Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Um fréttaflutning af voðaverkum

$
0
0

Ragnar Þór Pétursson skrifar.

Það var vægast sagt undarleg ákvörðun af blaðamanni Vísis að birta ljósmyndir af líkum og líkamspörtum í fréttum af árásinni á malasísku flugvélina yfir Úkraínu. Þó kannski skiljanleg í ljósi þess að grafískar myndir af illa útleiknu fólki eru daglegt brauð, m.a. í fréttaflutningi af árásunum á Palestínu.

Það er ofboðslega átakanlegt að sjá ítrekað myndir og myndbönd af særðum börnum. Kannski er hægt að halda því fram að fólk hafi gott af því og það sé neyðarréttur fólks sem býr við stöðugan lífsótta og árásir að almenningur í öðrum löndum sé neyddur til að horfa upp á hið raunverulega ástand hlutanna. Að hlífa fólki við erfiðum fréttum felur á vissan hátt í sér að fólki sé hlíft við ábyrgð sinni.

Ég efast um að einhver þannig rök eigi við um dauða farþega malasísku vélarinnar. Það þarf enginn að sjá mynd af dánu ungabarni liggjandi á sólblómaakri eða af heilaslettum miðaldra konu á malbiki til að átta sig á óhugnaðinum sem fylgir því þegar flugvél er sprengd í tætlur í tíu kílómetra hæð. Hafi fólk áhuga á slíkum myndum getur það ratað á þær sjálft. Það er full ástæða til að hlífa öllum almenningi. Og það er næstum óverjandi að birta slíkar myndir þar sem börn eru á ferli.

Ég hef saknað þess að fjölmiðlar svöruðu einni spurningu um þetta hörmulega voðaverk. Hvenær dó blessað fólkið? Má reikna með því að fólk hafi lifað af sprenginguna og að það hafi haldið meðvitund allan þann tíma sem þotan hrapaði til jarðar?

Myndband er til af þotunni sem sýnir að vélin hrapaði til jarðar að stóru leyti í heilu lagi. Stélið vantaði á hana og það logaði annar hreyfillinn. Hún sundraðist ekki í tíu kílómetra hæð eins og maður hefði kannski haldið.

Raunar munu flugskeyti eins og það sem líklegast grandaði vélinni hönnuð til að springa rétt áður en þau ná skotmarkinu. Sprengjubrotum rignir yfir skotmarkið í því skyni að valda mestum skaða. Reikna má með að margir farþegar hafi látist samstundis. Eins má reikna með því að höggbylgjan og þyngdarkrafturinn hafi orðið mörgum að bana. Loks féll lofþrýstingur vélarinnar samstundis og hitastigið féll um 50 – 60°C.

Næstum öruggt er talið að við þessar aðstæður sé útilokað að halda meðvitund lengur en 30 sekúndur eða svo. Mikill ótti flýtir líklega fyrir meðvitundarleysi. Þegar þetta er tekið saman bendir allt til þess að nokkur fjöldi farþega hafi látist samstundis eða mjög stuttu eftir sprenginguna og hinir hafi misst meðvitund stuttu seinna. Enginn hafi verið með meðvitund þegar vélin skall á jörðina.

Raunar bendir ýmislegt til þess að allir hafi verið látnir þegar vélin skall til jarðar. Nákvæmlega 18 árum (upp á dag) fyrir árásina á MH17 varð sprenging í bandarískri farþegaþotu skömmu eftir flugtak frá New York. Raunar var fyrst talið að flugskeyti hefði grandað henni. Seinna kom í ljós að eldsneytistankur hafði sprungið. Þau lík sem fundust höfðu fallið í sjóinn undan strönd Bandaríkjanna. Enginn um borð hafði vatn í lungum (enginn hafði dregið andann þegar lent var í vatninu) og engu máli skipti hvar fólk sat í vélinni. Niðurstaða meinafræðirannsókna á slysinu leiddi í ljós að það skiptir engu hvar maður er staðsettur í flugvél sem springur á flugi – það deyja allir.

Líklegast er að hið sama gildi um MH17.

Birtist fyrst á bloggi Ragnars þórs 19.júlí 2014


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283