Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Rússar gripnir með puttana í stríðinu í Úkraínu

$
0
0

Ragnar Þór Pétursson skrifar.

Árásin á malasísku farþegaþotuna í Úkraínu er algjörlega ótrúleg. Það, að sama flugfélagið skuli með skömmu millibili tapa tveimur risastórum þotum fullum af fólki er stórkostlega lygilegt. Það sem síðan hefur komið í ljós varpar enn skuggalegra ljósi á málið.

Á innan við einum mánuði hafa tvær þotur verið skotnar niður yfir Úkraínu. Deilt hefur verið um ábyrgðina á því. Þó snýst deilan aðeins um það hvort uppreisnarmenn í Úkraínu hafi sjálfir skotið niður þoturnar – eða notið við það hjálpar frá Rússum. Grunur hefur farið vaxandi um að Rússar séu með auknum hætti að blanda sér beint í átökin.

Þegar í ljós kom að vélin hafði verið skotin niður tísti Alexander Borodai, „forsætisráðherra“ í aðskilnaðarríki úkraínskra uppreisnarmanna að allt benti til þess að Úkraínuher hefði skotið vélina niður. Uppreisnarmenn hefðu engin vopn sem réðu við að skjóta vél niður úr 10 kílómetra hæð.

Svo illa vildi til fyrir hann að fréttamenn frá Associated Press sáu nákvæmlega þannig vopn við bensínstöð nærri borginni Snizhne, sem er á valdi uppreisnarmanna. Og það í morgun.

Um er að ræða eldflaugar og skotpall sem ræður við að granda vélum í allt að 22 kílómetra hæð. Úkraínsk stjórnvöld segjast ennfremur hafa upplýsingar um að slík vopn hafi verið flutt yfir landamærin frá Rússlandi í gær.

Framhaldið ræðst líklega af viðbrögðum Hollendinga. Margir af hinum látnu voru frá Hollandi. Holland er stofnaðili að Nató.

Obama talaði fyrr í dag við Pútín. Miðað við fréttir af því var um málamyndasamtal að ræða þar sem Pútín kom því á framfæri að vélin hefði aldrei komið í rússneska lofthelgi – en það virðist vera Moskvulínan í málinu eins og er.

Þetta væri ekki í fyrsta skipti sem Rússar gerðust sekir um svipað. Þeir skutu niður S-Kóreska farþegaþotu í miðju kaldastríðinu vegna þess að hún hafði villst af leið.

Þá gerðist svosem ekki neitt vegna óttans við tortímingarstyrjöld ef stórveldin færu að takast á.

En sagan er löðrandi af dæmum um nákvæmlega svona atburði sem leiða af sér stórstyrjaldir. Þjóðverjar sökktu Lúsitaníu og greiddu þar með götu Bandaríkjanna inn í fyrra stríð. Sú styrjöld hófst á að róttækir þjóðernissinnar í Bosníu drápu erkihertoga (fyrir næstum nákvæmlega 100 árum). Leynilegur stuðningur serbneskra stjórnvalda við tilræðið varð til þess að styrjöld blossaði upp úr því.

Þegar fyrra stríð fór í gang hafði Evrópa verið ótrúlega friðvænleg í töluverðan tíma. Raunar svo að almenningsálitið var orðið meira en lítið brenglað og í mörgum ríkjum hlökkuðu menn til að fara í stríð og tuskast svolítið á. Jaðar Evrópu hafði þó verið blikum stráður með hruni Ottómanaveldisins.

Ástandið núna er eiginlega mjög svipað. Jaðar Evrópu logar. Nú er spurning hvort friðurinn sé í hættu.

Grein birtist fyrst á bloggi Ragnars Þórs sem finna má hér.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283