Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all 8283 articles
Browse latest View live

25 þúsund neita sér um tannlæknaþjónustu – Bjarni Ben segir Íslendinga aldrei haft það eins gott

$
0
0

Fjórar af hverjum hundrað konum og tveir af hverjum hundrað körlum neituðu sér um þjónustu læknis eða sérfræðings árið 2015 vegna kostnaðar, eða samtals tæplega 8 þúsund manns. Kostnaður er meiri fyrirstaða fyrir tekjulægri hópana en þá tekjuhærri, en 6% fólks í tekjulægsta fimmtungnum fór ekki til læknis vegna kostnaðar á móti rúmlega 1% fólks í efsta tekjufimmtungi. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar sem birtar voru í dag.

Auglýsing

Hlutfallslega margir á Íslandi neita sér um læknisþjónustu vegna kostnaðar miðað við önnur Evrópuríki sé tekið mið af nýjustu samanburðartölum sem eru frá árinu 2014 en þá fóru ríflega 3% Íslendinga ekki til læknis vegna kostnaðar sem var sjötta hæsta hlutfallið í Evrópu.

Tölur hagstofunnar birtast nokkrum dögum eftir að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og starfandi fjármálaráðherra, hneykslaðist á þeim sem ósátt eru við sífellt meiri ójöfnuð, veikari stoðir og hækkandi skattbyrði á láglaunafólk. „Ef maður skoðar stöðuna heilt yfir þá er í raun og veru hægt að segja að við höfum aldrei haft það jafn gott eins og í dag,“ sagði Bjarni í þættinum Kastljós snemma í desember. Um leið varaði hann við því að óróleiki á vinnumarkaði, kröfur fólks um kjarabætur, gæti ógnað stöðugleika.

Þá vakti það athygli rétt fyrir kosningar þegar Bjarni gerði að því skóna að 70% tekjuskattsgreiðenda væru í raun baggi á ríkinu. Ummælin lét fjármálaráðherra falla á Facebook í vörn vegna gagnrýni á skattastefnu hans. Í tíð Bjarna hefur skattbyrði hækkað á alla tekjuhópa nema tekjuhæsta fimmtunginn.

Á heildina litið er hlutfall þeirra á Íslandi, sem ekki fóru til tannlæknis þrátt fyrir að þurfa þess, hátt í evrópskum samanburði. Hlutfall kvenna sem ekki fór til tannlæknis vegna kostnaðar reyndist vera það fjórða hæsta í Evrópu og hlutfallið meðal karla það fimmta hæsta.

Auglýsing

Einn af hverjum fjórum atvinnulausum á Íslandi fór ekki til tannlæknis vegna kostnaðar árið 2014, 23% kvenna og 26% karla, sem er fjórða hæsta hlutfallið í Evrópu hjá báðum kynjum. Næst á eftir atvinnulausum eru hæstu hlutföll þeirra sem neita sér um tannlæknaþjónustu að finna hjá fólki sem er á vinnualdri en ekki á vinnumarkaði, til dæmis námsmenn, öryrkjar eða heimavinnandi. Um 17% kvenna utan vinnumarkaðar á Íslandi fór ekki til tannlæknis sökum efna árið 2014 og deilir Ísland þar hæsta hlutfallinu með Portúgal og Lettlandi. Meðal karla var hlutfallið á Íslandi um 13%, sem er annað efsta hlutfallið á listanum á eftir Lettlandi (18%).


Yfirlýsing frá þingflokki VG

$
0
0

„Nýliðnar stjórnarmyndunarviðræður hafa verið gagnlegar þrátt fyrir að ekki hafi náðst samstaða um að halda þeim áfram að sinni.

Þingflokkur Vinstri grænna hefur í viðræðum um stjórnarmyndun frá kosningum og nú í tengslum við umfjöllun um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2017 talið brýnt að gerðar verði breytingar í þágu nauðsynlegra umbóta í heilbrigðismálum, menntamálum, velferðarmálum og uppbyggingu innviða. Það er mat þingflokksins að til að mæta lágmarksþörfum og koma til móts við ákall úr samfélaginu í þessum efnum þurfi, varlega áætlað, á þriðja tug milljarða króna.

Ennfremur verður að takast á við raunverulega uppbyggingu á þessum sviðum í ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára. Mikil samstaða var um mikilvægi þessara áherslna í aðdraganda kosninga enda um afar brýn verkefni að ræða. Umbæturnar þarf að fjármagna með ábyrgum hætti í tekjuöflunarfrumvarpinu sem liggur fyrir þinginu og í framhaldinu liggi fyrir áætlanir um tekjuöflun til næstu fimm ára.“

Eyjan lýgur

$
0
0

Það er heilbrigt og beinlínis nauðsynlegt upplýstu lýðræðisþjóðfélagi, að hafa upplýsta og gagnrýna fjölmiðla. Þetta var fyrrum forsætisráðherra okkar mjög óljóst, svo óljóst að hann ekki bara kvartaði undan gagnrýni, heldur reyndu hann og kollegar hans beinlínis að beita valdi sínu til að gera út af við hana.

Stjórnmálamenn þurfa, eins og aðrir og í raun frekar en aðrir, að þola gagnrýna og oft á tíðum harkalega umræðu í sinn garð og annarra. Hitt er hins vegar, að stjórnmálamenn eiga ekki frekar en aðrir að þurfa að sitja þegjandi undir því þegar beinlínis er logið upp á þá, til að koma á þá höggi.

Til þess að gera virtur og víðfeðmur vefmiðill hefur alltaf verið helst til flokkslitaður, en undanfarin misseri hafa lygar og flokkspólitískar skítadrefingar Björns Inga Hrafnssonar og félaga í nafni Eyjunnar gengið svo gjörsamlega fram úr hófi að ekki er hægt að láta það liggja ósvarað.

1. Undanfarnar vikur hefur Eyjan margoft haldið því fram  hugmyndir Birgittu Jónsdóttur um stutt kjörtímabil hafi verið ófrávíkjanleg krafa Pírata fyrir kosningar. Þetta er alrangt, þó hugmyndir hafi vissulega verið uppi um það fyrir um ári síðan þá voru ólík sjónarmið innan Pírata og þau voru leidd til lykta með eftirfarandi stefnu flokksins, fyrir kosningar:

„Alþingi setji þessa vinnu í forgang á komandi kjörtímabili og ljúki henni á eins skömmum tíma og fýsilegt er.“

Ekkert um tiltekna timalengd eða styttra kjörtímabil, hvað þá að slíkt væri ófrávíkjanleg krafa flokksins.

Það sem meira er, Eyjan misskildi ekki bara stefnu flokksins – það hefði verið afsakanlegt. Þau klipptu beinlínis í sundur viðtalsbút við Birgittu til að það liti út eins og hún væri að segja allt annað en hún sagði. Í viðtalinu veltir hún upp hugmyndinni um stutt kjörtímabil en fer síðan að tala um stjórnarskrána almennt og Björn Ingi spyr hana „Eru Píratar til í að gefa einhvern afslátt varðandi þessa stjórnarskrá?“

Þessu svarar Birgitta neitandi, ekki spurningu um stutt kjörímabil heldur um nýju stjórnarskrána. Björn Ingi klippir út bútinn þar sem Birgitta talar um stjórnarskrána, til að láta það líta meira út eins og hún sé að svara um stutt kjörtímabil – og fullyrðir síðan ranglega að hún hafi verið að svara því til. Síðan þá hefur sú lygi verið margendurtekin.

2. Í nýlegu viðtali sagði Einar Brynjólfsson, þingmaður og umboðsmaður Pírata, að þingmenn meirihluta þurfi ekki endilega alltaf að ganga í takt í öllum málum og að Píratar hafi gert ýmsar málamiðlanir í yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræðum.

Þessu slær Eyjan upp, ásamt ótilgreindum heimildum, sem svo að Píratar hafi gert málamiðlun í stjórnarskrármálinu og gefið þá grundvallarstefnu sína upp á bátinn.

Þetta er auðvitað alrangt, Píratar hafa ekki og munu ekki gefa nýju stjórnarskrána upp á bátinn.

Auglýsing

Það sem meira er, Einar tók sérstaklega fram í viðtalinu að „taktleysið“ ætti ekki við í stærstu málunum eins og til dæmis stjórnarskrármálinu, svo blaðamanni mátti alveg vera ljóst að þar væri enginn afsláttur gefinn. Fyrir einhverja undarlega tilviljun var þessari áréttingu Einars hins vegar sleppt úr fréttinni, til að hægt væri að mála andstæða mynd af orðum hans.

3. Hvoru tveggja hefur margoft verið útskýrt fyrir aðstandendum Eyjunnar. Þeim hefur margoft verið bent á samþykkta stefnu flokksins og Einar kom því á framfæri í athugasemdakerfi við umrædda frétt að orð hans hefðu verið tekin úr samhengi og mikilvægri áréttingu sleppt.

