Hátíð jóla er hátíð ljóss og friðar, hátíð jesúbarnsins og hátíð allra barna. Jól æsku minnar eru sveipuð ljóma friðar, gleði og hlýju sem þessi árstími færir mér enn í dag, þrátt fyrir allar breytingar í tíma og rúmi. Minningin um æsku jólin eru í stofunni heima á Patró árið 1955 og ég sit prúðbúinn á stól og stari hugfanginn á flöktandi ljósin á jólatrénu varpa bjarma sínum á jólaskrautið og mynda skugga dýra sem hlaupa um tréð. Ég hlusta á mömmu leggja á jólaborðið í borðstofunni við undirleik útvarpsins að flytja „Óskalög sjúklinga“ og ég hlusta. Svo horfi ég á pakkana undir trénu og spennan innra með mér eykst. En spennan lengir bara tímann þar til jólin koma og klukkan á veggnum virðist hafa stöðvast. Ég fer að hugsa um hafið og alla ísjakana sem komu upp í fjöru í nótt, hvað ef ísbirnir hefðu nú komið með jökunum? Hvað ef? Ég legg við hlustir og heyri þrusk en þá koma fréttir í útvarpinu en engar um ísbirni og svo þagnar útvarpið og allt dettur í dúnalogn.
Ég sit þarna, dingla fótunum og hugsa um íshafið. Dyrnar fram á gang opnast og pabbi kemur inn. Hann sest í hægindastólinn og fer að dedúa eitthvað við hálstauið. Klukkur útvarpsins byrja að hringja inn jólin og mamma kemur og sest hjá mér. Klukkurnar þagna, Halli stóri bróðir kemur inn og við setjumst öll til borðs. Hátíðin er gengin í garð.
![02-jol-yfir-borg-og-bae-eddukorinn-bm-688x451]()
TVÖFALDUR KVARTETT
Sönghópurinn sem varð Eddukórinn var stofnaður vorið 1970 af Ástu Valdimarsdóttur alt, Sigríði Sigurðardóttur sópran, Friðriki Guðna Þórleifssyni bassa, Guðrúnu Ásbjörnsdóttur alt, Arnmundi Bachman tenór og Erni Gústafssyni tenór. Seinna sama ár bættust í hópinn, þau Gunnar Guttormsson tenór, Sigrún Jóhannesdóttir sópran, Sigurður Þórðarson bassi og Sigrún Andrésdóttir alt rödd.
Helsta einkenni Eddukórsins var raddaður söngur án undirleiks og varð kórinn brátt eftirsóttur og söng víða, í útvarpi, sjónvarpi, á samkomum, í kirkjum og við ýms önnur tækifæri. Minnisstæður er flutningur þeirra á jólalögum í Stóradalskirkju undir Eyjafjöllum á jólum 1970, þar sem þau fluttu þekkt og óþekkt jólalög, þar á meðal þjóðvísuna; Hátíð fer að höndum ein.
Hátíð fer að höndum ein,
hana vér allir prýðum.
Lýðurinn tendri Ijósin hrein,
líður að tíðum,
— líður að helgum tíðum.
Þetta fallega jólaerindi hefur varðveitst sem skýring á orði í orðabók Jóns Ólafssonar frá Grunnavík (18. öld). Það boðar komu jólanna og fögnuð mannanna: Lýðurinn tendri ljósin hrein, líður að tíðum, líður að helgum tíðum. Lagið er prentað í bók sr. Bjarna Þorsteinssonar, ÍSLENZK ÞJÓÐLÖG (1906-9), en hann lærði það norður í Ólafsfirði á nítjándu öld.
![(Mynd: KFK – Sá ég jólasvein?)]()
(Mynd: KFK – Sá ég jólasvein?)
BRÁÐUM KOMA JÓLIN
Haustið 1970 mætti Friðrik Guðni á söngæfingu með hljómplötu sem Sigríður kona hans hafði keypt er hún var við nám erlendis. Platan geymdi jólalög úr ýmsum áttum og fannst Sigríði að gaman væri að æfa nokkur þeirra. Þar sem Friðrik Guðni var liðtækt skáld, lagðist hann í að semja texta við lögin sem hann valdi og útsetti. Þessi lög urðu undirstaða í jólaprógrammi sem var flutt í Stóradalskirkju þá um jólin.
