Samkvæmt greinargerð ríkissaksóknara um Hraunbæjarmálið gerðist lögreglan ekki sek um gáleysi við störf sín hinn 2. desember síðastliðinn þegar Sævar Rafn Jónasson var skotinn til bana af lögreglu. Að mati höfundar hefur ríkissaksóknari þó ekki fyrir því að rökstyðja þá niðurstöðu sína með fullnægjandi hætti út frá atburðum þessa kvölds. Þess í stað rekur hún atburðarás sem vissulega gefur til kynna að um stórfellt gáleysi af hendi lögreglunnar hafi verið að ræða en lýkur svo máli sínu með því að svo hafi ekki verið án þess að útskýra það mikið nánar.
Á næstu dögum mun ég fara í saumana á nokkrum atriðum úr greinargerð ríkissaksóknara og benda á það sem betur mætti fara.
Í þessum fyrsta pistli mun ég skoða hvers vegna lögreglan vissi ekki inn á hvers heimili þeir réðust með vopnavaldi. Þá mun ég skoða hvort sú staðreynd gæti mögulega falið í sér vítavert gáleysi af hendi lögreglu. Í næsta pistli mun ég snúa mér að hlutverki lásasmiðsins í Hraunbæjarmálinu og hvers vegna skýringar ríkissaksóknara duga einfaldlega ekki til þess að útiloka gáleysi af hendi lögreglunnar hvað líf hans varðar. Í síðasta pistlinum (í bili) mun ég svo fara ítarlega yfir gasárás lögreglunnar, skotárásina er olli dauða Sævars og spurningarnar sem vakna við lestur greinargerðarinnar er snúa að þeirri atburðarás. Máli mínu til stuðnings mun ég útskýra hvað felst í hugtakinu gáleysi og hvernig það gæti átt við í þessum tilfellum.
Dularfulli hermaðurinn tilkynnir skothvell
Ónafngreindur nágranni Sævars hringdi í lögregluna klukkan 02.12 að morgni 2. desember og sagðist hafa heyrt háan hvell frá íbúð Sævars Rafns. Þegar tvo lögregluþjóna ber að segist nágranninn hafa heyrt skothvell frá íbúðinni sem hann segir að tilheyri manni að nafni M. Þar á eftir hafi granninn heyrt „hnjask á gólfi“ [sic] og síðan ekki önnur hljóð en tónlist.[1] Af framangreindu má færa rök fyrir því að umræddur nágranni hafi búið í íbúð í sama stigagangi og Sævar því ólíklegt má telja að nágranninn hefði heyrt „hnjask“ á gólfi íbúðar staðsettri lengra í burtu.
Vegna þessara hljóða ályktaði nágranninn að M þessi hefði fyrirfarið sér. Máli sínu til stuðnings tekur maðurinn svo fram að hann hafi gegnt herþjónustu og fullvissar lögregluna að um skothvell hafi verið að ræða.[2] Þó kemur síðar í ljós að engu skoti hafði verið hleypt af á þessum tímapunkti.[3]
Greinargerð ríkissaksóknara tekur hvergi fram hvers vegna dularfulli hermaðurinn gaf lögreglunni upp rangt nafn á nágranna sínum né heldur hvers vegna hann ímyndaði sér skothvell heyrast frá næstu íbúð.
Lögreglan hafði ekki hugmynd um hvern var að ræða
Greinargerðin á ekki svör við því hvers vegna lögreglan kallar til sérsveit og óvarinn lásasmið til þess að ráðast vopnuð inn í íbúð í fjölbýli án þess að staðfesta hver búi í henni. Hvorki lögreglu né sérsveit datt í hug að skoða póstkassa eða dyrabjöllu í anddyrinu þar sem Sævar Rafn var skráður fyrir íbúð sinni. Ekki kom þeim heldur til hugar að láta samskiptamiðstöð fletta því upp hver var skráður fyrir íbúðinni.
