Druslugangan verður haldin í fjórða sinn þann 26. júlí næstkomandi. Í ár er sjónum beint að dómskerfinu og þeirri staðreynd að stærsti hluti tilkynntra brota nær ekki einusinni fram ákæru heldur er látin niður falla.
Elísabet Guðrúnar og Jónsdóttir sem er 21 árs var beitt kynferðislegu ofbeldi árið 2011 og aftur árið 2013 og leitaði til lögreglu í fyrra skiptið. Hún segir farir sínar ekki sléttar af reynslu sinni við að leita réttar síns en hún birtir á Facebook síðu sinni eftirfarandi færslu og gaf Kvennablaðinu leyfi til að birta hana hér.
„Í tilefni þess að á laugardaginn 26. júlí verður haldin Drusluganga langar mig að deila reynslu minni á því að tilkynna kynferðisofbeldi.
Fyrir nokkrum árum síðan rankaði ég við mér með buxurnar niður um mig eftir heljarinnar ölteiti sem ég man lítið eftir. Ég spurðist fyrir um það hvað hefði gerst og mér var sagt að hópur fólks hefði komið að mér meðvitundarlausri og manni sem lá mér við hlið og káfaði á mínu allra heilagasta.
Ég fór til lögreglunnar skömmu síðar með það í huga að tilkynna þetta. Ég var spurð spurninga. Var ég undir áhrifum áfengis? Já. Hvernig var ég klædd? Ég var í stuttbuxum og hlýrabol.
Þá var ég sérstaklega spurð hvort ég hefði verið í sokkabuxum, eins og það væri lykilatriði.
Meira en ári seinna fékk ég bréf inn um lúguna. Í því stóð að málið hefði verið látið falla niður vegna þess að ólíklegt þótti að það yrði sakfellt. Hann sagðist víst einungis hafa strokið á mér hnéð.
Mér best af vitandi töluðu þeir ekki einu sinni við öll vitnin. Ég velti því reglulega fyrir mér hvort þeim hafi ekki fundist þetta nægilega merkilegt kynferðisofbeldi til þess að rannsaka það almennilega.
En svo hef ég heyrt margar aðrar sögur af grófara kynferðisofbeldi sem er höndlað nákvæmlega eins.
Eftir þetta talaði ég við aðila innan geðheilbrigðisgeirans. Ég var spurð hvort ég hyggðist hætta að drekka eftir þetta atvik. Nei, ég hafði ekki pælt í því neitt sérstaklega. Þá var mér tilkynnt ásakandi röddu að „flestar stelpur hætta nú að drekka eftir að hafa lent í svona löguðu.“
Ég hef ekki reynt aftur að tilkynna kynferðisofbeldi.