Kristinn Hrafnsson skrifar hér svarbréf til Árna Gunnarssonar sem svaraði fyrsta bréfi Kristins Hrafnssonar með tölvupósti í nótt sem leið. Árni birti sama bréf og hann sendi Kristni í athugasemdakerfi kvennablaðsins í dag.
Til Árna Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands
Sæll aftur Árni
Þakka þér fyrir kurteislega svarbréfið sem þú sendir mér klukkan rúmlega tvö í nótt. Leitt að þú vaktir fram á nótt við skriftir, en béfið vakti nú samt fleiri spurningar en veitti svör. Að grunni til ert þú einungis að segja mér að þið uppfyllið allar reglur um neytendavernd og séuð með skilmála svipaða þeim sem menn nota í sambærilegum rekstri í útlöndum. Þetta er ekki ólíkt afsökunum bankamanna eftir Hrun. Þær duga ekki lengur, allavega ekki mér.
Ég er ekki sérfræðingur í neytendarétti og hef einfalt viðhorf á þessu sviði; almenna skynsemi og sanngirni. Ég sé til dæmis engan mun á því að ,,skila“ flugsæti og vöru sem ég hef keypt, ef í ljós kemur að hún af einhverjum ástæðum hentar ekki. Ef ég hef ekki farið í skóna sem ég keypti og þeir eru enn í kassanm, finnst mér sjálfsagt að geta skilað þeim. Það sama fannst mér um flugsætið frá Akureyri til Reykjavíkur næsta fimmtudag. Það var og er ónotað og óskemmt. það er eiginlega ferskara en í umbúðum. Það er ekki einu sinni búið að framleiða þessa ,,vöru“. Ég var heldur ekki að biðja um endurgeiðslu, heldur að skipta henni í aðra vöru hjá ykkur. Þessi flugmiði er ekki ígildi nærbuxna sem búið er að taka upp úr pakkanum.
Eins finnst mér sjálfsögð sanngirnisrök mæla með því, að ef áföll verða til þess að ekki sé hægt að nota keypta þjónustu, sé hún endurgreidd að fullu eða að stórum hluta. Ég taldi eðlilegt að þegar drengurinn, sem átti að sitja í flugsætinu í gærkvöld, lá í staðinn í sjúkrarúmi, væri viðmótið annað en að híja á pabbann, með vísan í smáa letrið. Þar erum við ef til vill bara ósammála, en blessaður láttu það ekki halda fyrir þér vöku.
Í bréfinu þínu minnist þú á þennan samdrátt um 11% í fjölda farþega Flugfélags Íslands á milli 2012 og 2013. Þú vilt meina að þetta sé út af hækkun skatta. Þú lætur þess þó ógetið, sem ég rakst á í ársskýrslu móðurfélagsins (Icelandair Goup), að sætaframboð Flugfélagsins var á sama tíma minnkað um 13%. Ef til vill er samhengi þar á milli.
Minnir mig dálítið á söguna af kaupfélagsstjóranum sem steinhætti að panta inn gúmmístígvél og sagði að það þýddi bara ekkert að standa í þessu; ,,Þau seljast upp um leið“, sagði hann. Kaupfélagið var eina verslunin í plássinu – svona eins og þið. Þar virðast gilda önnur lögmál en þau sem þú vísar til, þ.e.a.s. um samhengi framboðs, eftirspurnar og verðlags. Hin ósýnilega hönd markaðarins klappar ekki mikið ein. Hún löðrungar bara þögulann lýðinn, þvert og yfir. Ég var að spá í að benda þér á að fá Hannes Hólmstein til að skrifa skýrslu um þetta fyrir þig, enda sjálfskipaður sérfræðingur í ósýnilegu höndinni, en mundi svo að hann hefur alltaf haft það prinsipp að vera einungis á launum hjá hinu opinbera við að dásama einkaframtakið og lasta ríkisrekstur.