Skömmu eftir að Eddukórinn söng jólalögin, kom upp sú hugmynd að kórinn ætti að gefa út plötu með þeim. Stjórnandi kórsins, Friðrik Guðni Þórleifsson, varð strax hrifinn af hugmyndinni og ákveðið var að tala við Svavar Gests hjá SG hljómplötum um útgáfu. Svavar tók vel í þessa málaleitan, enda afbrags kór á ferðinni sem ætti erindi við þjóðina. Svavar var þó efins um að söngur án undirleiks á plötu væri söluvænlegur. Því varð úr að fá til liðs við kórinn nokkra félaga úr Sinfóníuhljómsveit Íslands til meðleiks. Hópurinn var fyllilega sáttur við það og hafist var handa við undirbúning. – Hér er fyrsti textinn á plötunni við franskt þjóðlag.
Skín í rauðar skotthúfur
skuggalangan daginn,
jólasveinar sœkja að,
sjást um allan bœinn.
Ljúf í geði leika sér
lítil börn í desember,
inni í friði og ró, úti í frosti og snjó,
því að brátt koma björtu jólin
bráðum koma jólin.
Uppi á lofti inni í skáp
eru jólapakkar
titra öll af tilhlökkun
tindilfættir krakkar.
Komi jólakötturinn
kemst hann ekki í bæinn inn,
inn í friði og ró, inn úr frosti og snjó,
því að brátt koma björtu jólin
bráðum koma jólin.
Stjörnur tindra stillt og rótt
stafa geislum björtum.
Norðurljósin logaskær
leika á himni svörtum.
Jólahátíð höldum vér
hýr og glöð í desember.
Þó að feyki snjó, þá í friði og ró
við höldum heilög jólin,
heilög blessuð jólin.
-Friðrik Guðni Þórleifsson
![(Mynd: KFK: Lifandi grenitré)]()
(Mynd: KFK: Lifandi grenitré)
GRENITRÉ
Minningin um jólin á Patró lifnaði aftur þegar ég fékk plötu Eddukórsins í jólagjöf 1971. Það var einhvernvegin sami andi á plötunni og í minningunni, andi friðar, gleði og birtu. Söngurinn og tónlistin voru jafn hátíðleg, einlæg og mild eins og jólin forðum.
Það var norska tónskáldið Edward Grieg sem samdi lagið um tákn jóla, grenitréð.
Ó, græna, skínandi grenitré,
þú gleður okkur með komu þinni,
þinn litur minnir á lífsins vé
og Ijós þín kalla á frið í sinni.
Sjá Ijóma stjörnu, sem minnir börnin á góðan guð.
Við lærðum forðum um fæðing hans,
sem fögnuð ber inn í mannsins hjarta,
hans boðorð geymast í minni manns,
sem merli Ijómandi stjarnan bjarta
í toppi þínum, þú græna skínandi grenitré.
-Friðrik Guðni Þórleifsson
![(Mynd KFK: Ég kem með jólin til þín)]()
(Mynd KFK: Ég kem með jólin til þín)
JÓLIN ERU AD KOMA
Annað tveggja íslenskra laga á plötunni er eftir Elínu Eiríksdóttur (1900-1987) frá Ökrum á Mýrum sem gaf alls út þrjár ljóðabækur, allar á eigin kostnað, og var hún komin nokkuð á sextugsaldur þegar sú fyrsta, Söngur í sefi, kom út árið 1955. Þremur árum síðar kom Rautt lauf í mosa 1958, og að lokum Skeljar á sandi 1968. Þekktust er Elín sennilega fyrir vöggukvæðið „Ef engill ég væri“ sem gefið var út með nótum við lag Hallgríms Helgasonar árið 1941, auk þess að vera oft síðasta lagið fyrir fréttir, og jólakvæðið „Jólin eru að koma“ sem hún samdi sjálf lag við og er m.a. sungið af dótturbörnum hennar KK og Ellen á samnefndum geisladiski þeirra.