Þess í stað reiðir sérsveitin sig algerlega á framburð dularfulla hermannsins. Hún lætur fletta upp röngum manni í gagnagrunni lögreglu (LÖKE). Hún bankar ítrekað á hurð Sævars. Þegar Sævar ansar ekki ályktar sérsveitin því að ályktun dularfulla hermannsins sé rétt, að um sjálfsmorð manns að nafni M hafi verið að ræða. Áður en sérsveitin hefur inngöngu vopnast hún skammbyssum og kallar til óbreyttan og óvarinn lásasmið til þess að brjótast inn í íbúð Sævars án þess þó að upplýsa hann um mögulegt hættuástand.[4]
Þegar lásasmiðurinn hafði lokið vinnu sinni reyndi sérsveitin að ráðast inn í íbúðina en þá skýtur Sævar á þá og þeir hörfa. Þar á eftir kalla sérsveitarmennirnir ítrekað á Sævar með röngu nafni. Ljóst er að þeir vissu ekki einu sinni hvaða ranga nafni bæri að kalla Sævar þar sem þeir kalla hann þremur röngum nöfnum (M1, M2 og B) þar til lásasmiðurinn leiðréttir lögregluna og segir þeim rétt nafn Sævars.[5]
Vitnisburður Lásasmiðsins (R) í greinargerð ríkissaksóknara:
Hér er Sævar nefndur G:
Lögreglan hafði því ekki hugmynd um hvaða mann var að ræða þegar þeir ráðast vopnaðir inn í íbúð Sævars. Athygli vekur að öfugt við lögregluna vissi lásasmiðurinn deili á Sævari.
Leiðrétting lásasmiðsins
Rökstuðningur ríkissaksóknara verður götóttari en svissneskur ostur eftir því sem lengra er lesið í greinargerðinni. Þar kemur fram að lásasmiðurinn tilkallaði leiðrétti lögregluna upp úr hálf fjögur og þá er lögreglu þó orðið ljóst að Sævar heitir ekki M og hafði ekki fyrirfarið sér eins og dularfulli hermaðurinn hélt fram. Hvergi er þó orðum vikið að því hvers vegna lögreglan eða sérsveitin létu hjá líða að láta fletta upp réttu nafni í LÖKE þegar þessi mistök urðu þeim ljós.
Sérsveitin aflaði sér dómsúrskurðar klukkan fjögur þessa nótt svo fá mætti símanúmer Sævars til þess að hringja í hann. Hvorki þá né nokkru sinni á þeim þremur tímum sem líða frá því að lögreglunni berst til eyrna rétt nafn Sævars þar til hann liggur í valnum dettur einum einasta lögreglumanni í hug að afla sér frekari upplýsinga um hann í LÖKE.
Ríkissaksóknari sér ekkert athugavert við það að lögreglan hafi ekki vitað deili á manninum hvers íbúð þeir reyndu að brjótast inn í. Ríkissaksóknari sér heldur ekkert athugavert við það að lögreglan hafi ekki flett upp réttum manni í LÖKE þegar þeim mátti vera ljóst að dularfulli hermaðurinn hafði gefið þeim rangar upplýsingar.
Það sem lögreglan hefði mátt vita
Greinargerðin segir frá því að hefði lögreglan flett Sævari upp í LÖKE þá hefði hún fengið þær upplýsingar að hann hafi átt við alvarleg geðræn vandamál að stríða og hefði megna óbeit á lögreglunni. Í LÖKE var einnig hægt að sjá „ætluð vopnalagabrot og hótanir af hálfu S í garð lögreglu og má ætla að lögregla hefði nálgast S með öðrum hætti en þeir gerðu ef þessar upplýsingar hefðu legið fyrir í upphafi“.[6]
Þótt það komi ekki beint fram í greinargerðinni þá hafði LÖKE einmitt upplýsingar um tilkynningar til lögreglu frá Sigríði Ósk Jónasdóttur, systur Sævars, um líflátshótanir bróður síns í garð fjölskyldu sinnar, geðlæknis síns og lögreglu. Í tilkynningum Sigríðar kom einnig fram að Sævar hefði byssu undir höndum og að hann hygðist nota hana til þess að framkvæma hótanir sínar (meira um þetta hér).
Þrátt fyrir að LÖKE innihéldi þessar upplýsingar á þeim tíma sem um ræðir heldur ríkissaksóknari því fram að þær hafi ekki verið aðgengilegar lögreglu á meðan aðgerðum hennar stóð, að lögreglunni hafi verið ómögulegt að afla þeirra.
