Nafn frambjóðanda: Svandís Svavarsdóttir
Flokkur: Vinstrihreyfingin – grænt framboð
Kjördæmi: Reykjavíkurkjördæmi suður
Sæti á lista: 1. sæti
Sjá einnig: Konur til áhrifa: Svör kvenframbjóðenda við spurningalista Kvennablaðsins vegna Alþingiskosninganna 2016
Hvers vegna velur þú stjórnmál að starfi?
Ég hef brennandi á huga á stjórnmálum, samfélagsmálum hvers konar og hugsjóninni um réttlátara samfélag og náttúruvernd.
Hverjar eru þínar pólitísku áherslur?
Félagslegt réttlæti, jöfnuður, náttúruvernd, loftslagsmál, kvenfrelsi og friður.
Hvers vegna finnur þú þeim farveg í þínum flokki fremur en öðrum?
Vegna þess að grunnstoðir VG ríma algerlega við mínar pólitísku áherslur.
Hvaða stjórnmálamenn og konur, innlendar sem erlendar, metur þú mest?
Nelson Mandela, Gro Harlem Bruntland, Katrínu og svo pabba.
Hver er staða stjórnmálasiðferðis á Íslandi?
Eins og siðferðis yfirleitt, bæði góð og síðri. Þarf að ræða umtalsvert betur frá öllum hliðum.
Hver er afstaða þín til stöðu Bjarna Benediktssonar og Ólafar Nordal eftir að afhjúpað var að þeirra nöfn væri að finna í Panamaskjölunum?
Ef mál Sigmundar hefði ekki vegið svo þungt sem raun ber vitni þá er ljóst að staða Bjarna og Ólafar hefði verið umtalsvert erfiðari.
Hvers vegna heldur þú að almenningur um víða veröld hafi brugðist við eins og raun ber vitni eftir uppljóstranir Panamaskjalanna?
Vegna þess að málið endurspeglaði alvarlega muninn á þeim ríku og þeim sem minna hafa um allan heim. Á Íslandi var höggið enn meira vegna aðkomu ráðamanna að því sem afhjúpað var í skjölunum.
Hver er afstaða þín til skattaskjóla, það er lágskattasvæða og alþjóðlegrar skattasamkeppni?
Skattaskjól grafa undan velferðarkerfum um allan heim.
Hvernig var fyrsti dagurinn þinn á þingi?
Sérkennilegur þar sem ég var þá þegar orðin ráðherra og mætti í þingið til að mæla fyrir stjórnarfrumvarpi um flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir.
Ertu sammála rökum þeirra sem telja kynjakvóta nauðsynlegan til að viðhalda jöfnum kynjahlutföllum á þingi?
Stjórnmálaflokkarnir verða að axla sína ábyrgð á stöðu kynjanna á þinginu með því að beita virkum leiðum til að tryggja jafnvægi milli kynja á framboðslistum.
Hvaða hagsmuna hefur þú að gæta gagnvart þrýstihópum, fyrirtækjum og/eða vegna vensla?
Engra hagsmuna en á aftur á móti samleið með mörgum náttúruverndarsamtökum og öðrum samtökum sem hafa sömu hugsjónir og stefnumál og VG.
Með hvaða flokkum vilt þú helst mynda ríkisstjórn eftir kosningar og hvers vegna?
Þeim flokkum sem aðhyllast félagsleg sjónarmið og umhverfisvernd.
Eru flokkar sem þú vilt helst ekki vinna með?
Ef einhverjir flokkar hafa rasisma og útlendingahatur á sinni dagskrá koma þeir ekki til greina sem samstarfsaðili.
Hvaða hópar í samfélaginu þurfa mest á stuðningi og athygli stjórnmálamanna að halda?
Þeir hópar sem ekki eiga rödd, börn, aldraðir, öryrkjar, fatlað fólk, innflytjendur, minnihlutahópar, – aðrir sem gleymast þegar frekjustjórnmálin taka völdin. Og kannski þarf athygli stjórnmálamanna fyrst og fremst að beinast að komandi kynslóðum.
Telur þú eðlilegt að nýta skattkerfið sem jöfnunartæki eða á skattastefna landsins eingöngu að miða að fjármögnun hins opinbera?
Skattkerfi er mikilvægt jöfnunartæki.