Við þetta hefur Eyjan tvíeflst í blekkingarleik sínum, frekar en að leiðrétta sannanlega rangan fréttaflutning sinn. Þeim var bent á að það væri beinlínis rangt að Píratar hefðu gefið eftir stefnu sína í stjórnarskrármálinu og svar þeirra er að „Eyjan stendur vitaskuld við þessa frétt sína, enda er hún rétt í einu og öllu.“ og „Það eina sem er að fullyrðingum Helga Hrafns, er að þær eru rangar.“

Hvorugt er hins vegar rökstutt, hvað þá að efnislegum ábendingum Helga sé svarað. Ferlið sem liggur á borðinu í viðræðum flokkanna fimm er í fullkomnu samræmi við stefnu Píratar frá því fyrir kosningar. Í stað þess að bregðast við þessari ábendingu þrjóskast þau við rangfærsluna, án rökstuðnings. Þau bæta síðan um betur:

„Málið er bara að hingað til hafa Píratar haldið öðru fram; sagt að enginn ætti að fikta í texta Stjórnlagaráðs. Þess vegna var lögð áhersla á stutt kjörtímabil.“

Píratar hafa aldrei haldið þessu fram. Einstaka Píratar hafa vissulega sagt þetta, en það hefur aldrei verið stefna flokksins. Áðurnefnd stefna (aftur, frá því fyrir kosningar) kveður þvert á móti á um þinglega meðferð þar sem tillögur Stjórnlagaráðs eru hafðar til grundvallar ásamt fyrirliggjandi vinnu þingsins – nákvæmlega eins og nú er rætt um.

Ég vil taka skýrt fram að ég skil vel að mörgum sé þetta óljóst, vegna þess að fjölmiðlar og einstaka fulltrúar Pírata hafa ekki beint verið skýr með þetta hingað til.

Eyjan hins vegar veit betur, enda margoft verið bent á þessar staðreyndir. Þau klippa viðtöl í sundur og birta ummæli úr samhengi til þess að´fullyrða að Píratar hafi sagt annað en þeir gerðu, og nota þá blekkingu síðan í ítrekaðar árásir á flokkinn. Slík vinnubrögð eiga ekkert skylt við gagnrýna fjölmiðlun, eitthvað allt annað býr að baki þessu.

Því hvað kallar maður það þegar menn fara vísvitandi með rangt mál? Og hvað kallar maður fjölmiðil sem gerir slíkt ítrekað í flokkspólitískum tilgangi?

Hælisleitandinn sem í örvæntingu kveikti í sér er látinn

$
0
0

Makedónski hælisleitandinn sem í örvæntingu kveikti í sér í síðustu viku er látinn. Íbúum á Víðinesi var greint frá þessu í gær og fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. Kvennablaðið fjallaði í síðustu viku um aðdraganda þess að ungur maður á þrítugsaldri bar eld að klæðum sínum. Hælisleitandinn hafði sýnt ítrekuð merki þess að vera svo langt leiddur af örvæntingu og vonleysi að þeir sem þekkja til málsins tala um að tímaspursmál hafi verið hvenær hann gripi til slíkra örþrifaráða. Skipulags- og áhugaleysi á aðstæðum hælisleitenda skapi andrúmsloft vonleysis meðal fólks sem hingað sækir.

Auglýsing

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð að húsnæði Útlendingastofnunar í Víðinesi á þriðja tímanum síðastliðinn miðvikudag, en þar hafði hælisleitandi hellt yfir sig bensíni og kveikt í. 

„Maðurinn, sem er illa brunninn, var fluttur á sjúkrahús, en ekki er vitað frekar um líðan hans á þessari stundu. Þetta var annað útkallið sem lögreglan sinnti í Víðinesi í dag [Miðvikudagurinn 7. desember], en í hádeginu hótaði annar hælisleitandi að skaða sjálfan sig. Ekki kom þó til þess, en maðurinn var fluttur á lögreglustöð á meðan unnið er í máli hans. Áfallateymi Útlendingastofnunar var kallað út til að hlúa að íbúum og starfsfólki í Víðinesi,“ segir í upphaflegri tilkynningu lögreglu.

Kvennablaðinu barst ljósmynd af manninum sem kveikti í sjálfum sér frá íbúum Víðiness.

Kvennablaðinu barst ljósmynd af manninum sem kveikti í sjálfum sér, frá íbúum Víðiness. Íbúar eru mjög skelkaðir eftir atvikið og hugsi yfir því að ítrekaðar beiðnir um aðstoð til handa manninum hafi verið hunsaðar.

Maðurinn sem er frá Makedóníu hafði samkvæmt heimildum Kvennablaðsins sýnt af sér einkenni alvarlegs þunglyndis um nokkurn tíma. Vinir og kunningjar mannsins í Víðinesi höfðu um leið óskað þess að hann fengi aðstoð. Kvennablaðið veit til þess að öryggisverðir á staðnum og þjónustuteymi Útlendingastofnunar hafði borist ósk um að gripið yrði inn.

Viðmælendur blaðsins, hælisleitendur og fólk sem starfar með hópnum, er slegið vegna málsins. Öllum ber saman um að skipulags- og sinnuleysi hafi orðið til þess að maðurinn greip til slíkra örþrifaráða. Greina má þreytu meðal þeirra sem sinna málaflokknum.

Maðurinn sem er á þrítugsaldri hafði nýlega verið hafnað um landvist hér og átti von á að vera vísað úr landi. Íbúar Víðiness eru slegnir eftir atvikið sem ýtt hefur undir almennt vonleysi á staðnum. Í samtali við íbúa kemur fram að einangrunin sé því sem næst algjör. Íbúarnir fái mat sem sé líkt og skepnufóður, kaldur, ólystugur og einhæfur. Þá sé Víðines nokkuð úr leið þannig að nokkuð mál er að komast í samskipti við aðra en þá sem bíða hælis.

Hljóp um í ljósum logum

Atvikum er lýst þannig að hælisleitandinn hafi hellt yfir sig bensíni og kveikt í sjálfum sér innandyra. Hann hafi síðan í ljósum logum hlaupið út. Íbúarnir eru almennt í miklu áfalli eftir atvikið. Þá reynist mörgum erfitt að sjá að þrátt fyrir að fyrirsjáanlegt hafi verið að í óefni stefndi, hafi ekki verið gripið inn. Í samtölum við íbúa kemur fram að þau upplifi algjört sinnuleysi um velferð sína. Hælisleitendur njóta ekki heilbrigðistryggingar og verða því að reiða sig á Útlendingastofnun fyrir alla heilbrigðisþjónustu. Biðin eftir aðstoð getur tekið margar vikur og raunar er heilbrigðisþjónusta aðeins aðgengileg í neyðartilvikum.

Áfallahjálp í skötulíki – hælisleitendur urðu að þýða hvort fyrir annan

Sinnuleysi yfirvalda gagnvart íbúum Víðiness hafi svo endanlega verið staðfest þegar áfallahjálp barst íbúum aðeins í skötulíki eftir að hafa orðið vitni af því að einstaklingur kveikti í sér fremur en að eiga á hættu að fara aftur til heimalandsins. Áfallahjálpin barst í stuttum fundi með sjálfboðaliðum sem töluðu aðeins ensku. Það var hælisleitenda sjálfra að þýða fyrir þá sem ekki tala ensku. Jafnvel þegar einstaklingur reyni að enda líf sitt á sársaukafullan máta telji Útlendingastofnun það ekki forsvaranlegt að skaffa túlkun.

Íbúar á Víðinesi fá ekki svokölluð iKort þar sem þeim er skaffaður matur. Ikort koma með 8000 króna pening á viku fyrir þá hælisleitendur sem ekki fá mat úr mötuneyti. Í vasapeninga fá hælisleitendur kr 2500 á viku. Það segja íbúar gera að verkum að raunar eigi þau erfitt með að fara frá í lengri tíma því þá geti þau ekki borðað. 2500 krónur á viku séu fljótar að fara ef fólk sleppir máltíðunum á Víðinesi. Þau upplifa sig einskis virði, einangruð og finna fyrir vonleysi. Eftir atvikið sé fólk enn í þeirri stöðu að eiga erfitt með að fara af svæðinu en þörfin til að komast burt sé enn meiri en venjulega.

Viðmælendur Kvennablaðsins lýstu svefnleysi, martröðum og ugg.

Auglýsing

Íslendingar hæddust að örvæntingu mannsins

Fjallað var um atvikið í fjölmiðlum í kjölfarið. Á vef DV mátti lesa ógeðfelldar athugasemdir frá lesendum sem fögnuðu og gerðu grín að atvikinu. „Og þetta er fólkið sem við viljum fá til Íslands,“ skrifar Facebook-notandi í athugasemd við frétt sem DV.is. „Um að gera að lýsa upp skammdegið,“ skrifar annar. „Það er ekkert verið að spara bensínið, og ríkið borgar það fyrir hann,“ skrifar sá þriðji.

Sema Erla Serdar, baráttukona fyrir réttindum hælisleitenda, bregst við athguasemdunum og gagnrýnir mannfjandsamleg viðhorf á Facebook.

„Hælisleitandi hellir yfir sig bensíni og kveikir í sér. Ég mun aldrei geta sett mig í spor einstaklings sem gerir svo og mun aldrei þykjast skilja hvað veldur því að einstaklingar grípi til slíkra örþrifaráða en hjartað í mér brestur þegar ég ímynda mér þjáningarnar og örvæntinguna sem sá einstaklingur hlýtur að búa yfir. Svona viðburður er átakanlega sorglegur og það er enginn sem gerir svo nema hann upplifi algjöra uppgjöf og úrræðaleysi.“

Sema segir viðburðinn endurspegla þær hræðilegu aðstæður sem Íslendingar bjóði hælisleitendum upp á.