Jólin eru að koma, jólastjarnan skín
komdu blíða barnið, með bros og jól til mín.
Með brosið hreina’ og bjarta
þú birtist ætíð mér.
Við kveikjum kertaljósin
og kveikjum fyrir þér.
-Elín Eiríksdóttir
![(Mynd KFK: Húmar að jólum)]()
(Mynd KFK: Húmar að jólum)
HÖLDUM HEILÖG JÓL
Lagið er franskt þjóðlag en með ljóði Friðriks Guðna verður það íslenskara en allt sem íslenskt er. Andakt þess tíma þegar myrkrið er yfir og allt um kring en lifandi ljósið vermir og gleður.
: , : Höldum heilög jól, himinbjöllur klingja : , :
yfir allt um kring englaraddir syngja
meðan máninn rís yfir myrka dali
meðan máninn skín yfir myrka jörð.
: , : Yfir, allt um kring englaraddir hljóma. : , :
Uppí heiði há helgar stjörnur Ijóma
meðan máninn rís o. s. frv.
: , : Uppí heiði há helgar stjörnur skína. : , :
Kyrrlát kertaljós kveikja gleði þína
meðan máninn rís o. s. frv.
-Friðrik Guðni Þórleifsson
![(Mynd KFK : Hljómur jóla)]()
(Mynd KFK : Hljómur jóla)
BETLEHEM
Lagið um litla bæinn Betlehem er samið á nítjándu öld af organistanum Lewis Redner (1831-1908) fyrir barnakórinn sem söng á sunnudögum í kirkjunni hans í Fíladelfíu (Philadelphia) í Bandaríkjunum.
Ó, borgin litla, Betlehem,
þú bíður í djúpri ró,
í heimi drauma dagsins glaumi
dreifir á þagnarskóg.
Þó lýsir Ijósið bjarta,
það Ijós, er ætíð skín,
sú von og trú, er væntir þú
hún verður loksins þín.
Ó, litla barn frá Betlehem,
ég bið þig kom til mín,
svo megi ég finna fögnuð þinn,
þinn friður aldrei dvín.
Nú englar allir syngja
svo ómar geimurinn,
í kærleik þínum kom til mín
ó, Kristur, Drottinn minn.
Í djúpri þögn, í þýðri ró
hinn þráði birtist oss,
sem þjáðum lýð er blessun blíð,
hið bjarta himinhnoss.
Í hörðum syndaheimi
það heyra enginn mun
en hjörtun þjáðu þiggja náð
og þráða Guðsblessun.
-Friðrik Guðni Þórleifsson
![(Mynd KFK: Vísbending)]()
(Mynd KFK: Vísbending)
ÞEIR KOMA ÞAR
(Göngusöngur hirðingjanna)
Þetta lag er franskt að uppruna og var ekki samið sem jólalag, heldur sem göngulag.
Þeir komu þar sem Kristur fæddur var
þeir konungar, sem stýrðu ríkum þjóðum,
þeir komu þar, sem Kristur fæddur var
þeir krupu og sýndu merki lotningar.
Og stjarna í heiði þeim lýsti leið
sem lá um gnæfandi fjöll og eyðisanda.
Og stjarna í heiði þeim lýsti leið,
sem lá að jötunni hvar Drottinn beið.
Og tignarmerkin tóku þeir af sér
í trú og auðmýkt krupu helgum sveini
og tignarmerkin tóku þeir af sér,
því tign og lotning honum einum ber.
Þeir komu þangað sem Kristur var,
þeir krupu og fœrð’onum sínar dýru gjafir,
þeir komu þangað sem Kristur var,
þeir krupu og sýndu merki lotningar.
-Friðrik Guðni Þórleifsson
![(Mynd KFK: Mér sýndist ég sjá einhvern þarna frammi…)]()
(Mynd KFK: Mér sýndist ég sjá einhvern þarna frammi…)
Á JÓLUNUM ER GLEÐI OG GAMAN
Spænska lagið Fum, fum, fum er hér í útsetningu Friðriks Guðna orðið að sígildu íslensku jólalagi.
: , : Á jólunum er gleði og gaman, fúm, fúm, fúm. : , :
Þá koma allir krakkar með
í kringum jólatréð.
