Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Að nota líflínu í prjóni

$
0
0

Hefur þú verið komin vel áleiðis í gataprjóni eða klukkuprjóni, til þess eins að sjá síðan villu? Ekki nóg með að þú finnir þarna villu, heldur er hún fáránlega áberandi líka!! Ég ætla ekki einu sinni að fara út í sálarástand prjónara þegar hann missir niður lykkju í svona prjóni.

Þegar verið er að prjóna gataprjón eða klukkuprjón þá getur verið algjör martröð að reyna að laga einhverja villu. Einnig getur sú staða komið upp í gataprjóni að þú hreinlega hefur ekki hugmynd um hvar þú ert stödd/staddur í munstrinu og að rekja upp virðist vera einfaldasta leiðin út úr þessu.

Að sjálfsögðu er ég með ráð við þessu. Þú einfaldlega notar líflínu – þá losnar þú við hellings stress, pirring, villur og önnur óþarfa leiðindi. Leyfðu mér að sýna þér.

Líflína er aðferð til að merkja ákveðinn stað í prjónlesinu en þangað getur þú síðan rakið upp ef þú gerir mistök eða ef þú þarft af einhverjum ástæðum að rekja upp. Hugsaðu þetta sem prjónatryggingu.

Líflína1

Notaðu garn eins og bómullargarn og þess háttar í andstæðum lit. Þú getur þess vegna notað tannþráð ef út í það er farið. Þræddu bandinu gegnum lykkjurnar á prjóninum í fyrirfram ákveðinni umferð. Gott er að gera þetta í umferð sem ekki er með neina uppslætti en er þó ekki skilyrði.

Athugaðu að þú getur notað þessa aðferð við hvaða prjón sem er, hvort sem það er gataprjón, kaðlaprjón eða klukkuprjón.

Aðalatriðið er að veita þér tilætlað öryggi. Til eru nokkrar aðferðir við að koma línunni fyrir, allt eftir því hvaða prjóna þú ert að nota.

Líflína2

Þessa aðferð getur þú alltaf notað. Þá þræðir þú nál með garninu sem þú ætlar að nota og þræðir í gegnum allar lykkjurnar. Þegar þú ert búin að fara í gegnum þær allar tekur þú nálina úr og lætur bandið bara hanga niður. Hafðu það nógu langt svo að þú kippir því ekki óvart úr.

Gættu þess að kljúfa ekki lykkjurnar á prjóninum og prjóna síðan ekki bandið með í næstu umferð.
ADDI click prjónasettið (bleika) bókstaflega gerir ráð fyrir líflínu og hefur gati haganlega verið komið fyrir til að létta þér lífið.

Líflína3

Þræddu bandið í gegnum gatið og prjónaðu næstu umferð eins og venjulega. Bandið dregst þannig með og sparar þér vinnuna við að þræða í gegnum hverja einustu lykkju.

Líflína4

Að lokum eru það KnitPro prjónarnir. Þeir eru líka með stórsniðugt gat sem hægt er að nota.

Líflína 5

Þú getur líka notað aukasnúru úr prjónasettinu. Taktu prjónendana af og settu stoppara á hvorn enda. Tengdu prjónendana á nýja snúru og haltu áfram að prjóna.

Eins skrítið og það kann að hljóma að þá get ég svarið fyrir það að mistökum fækkar við það að nota líflínu. En ef þú þarft að rekja upp þá gerir þú það með þeirri vissu að garnið mun stoppa á líflínunni. Þá er ekkert annað eftir en að taka allar lykkjurnar upp aftur og halda áfram.

Vonandi nýtist þetta ráð þér eins vel og það hefur gert það fyrir mig.

Öryggis kveðjur á línuna og MUNDU AÐ KVITTA.

Tína


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283