Ása Lind Finnbogdóttir framhaldsskólakennari skrifar.
Ég trúði því aldrei að ég gæti þetta. Ég var orðin eitthvað svo samdauna sjálfri mér.
Svo ákvað ég bara að hella mér út í þetta af fullum krafti. Ég byrjaði samt rólega því ég vildi ekki ana að neinu, ég vildi líka að breytingin yrði til langframa.
Ég borðaði reglulegar máltíðir alla daga vikunnar af mjög fjölbreyttu fæði. Fékk mér alveg smá sætindi þegar mig langaði í eitthvað smávegis á kvöldin og skyndibita svona endrum og sinnum.
Svo kom þetta bara af sjálfu sér! Eitt kíló, tvö kíló …
Ég hreyfði mig ekkert mjög mikið, eiginlega mjög lítið og ef ég gerði það þá voru það stuttar göngur, nokkrar sundferðir eða dans. Ég gerði eingöngu það sem ég nennti að gera hverju sinni og það sem mér fannst skemmtilegt.
Ekkert samviskubit. Ekkert vesen. Engin pressa og árangurinn lét ekki á sér standa.
10 kíló á 10 árum og mér hefur aldrei liðið betur.
Ég er í takti við náttúruna, aldurinn og ég hef aldrei verið hamingjusamari. Ég skora á ykkur að reyna þetta. Munið að góðir hlutir gerast hægt!
Galdurinn er að hafa ekkert samviskubit yfir því að borða reglulega fjölbreytta fæðu og að leyfa sér að borða góðgæti af og til. Svo er bara að hreyfa sig temmilega lítið og fagna því svo alla daga að vera heilbrigð kona 10 kílóum þyngri nú en fyrir 10 árum.
Þvílík snilld!