Ég stunda vinnu sem kallast fólksflutningar og innifelur leiðsögn. Þetta þýðir að ég sé um fólk í fríinu þeirra, allt frá morgunverði að svefntíma að kvöldi á hverjum degi. Þetta getur teygst í 14-15 klukkutíma á dag, frá viku til þriggja vikna ferða. Ég þarf vitanlega að gæta að mörgu varðandi velferð og áfallalaust ferðalag gesta minna. Ég skipulegg hverja ferð vandlega fyrirfram, oftast í samráði við gestina eða farþegana öllu heldur.
Sumir eru hreyfihamlaðir, sjónskertir eða heyrnarsljóir. Þetta þarf ég að hafa í huga, tala hátt benda lítið og koma eingöngu við á stöðum sem bjóða upp á aðgengi. Eitthvað er af lofthræddu fólki svo fuglabjörgum er slepp úr dagskránni, fá innilokunarkennd, því er sneytt hjá hellaferðum, sumir eru vatnshræddir og verða sjóveikir, jafnvel á stuttum ferðum út í Vestmannaeyjar, um Breiðafjörðinn eða út í Papey. Sjó- og vatnaferðir takmarkast því af þessu.
Á veturna verður að hugsa um draughrædda eða myrkfælna, aðrir þjást af ullarkláða vegna lopapeysna og fólk er misjafnlega kulsækið. Því verður að ljúka ferðum fyrir myrkur.
Vorin og sumrin geta gert lífið erfitt fyrir frjóofnæmi, sólarexemi og heymæði. Fullt af fólki er einfaldlega hesthrætt eða með kattarofnæmi svo huga verður að á hvaða sveitarbæjum er stoppað. Auðvitað er svo fólk sem er flughrætt og bílhrætt og keyra verður einstaklega varlega, tala nú ekki um í brattlendi eða yfir ár á hálendinu.
Mjólkuróþol er æ algengara, eins er með hveitiofnæmi eða glutenfrítt fæði en ég flokka ekki grænmetisætur undir „kvilla“, það er fólk sem hefur tamið sér sín takmörk. Veitingahús og hótel eru vel undir það búin að framreiða fyrir þá, en þá geta einstaka menn verið veikir fyrir víni eða komist seint á fætur vegna timburmanna daginn eftir.
Ég sjálfur er blessunarlega laus við ofantalið að öllu leyti nema hvað heyrnin er að gefa eftir. En það er ekki þar með sagt að ég sé alveg „kvilla-laus“. Það hrjáir mig nefnilega það sem mætti flokkast á þrjá vegu; „óþol, fælni og frelsisröskun“.
Það er laukurinn. Sama hvaða afbrigði af lauknum, í öllum regnbogans litum og lögun. Þetta kostar mig endalausar útskýringar á veitingahúsum, á hótelum og í heimahúsum.
Ég borða ca 250 daga á ári þar sem mér er þjónað til borðs og er þá sambýliskona mín ekki talin með. Þetta er semsagt utan heimilis. Ég þoli ekki lauklykt og vil kalla það „lyktarofnæmi“. Hrár eða steiktur, ég finn á svipstundu ef agnarögn af lauk hefur verið eldaður.
Þurrkaðar flögur úr poka geta valdið því að ég þoli ekki við í sama herbergi.
Ég einfaldlega þoli ekki bragð af lauk, fer endalaust í pirrurnar á mér. Tilgangurinn vefst líka fyrir mér, að hylja eðlilegt bragð af mat með einu sterku bragði!! Ég vil kalla það „bragðfælni“.
Að mínum smekk skemmir hann bragð þess sem hann er settur á, en verst er lyktin út úr fólki eftir á af hvítlauk, jafnvel fram yfir hádegi næsta dags. Ég held ég sé haldinn „andfýlu-frelsis-röskun“. Stundum finnst mér ég vera sá eini sem þjáist af þessari röskun og þarf í tíma og ótíma að skýra þennan kvilla fyrir viðkomandi. En ég lifi þó enn, og það sem meira er, allir sem þekkja mig eru enn þá á lífi.
Ég setti nýverið pistil inn á Facebókarsíðuna, Laukstríðin. Þar minntist ég á mann sem fór inn á kaffihús til að fá sér bolla af þessum eðaldrykk. Hann fékk kaffið með sykri og mjólk og þegar hann gerði athugasemdir við þjónustufólk var honum sagt að það væri bara miklu betra svona. Þannig er með laukinn.