Afstaða til mannréttinda og hlutverk stjórnmálanna: Hvert skal vera hlutverk yfirvalda og stjórnmálanna þegar kemur að svokölluðum neikvæðum og jákvæðum réttindum?
Stjórnmálin eiga að fjalla um hvort tveggja og stjórnarskráin ekki síst. Einnig má þá nefna svokölluð sameiginleg mannréttindi sem fela í sér réttinn til þróunar, friðar og heilsusamlegs umhverfis.
Hver er afstaða þín til persónukjörs og hvers vegna?
Mér finnst bæði kostir og gallar við hugmyndina. Hætt er við því að gallar prófkjöra færist inn í kjörklefann og einstaklingssjónarmið ráði för í of ríkum mæli. Hins vegar er mikil eftirspurn eftir því að kjósendur geti haft meiri áhrif hvað þetta varðar en nú er. Það er sjálfsagt að hlusta eftir því og stíga skref í áttina að meira persónukjöri.
Greiða handhafar fiskveiðikvótans nægilega til samfélagsins fyrir nýtingu þeirra á auðlindum almennings?
Allt of lítill hluti auðlindarentunnar rennur til samfélagsins og verður að grípa inn í það með afgerandi hætti. VG leggur áherslu á þrjú markmið í góðu fiskveiðistjórnunarkerfi; að arðurinn af auðlindinni renni til fólksins, að nýting auðlindarinnar sé með sjálfbærum hætti og að byggðasjónarmið séu höfð í huga til að forðast kollsteypur í byggðaþróun.
Hverjar eru félagslegar afleiðingar eða ágóði núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis?
Félagslegar afleiðingar eru fyrst og fremst mikil byggðaröskun auk þess hversu alvarleg áhrif á samfélagssáttmálann það hefur að meginhluti hagnaðarins í greininni safnist á fárra hendur á kostnað heildarinnar.
Ef þú kallar eftir breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu: hvers vegna ættir þú og þinn flokkur að vera fær um að innleiða breytingar og koma á sátt í máli sem deilt hefur verið um áratugum saman?
Vegna þess að við leggjum áherslu á að sáttin þarf að verða með því að koma almenningi að borðinu með einhvers konar þjóðfundi um þróun hennar.
Afstaða til landsdóms? Var réttmætt að þínu mati að kalla hann til og rétta yfir fyrrverandi forsætisráðherra? Hver er afstaða þín til niðurstöðu dómstólsins?
Landsdómur er úrræði í núverandi löggjöf og er því það ferli sem gildir. Á grundvelli rannsóknarskýrslu alþingis þurftu þingmenn að taka afstöðu til tillögu þingmannanefndar í málinu. Þingflokkur VG greiddi atkvæði með því að fjórir ráðherrar yrðu ákærðir á efnislegum grunni. Niðurstaða dómsins var vel rökstudd.
Hver telur þú að kjarninn í lekamálinu sé? Var málið alvarlegt, og ef svo er, hvers vegna?
Kjarninn er sá að ráðherra vék ekki tafarlaust þegar rökstuddur grunur vaknaði um að upplýsingum um hælisleitanda hefði verið lekið skipulega út frá ráðuneytinu. Síðar kom í ljós að aðstoðarmaður ráðherra hafði beina að komu að málinu. Málið var afar alvarlegt þar sem um opinbert vald er að ræða frammi fyrir hælisleitanda í afar veikri stöðu sem sannarlega þarf á vernd og skilningi stjórnvalda á öllum stigum. Skilningsleysið sem hin pólitísku viðbrögð endurspegluðu var ekki síður ámælisvert.
Hvað með nýjan búvörusamning? Hver er afstaða þín til hans?
Ég styð opinberan stuðnings við innlenda matvælaframleiðslu og landbúnað. Þessi samningur er hins vegar slæmur fyrir tiltekna hópa bænda og ekki síður neytendur. Við lögðum áherslu á að koma að jákvæðum breytingum í meðferð málsins í þingnefnd, t.a.m. á endurskoðunarákvæði, dýravelferðarsjónarmið, og ekki síst umhverfissjónarmið. Þar tókst að hafa nokkur áhrif þótt ekki væru þau fullnægjandi. Niðurstaðan varð sú að lög um búvörusamning voru samþykkt á ábyrgð stjórnarflokkanna í lokuðu og afar takmörkuðu samráði og því engin leið að styðja samninginn eins og hann var afgreiddur frá þinginu að lokum.