„Það hatur sem birtist á kommentakerfunum og samfélagsmiðlum í kjölfar fregna af svona hræðilegum atburði er líka óskiljanlegt. Athugasemdir eins og „Það veitir ekki af því að lýsa aðeins upp í skammdeginu“ og „vona að þeir kveiki allir í sér“ og „gat hann ekki fengið að vera í friði með sína brennu auminginn“ eru dæmi um viðbrögð við þessum sorgarfréttum. Ég mun aldrei skilja hvernig hægt er að búa yfir svona ótrúlega miklu hatri í garð annars fólks, hvernig hægt er að sýna svona mikla mannfyrirlitningu.

Samkennd, umhyggja og kærleikur eru gildi sem við ættum öll að tileinka okkur. Auðmýkt, virðing og skilningur eru einkenni sem allt mannfólk ætti að búa yfir. Réttlæti, mannúð og jöfn tækifæri eru leiðarstef sem við ættum öll að fylgja. Það mun ég a.m.k. segja við skólakrakkana sem ég heimsæki á morgun til þess að ræða við um fordóma og hatursorðræðu. Það vil ég líka segja við þá sem hafa ekkert fram að færa nema hatur. Þeim vil ég líka senda knús. Svo langar mig að biðja þau um að velta því fyrir sér hvort viðbrögðin hefðu verið einhvern veginn öðruvísi ef ekki hefði verið um karlkyns hælisleitanda að ræða? Og þá hvers vegna?“

Þorri Hringsson mælir með borðvínum með jólamatnum

$
0
0

Nú eru bara nokkrir dagar til jóla og í stað þess að að fá vægt kvíðakast, vegna þess að maður hefur ekki hugmynd um hvaða vín maður á að versla fyrir jólin, þá er einfaldast að setjast niður í rólegheitum, lesa þessa grein og fara svo með innkaupalistann út í næstu vínbúð! Málið leyst!

Það er alveg við hæfi að fá sér góð vín yfir hátíðarnar. Reyndar er alltílagi að fá sér góð vín allan ársins hring, ef útí það er farið, en ef maður fær sér ekki góð vín um jól og áramót, hvenær er þá eiginlega tilefnið?

Jólamatur er auðvitað margskonar og sem betur fer er ekkert eitt vín sem fer vel með öllu. Svo er auðvitað umdeilanlegt hvort vín sé eitthvað að bæta ákveðnar tegundir af jólamat og og gott dæmi um það er auðvitað hangikjötið sem er, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir vínáhugamanna, sérlega ó-vínvænt og það sama má segja um hamborgarhrygginn, þótt hann sé hugsanlega eilítið auðveldari með víni. En hér á eftir ætla ég að koma með nokkrar uppástungur af jólavínum sem ættu að gera lífið bæði auðveldara og skemmtilegra!

Fordrykkur

Fordrykkir eru ómissandi á jólunum. Það er vel við hæfi að skála í freyðivíni við gesti og auðvitað að súpa á því meðan staðið er yfir pottunum. Freyðivín koma reyndar í öllum útgáfum og öllum verðflokkum en ég ætla að mæla með tveimur að þessu sinni.

snipimage
Villa Conchi Cava Brut Seleccion (kr. 1.960.-) kemur frá Spáni, er ódýrt en sannarlega ekki neitt rusl, blandað úr hefðbundnum Cava-þrúgum (sem engin hefur áhuga á að vita hverjar eru) en líka með góðum skammti af Chardonnay sem lyftir því verulega upp og gerir það eitt ljúffengasta Cava sem okkur stendur til boða. Frábært eitt og sér, en er líka gott með einfaldari forréttum og léttara fiskmeti.

snipimage_1
Ferrari Maximum Brut (kr. 4.350.-) er hinsvegar alvöru stöff. Svo mikið alvöru að það er erfitt að greina það frá Kampavíni sé bundið fyrir augun á manni. En það skulum við ekki gera á jólunum, þá gæti maður hrasað um jólatréð og tengdapabba. Ferrari er gert einsog Kampavín, bragðast einsog Kampavín en er töluvert ódýrara en Kampavín. Það er dásamlega þurrt og léttleikandi með breiðan bragðprófíl sem fær munnvatnið til að streyma. Það er frábært eitt og sér en er líka býsna gott með matnum. Ég væri, til að mynda, alveg til í að hafa það með ostrunum ef maður fengi slíkt. Ég væri líka til í að hafa það með Scarlett Johansson ef hún væri til í það, en það er víst ekki að fara að gerast.

Fiskur og grænmeti

Margir eru með fiskmeti um hátíðarnar og ætli humarinn sé ekki vinsælastur. Sumir eru reyndar með allskonar laxafroður og rækjukokteila sem er bara alltílagi. Svo eru það þessi skrýtnu sem borða hvorki kjöt né fisk, allan ársins hring, en af einhverjum ástæðum þá eru þeir samt alveg til í að fá sér vínglas og af hverju þá ekki eitthvað gott?

snipimage_2

Með fiski (og þá meina ég líka humri) er flott hvítvín nauðsynlegt. Ekta Búrgúndari er skotheldur og skemmtilegur. Chateau de Santenay Chardonnay Vielles Vignes (kr. 2.990.- og þetta síðasta þýðir að vínviðurinn er orðinn aldraður, sem þykir betra) er upprunalegur, fíngerður og matarvænn með þennan sérstæða Búrgúndarkeim sem allir eru að reyna að stæla en tekst ekki. Það vín er líka gott með laxa-eitthvað, -röndum eða –frauðum og margskonar öðrum forréttum.

snipimage_3
Ég vil líka stinga uppá rósavíninu Miraval (kr. 2.945.-) fyrir þá sem vilja hafa smá bleikt í glasinu um hátíðarnar. Það er verulega hátíðlegt á litin og þolir reyndar bragðmeira fiskmeti en er flott með margskonar öðrum og ónefndum forréttum og vilji menn endilega úða mikið af hvítlauk á humarinn eða fiskinn þá er Miraval mun heppilegra en flest annað. Gleymum því ekki að það eru Brad og Angelina sem gera þetta vín og við verðum einhvernvegin að hjálpa þeim í gegnum þessa erfiðu tíma. Ég hef allavega tryggt mér nokkur gler af Miraval.

snipimage_4
Fyrir grænmetisfólkið sem vill gott hvítvín þá er óhætt að mæla með Romeo og Juliet’s Passione Centimento (kr. 2.190.-), sem er mjúkt og ávaxtaríkt með góðri hryggsúlu sem gerir það verulega matarvænt. Látið ekki þetta dularfulla nafn og þessa undarlegu flösku hræða ykkur. Innihaldið er framleitt af Pasqua-fjölskyldunni og er gott stöff sem fer vel með grænmeti, hnetusteikum og solleis.

snipimage_5
Altos R Bianco (2.125.-) frá Spáni er líka sérlega mjúkt, matarvænt og hátíðlegt hvítvín sem fer vel með flestum grænmetis- og forréttum.

Ljóst kjöt

Ljóst kjöt er eiginlega bara kalkúnn á jólunum. Kannski einhver risakjúklingur líka en það er nánast sami hluturinn. Önd verður líka að teljast til ljósa kjötsins, amk þessi sem hefur verið alin upp innanhúss. Sem betur fer er erfitt að finna sæmilegt vín sem ekki er gott með ljósu kjöti. Og það er hægt að brúka hvaðeina sem manni dettur í hug, hvítt, rautt, bleikt og freyðandi en ég skal mæla með einu hvítu og einu rauðu svona til að allir fá eitthvað.

snipimage_6
Steingold Pinot Gris (kr. 2.890.-) kemur frá Alsace, er gert af Pfaffenheim-víngerðinni og hefur þetta mjúka og sæta fitulag um miðjuna sem gerir það svo heppilegt með ljósu kjöti og öllu meðlætinu. Það þolir nánast hvaða mat sem er svo séu menn í vafa má prófa það nánast með öllum jólamatnum nema kannski Riz á l’amande, það mun virka.

reserva-especial-pinot-noir-2012
Cono Sur Pinot Noir Reserva Especial (kr. 2.390.-) er vissulega ekki rauður Búrgúndari en mikið svakalega er þetta gott vín og allur þessi rauði og kryddaði ávöxtur sem vínið inniheldur fer sérstaklega vel með ljósu kjöti og það hefur einnig nægjanleg tannín og sýru á móti ávextinum til að ráða við rjómasósur og margbreytilegt meðlæti.

Villibráð

Villibráð á jólunum er ekki lengur bara mauksoðin rjúpa með rjómasósu. Nú snöggsteikja menn rjúpu og sú-vídda hana svo dæmi séu tekin. En ekki nóg með það, allskonar framandi villidýr fást núna og gefa jólakokkinum óendanlega möguleika. Við getum valið á milli gæsa, anda, krónhjarta, dádýra, strúta og kengúra svo nokkur dæmi séu tekin. Sum þessara innfluttu dýra eru vissulega kannski ekki alveg rammvillt, en nóg til þess að velja svipuð vín með þeim. Með villibráðinni er auðvitað gaman að draga fram betra rauðvínin en þau þurfa samt ekkert að vera rándýr, þótt við séum að finna vín með villidýrum.

snipimage_7

 

Doña Paula Estate Malbec (kr. 2.420.-) er stórt en fágað vín frá Argentínu sem hefur fullt af öllu, ávexti, tannínum og fyllingu. Það er dökkt og bragðmikið einsog villibráð og ræður við bragðmikið meðlæti.