Ég átti dálítið bágt með að átta mig á þessari mynd um meinta skattpíningu á innlenda flugfarþega (sem þú sendir á Kvennablaðið) enda allt þar í hagræddum hlutfallstölum og erfitt að sjá þar krónur og aura, sem ég og veskið mitt skiljum betur. Svo fattaði ég að í béfinu sem þú sendir mér í nótt fylgdi ítarleg tafla, mögulega fyrir mistök, þar sem betur mátti greina áhrifamátt meintrar skattpíningar. Þar fæ ég ekki betur séð en að Skattmann eigi 1286 krónur í verði flugsætisins. Er það aurinn sem skilur á milli feigs og ófeigs í innlendum flugrekstri?
Mest um vert þótti mér þó að sjá að 40% allra farþega ykkar eru bisnissmenn, og opinberir starfsmenn, sem borga ekki flugið úr eigin vasa. Það finnst þér lítið, en því er ég ósammála. Þetta er eiginlega stórfrétt. Þegar við bætist að skv. ársskýrslunni, fyrrnefndu, eru 10% farþega ykkar erlendir ferðamenn, liggur fyrir að aðeins helmingur þeirra sem fljúga með ykkur er íslenskt alþýðuflólk, sem greiðir fargjaldið sjálft. Um leið velti ég því fyrir mér hversu stór hluti þeirra er svo að nota þjónustu ykkar af brýnni nauðsyn m.a. til að sækja í heilbrigðiskerfið, eða aðra opinbera þjónustu, hingað suður. Mig minnir, að í umræðu um flugvöllinn í Vatnsmýrinni, hafi verið gefið í skyn að fæstir væru að ,,taka flugið“ til að ,,skemmta sér innanlands“, svo ég vísi nú í geðþekka auglýsingaherferð ykkar, heldu að fljúga nánast tilneyddir. Á eigin kostnað.
Í ársskýrslunni er reyndar undrast að einungis 10% farþeganna ykkar séu erlendir ferðamenn, í ljósi þeirrar sprengju sem hefur orðið í túrisma. Auðvitað eruð þið hissa, svona þar sem skilmálar ykkar og neytendavernd eru, að þinni sögn, í samræmi við alþjóðlega staðla. Þetta ættu því útlendingar að þekkja. Að vísu er í skýrslunni líka reynt að kenna um opinberum gjöldum. Varla eru 1286 krónurnar að flæma túristann frá því að ,,taka flugið“ með ykkur, úr því hann er tilbúinn til að borga álíka gjald fyrir kaffibolla og kökusneið í Mývatnssveit, en þar ætlaði sonur minn einmitt að vera í gærkvöld (í nokkuð ódýrari kosti) í stað þess að horfa á leikinn upp á spítala.
Hann hefur það annars ágætt og slapp ótrúlega vel frá áfallinu. Þakka þér hlý orð í hans garð. Ég kann að meta þau og veit að kveðjan var meint af heilindum, þó að ég hafi þurft að borga tólfþúsundkall fyrir hana.
Vertu nú annars ekki að vaka fram eftir til að svara þessu bréfi, Árni minn. Hugsaðu frekar um hag landsmanna sem eiga fyrirtækið þitt, því samkvæmt ársskýrslunni eiga lífeyrissjóðirnir (að meðtöldum Framtakssjóði) meirihluta í félaginu. Það má þjónusta þessa landsmenn með sanngirni og hófstillingu, í verðlagi og viðmóti. Það ætti að vera borð fyrir báru því Grúppan græddi 8,2 milljarða í fyrra, sem er 24% aukning frá árinu á undan. Lífeyrissjóðirnir fengu sitt því arðgreiðslan var upp á ríflega 2 milljarða. Hið opinberra hefur heldur ekki kvartað yfir sínum hlut og getur áfram stutt Hannes til að messa um illsku handarinnar sem fæðir hann (sem svo sannarlega er ekki ósýnileg).
Gleymdu bara ekki helmingi farþega þinna; alþýðu landsins, sem vill stundum, eða þarf, að skreppa suður, norður, vestur, austur – eða jafnvel til Eyja, án þess að vera svívirt.
Það er eitthvað til að vaka yfir, þó einmannalegt geti orðið á vaktinni.
Með kveðju,
Kristinn Hrafnsson