Ríkissaksóknari sá þó ástæðu til þess að ávíta samskiptamiðstöð lögreglunnar undir rós fyrir að hafa ekki komið fyrrgreindum upplýsingum um Sævar til sérsveitarinnar.[7]
Bíddu, ha? Sérsveitin gat beðið samskiptamiðstöð um að fletta upp röngum manni en ekki hinum rétta? Höfundur skilur hvorki upp né niður í þessum málatilbúnaði.
Það verður að teljast í hæsta máta undarlegt að ábyrgðin á þessum afglöpum liggi hjá samskiptamiðstöðinni. Lögreglumennirnir á vettvangi höfðu jú alla burði til þess að athuga málið sjálfir (dyrabjallan, einhver?) og erfitt er að sjá hvernig samskiptamiðstöðinni hefði mátt vera ljóst að um rangt nafn væri að ræða.
Meint gáleysi lögreglunnar
Þess ber að geta að þegar stjórnvald gefur lögfræðilegt álit eða tekur stjórnvaldsákvörðun ber því að rökstyðja niðurstöður sínar. Rökstuðningurinn ætti að vera á þann veg að sérstökum atburði eða aðstæðum er lýst og þau lagaákvæði sem átt gætu við þann atburð eða aðstæður eru tilgreind (eða öfugt). Út frá því er síðan fengin niðurstaða um hvort lögin eigi við í hverju tilfelli fyrir sig.
Ríkissaksóknari tekur fyrsta skrefið að lagalegu áliti með því að vitna í nokkur ákvæði almennra hegningarlaga sem höfð voru til hliðsjónar við rannsókn hennar á Hraunbæjarmálinu. Þau sem við eiga hljóða svo:
132. grein
[Ef opinber starfsmaður, sem í 130. gr. eða 131. gr. getur, gætir ekki af ásetningi eða stórfelldu gáleysi lögmætra aðferða við meðferð máls eða úrlausn, handtöku, hald, leit, fangelsan eða framkvæmd refsingar, eða við beitingu annarra áþekkra úrræða, þá skal hann sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, nema brot hans varði þyngri refsingu að lögum.]
215. grein
Ef mannsbani hlýst af gáleysi annars manns, þá varðar það sektum … eða fangelsi allt að 6 árum.
Ríkissaksóknari tekur síðan annað skrefið í lagalagu áliti með samhengislausri yfirferð sinni yfir atburði þessa kvölds. Þriðja skrefið, heimfæring laganna á atburðina sem um ræðir, vantar alveg í greinargerðina. Þannig kemur t.d. hvergi fram í greinargerð ríkissaksóknara hvað felist í hugtakinu gáleysi né heldur hvernig hún kemst að þeirri niðurstöðu að lögreglan hafi ekki hegðað sér gáleysislega þessa nótt.
Hvað er gáleysi?
Skilgreiningin á gáleysi er hverjum lögfræðingi kunn en þó ekki endilega á almannavitorði. Gáleysi mætti orða sem lægra form ásetnings sem sýna þarf fram á til þess að sá brotlegi hafi svokallaða refsiábyrgð á gjörðum sínum. Gáleysi er skilgreind á lagalensku á þennan hátt:
„Það er gáleysi, ef hinn brotlegi álítur eða hefur hugboð um, að refsinæm afleiðing verknaðar kunni að koma fram (tjónsbrot)…, en hann vinnur verkið í trausti þess, að afleiðingin komi ekki fram eða að hugboðið reynist ekki rétt. Enn fremur er það gáleysi, ef hinn brotlegi, sem gegn og skynsamur maður, hefði átt að gera sér grein fyrir nefndum aðstæðum og bregðast við í samræmi við þær, en hann hefur hins vegar ekki gætt þeirrar varkárni, sem af honum mátti ætlast.“ [8]
Verklagsreglur lögreglu um beitingu skotvopna eru trúnaðarmál, því er ómögulegt að sannreyna hvað lögmætar aðferðir í skilningi 132. greinar almennra hegningarlaga eru í þessu samhengi. Hins vegar hlýtur að vanta eitthvað upp á lögmæti þeirra aðgerða að ráðast inn á heimili manna með vopnavaldi án þess að hafa fyrir því að athuga hverjir þeir eru.