 

snipimage_8
Pago de Cirsus Cuvée Especial (kr. 3.350.-) er kraftmikið rauðvín frá Spáni sem er blandað úr þrúgunum Tempranillo, Merlot og Syrah. Það er mjúkt þrátt fyrir stærðina með heilmikla vanillu- og súkkulaðitóna sem fara vel með dökkri villibráðinni og reyndar með nautasteikinni líka, ef einhverjir skyldu vera með þannig skepnu á jólaborðinu.

Reykt og hangið

Maður verður víst að sætta sig við að stór hluti þjóðarinnar vill hafa hamborgarhrygg á jólaborðinu jafnvel þótt að það sé kvöl og pína að finna vín sem smellpassar með því. Salt, reykt og sætt saman á einum disk er martröð þess sem mælir með vínum og ég geri mér grein fyrir að allt sem maður stingur uppá er umdeilanlegt.

snipimage_9
Cono Sur Bicicleta Gewurztraminer (kr. 1.935.-) er reyndar ekkert sérlega dýrt, (ég veit heldur ekki hvort ég myndi tíma að eyða stórum summum á vín með hamborgarhrygg) en það er kryddað og sætkennt hvítvín frá Chile með heilmikilli sýru sem getur amk ekki spillt fyrir þessu salta og reykta.

snipimage_10
Romeo and Juliet’s Passione Centimento (kr. 2.290.- altso það rauða, ég mælti áðan með því hvíta) er gert með Passimento-aðferðinni þar sem hálfþurrkuðum þrúgum er bætt útí hálfgerjað rauðvín til að auka flækjustig þess. Það hefur sætu og sýru og mjúk tannín sem ráða við býsna öfgakenndan mat. Svo má alveg benda á Steingold Pinot Gris sem ég minntist á hérna á undan, það gengur með öllu þessu reykta, súrsæta og salta. Ég myndi sjálfur bara hafa malt og appelsín með hangikjötinu.

Svo er það bara að bera fram vínin við rétt hitastig (freyðivín beint úr ísskáp, hvítvín 8-12°C og rauðvín 16-19°C) í almennilegum glösum, en ég þreytist seint á benda fólki á að góð vínglös eru besta fjárfesting sem hægt er að gera.

pepin-riedel-image

 

Riedel er málið þessi jól og þau mun endast út lífið og gera sæmileg vín góð og góð vín framúrskarandi. Reynið svo að stilla magninu í hóf. Betra er að fá sér lítið af frábærum vínum frekar en mikið af vondum vínum. Gleðileg jól!

Hreiðar Már vill tíu milljónir frá ríkinu „vegna spillingar embættismanna“

$
0
0

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, fer fram á að íslenska ríkið greiði honum tíu milljónir króna í miskabætur vegna meintra tengsla sérstaks saksóknara við héraðsdómara. Frá þessu greinar Fréttablaðið í morgun.

Auglýsing

Hreiðar ritaði grein í Fréttablaðið í gær þar sem kom fram að hann hefði stefnt íslenska ríkinu. Hann segir í greininni að Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hafi í raun valið sér dómara í máli sem snéri að heimild embættisins til hlerunar á síma Hreiðars Más. Það hafi verið gert með því að sækjast eftir heimild frá Héraðsdómi Vesturlands en ekki Reykjavík eða Reykjanesi.

Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson voru allir dæmdir í óskilorðsbundið fangelsi í héraði í desember 2013 og voru dómarnir þar yfir Hreiðari og Sigurði þeir þyngstu sem fallið hafa í efnahagsbrotamáli hér á landi. Var Hreiðar dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi í héraði. Hæstiréttur kvað síðar upp dóm í Al-Thani málinu í febrúar 2015 og var þá fimm og hálfs árs fangelsisdómur yfir Hreiðari Má staðfestur.

Al-Thani málið á rætur að rekja til hlutabréfakaupa sheikh Mohammed Bin Khalifa Al-Thani hlut í Kaupþingi banka fyrir 25,7 milljarða, króna með láni frá bankanum, 22. september árið 2008. Fyrir þessa upphæð fengust 5,01 prósent í bankanum.  Sérstakur saksóknari hélt því fram að um sýndarviðskipti hefðu verið að ræða til að halda uppi hlutabréfaverði í Kaupþingi og skapa þannig falska eftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum.

Al-Thani málið hafði víðtæk áhrif í íslensku efnahagslífi og greindi Morgunblaðið meðal annars frá því á sínum tíma að „kaup sj­eiks­ins Mohammed Bin Khalifa Al-Thani frá Kat­ar á fimm pró­senta hlut í Kaupþing banka í lok sept­em­ber 2008 efldi til­trú manna á ís­lensku efna­hags­lífi og sann­færði fyrr­um stjórn­ar­menn í SPRON um að Ex­ista, sem átti stór­an hlut í Kaupþingi, stæði styrk­um fót­um.“ Í fréttinni er vitnað til vitnisburðar Margrétar Guðmundsdóttur sem var í stjórn SPRON þegar sýndarviðskiptin áttu sér stað, Ara Bergmann Einarssonar fyrrverandi stjórnarmanns SPRON og Rannveigu Rist. Margrét sagði í þinghaldinu að hún myndi vel eftir stjórnarfundinum í kjölfar Al-Thani málsins. „Hún hefði átt í mikl­um og góðum sam­skipt­um við eig­end­urna og séð glögg­lega að ar­ab­ar væru þannig hugs­andi að þeir vönduðu mjög til verka þegar kæmi að fjár­fest­ing­um, þar á meðal í Evr­ópu. Kaup Al-Than­is hefðu síðan sann­fært hana um að Kaupþing væri í sterkri stöðu og þá jafn­framt Ex­ista,“ segir í frétt Morgunblaðsins. „Ari Berg­mann Ein­ars­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­maður í SPRON, sem er einnig ákærður í mál­inu, tók í svipaðan streng. Hann sagði að menn hefðu ekki aðeins talið að kaup sj­eiks­ins væru góð tíðindi fyr­ir Kaupþing, held­ur einnig fyr­ir ís­lenskt efna­hags­líf. „Maður hélt að botn­in­um væri náð og það væri bjart framund­an,“ sagði hann.“ Sama kom fram í máli Rann­veig­ar Rist. Kaup sjeiks­ins hefðu sann­ar­lega eflt til­trú manna á ís­lensku efna­hags­lífi. „Al-Thani viðskipt­in voru skýrt merki um já­kvæðni og bjart­sýni,“ sagði hún.

Auglýsing

„Það getur skipt miklu fyrir aðila dómsmáls hvaða einstaklingur er valinn sem dómari í máli þeirra. Allir þeir sem hafa unnið við eða komið að dómsmálum vita að val á dómara getur jafnvel skipt sköpum við úrlausn mála,“ skrifar Hreiðar í aðsendri grein í Fréttablaðinu í gær þar sem hann tilkynnti um stefnuna. „Af þeim sökum hefur löggjafinn sett í lög ákvæði sem kveður á um að tryggja skuli að tilviljun ráði hvaða dómari fái úthlutað máli þegar dómstóll fær mál til málsmeðferðar.“

„Embætti sérstaks saksóknara fékk hlerunarbeiðnir sínar stimplaðar af héraðsdómara. Þrátt fyrir að Embætti sérstaks saksóknara hefði aðsetur í Reykjavík og þeir sem áttu að hlera dvöldu í Reykjavík og hefðu lögheimili erlendis, ákvað embættið að leita til Héraðsdóms Vesturlands eftir heimild til hlerunar.“

Auglýsing

Hann segir þessa ákvörðun í raun þýða að saksóknari hafi valið dómara. „Með því að velja Héraðsdóm Vesturlands var Embætti sérstaks saksóknara ekki einungis að velja sér dómstól heldur í raun einnig að velja sér dómara. Ef Embætti sérstaks saksóknara hefði leitað til Héraðsdóms Reykjavíkur hefðu starfsmenn embættisins ekki vitað hvaða dómari fengi málinu úthlutað. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hafði áður en hann tók við því embætti verið Sýslumaðurinn á Vesturlandi. Þá var hann með aðsetur á Akranesi, sem er í umdæmi Héraðsdóms Vesturlands. Það var því ákaflega hentugt fyrir Ólaf Þór að beina hlerunarbeiðnum sínum til Benedikts Bogasonar dómara, en þeir höfðu á sama tíma til fjölda ára gegnt embættisstörfum réttarkerfisins á Vesturlandi. Þar áður höfðu þeir stundað nám á sama tíma í lagadeild Háskólans og unnið um tíma saman hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði.“

Kolla sökkvir sér ofan í jólabarnabækurnar

$
0
0

screen-shot-2016-12-13-at-09-56-26Nú er minn uppáhalds árstími genginn í garð. Aðventan. Þegar maður bakar piparkökuhús og á gæðastundir með fjölskyldunni við að skreyta heimilið og borða mandarínur. Síðast en ekki síst er þetta tími jólabókanna. Um 70% allra bóka sem gefnar eru út á Íslandi koma út á þessu tímabili, enda ekki að ástæðulausu að talað er um jólabókaflóðið.