Hver er afstaða þín til inngöngu Íslands í Evrópusambandið?
Ég tel Ísland ekki eiga erindi í Evrópusambandið.
Var neitun núverandi stjórnvalda að kjósa um framhaldið svik á loforðum fyrir kosningar?
Já, á því er enginn vafi.
Er „strax“ teygjanlegt hugtak?
Í huga einhverra.
Hvers vegna telur þú að ungt fólk hafi dregist svo aftur úr að því er varðar lífsgæði, efnahag og bjartsýni frá því sem áður var?
Vegna þess að stjórnvöld hafa ekki haldið málefnum ungs fólks á dagskrá nema þeirra sem þegar búa við efnahagslega forgjöf.
Er stefna Íslendinga í hælisleitendamálum of ströng eða ekki nægilega ströng?
Of ströng. Við eigum að leggja af að beita fyrir okkur Dyflinnar-reglugerðinni. Hún er tímaskekkja. Ísland á að axla sinn skerf af ábyrgð á afleiðingum stríðsátaka og loftslagsbreytinga meðal annars með því að taka á móti fleiri flóttamönnum.
Hvað finnst þér um þá stefnu að byggja smærri íbúðir fyrir ungt fólk? Hvers vegna á ungt fólk ekki að geta fjárfest í íbúðum af hefðbundinni stærð?
Mikilvægt er að bjóða upp á sveigjanleika í stærðum en má aldrei vera á kostnað aðgengis eða gæða.
Rétt eða rangt: Séreignarstefnan er góð stefna sem flokkarnir ættu að sameinast um að viðhalda og virkja að nýju?
Séreignarstefnan getur aðeins verið hluti af húsnæðisstefnunni. Leiguhúsnæði þarf að vera aðgengilegt, fjölbreytt og bjóða þarf upp á opinberan stuðning til leigjenda.
Telur þú þinn flokk, og aðra flokka, bundna af kröfu tæplega 90 þúsund undirskrifta til stuðnings endurreisnar heilbrigðiskerfisins?
Við setjum uppbyggingu heilbrigðiskerfisins í forgang með tilvísun til þeirrar undirskriftasöfnunar sem hér er nefnd.
Vilt þú aukna aðkomu einkaaðila í rekstri heilbrigðiskerfisins?
Opinbert heilbrigðiskerfi á félagslegum grunni er það sem mikill meirihluti þjóðarinnar vill sjá til framtíðar. VG er sammála því. Heilbrigðiskerfi á ekki að vera gróðavegur fyrir neinn.
Vilt þú aukna aðkomu einkaaðila í rekstri menntakerfisins?
Á sama hátt leggjum við áherslu á öfluga opinbera skóla þar sem lögð er áhersla á jafnrétti til náms, öfluga menntun á öllum skólastigum um allt land.
Hefur þú áhyggjur af stétt leik- og grunnskólakennara?
Ég hef áhyggjur af því að fáir sækja leik- og grunnskólamenntun og tel að grípa þurfi til einhverskonar aðgerðaáætlunar til að stemma stigu við þeirri þróun. Ekki síst þarf að beina sjónum að kjörum og starfsumhverfi þessara stétta og einnig tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem verja stórum hluta sinna útgjalda til skólastarfs. Hlut sveitarfélaganna þarf að auka.
Hver er afstaða þín til örlaga nýrrar stjórnarskrár?
Það á að byggja á drögunum sem voru lagðar fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu á síðasta kjörtímabili. Þeirri vinnu á að ljúka í samræmi við þann vilja sem þar kom fram.
Er 300 þúsund króna lágmarkslaun, örorka og lífeyrir sanngjörn krafa?
Algjörlega. Meira að segja hófleg krafa miðað við framfærsluviðmið og raunverulegan kostnað við daglegt líf.
Eru tillögurnar sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa valið til að hækka greiðslur almannatrygginga skrum eða raunverulegar?
Þær eru takmarkaðar og koma alls ekki öllum til góða. Tillögur af þessu tagi sem koma seint fram og ná ekki þeim markmiðum sem látið er í veðri vaka að séu undir eru ekki fullnægjandi. Stjórnarandstaðan lagði fram breytingartillögur við frumvarpinu. Þeim var hafnað.
Hvað kosta kosningaloforð þín og flokksins?
50 milljarðar króna þegar allt er talið. Sú tala er fjármögnuð að fullu í ríkisfjármálastefnu VG.