Þá mun ríkja gleði og gaman
allir hlægja og syngja saman, fúm, fúm, fúm.
: , : Og jólasveinn með sekk á baki, fúm, fúm, fúm. : , :
hann gægist inn um gættina
á góðu krakkana.
Þá mun ríkja gleði og gaman
allir hlægja og syngja saman, fúm, fúm, fúm.
: , : Á jólunum er gleði og gaman, fúm, fúm, fúm. : , :
Þá klingja allar klukkur við
og kalla á gleði og frið.
Þá mun ríkja gleði og gaman
allir hlægja og syngja saman, fúm, fúm, fúm.
-Friðrik Guðni Þórleifsson
![(Mynd KFK: Jól í Reykjavík)]()
(Mynd KFK: Jól í Reykjavík)
JÓL YFIR BORG OG BÆ
(Austurríkst þjóðlag)
Það syrtir í dölum, það dimmir í skóg,
þar drúpir hver grein undir mjallhvítum snjó.
Þó skammdegi ríki og skyggi um heim
hin skærasta stjarna nú lýsir um geim
hæ — hæ, hæ — hæ,
koma jól yfir borg og bæ.
Og geislarnir skína um skóga og dal,
í skuggaleg hreysi, í Ijómandi sal,
því mennirnir fagna nú friði um heim,
hinn fegursti söngur nú hljómar um geim
hæ — hæ, hæ — hæ,
koma jól yfir borg og bæ.
-Friðrik Guðni Þórleifsson
![(Mynd KFK: Jólakveðja.)]()
(Mynd KFK: Jólakveðja.)
JÓLASVEINARNIR
Vísurnar um jólasveinana eru eftir Jóhannes úr Kötlum (Jóhannes Bjarni Jónsson) sem fæddist að Goddastöðum í Laxárdal í Dölum en ólst upp frá sex mánaða aldri í Ljárskógaseli í sömu sveit. Foreldrar hans voru hjónin Jónas Jóhannesson og Halldóra Guðbrandsdóttir. Skammt frá Ljárskógaseli rennur áin Fáskrúð og þar eru svonefndir Katlar, fossar, hyljir og klettar, þar sem Jóhannes lék sér mikið í bernsku. Þegar hann gaf út fyrstu ljóðabók sína árið 1925, kenndi hann sig við þetta svæði og nefndi sig Jóhannes úr Kötlum.
Segja vil ég sögu af
sveinunum þeim,
sem brugðu sér hér forðum
á bæina heim.
Þeir upp á fjöllum sáust
– eins og margur veit —
í langri halarófu
á leið niður í sveit.
Stekkjastaur kom fyrstur
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsið
og lék á bóndans fé.
Giljagaur var annar
með gráa hausinn sinn.
– Hann skreið ofan úr gili
og skaust í fjósið inn.
Stúfur hét sá þriðji,
stubburinn sá.
Hann krækti sér í pönnu
þegar kostur var á.
Sá fjórði, Þvörusleikir
var fjarskalega mjór.
Og ósköp varð hann glaður
Þegar eldabuskan fór.
Sá fimmti, Pottaskefill var
skrítið kuldastrá.
-Þegar börnin fengu skófir
hann barði dyrnar á.
Sá sjötti, Askasleikir
var alveg dæmalaus. —
Hann fram undan rúmunum
rak sinn Ijóta haus.
Sjöundi var Hurðaskellir
– sá var nokkuð klúr,
ef fólkið vildi í rökkrinu
fá sér væran dúr.
Skyrjarmur, sá áttundi,
var skelfilegt naut.
Hann hlemminn on’af sánum
með hnefanum braut.
Níundi var Bjúgnakrækir
brögðóttur og snar.
Hann hentist upp í rjáfrin
og hnupplaði þar.
Tíundi var Gluggagæir, —
grályndur mann,
sem laumaðist á skjáinn
og leit inn um hann.
Ellefti var Gáttaþefur,
– aldrei fékk sá kvef,
og hafði þó svo hlálegt
og heljarstórt nef.
Ketkrókur sá tólfti,
kunni á ýmsu lag. —
Hann þrammaði í sveitina
á Þorláksmessudag.