Barnabækur eru einhver mikilvægasti bókaflokkurinn í mínum huga en því miður finnst mér þessar bækur alls ekki fá næga umfjöllun, heldur falla barnabækur oft dálítið í skuggann af öllum krimmunum og ævisögunum sem skiljanlega fá gríðarlega mikla athygli fyrir jólin. Ég hef því ákveðið að deila með ykkur nokkrum bókum sem ég held að börnin ykkar, barnabörn, nú eða börn vina og vandamanna, gætu haft gaman af.

Það er yndislegt þegar svona auðvelt er að velja tíu barnabækur til að mæla með. Úrvalið í þessum flokki er einstaklega gott í ár og auðvitað er þetta bara brotabrot af því sem í boði er. Ég vona þó að þessi litli listi geti hjálpað einhvejrum að velja gjöf handa litlum lestrarhestum og upprennandi bókaormum.

 

screen-shot-2016-12-13-at-09-34-43
Bókin borðaði hundinn minn – Richard Byrne
Þar sem Bella er úti að labba með hundinn sinn, hverfur hann ofan í bókina. Þessi bók borðar sumsé heilan hund! Bellu reynist erfitt að endurheimta hundinn og þá er lesandinn sá eini sem getur komið til hjálpar.

Einstaklega skemmtileg bók sem kemur á óvart.
Hentar vel 3ja-6 ára en við fullorðna fólkið getum alveg haft gaman að henni líka.

aevintyri-gaesamommu

Ævintýri gæsamömmu
Í þessari bók eru sjö sígild ævintýri og bókin er fallega myndskreytt. Sögurnar sem um ræðir eru Rauðhetta, Þyrnirós, Stígvélaði kötturinn, Sjömílnaskórnir, Froskar og gimsteinar, Óskirnar þrjár og Öskubuska.

Klassísk ævintýri sem gaman er að lesa og kynna fyrir ungum lesendum.
Hentar vel 3ja-8 ára og sérstaklega þeim sem eru að byrja að lesa sjálf.

bangsi-litli

Bangsi litli í sumarsól – Benjamin Chaud
Bangsapabbi og bangsi litli leita í hlýjuna í verslun í París en verða viðskila við hvorn annan. Þá hefst umfangsmikil leit að bangsa litla. Bangsapabbi leitar heimshorna á milli og með hjálp lesandans finna þeir hvorn annan á ný.

Sagan er hvorki flókin né löng og bókin er ósköp fallega myndskreytt.
Hentar vel 3ja-6 ára og er rík af myndum sem gaman er að gleyma sér í.

screen-shot-2016-12-13-at-09-36-41

Tröllastrákurinn læknar hrekkjusvín – Sigríður Arnardóttir
Tröllastrákurinn Vaki lendir í vandræðum með hrekkjusvín sem eyðileggur kofa hans og vina hans. Þegar lítið lamb lendir síðan í vanda og krakkarnir í bókinni hjálpast öll að við að leysa úr málinu, komast þau að því að samvinna og vinskapur er jú mun ánægjulegra en hrekkir og leiðindi.

Skemmtileg saga og þriðja bókin í seríunni um tröllastrákinn Vaka. Bókinni fylgir geisladiskur með upplestri á sögunni en hún er tilvalin fyrir börn á aldrinum 3ja-6 ára. Kristján Franklín Magnús les.

Auglýsing

screen-shot-2016-12-13-at-09-37-37

Baldursbrá – Gunnsteinn Ólafsson
Hér er búið að gefa út bók eftir ævintýraóperunni Baldursbrá sem sýnd var í Hörpu á síðasta ári. Baldursbrá langar til að sjá sólarlagið en það er hægara sagt en gert þar sem hún er blóm. Baldursbrá á þó góða vini, þá Rebba og Spóa, sem hjálpa henni að láta drauminn rætast.

Með bókinni fylgir DVD-diskur með upptöku frá sýningunni í Hörpu.
Hentar vel börnum á aldrinum 4ra-10 ára.

ovaettafor-25

Óvættaför – Drottnari hafsins Krabbi – Adam Blade
Hvorki meira né minna en 25. bókin í seríunni um Tom sem eltist við óvætti. Í þetta sinn tekst hann á við drottnara hafsins og ætlar auk þess að aflétta illum álögum sem hvíla á konungsríkinu Gvildor. Það er lítill texti á hverri síðu og því auðvelt að halda athygli lesandans, auk þess sem bókin er full af myndum.

Óvættaför er sería sem ég mæli alltaf með fyrir börn sem haldast illa við lestur og hentar vel 6-10 ára lesendum.

solbjort

Sólbjört Valentína – um freyðiböð og dansandi hjólaskauta – Jrmgard Kramer
Þetta er önnur bókin um Sólbjörtu Valentínu, en hún býr í ótrúlegu húsi sem er fullgild persóna í bókinni og hefur algerlega sinn eigin karakter. Sumrinu er að ljúka og Sólbjört og vinir hennar að byrja aftur í skólanum. Húsinu dauðleiðist því á daginn og ákveður í kjölfarið að breyta sér í skóla.

Fyndin og hressandi bók fyrir 8-12 ára lesendur.

henri-og-hetjurnar

Henrí og hetjurnar – Þorgrímur Þráinsson
Munaðarlaus, franskur strákur verður lukkudýr íslenska landsliðsins í fótbolta. Sagan gerist á EM í Frakklandi síðastliði sumar, þegar Íslendingar eru að gera allt vitlaust í boltanum. Með sumarið í fersku minni, munu krakkar og unglingar án efa elska að lesa um þetta ótrúlega skemmtilega tímabil í þessari flottu skáldsögu eftir þennan vinsæla höfund.

Ég er alltaf hrifin af barna- og unglingabókum eftir Þorgrím Þráinsson og þessi bók er engin undantekning á því.
Hentar vel 6-12 ára og jafnvel eldri lesendum því efnið er stórskemmtilegt.

vonda-fraenkan

Vonda frænkan – David Walliams
Stella er eini erfingi Saxby-setursins en Alberta frænka hennar (ekkert smá ömurleg týpa) og uglan sem hún á, gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hafa arfinn af Stellu.

Ég verð ótrúlega glöð og óeðlilega spennt (næstum spenntari en sonur minn) þegar ný bók eftir Walliams kemur út á íslensku. Eins og allar bækur hans þá er þessi troðfull af bæði húmor og fjöri, til viðbótar við smá kennslustund sem Walliams nær að lauma með.

Hentar vel 8-12 ára krökkum, en einnig hægt að lesa fyrir yngri börn.

hrollvekja

Þín eigin hrollvekja – Ævar Þór Benediktsson
Þriðja bókin eftir Ævar vísindamann þar sem þú sem lesandi ert sá sem bókin fjallar um. Ég og sonur minn höfum lesið hinar tvær bækurnar algjörlega í tætlur og þá meina ég að við höfum lesið okkur í gegnum allar rúmlega 40 leiðirnar sem mögulegt er að fara. Því er eins farið með hrollvekjuna og þegar við náum upp þori í að lesa hana þá gerum við það, gæti þurft að bíða þangað til birtir aðeins úti.

Ótrúlega sniðug bók þar sem lesandi velur sjálfur hvaða stefnu sagan tekur og mögulegt að lesa sig í gegnum fjölmargar útgáfur af sögunni.
Hentar vel hugrökkum 8-13 ára lesendum.

Ég vona sannarlega að þessi úttekt mín gagnist einhverjum þarna úti.

Svo langar mig að minna fólk á svona í lokin að börnin okkar læra það sem fyrir þeim er haft. Þannig að ef við erum dugleg að lesa sjálf , þá er mun líklegra að börnin okkar hafi áhuga á lestri.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og vona að þið náið að lesa smá þó að jólafríið sé stutt þetta árið.

