Fyrir ekki allt of löngu stóð ég úti í eldhúsglugga á þáverandi heimili mínu og horfði út yfir Miklubraut. Ég var með höfuðverk eftir stöðugan umferðarnið undanfarna mánuði og ég hafði eytt góðum hluta af deginum í að bölsótast yfir rykinu sem safnaðist upp um leið og maður vogaði sér að opna glugga, þrátt fyrir að búa á þriðju hæð.
Ekki nóg með að vera drepast úr langvarandi höfuðverk og pirringi heldur var líka búið að greina mig með meltingarfærasjúkdóm sem er oft kallaður í gríni „Illt-í-maganum-heilkennið“.
Þar sem ég stóð í glugganum og horfði yfir umferðina velti ég fyrir mér hvað í fjandanum ég væri að gera í bænum. Ég var heimavinnandi öryrki, að ná mér eftir andlegan sjúkdóm og komin með óskilgreindan meltingarsjúkdóm og maðurinn minn var búinn að vera atvinnulaus í þrjú ár. Hundurinn var að verða þunglyndur uppi á þriðju hæð og kötturinn var að gera mig geðveika með velvirkni vegna langvarandi inniveru.
Allt í einu fékk ég flugu í höfuðið. „Hvað með að flytja út á land?“ hugsaði ég með mér og flissaði í leiðinni af tilhugsuninni um manninn minn úti á landi sem er fæddur og uppalinn í Garðabænum.
Ég ræddi þessa hugmynd við manninn minn og jújú hann var alveg til í að fara og skoða íbúð sem ég hafði fundið til leigu hinum megin á landinu.
Íbúðinni var ekki hægt að neita, hún bauð upp á allt sem okkur hafði dreymt um og miklu meira en það. Við hugsuðum með okkur að við gætum alveg eins búið í góðri íbúð með frábærri náttúrufegurð hinum megin á landinu eins og að hanga heima hjá okkur alla daga í lítilli íbúð í Reykjavík.
Við vorum ekki búin að búa tíu daga í þorpinu þegar kallinn var kominn með vinnu sem var dásamlegt eftir þriggja ára atvinnuleysi og eftir mánuð í vinnu fékk hann verkstjórastöðu sem var alls ekki verra.
Tíkin elskaði allt frelsið sem við gátum boðið henni upp á og kötturinn réð sér ekki fyrir kæti, það gátum við vel séð í augunum á honum.
Nú erum við búin að búa í þorpinu í þrjá mánuði og við getum ekki hugsað okkur að fara til Reykjavíkur aftur.
Óskilgreindi meltingarsjúkdómurinn er horfinn eftir að áreitið minnkaði og það að vakna við fuglasöng en ekki umferðarnið er dásamlegt. Ekki skemmir svo að fjörðurinn sem við völdum okkur er einstaklega gjöfull fyrir fólk sem krefst ekki mikils.
Það er vel hægt að veiða í soðið úti á bryggju og núna í lok júlí eru fjöllin í kring að fyllast af berjum. Rabbarbari vex hér á hverju strái og fólkið í þorpinu er yndislegt.
Við vorum bæði búin að gefast upp á menntakerfinu á Íslandi en menntaskólinn hérna er með svo heillandi nám að við erum bæði á leiðinni í skóla í haust og getum ekki beðið eftir að kaupa okkur blýanta og stílabækur.
Og það besta er að nú get ég loksins gert það sem mig hefur alltaf dreymt um að gera, skrifað! Og það án stöðugrar truflunar frá umferðinni.
Ljósmyndir eftir Ara Sigvaldason. Ari er á Facebook.