Þriðja skref rökstuðningsins – Lögfræðidæmi
Tökum nú þriðja skrefið sem upp á vantar í greinargerð saksóknara, að heimfæra lögin á þennan sérstaka atburð sem um ræðir. Með því móti er nefnilega hægt að færa rök fyrir því að lögreglan hafi gerst sek um gáleysislegt brot á 132. grein og 215. grein almennra hegningarlaga (sem hér eftir verða einkenndar með táknunum a) og b)) með því að afla sér engra upplýsinga um Sævar úr LÖKE.
Ef við skiptum skilgreiningunni á gáleysi í þrjá hluta lítur (lögfræði)dæmið svona út:
1. Það er gáleysi, ef maður álítur eða hefur hugboð um, að refsinæm afleiðing verknaðar kunni að koma fram (tjónsbrot)...
a) Vanræksla þess að ganga úr skugga um hvaða fólk búi í íbúðinni sem ráðist skal inn í gæti talist ólögmætar aðferðir lögreglu í skilningi 132. greinar almennra hegningarlaga… Sérstaklega í ljósi þess að lögregla er skyldug til þess að rannsaka mál til hlítar áður en hún tekur ákvarðanir.[9]
b) Það að lögreglan ræðst aftur inn í sömu íbúð með gasflaugum og skotárás eftir að rétt nafn var komið fram án þess að kynna sér um hvaða mann var að ræða gæti fallið undir manndráp af gáleysi í skilningi 215. greinar almennra hegningarlaga.[10]
Eins og frem hefur komið er vitað að lögregla hefði farið öðruvísi að hefði hún haft vitneskju um sögu Sævars. Þannig hefði mögulega mátt koma í veg fyrir dauða Sævars með öðrum vinnubrögðum.
2. …[E]n hann vinnur verkið í trausti þess, að afleiðingin komi ekki fram eða að hugboðið reynist ekki rétt…
a) Lögreglan brýst inn til Sævars í trausti þess að dularfulli hermaðurinn hafi farið með rétt mál og því þurfi hún ekki að sinna rannsóknarskyldu sinni fyrir innrásina og athuga það sjálf.
b) Réttu nafni Sævars er ekki flett upp í gagnagrunni lögreglu eftir að það kemur fram í trausti þess að málaskrá hans skipti engu máli í sambandi við áætlanir lögreglu um að yfirbuga og afvopna Sævar með lögmætum hætti.
3. Enn fremur hefði maðurinn, sem gegn og skynsamur maður átt að gera sér grein fyrir nefndum aðstæðum og bregðast við í samræmi við þær, en hefur hins vegar ekki gætt þeirrar varkárni, sem af honum mátti ætlast.
a) Sem lögreglumenn hefðu þeir átt að gera sér grein fyrir því að þó svo að dularfulli hermaðurinn hafi sagt þeim að Sævar héti M gæti sá hinn sami haft rangt fyrir sér og um allt annan mann væri að ræða. Þá hefðu þeir getað brugðist við í samræmi við það með því að skoða dyrabjöllu Sævars, kíkja á póstkassann nú eða fletta því upp í þjóðskrá hver byggi í þessari íbúð sem varúðarráðstöfun áður en ráðist er inn í hana með byssur að vopni.
b) Sem lögreglumenn, hvað þá sérsveitarmenn, hefðu þeir mátt fletta upp réttu nafni í gagnasafni lögreglu þegar þeir fengu það upp í hendurnar frá lásasmiðnum og áður en þeir réðust í frekari valdbeitingaraðferðir. Ekki einum af þeim tugum lögregluþjóna á vettvangi virðist hafa dottið þetta í hug.
Gegn og skynsamur maður
Þess má geta að orðasambandið „gegn og skynsamur maður“ hefur einnig þýðingu í þessu samhengi. Þetta hugtak er miðjan á ákveðnum skala sem dómarar notast við þegar þeir meta ásetning brotamanna. Þá getur fólk verið yfir og undir þessu skynsemis-hugtaki. Þannig er ætlast til meiri varkárni og betri viðbrögðum af lögreglumönnum þegar kemur að innrásum inn í hús vopnaðra manna heldur en af venjulegum borgara.