Samfylkingin hlakkar „til að taka upp þráðinn að nýju, reynist vilji til þess hjá öðrum“

$
0
0

„Samfylkingin er leið yfir því að slitnað hafi upp úr viðræðum fimm flokka um myndun ríkisstjórnar. Við töldum góðan möguleika á að þessir flokkar gætu myndað umbótastjórn þar sem í senn yrði unnið að endurreisn heilbrigðis- og menntakerfis og nauðsynlegra fjárfestinga í innviðum ásamt því að koma á kerfisbreytingum í landbúnaði og sjávarútvegi,“ segir í tilkynningu frá Samfylkingunni vegna þess að slitnað hefur upp úr stjórnarmyndunarumræðum fimm flokka. „Við myndum líka vinna að umbóta- og framfaramálum s.s. loftslagsstefnu, atvinnumálum, auknu jafnrétti og nýrri stjórnarskrá, svo fátt eitt sé nefnt.“

Auglýsing

Þá segir að Samfylkingin telji vel mögulegt að brúa bilið á milli flokkanna og að flokkurinn hafi lagt til  hugmyndir um hvernig mætti fjármagna brýn verkefni. „Okkur finnst mikill árangur hafa náðst í viðræðum milli þessara fimm flokka, bæði undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur og Birgittu Jónsdóttur. Við erum ánægð með samvinnuna við frábært fólk í öllum þessum flokkum og hlökkum til að taka upp þráðinn að nýju, reynist vilji til þess hjá öðrum.“


Útgerðarmenn okkar eigin vesalingar

$
0
0

600px-kristinn_h_gunnarsson„Hvað sjávarútveginn varðar þá hafa verið sett lagaákvæði til þess að takmarka samþjöppun en að öðru leyti er útgerðin meðhöndluð sem vesalingar sem þurfa sérstaka vernd ríkisins til þess að geta rekið fyrirtæki sín,“ skrifar Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður og ritstjóri Vestfjarða, á vefsvæðinu sínu í gær. „Handhafa veiðiréttarins fá ótímabundna úthlutun. Þeir hafa öryggi um aldur og ævi og þurfa ekki að óttast samkeppni um veiðiheimildirnar. Þeir þurfa ekki að hagnýta veiðiréttinn sjálfir og mega láta aðra veiða en hirða sjálfir afraksturinn. Útgerðin greiðir ríkinu brot af markaðsverði réttindanna sem hún lætur aðra greiða sér.“

Kristinn segir að í tilfelli þorskveiðiréttinda fái handhafi kvótans „93% af markaðsvirðinu en ríkið 7%.“ Hann segir kerfið búa til efnahagslega mismunun. „Ríkið sjálft býr til stórkostlegan efnahagslega mismun milli fyrirtækja. Þetta nefnist ríkisstuðningur, og er í öðrum atvinnugreinum andstæður EES samningnum og eru þungar refsingar við slíkum brotum. Þar sem samkeppnishvatinn er tekinn út verður ekki endurnýjun á markaðslegum forsendum sem hverri atvinnugrein er nauðsynlegt. Afleiðingin verður stöðnun og síðan afturför.“

Þá bendir hann á nokkur dæmi um ótrúlegan vilja yfirvalda til að fara heldur mjúkum höndum um útgerðarmenn.

Auglýsing

„20% afsláttur – Nýundirritaðir kjarasamningar færa útgerð sem jafnframt er fiskkaupandi fiskinn með 20% afslætti frá markaðsverðinu. Þetta þýðir miðað við 2015 að verðið á fiski sem seldur er í beinum viðskiptum er með 11 milljarða króna afslætti. Það lækkar laun sjómanna að sama skapi. Eru útgerðarmenn svo miklir vesalingar að þeir þurfa að fá 20% afslátt frá markaðsverði til þess að geta rekið fyrirtæki sín? Geta þeir ekki keppt við aðra fiskkaupendur?

Nýsmíðaálag – þrátt fyrir hástemmdar lýsingar á arðsemi íslensks sjávarútvegs og yfirburðafærni núverandi kvótahafa verða þeir að sækja hluta af kaupverði nýrra skipa í vasa sjómanna. Nýsmíðaálagið lækkar laun sjómanna um allt að 10%. Eru útgerðarmenn slíkir vesalingar að þeir geta ekki í besta fiskveiðikerfi í heimi greitt skipin sín án þess að seilast ofan í vasa áhafnarinnar?

Olíukostnaður – fyrir rúmum 30 árum voru aðstæður þannig að olíukostnaður tók nærri 30% af tekjum útgerðarinnar. Þá voru sett lög sem heimiluðu útgerðinni að draga 30% af tekjunum frá óskiptu. Um allmörg ár hefur staðan verði mun betri og síðustu árin er olíukostnaðurinn um 11% af tekjunum. Engu að síður er útgerðin enn að fá 30% af tekjunum framhjá skiptum til sjómanna. Sjómenn greiða allan olíukostnaðinn, ekki einu sinni heldur þrisvar sinnum. Eru útvegsmenn slíkir vesalingar að í myljandi arðbærum atvinnurekstri þar sem framlegðin er um 30% og 70 – 75 milljarðar króna á hverju ári þurfi að velta olíukostnaðinum að fullu yfir á sjómenn?

Sjómannafsláttur – um áratugaskeið niðurgreiddi ríkið launakostnað útgerðarinnar með sjómannaafslættinum. Fyrir fáum árum var því hætt og útgerðin talin geta borið sjálf þennan kostnað. Aðstæður í útgerð hafa líka verið með besta móti. En það var ekki við því komandi að útgerðin greiddi þennan 1,5 milljarð króna. Kjör sjómanna rýrnuðu sem þessu nemur. Eru útgerðarmenn slíkir vesalingar að þeir geta ekki greitt laun sjómanna í bestu afkomu um áratugaskeið?“

Frá Eskifirði til Ásgarðs – unglingabækur í úrvali

$
0
0

Það eru eflaust margir að velta fyrir sér hvað maður á að gefa unglingnum í fjölskyldunni í jólagjöf. Stundum er einfaldleikinn bestur og góð bók svíkur engan. Í samstarfi við Bókstaf og Óðinsauga útgáfu hefur Kvennablaðið gert umfjallanir um þrjár unglingabækur. Tvær þeirra byggja á fornum grunni úr sögu Íslendinga og ein sagan gerist í nútímanum í aðstæðum sem eflaust margir unglingar geta fundið tengingu við.

Ef það vill svo til að unglingurinn les mikið þá gæti hann einnig haft áhuga á spennusögunum sem eru að koma út fyrir jól.

Sjá einnig: Augnablik í amstri dagsins með íslenskum bókmenntum og Íslenskar bækur um fortíð, framtíð og smákökur í nútíð

Skögla: Helreið Nýráðs til Jötunheima eftir Þorgrím Kára Snævarr er byggð á norræna goðsöguheiminum en beinir athyglinni að aukapersónum í stað stóru og frægu goðanna.

Ert’ekki að djóka, Kolfinna? eftir Hrönn Reynisdóttur fjallar um reykvíska stelpu sem er send gegn vilja sínum til ættingja á Eskifirði en hún skiptir þó fljótt um skoðun á staðnum. Bókin hefur slegið í gegn og er fyrsta prentun að verða uppseld hjá útgefanda.

Nikký og skuggaþjófurinn er eftir Brynju Sif Skúladóttur og er þriðja bókin í seríunni um Nikký. Ævintýralegur bragur og spennandi atburðir halda athyglinni við lesturinn.

NIKKÝ OG SKUGGAÞJÓFURINN eftir Brynju Sif Skúladóttur

„Hún sá eitthvað risastórt koma út úr þokunni – sem líktist ógnarstórum ál með haus á stærð við lítinn fólksbíl. Kjafturinn á skepnunni var opinn. Nikký öskraði af lífs og sálarkröftum, greip um höfuðið og grúfði sig niður í jörðina. Nú var þetta búið. Skrímslið ætlaði að gleypa hana.“

Nikký og skuggaþjófurinn er þriðja bókin í ævintýraröðinni um Nikký.

Nikký er skapmikil og hugrökk þrettán ára stelpa sem á rætur sínar að rekja til tveggja ólíkra heima, Reykjavíkur nútímans á Íslandi og sirkusfjölskyldu frá Sviss. Hún býr yfir einstökum hæfileikum til að ná sambandi við trén sem hún hefur frá sirkusdrottningunni Mandönu ömmu sinni.

Tilhlökkun Nikkýjar er mikil enda veit hún að sumarið verður viðburðaríkt. Framundan er heimsókn Mandönu ömmu og sirkussins til Íslands. Gleðin yfir endurfundunum er í hámarki þegar dularfullir hlutir gerast sem tengjast sirkusdrengum Rayno. Mandana amma er þögul sem gröfin en Nikký ætlar að komast að sannleikanum sama hvað það kostar! Nikký og vinir hennar sogast inn í hringiðu óhugnanlegra atburða þar sem skuggatréð, Lagarfljótsormurinn ásamt hættulegum illmennum úr sirkusnum koma við sögu. Í æsispennandi atburðarás þarf Nikký og vinir hennar á öllum sínum hæfileikum að halda til að bjarga Rayno og koma í veg fyrir að ógnarmáttur skuggatrésins falli í rangar hendur.

Í sögunni takast á öfl sem eru tengd raunveruleikanum eins og trén og kraftar sem tengjast gömlum þjóðsögum og ímyndunaraflinu eins og skuggatréð og  Lagarfljótsormurinn. Spennandi og skemmtileg bók sem heldur athyglinni og tekst á við erfiðar tilfinningar og innri baráttu aðal persónunnar sem er forsenda þess að hún geti barist gegn hinu Illa. Í sögunni er raunveruleikinn í forgrunni en dulúðin aldrei langt undan.

Fyrri bækurnar um Nikký kallast Nikký og baráttan um bergmálstréð og Nikký og slóð hvítu fjaðranna.

Nikký og skuggaþjófurinn er gefin út af Óðinsauga útgáfu 

Facebook síða Óðinsauga

Ert’ekki að djóka, Kolfinna? eftir Hrönn Reynisdóttur

„Í alvöru mamma. Ég trúi því ekki á ykkur að ætla að senda mig þangað. Þetta er bara útlegð!“

kolfinna_bokatindi

Kolfinna er 16 ára stelpa sem er send til ömmu sinnar á Eskifirði eftir að skóla lýkur um vorið. Hún er Reykjavíkurstelpa og finnst sumardvöl á Eskifirði alveg glötuð hugmynd. Hún hefur ekki miklar væntingar til lífsins á þeim stað og sér ekki alveg hvað í veröldinni hún á að gera þarna. Það er þó margt sem á svo sannarlega eftir að koma henni – og öðrum – á óvart. Hún uppgötvar áður ókunna hæfileika hjá sjálfri sér sem verða til þess að hún hefur óvænt áhrif á líf annars fólks.