Þrettándi var Kertasníkir
– þá var tíðin köld,
ef ekki kom hann síðastur
á aðfangadagskvöld.
Á sjálfa jólanóttina
– sagan hermir frá —
á strák sínum þeir sátu
og störðu Ijósin á.
Svo tíndust þeir í burtu
– það tók þá frost og snjór
á Þrettándanum síðasti
sveinstaulinn fór.
Fyrir löngu á fjöllunum
er fennt í þeirra slóð,
– en minningarnar breytast
í myndir og Ijóð.
-Jóhannes úr Kötlum
Lagið samdi Ingunn Bjarnadóttir (1905-1972) sem fæddist í Einholti á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu. Hún var dóttir hjónanna Margrétar Benediktsdóttur og Bjarna Eyjólfssonar, sem bjuggu í Hólabrekku á Mýrum, þar sem Ingunn ólst upp. 1927 giftist Ingunn Sigurði Eiríkssyni, verkamanni á Seyðisfirði. Þau Sigurður eignuðust tvö börn, Margréti Sigurbjörgu og Bjarna Eirík. Ingunn og Sigurður slitu sambúð 1937. 1940 giftist Ingunn Hróðmari Sigurðssyni, kennara (1912-1957). Þau bjuggu fyrst í Kiljarholti á Mýrum, síðan einn vetur á Höfn í Hornafirði, en fluttu svo til Hveragerðis 1946, þar sem þau bjuggu til æviloka. Ingunn og Hróðmar eignuðust fimm börn, Önnu Sigríði, Þórhall, Óttar Hrafn, Hallgrím og óskírða dóttur, andvana fædda. Með húsmóðurstörfum, samdi Ingunn lög og ræktaði skrúðgarð að Laufskógum 4 (húsið hét upphaflega Hraunteigur). Ingunn hafði enga tónlistarmenntun, en Hróðmar skrifaði upp mörg laga hennar.
Hallgrímur Helgason hreifst af lögum Ingunnar og honum ber fyrst og fremst að þakka að lög hennar komust fyrir almenningssjónir. Ekkert getur betur lýst lögum Ingunnar, en að þessi hámenntaðaði tónlistarmaður skyldi leggja ómælda vinnu í að færa lög hennar í búning (undirspil við einsöng og kórútsetningar). Þetta gerði Hallgrímur án annars endurgjalds en vináttu þeirra hjóna, Ingunnar og Hróðmars. Því fer best á að lofa Hallgrími að hafa síðasta orðið, en eftirfarandi umsögn skrifaði hann á umslag plötu, sem synir Ingunnar gáfu út 1975:
„Ef lýsa á söngvakonunni Ingunni Bjarnadóttur (1905-1972), þá tel ég einkunnarorðin syngjandi sál hæfi henni best. Hvert ljóð er hún fór með varð söngur. Hann var eðlileg tjáning hennar, hrein og sönn. Þessi þrá eftir útstreymi tóns, er lyfti orði í æðra veldi, var svo sterk, að því var líkast sem hljómur margra alda, í söngvasnauðri tilveru Íslendinga, brytist hér fram af óstöðvandi afli. Við fyrstu kynni mín af Ingunni sá ég fljótlega, að hún var gædd óvenjulegri gáfu, lagvísi sem vert var að örva með nauðsynlegri aðstoð, ekki síst þar sem hún hafði farið á mis við allt tónmenntalegt uppeldi. Hún bara söng eftir hjartans lögmáli, sem henni var meðfætt. Það var sem hún hefði í vöggugjöf hlotið syngjandi arf ótal margra undangenginna kynslóða. Þessa firnalöngu fortíð endurtjáði hún í tóntegundum löngu liðinna tíma. Þannig er ævagamalt ljúflingslag úr Hornafirði, fæðingarsveit Ingunnar, bestur lykill að lagafjársjóði hennar. Söngur var löngum tengdur galdri og seið. Máttur tóna var sterkari mannlegum mætti. Hann opnaði innsýn í hulda heima, þaðan sem ofin voru örlög manna. Konur voru þá að jafnaði búnar bestum kostum til að miðla málum milli guða og manna. Söngur þeirra og töfraljóð voru því í hávegum höfð. Seiðkonur og völvur eru nú löngu hættar að gegna því mikilvæga hlutverki í mannlegu samfélagi, sem fyrrum var þeim ætlað. En töframáttur tóna lifir enn. Lög Ingunnar Bjarnadóttur eru hreinræktuð sönnun þess. Svo mætti fara, að þessi austfirska alþýðukona verði síðar talin mest söngvölva á Íslandi 20. aldar.“
![(Mynd KFK: Þeir fylgdu stjörnunni)]()
(Mynd KFK: Þeir fylgdu stjörnunni)
Tenglar:
Hljóð og mynd – YouTube: Hér segja félagar úr Eddukórnum frá ýmsu tengdu plötunni. Þá er einnig viðtal við upptökumanninn Pétur Steingrímsson um upptökur og tæknina um 1970.