Tökum annað dæmi til samanburðar: Ef lásasmiðurinn hefði ætlað að opna læsta íbúð viðskiptavinar en láðist að fullvissa sig um að íbúðin tilheyrði viðskiptavininum í raun og hinn síðarnefndi notfærði sér aðganginn til þess að ráðast með valdi á íbúa hússins þá kæmi til athugunar hjá saksóknara að ákæra lásasmiðinn fyrir þátttöku í húsbroti og líkamsárás vegna gáleysis.[11]
Ef hinn almenni borgari væri ákærður fyrir afbrot af gáleysi undir þessum kringumstæðum sem gegn og skynsamur maður, hvers vegna er þá engan rökstuðning að finna fyrir mögulegu gáleysi lögreglu í þessu tilfelli? Því hefði lögreglan aflað sér upplýsinga um hvaða mann var um að ræða hefði hún borið sig að á allt annan hátt en raun bar vitni eins og einmitt kemur fram í greinargerð ríkissaksóknara. Mögulega hefði Sævar þá ekki þurft að láta lífið í aðgerðum lögreglu þessa nótt.
Möguleikinn er því vissulega fyrir hendi að hér hafi verið um stórfellt gáleysi að ræða af hendi lögreglu í störfum sínum þessa nótt. Það er því afskaplega bagalegt að ríkissaksóknari færi engin haldbær rök fyrir því hvers vegna ekki sé um gáleysi að ræða heldur stimpli frekar allar aðgerðir lögreglu löglegar án mikilla málalenginga um hvers vegna svo sé.
Að lokum:
Hver er saga dularfulla hermannsins og af hverju heyrði hann skothvell sem enginn var? Heyrðu fleiri þennan hvell? Hvers vegna gaf dularfulli hermaðurinn lögreglunni rangt nafn á nágranna sínum? Hvers vegna hafði enginn fyrir því að kynna sér málasögu Sævars Rafns Jónassonar áður en ákveðið var að ráðast inn til hans með vopnavaldi? Hvers vegna finnst ríkissaksóknara það allt í lagi?
Ótal spurningum er enn ósvarað og æskilegt væri að ríkissaksóknari liti aftur yfir sín gögn og færi okkur sannfærandi rök fyrir því hvernig hún kemst að þeim niðurstöðum varðandi gáleysi sem fram koma í greinargerðinni góðu. Fyrr er nefnilega ekki um neinn rökstuðning að ræða.
Disclaimer: Þetta er fyrsta grein af þremur með athugasemdum höfundar um greinargerð ríkissaksóknara og hún endurspeglar einungis hugleiðingar og spurningar en ekki staðhæfingar höfundar um gáleysi lögreglu þetta kvöld.
Annað og meira um Hraunbæjarmálið:
Umfjöllun um framkvæmd rannsóknar ríkissaksóknara Hraunbæjarmálinu má finna hér.
Umfjöllun um mögulegt brot íslenskra yfirvalda á rétti Sævars Rafns til lífs má finna hér.
Umfjöllun um beiðni aðstandenda Sævars um aðgang að rannsóknargögnum um Hraunbæjarmálið og viðbrögð ríkissaksóknara við henni má svo finna hér.
Heimildir:
[1] Mál Ríkissaksóknara nr. 003-2013-34, Reykjavík, 13. júní 2014 (hér eftir nefnd Greinargerð RSS), bls. 2.
[2] Greinargerð RSS, bls. 2.
[3] Greinargerð RSS, bls. 3.
[4] Greinargerð RSS, bls. 3.
[5] Greinargerð RSS, bls. 3, 5.
[6] Greinargerð RSS, bls. 7.
[7] Greinargerð RSS, bls. 7.
[8] Jónatan Þórmundsson, Afbrot og refsiábyrgð II (n. 36), bls. 123.
[9] Eins og á við um öll stjórnvöld gildir rannsóknarregla stjórnsýslulaga:
10. gr. Rannsóknarreglan.
Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.
[10] Það er, lögreglu ber að gæta ítrustu varúðar og getur einungis löglega valdið dauða annarra þegar það er algerlega nauðsynlegt til þess að bjarga eigin lífi eða annarra (nánar um þetta síðar).
[11] Sjá 22. grein almennra hegningarlaga.
ljósmynd af Flickr eftir Nicole Aptekar