Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ferðaþjónustan er marghöfða þurs

$
0
0

Ég er að ljúka fimmtán nátta ferð um Ísland. Af þessum fimmtán næturgistingum eru tíu þeirra mannaðar útlendingum. Þetta skýrist af því að ég valdi litlar gistingar sem reknar eru að mestu af heimafólki, en samt voru tíu staðir með erlent vinnufólk.

Í viðtölum mínum við þetta erlenda, ágæta og iðjusama fólk eru aðalástæður komu þeirra hingað hrifning af landinu og, ef minnst var á, hinir ágætu húsbændur sem nær allir eru íslenskir.

Ég greip líka í samtöl við útlenda ferðamenn við morgunverðaborð, á útsýnisstöðum, í söfnum, við afþreyingu og í setustofum eftir kvöldmat, og allir voru gestir landsins hugfangnir af fegurðinni, náttúrunni, gestrisninni og umgengni við landið.

Venjulegur (framtíðar)dagur við Gullfoss.

Venjulegur (framtíðar)dagur við Gullfoss.

Við Íslendingar gerum okkur fyllilega grein fyrir hvað það er sem dregur allt þetta fólk til landsins, en á sama tíma erum við að vinna að því baki brotnu að yfirfylla landið, byggja upp eða réttara sagt brjóta niður fegurðina, búa til biðraðir, skapa örtröð og þrengsli. Við virðumst bara sjá hagnaðinn í fjöldanum en göngum statt og stöðugt á gæðin.

Útlendingar koma ekki til Íslands til að lenda í vandræðum við að leggja bílum sínum við vinsæla staði: Gullfoss, Geysi, Hakið, Seljalandsfoss, Skógarfoss, Þorvaldseyri, Skaftafell, Jökulsárlón, Dettifoss, Hljóðakletta og Skútustðargíga.

Jökulsárlón/ Ólafur Schram

Jökulsárlón/ Ólafur Schram

Og enn á að bæta í, Öræfingar hafa hækkað leyfi til bygginga gistirýmis úr 200 í 300 rúm. Fyrirhugaðar eru hótelbyggingar við Orustuhól, á Skógum, við Hnappavelli svo eitthvað sé nefnt.

Landið er að verða eins og stórborg, en það er ekki þetta sem gestirnir vilja.

Þessi iðnaður er marghöfða þurs, sveitarfélögin ráða fjölda gististaða og hótela, flugfélögin ráða flugtíðni, Easy Jet með fyrirhugaða fjölgun um 42 á hverri viku, bílaleigur setja pressu á malbik, rútufyrirtæki heimta ræsi af Vegagerðinni.  Allir að keppast, en hver í sína áttina. Einn hefur ekki vald til að hemja, annar er ekki í stöðu til að hafa áhrif, rekstrarstjórar ríkisins sjá bara tekjurnar í dag, þetta er jú þeirra valdatími, gistihúsaeigendur hafna gisti-leitendum fram að miðnætti hvert kvöld.

Þessu mætti líkja við loðnuveiðar, nema hvað loðnan er á leið í dauðann hvort sem er og um að gera að hirða sem mest. Útlendingarnir eru annað mál, þeir gætu komið á næsta ári, það þurfa ekki allir að koma á sama tíma, en þeim liggur á að sjá Ísland eins og það var, áður en það verður útjaskað, yfirfyllt og óskemmtilegt.

Langisjór/ Ólafur Schram

Langisjór/ Ólafur Schram

 

Enn innheimtum við 25% VSK af fólki en endurgreiðum hann svo í Keflavík við brottför. Ég hef ekki tíma né kunnáttu til að gera neina almennilega könnun á þessu sviði, hversu dýrmæt þessi endurgreiðsla er, hversu mikil áhrif hún hefur á þeirra innkaup á minjagripum. Þeir 60–70 manns sem ég hef gefið mig á tal við hafa gersamlega kært sig kollótta um endurgreiðslu og, ef áfram er spurt, verið því fegnir ef við gætum notað þetta fé til að koma skikki á skipulagningu, verndun og uppbyggingu innviða.

Náttúrupassinn er hugsaður til þeirra nota, en við erum með peningana nú þegar og enginn þyrfti að setja upp hlið og vörslu, hvað þá að taka niður kamra.

Það er kominn tími á umboðsmann Íslands (ferðamála, hálendisins, hagsmuna Íslendinga og umhyggju fyrir náttúruperlum).  Hann gæti stjórnað skiptingu staða á Íslandi í nokkur þjónustustig, bæði til að skýra út fyrir gestum okkar að sumt má, skal og verður að gera,  að sumir staðir þola ekki göngustíga, brýr og annan munað  heldur eiga að fá að vera þeir sjálfir.

 

Fylgist með ferðum Ólafs Schram á Facebook og fyrirtæki hans Icelandic Highlander


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283