Laugardaginn 26. júlí hafði ég lokið ferð og var búinn að skila fólkinu af mér. Af þessu tilefni opnaði ég fyrir útvarpið í bílnum á leiðinni heim. Maður hefur ekki útvarpið á þegar ekið er um landið með ferðafólk. Með opið útvarpið heyrði ég kynningu á þætti með Sólmundi Hólm. Sólmundur er góður útvarpsmaður, ákveðinn, fljótur að skilja hismið frá, sterkraddaður og góður áheyrnar, sérstaklega fyrir heyrnarskert fólk eins og mig. Ekkert fer eins mikið fram hjá okkur í hlustun eins og þegar tónlist er spiluð undir tali útvarpsmanna. Hvorugt heyrist og maður slekkur einfaldlega á útvarpinu.
Nafnið á þætti Sólmundar, Svart og sykurlaust, er útskýrt sem „ekkert bull, beint að efninu“.
Ég hélt rásinni opinni. Degi áður eða svo hafði ég heyrt viðtal við konu og var umræðuefnið „Íslenskur matur“. Einfalt, heimilislegt, hollt og fjölbreytt. Bók að koma út, kennsluefni í matargerð.
Það skyldi þá ekki vera að Íslendingar séu búnir að fá nóg af útlenskt elduðum heimilismat? Þáttur Sólmundar var ágætur nema hvað viðtal vestur í Grundarfjörð virtist vera sviðsett, svo mikil var ánægjan og gleðin með óorðna hluti og dagskrárliði. Einhvern tímann var þetta kallað „óbeinar auglýsingar“ en mér er sléttsama.
Að mínu viti hefur eitthvað farið rangt í eldhússkólanum í Kópavogi. Ég veit að íslenskir kokkar fá verðlaun ofan á verðlaun fyrir sína eldamennsku en ég þori að fullyrða að flestir dómararnir eru útlendingar og hafa kannski ekki næga þekkingu á íslenskri matvendni. Svo þykir fínnt hér heima að finnast vondur matur góður. Við öpum mikið upp eftir útlendingum og teljum okkur trú um að það sé betra.
Hvað á ég að nefna? Jú, mér dettur í hug gataðar og þvegnar gallabuxur fyrir stórfé, pinnahælaskór sem skemma bæði gólf og fætur, ósitjanlegir leðursófar sem „taka sig vel út“ í stofunni, svo einhverju sé varpað fram. Ég set ekki út á ef menn og konur ganga í þessu enda kemur mér það ekki við, en öðru gilti ef ég væri neyddur til að fara í nýjar jaskaðar, margþvegnar og götóttar gallabuxur. Samt er reynt að troða lauknum ofan í mig, „hvað er þetta maður, þetta er miklu betra svona“.
Þetta er eins og að fara með lofthrædda konu út á fuglabjarg!!
Nýjasta æðið hefur verið laukur, rauðlaukur, grænlaukur, perulaukur, hvítlaukur og graslaukur. Mörgum finnst þetta eflaust ágætt og það plagar ekki upp á mig, hitt er verra, þegar hreinlega ekki er hægt að fá skítsæmilegan mat nema með þessari ábót.
Getur einhver ykkar horft í augun á mér og sagt mér að mér finnist lambakjöt eða nautakjöt betra með hvítlauksbragði? Og hvers vegna er þá verið að eltast við að koma fé á fjöll, erfiða við vikulanga smölun, hlúa að slátrun og geymslu svo ekkert óbragð komist í kjötið og svo enda feril kjötsins rétt fyrir framreiðslu með því að demba sterku, bragðmiklu og andfúlu kryddi á kræsingarnar?
Hvítlaukur var óþekkt fyrirbrigði fyrir hálfri öld eða svo og allir komust af. Ég tek sem dæmi yfir þetta fyrirbrigði það sem haft er eftir Jóhannesi, fyrrum forstjóra „Grænmetisverzlunar Íslands“. Konráð, veitingahúseigandi í Reykjavík hafði pantað 5 kg poka af hvítlauk frá Danmörku, átti von á útlendingum í mat. Í þá tíð sá Grænmetisverzlunin um innflutning á lauk eins og öðru grænmeti.
Pokinn kom ekki að utan og Konráð fór upp á skrifstofu Jóhannesar og spurði hvað væri til ráða? Svarið var einfaldlega: „Þú verður bara að nota gott hráefni“!!
Kannski á matarmenning Íslendinga sér von í bókinni væntanlegu.