Hrönn Reynisdóttir, höfundur bókarinnar, er búsett á Eskifirði en uppalin á Ísafirði. Ert‘ekki að djóka, Kolfinna? er fyrsta bók hennar. Hún hefur slegið í gegn og fyrsta prentun er að klárast hjá útgefanda. Kápumynd hannaði Perla Sigurðardóttir.

Ert‘ekki að djóka, Kolfinna? er gefin út af Bókstaf ehf. 

Facebook síða Bókstafs ehf.

Skögla: Helreið Nýráðs til Jötunheima

Skögla: Helreið Nýráðs til Jötunheima er íslensk fantasía eftir Þorgrím Kára Snævarr. Bókin er fyrsta skáldsaga höfundarins. Þorgrímur lagði stund á myndlistarnám í Brussel með áherslu á myndasögur.

forsidaskoglargb72p

Sagan byggir á heimi norrænnar goðafræði en beinir athyglinni að aukapersónum úr goðafræðinni í stað gömlu frægu kempanna. Þegar dvergurinn Nýráður og fósturdóttir hans, Skögul, halda til fundar við konunginn í Næríki á hvorugt þeirra von á hremmingunum sem bíða þeirra. Launráð verða til þess að þeim er stíað í sundur og þurfa þau að vaða eld og brennistein til þess að finna hvort annað á ný. Á leiðinni mæta þau blóðþyrstum nöðrum, alvitrum jötni og útlægu goði í kapphlaupi við tímann þar sem þeirra gætu beðið verri örlög en dauðinn.

Útgefandi gerir að gamni sínu og segir bókina vera hina íslensku Harry Potter, enda um magnaða ævintýrabók að ræða sem hentar fyrir alla aldurshópa. Líkt og í Harry Potter er smá drungi í textanum og því æskilegt að lesendur séu ekki yngri en 12 ára.

Skögla: Helreið Nýráðs til Jötunheima er gefin út af Óðinsauga útgáfu 

Facebook síða Óðinsauga útgáfu  

Umfjöllun unnin í samstarfi við: Bókstaf ehf. – Ritsmiðju Austurlands og Óðinsauga útgáfa

John McClane og jólabækur í Bíó Paradís

$
0
0

Bíó Paradís stendur fyrir bókaupplestri í dag, 14. desember, klukkan 20.00 að Hverfisgötu 54. Rithöfundar stíga fram og lesa upp úr bókum sínum. „Það verður hugguleg jólastemning í bíóinu; piparkökur og konfekt, kaffi og jólabjór. Kíktu við og upplifðu skemmtilega upplestrastund í Bíó Paradís, huggulega kaffihúsinu / barnum við Hverfisgötu!“ segir í viðburðartilkynningu bíósins.

Auglýsing

Jólamyndin Die Hard verður svo sýnd á föstudags og laugardagskvöld. Þegar er uppselt á föstudagssýninguna skipuleggjendum til mikillar gleði. „Við erum alveg bit!“ segir í fréttabréfi Bíó Paradísar. Á viðburðarlýsingu jólasýningarinnar segir að Die Hard sé einhver albesta jólamynd allra tíma. „Um er að ræða fyrstu kvikmyndina um lögreglumanninn John McClane sem tekst alltaf að vera á röngum stað á röngum tíma en bjargar auðvitað málunum. Hans Gruber og hryðjuverkafélagar hans eiga ekki séns í Nakatomi-turninum þessi jól frekar en nokkur önnur.“

Die Hard var tilnefnd til fjögurra Óskarsverðlauna, fyrir klippingu, hljóð, hljóðbrellur og brellur og hefur verið nefnd ein besta hasarmynd allra tíma.

Hælisleitendur á Víðinesi búa við einangrun og veika innviði

$
0
0

„Það er ekki endi­lega aðstaðan sjálf held­ur staðsetn­ing­in og aðbúnaður­inn sem við höf­um fyrst og fremst verið að benda á,“ seg­ir Atli Viðar Thor­sten­sen, sviðsstjóri hjálp­ar- og mannúðarsviðs Rauða kross Íslands, í samtali við Morgunblaðið, um aðstöðu fyr­ir hæl­is­leit­end­ur í Víðinesi og Arn­ar­holti. „Bæði vant­ar innviði á þess­um stöðum og bæta þyrfti sam­göng­ur því í dag er þetta ekki spurn­ing um það hvað fólk hef­ur þarna fyr­ir stafni held­ur frek­ar hvað það hef­ur ekki fyr­ir stafni. Það mætti huga bet­ur að sam­eig­in­legu rými á stöðunum og hafa eitt­hvað fyr­ir fólk að gera, ein­hverja iðju. Þá þyrfti að auka aðgengi að al­mennri heilsu­gæslu og huga bet­ur að and­legri líðan hæl­is­leit­enda og hafa aðgengi­legri úrræði fyr­ir þá sem þau þurfa,“ seg­ir Atli.

Makedónski hælisleitandinn sem í örvæntingu kveikti í sér í síðustu viku er látinn. Íbúum á Víðinesi var greint frá þessu 12. desember og fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. Kvennablaðið fjallaði í síðustu viku um aðdraganda þess að ungur maður á þrítugsaldri bar eld að klæðum sínum. Hælisleitandinn hafði sýnt ítrekuð merki þess að vera svo langt leiddur af örvæntingu og vonleysi að þeir sem þekkja til málsins tala um að tímaspursmál hafi verið hvenær hann gripi til slíkra örþrifaráða. Skipulags- og áhugaleysi á aðstæðum hælisleitenda skapi andrúmsloft vonleysis meðal fólks sem hingað sækir.

Auglýsing

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð að húsnæði Útlendingastofnunar í Víðinesi á þriðja tímanum síðastliðinn miðvikudag, en þar hafði hælisleitandi hellt yfir sig bensíni og kveikt í. 

„Maðurinn, sem er illa brunninn, var fluttur á sjúkrahús, en ekki er vitað frekar um líðan hans á þessari stundu. Þetta var annað útkallið sem lögreglan sinnti í Víðinesi í dag [Miðvikudagurinn 7. desember], en í hádeginu hótaði annar hælisleitandi að skaða sjálfan sig. Ekki kom þó til þess, en maðurinn var fluttur á lögreglustöð á meðan unnið er í máli hans. Áfallateymi Útlendingastofnunar var kallað út til að hlúa að íbúum og starfsfólki í Víðinesi,“ segir í upphaflegri tilkynningu lögreglu.

Kvennablaðinu barst ljósmynd af manninum sem kveikti í sjálfum sér frá íbúum Víðiness.

Kvennablaðinu barst ljósmynd af manninum sem kveikti í sjálfum sér, frá íbúum Víðiness. Íbúar eru mjög skelkaðir eftir atvikið og hugsi yfir því að ítrekaðar beiðnir um aðstoð til handa manninum hafi verið hunsaðar.

Maðurinn sem er frá Makedóníu hafði samkvæmt heimildum Kvennablaðsins sýnt af sér einkenni alvarlegs þunglyndis um nokkurn tíma. Vinir og kunningjar mannsins í Víðinesi höfðu um leið óskað þess að hann fengi aðstoð. Kvennablaðið veit til þess að öryggisverðir á staðnum og þjónustuteymi Útlendingastofnunar hafði borist ósk um að gripið yrði inn.

Viðmælendur blaðsins, hælisleitendur og fólk sem starfar með hópnum, er slegið vegna málsins. Öllum ber saman um að skipulags- og sinnuleysi hafi orðið til þess að maðurinn greip til slíkra örþrifaráða. Greina má þreytu meðal þeirra sem sinna málaflokknum.

Maðurinn sem er á þrítugsaldri hafði nýlega verið hafnað um landvist hér og átti von á að vera vísað úr landi. Íbúar Víðiness eru slegnir eftir atvikið sem ýtt hefur undir almennt vonleysi á staðnum. Í samtali við íbúa kemur fram að einangrunin sé því sem næst algjör. Íbúarnir fái mat sem sé líkt og skepnufóður, kaldur, ólystugur og einhæfur. Þá sé Víðines nokkuð úr leið þannig að nokkuð mál er að komast í samskipti við aðra en þá sem bíða hælis.

Hljóp um í ljósum logum

Atvikum er lýst þannig að hælisleitandinn hafi hellt yfir sig bensíni og kveikt í sjálfum sér innandyra. Hann hafi síðan í ljósum logum hlaupið út. Íbúarnir eru almennt í miklu áfalli eftir atvikið. Þá reynist mörgum erfitt að sjá að þrátt fyrir að fyrirsjáanlegt hafi verið að í óefni stefndi, hafi ekki verið gripið inn. Í samtölum við íbúa kemur fram að þau upplifi algjört sinnuleysi um velferð sína. Hælisleitendur njóta ekki heilbrigðistryggingar og verða því að reiða sig á Útlendingastofnun fyrir alla heilbrigðisþjónustu. Biðin eftir aðstoð getur tekið margar vikur og raunar er heilbrigðisþjónusta aðeins aðgengileg í neyðartilvikum.

