þeim og nýta í matargerð. Þá henta ýmsar aðrar tegundir af laukum einnig prýðilega til ræktunar í pottum, t.a.m. matlaukur og rauðlaukur. Þeir eru ræktaðir frá útsæðislaukum sem stungið er niður í maí og þurfa þeir um 15-30 cm í ummál. Blómkáli og spergilkáli duga fremur grunnir pottar þar sem hvorugt hefur djúpt rótarkerfi. Umfang þeirra getur þó orðið töluvert og gott að hafa 45 cm á milli plantna. Einnig eru belgbaunir oft ræktaðar í pottum, en passa þarf að styðja vel við þær, t.a.m. með bambusstöngum.
Ræktunarskápar
Fyrir hina metnaðarfyllstu svalaræktendur er mælt með ræktunarskápum sem klæddir eru plexigleri. Í þeim myndast sömu ræktunarskilyrði og í gróðurhúsi, sem auðvelda ræktun kirsuberjatómata, papriku, chili og eggaldina, svo dæmi séu nefnd. Þeir eru einnig hentugir til að forrækta ýmsar grænmetistegundir og lauka sem síðar má setja út. Þá er um að gera að vera óhræddur við að prófa sig áfram með svalaræktunina og láta bragðlaukana leiða sig áfram.
Einn, tveir og allir út á svalir!