Ásta Valdimarsdóttir kórfélagi í Eddukórnum segir frá tilurð kórsins og jólaplötunni – https://youtu.be/xHuqFO1nF8k
Gunnar Guttormsson meðlimur í Eddukórnum segir frá aðdraganda að veru sinni í kórnum og jólaplötunni – https://youtu.be/iUoPuwe-PSw
Sigrún Andrésdóttir segir frá tónlistaruppeldi – https://youtu.be/q0UAKCCiwWo
Sigurður Þórðarson segir frá laginu; „Þeir koma þar“ – https://youtu.be/GCbKWEH-HeA
Sigurður Þórðarson í Eddukórnum segir frá æfingum og glensi – https://youtu.be/KnlucdE2itw
Sigrún Jóhannesdóttir sópransöngvari í Eddukórnum segir frá tónlistaruppeldi og söng – https://youtu.be/Mx9SNy_G1q0
Pétur Steingrímsson upptökumaður segir frá upptökum á jólaplötu Eddukórsins – https://youtu.be/z-uqRzXQUkA
Tenglar á annað efni:
Þórður Kristleifsson – http://www.mbl.is/greinasafn/grein/340308/
Friðrik Guðni Þórleifsson leikur á langspil – https://www.youtube.com/watch?v=T_rSvCoYfw0
Bráðum koma jólin – Eddukórinn – https://www.youtube.com/watch?v=hXB0nt-lND4
Bráðum koma jólin (texti með gítargripum) – http://www.guitarparty.com/en/song/bradum-koma-jolin/
Grenitré – Eddukórinn –https://www.youtube.com/watch?v=ENDCxSrZD74
Grenitré -Jólatré – Edvard Grieg – https://www.youtube.com/watch?v=duMgxv1sJbM
Á jólunum er gleði og gaman eða Fum, fum, fum – http://www.worldwidechristmas.com/songs/fum-fum-fum/
Sú grunna lukka – https://hbs.is/Hljodbokaleit?tegLeitar=20&idAdilaRitradar=2749
Ritgerðir tengdar tónlist – http://www.musik.is/tranns.html
Þrír háir tónar, 45 snúninga plata 1967 – https://is.wikipedia.org/wiki/GEOK_258
Friðrik Guðni Þórleifsson minningargreinar – http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1769682
Glatkistan um Friðrik Guðna – https://glatkistan.com/tag/fridrik_gudni_thorleifsson/
Ávarp forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar við opnun sýningar til minningar um Friðrik Guðna Þórleifsson og Sigríði Sigurðardóttur Sögusetrinu, Hvolsvelli 2. júní 2007 – http://www.forseti.is/media/files/07.06.02.Fridrik.Gudni.pdf
Ljóðabækur Friðriks Guðna – http://www.bokin.is/index.php?manufacturers_id=2446
Platan á Wikipedia – https://is.wikipedia.org/wiki/Edduk%C3%B3rinn_-_J%C3%B3l_yfir_borg_og_b%C3%A6
Eddukórinn á TIDAL vefnum – https://listen.tidal.com/artist/6764419
Jól yfir borg og bæ á Spotify – https://play.spotify.com/user/ottovalur/playlist/3jnF9s7KvqhEQW8txhJ4rB