Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Undir fíkjutré – saga af trú, von og kærleika

$
0
0

Anna Lára Steindal skrifar.

Anna Lára

Anna Lára

Í júlí 2002 kom Ibrahem Al Danony Mousa Faraj til Íslands með kvöldflugi frá Gautaborg. Með falsað vegabréf, aleiguna í svartri ferðatösku og dúndrandi hjartslátt fikraði hann sig í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hóf nýtt líf, í nýju landi, undir nýju nafni. Fáum dögum eftir komuna til landsins óskaði hann eftir hæli sem pólitískur flóttamaður á Íslandi.

Heimspólitík og nýsamþykkt stefna í útlendingamálum á Íslandi, sem byggðist á mjög vaxandi ótta við hryðjuverk íslamskra öfgamanna á Vesturlöndum, gerði það þó að verkum að honum var synjað um hæli og næstu sjö árin óttaðist hann á hverjum degi að sér yrði vísað brott frá Íslandi. Í hans huga jafngilti það dauða og því gerði hann allt sem í hans valdi stóð til að koma í veg fyrir slík örlög.

Það er slítandi að búa við stöðugan ótta. En Ibrahem var vanari því en margir að vera hræddur enda var hann alinn upp í Líbíu undir harðstjórn Gaddafis þar sem óttinn stjórnaði næstum öllu og öllum, óttinn við lífið og óttinn við dauðann og óttinn við næstum allt þar á milli. Svona lýsir Ibrahem uppvexti sínum undir harðstjórn:

„Kóraninn kenndi okkur að hinir saklausu hefðu ekkert að óttast. Samt vorum við alltaf hrædd. Þetta ruglaði okkur í ríminu. Sérstaklega meðan við vorum börn og áttuðum okkur ekki á því hversu óeðlilegt ástand við bjuggum við. Hvað höfðum við eiginlega gert til að uppskera slíkan ótta? Um hvað vorum við sek? Fullorðna fólkið gat ekki útskýrt þetta fyrir okkur því það var lífshættulegt að hallmæla Gaddafi og kerfinu sem hann þvingaði okkur til að búa við. Það var aldrei hægt að tala um neitt sem skipti máli því alstaðar voru eyru sem hlustuðu og leituðu að svikurum. Þú vissir aldrei hverjum þessi eyru tilheyrðu; systkinum, foreldrum, vinum, nágrönnum? Eitt það versta sem Gaddafi gerði okkur var að brjóta niður allt traust milli fólks. Þú gast engum treyst! Þess vegna var ekkert rætt opinskátt en smátt og smátt áttuðum við okkur, lásum á milli lína og lærðum að skilja betur hvers vegna orð fólks voru oft í svona hrópandi ósamræmi við raddblæ og látbragð þess sem talaði.

En þeir voru þó til sem neituðu að láta óttann stjórna sér. Sumir voru svo aðþrengdir að þeir vildu frekar týna lífinu í baráttu fyrir frelsi en lifa ófrjálsir. Pabbi hefur áreiðanlega átt í mikilli innri baráttu við sjálfan sig um hvorn pólinn hann ætti að taka, þó hann ræddi það aldrei beinlínis við mig. Innst inni brann hann alltaf af löngun til að búa við frelsi til að ráða sér sjálfur. Gera eitthvað til að uppræta óréttlætið en hann hafði fyrir stórri fjölskyldu að sjá og á endanum valdi hann öryggi okkar fram yfir drauminn um frelsi. Það er ekki fyrr en núna, þegar ég á sjálfur fjölskyldu, sem ég skil hversu óeigingjarna afstöðu hann tók.

Pabbi var ungur hermaður í her Idris konungs þegar Gaddafi framdi valdaránið. Og þó hann hafi þráð breytingar eins og þorri ungs fólks sem var innblásið af hugmyndinni um arabískan sósíalisma sem Nasser forseti Egyptalands breiddi út um alla Norður-Afríku, var hann fljótur að sjá í gengum Muammar Gaddafi. Við fyrsta örugga tækifærið skipti hann hermannabúningnum út fyrir jallabia og gerðist kennari. Fyrst í Trípólí en síðar í heimaþorpinu Ar Rabhta. Fórnaði sér á endanum fyrir afskiptaleysið, hörfaði frá Trípólí og reyndi að lifa lífi sínu fyrir utan það ástand sem ríkti í landinu.

Kannski stjórnaðist hann af minningum um sína eigin áhyggjulausu daga sem barn í Ar Rabhta á fyrstu árum konungsveldisins. Þegar fólkið í Líbíu lét sig dreyma um að byggja upp til framtíðar, stolt yfir því að búa í landinu sem fyrst Afríkulanda hlaut sjálfstæði árið 1951. Af minningunni um þá daga þegar Idris konungur hafði trú á fólkinu sínu og lagði áherslu á að allir, strákar og stelpur, konur og karlar fengju tækfæri til að mennta sig – sannfærður um að menntuðu fólki væru allir vegir færir. Allt hafði farið úrskeiðis í Líbíu og aðeins var hægt að ylja sér við minningar um betri tíð og vona það besta. „Hve lengi þurfum við að bíða?“ var spurning sem við spurðum okkur oft. „Þar til Guð bjargar okkur!“ var eina svarið sem ég man eftir að hafa fengið. „Ekkert varir að eilífu“ var eina huggununin sem okkur bauðst. Og það reyndist rétt.

Ég hef oft hugsað um það hvort það hafi verið merki um skynsemi eða heigulshátt að lúffa, neita að berjast og leggja áherslu á að koma sér og sínum í skjól, einsog pabbi gerði. Bíða. Því ekkert varir að eilfíu. Mig grunar núna að pabbi hafi hugsað sem svo að líklegast til árangurs í baráttunni gegn brjálæðinu og brjálæðingunum sem stjórnuðu Líbíu væri að hörfa, láta lítið fyrir sér fara og mennta fólk.

Er sterkasta vopnið gegn harðstjórum ekki þegar öllu er á botninn hvolft að geta hugsað sjálfstætt í samfélagi þar sem allt sem þér er kennt gegnir hlutverki í áróðri spunameistaranna? Án hugsunar, gagnrýninnar og sjálfstæðrar hugsunar var andóf ómögulegt. Framlag pabba reyndist því mikilvægara en ég áttaði mig á í fyrstu.

Íbúar í Nafusa-fjöllunum tóku ríkan þátt í byltingunni sem kennd er við arabískt vor og hrakti Gaddafi frá völdum árið 2011. Þar á meðal voru bræður mínir og fjölmargir fyrrum nemendur pabba. Sálfur þráði ég ekkert heitar en að komast til Líbíu til að taka þátt í byltingunni – geta loksins virkilega barist fyrir frjálsri Líbíu! En komst hvergi því ég átti hvorki vegabréf né önnur ferðaskilríki og þar fyrir utan á ég fjölskyldu á Íslandi sem ég þurfti að hugsa um. En sú staðreynd að þrátt fyrir allt tókst okkur giska mörgum að viðhalda sjálfstæðri og gagnrýninni hugsun nærði andófið sem gerði arabíska vorið og fall Gaddafi á endanum mögulegt.

Því miður lifði pabbi ekki nógu lengi til þess að verða vitni að sigrinum því hann lést árið 2006, fjórum árum eftir að ég flúði til Íslands.

Af hvaða ástæðum sem það annars var flutti fjölskylda mín frá Trípólí til Ar Rabhta þegar ég var sjö ára. Ég fagnaði því mjög enda naut ég miklu meira frelsis í fjöllunum en í borginni og í þorpinu okkar var ég nálægt ömmu og afa og stórfjölskyldunni. Og kannski var það einmitt þetta frelsi sem ég naut í barnæsku sem gerði það að verkum að þegar kom fram á fullorðinsár fannst mér ég vera að kafna, falla saman undan harðstjórn Gaddafis. Að fá ekki að njóta frelsis – vera sá sem ég er – kveikti í mér reiði sem ég gat ekki hamið.

Á meðan pabbi valdi að hörfa og standa af sér storminn gat ég ekki staðist að gagnrýna harðstjórann, eða kannski enn frekar það meingallaða kerfi sem hann hafði búið okkur. Slík gagnrýni var auðvitað lífshættuleg, ég vissi það svo sem og auðvitað kostaði hömluleysið mig föðurlandið því á endanum átti ég ekki annarra kosta völ en að flýja. Aleinn, með falsað vegabréf, nokkur hundruð dollara í vasanum og hyldjúpa sorg í hjartanu flúði ég Líbíu síðla vors árið 2002.“

Sem fyrr segir endaði Ibrahem á Íslandi þar sem hann bjó sem hælisleitandi þangað til hann fékk loks dvalarleyfi á Íslandi árið 2011. Árið 2012 veitti Alþingi honum ríkisfang á Íslandi.

Anna_Ibrahem

Um þessar mundir vinn ég að því að skrásetja lífssögu Ibrahems og er verkefnið í fjármögnunarferli hjá Karolina fund. Í sögunni sem skiptist í fjóra hluta verður í fyrsta hluta fjallað um líf og uppvöxt Ibrahems í skugga harðstjórnar og voðaverka Muammars Gaddafi og helstu leiðarstef í í sögu Líbíu rakin í gegnum fjölskyldusögu Faraj-fjölskyldunnar.

Í öðrum hlut er Ibrahem fylgt á flóttanum frá Líbíu til Túnis, þaðan til Ítalíu og norður alla Evrópu þangað til hann leggur fram hælisumsókn á Íslandi. Á þeirri ferð sinni öðlaðist Ibrahem innsýn í erfiða lífsbaráttu hælisleitenda sem þvælast um í leit að öryggi og skjóli.

Í þriðja hluta verður fjallað um lífið á Íslandi, saga hælismála á Íslandi verður rakin í gegnum lífssögu Ibrahems og einnig verður fjallað um aðkomu hans að uppbyggingu Íslam á Íslandi, en hann er stofnaðili og stjórnarmaður í Mennigarsetri múslima á Íslandi.

Í fjórða hluta verður sagt frá því hvernig Ibrahem vinnur nú að því að byggja sér upp tilveru og finna jafnvægi milli heimanna tveggja sem hann tilheyrir: Íslands og Líbíu.

Við Ibrahem eigum það sameiginlegt að trúa á mátt og miklvægi þess að deila sögum okkar og lífi okkar hvert með öðru. Þannig verður til samkennd, skilningur, vinátta og jafnvel kærleikur milli ólíkra einstaklinga og hópa. Þetta er okkar vopn í baráttunni fyrir betri heimi. Með því að fara inn á síðu Karolina fund má tryggja sér fyrirfram áritað eintak af sögunni og leggja þannig lóð á vogarskálarnar, eða velja annan möguleika til að styrkja verkefnið.

Það skiptir máli að þessi saga verði sögð og við erum óendanlega þakklát öllum þeim sem sjá sér fært að hjálpa okkur.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283