Áfallahjálp í skötulíki – hælisleitendur urðu að þýða hvort fyrir annan

Sinnuleysi yfirvalda gagnvart íbúum Víðiness hafi svo endanlega verið staðfest þegar áfallahjálp barst íbúum aðeins í skötulíki eftir að hafa orðið vitni af því að einstaklingur kveikti í sér fremur en að eiga á hættu að fara aftur til heimalandsins. Áfallahjálpin barst í stuttum fundi með sjálfboðaliðum sem töluðu aðeins ensku. Það var hælisleitenda sjálfra að þýða fyrir þá sem ekki tala ensku. Jafnvel þegar einstaklingur reyni að enda líf sitt á sársaukafullan máta telji Útlendingastofnun það ekki forsvaranlegt að skaffa túlkun.

Íbúar á Víðinesi fá ekki svokölluð iKort þar sem þeim er skaffaður matur. Ikort koma með 8000 króna pening á viku fyrir þá hælisleitendur sem ekki fá mat úr mötuneyti. Í vasapeninga fá hælisleitendur kr 2500 á viku. Það segja íbúar gera að verkum að raunar eigi þau erfitt með að fara frá í lengri tíma því þá geti þau ekki borðað. 2500 krónur á viku séu fljótar að fara ef fólk sleppir máltíðunum á Víðinesi. Þau upplifa sig einskis virði, einangruð og finna fyrir vonleysi. Eftir atvikið sé fólk enn í þeirri stöðu að eiga erfitt með að fara af svæðinu en þörfin til að komast burt sé enn meiri en venjulega.

Viðmælendur Kvennablaðsins lýstu svefnleysi, martröðum og ugg.

Auglýsing

Íslendingar hæddust að örvæntingu mannsins

Fjallað var um atvikið í fjölmiðlum í kjölfarið. Á vef DV mátti lesa ógeðfelldar athugasemdir frá lesendum sem fögnuðu og gerðu grín að atvikinu. „Og þetta er fólkið sem við viljum fá til Íslands,“ skrifar Facebook-notandi í athugasemd við frétt sem DV.is. „Um að gera að lýsa upp skammdegið,“ skrifar annar. „Það er ekkert verið að spara bensínið, og ríkið borgar það fyrir hann,“ skrifar sá þriðji.

Sema Erla Serdar, baráttukona fyrir réttindum hælisleitenda, bregst við athguasemdunum og gagnrýnir mannfjandsamleg viðhorf á Facebook.

„Hælisleitandi hellir yfir sig bensíni og kveikir í sér. Ég mun aldrei geta sett mig í spor einstaklings sem gerir svo og mun aldrei þykjast skilja hvað veldur því að einstaklingar grípi til slíkra örþrifaráða en hjartað í mér brestur þegar ég ímynda mér þjáningarnar og örvæntinguna sem sá einstaklingur hlýtur að búa yfir. Svona viðburður er átakanlega sorglegur og það er enginn sem gerir svo nema hann upplifi algjöra uppgjöf og úrræðaleysi.“

Sema segir viðburðinn endurspegla þær hræðilegu aðstæður sem Íslendingar bjóði hælisleitendum upp á.

„Það hatur sem birtist á kommentakerfunum og samfélagsmiðlum í kjölfar fregna af svona hræðilegum atburði er líka óskiljanlegt. Athugasemdir eins og „Það veitir ekki af því að lýsa aðeins upp í skammdeginu“ og „vona að þeir kveiki allir í sér“ og „gat hann ekki fengið að vera í friði með sína brennu auminginn“ eru dæmi um viðbrögð við þessum sorgarfréttum. Ég mun aldrei skilja hvernig hægt er að búa yfir svona ótrúlega miklu hatri í garð annars fólks, hvernig hægt er að sýna svona mikla mannfyrirlitningu.

Samkennd, umhyggja og kærleikur eru gildi sem við ættum öll að tileinka okkur. Auðmýkt, virðing og skilningur eru einkenni sem allt mannfólk ætti að búa yfir. Réttlæti, mannúð og jöfn tækifæri eru leiðarstef sem við ættum öll að fylgja. Það mun ég a.m.k. segja við skólakrakkana sem ég heimsæki á morgun til þess að ræða við um fordóma og hatursorðræðu. Það vil ég líka segja við þá sem hafa ekkert fram að færa nema hatur. Þeim vil ég líka senda knús. Svo langar mig að biðja þau um að velta því fyrir sér hvort viðbrögðin hefðu verið einhvern veginn öðruvísi ef ekki hefði verið um karlkyns hælisleitanda að ræða? Og þá hvers vegna?“

Ungu leikararnir miðla trú á mannkynið!

$
0
0

Á Bláa hnettinum búa börn sem eldast ekki. Þau lifa sínu eigin lífi, enginn segir þeim til, þau eru án fullorðinna, án afskipta annarra og haga lífi sínu eftir þörfum: sofa, þar og þegar þau verða syfjuð, borða, ef þau verða svöng og leika sér þegar þau langar til. Þeirra helsta ánægja er að horfa á undur náttúrunnar og fegurst verður hún þegar fiðrildin fljúga úr helli sínum. Þetta er einfaldlega rétt eins og paradís á jörð, nema fyrir börnunum er þetta ástand eðlilegt. Hvergi örlar á þeirri þekkingu sem þarf til að gera samanburð við eitthvað annað. Það er sakleysið fullkomnað.

Tvö þessara barna eru Hulda og Brimir og kvöld eitt sjá þau stjörnu á himni sem lendir hjá þeim með hvelli, í reyknum af sprengingunni mótar fyrir skuggalegri veru og nú hefst ævintýri sem reynist bæði hættulegt og afdrifaríkt. Það varðar hvorki meira né minna en afkomu lífs og vistkerfis og sagan af Bláa hnettinum er, þegar öllu er á botninn hvolft, dæmisaga um okkur mennina á hnettinum okkar, henni móður Jörð.

Þessi vera, sem hefur lostið niður í fagurri friðsæld hins Bláa hnattar barnanna er enginn annar en geimryksugumaðurinn Gleði-Glaumur, sem kynnir ný hugtak og fyrirbæri til sögu barnanna: skemmtun, gleði og gaman – sem auðvitað er það sem máli skiptir. Gleði-Glaumur sýnir börnunum fram á að það að horfa á náttúruna, að láta sig dreyma og að horfa á fugla og fiðrildi er langt frá því stuði og fjöri sem hann getur boðið þeim uppá. Hefst nú söluherferð þar sem Gleði-Glaumur rænir fiðrildin fiðrildaduftinu sem gerir þeim mögulegt að fljúga, gefur börnunum fyrsta skammtinn (nema hvað!) og kynnir leiðindin til sögunnar!

Blái Hnötturinn

Blái Hnötturinn

Leiðindi eru afleit – það sér auðvitað hvert heilvita barn um leið og reynt hefur! – og það þarf að kaupa sig frían frá þeim, hvað sem það kostar. En það er bót í máli að það kostar ekki nema lítið brot af æskunni (!) og raunar eru öll vandamál sem upp kunna að Gleði-Glaumi einföld þraut – hann breytir vistkerfinu, veðrinu, hverju sem breyta þarf til að börnin þurfi ekki að láta sér leiðast. Það er ekki laust við maður fari að kannast við ýmislegt.

Auðvitað er sá veruleiki, sem Andri Snær Magnason fjallar um í sögu sinni, Blái hnötturinn, mun flóknari en það upphaf dæmisögu sem hér hefur verið rakið og sagan heldur enda áfram. En með áframhaldinu hefst líka ákveðinn vandi, sem leiksýningin Blái hnötturinn á við að stríða og ástæða að spyrja, hvort ekki hefði þurft að takast á við það. Þegar kemur að því að ljóstrað er upp leyndarmálinu sem Blái hnötturinn býr yfir – börnunum í myrkrinu og villidýrunum hinum megin á hnettinum – vandast málið, því þá vaknar eðlilega spurningin, hvort börnin á Bláa hnettinum hafi ekki vitað af þessum ágöllum hins fullkomna heims? Eru þau, sem hallast að hinu fagra og náttúrulega, svona ómeðvituð um umhverfi sitt? Eða er til önnur skýring?

Þarna hefði hugsanlega sögumaðurinn, Björninn, ágætlega leikinn af Hirti Jóhanni Jónssyni, hugsanlega getað leyst hinn dramatúrgíska vanda sem þarna verður, en hlutverkið er því miður helstil ófullburða til þess. Söguþráðurinn stenst hugmyndafræðilega skoðun, en gefur minna færi á innlifun og samsömun áhorfanda og það er dálítill skaði – eða er ekki leikhúsið sterkastur listmiðla þegar áhorfandinn er gripinn tilfinningalegum tökum? Tökum, sem hann getur ekki losað sig úr nema með því að taka afstöðu! Sú afstaða væri að standa með móður Jörð og vistkerfinu og vinna gegn því að óbermi eins og Gleði-Glaumur nái völdum á mannkyni og geti þar með ráðist gegn undirstöðu lífs á jörðu!

Blái Hnötturinn 2

Blái Hnötturinn 2

Hvað sem líður slíkum vangaveltum, spillir þessi ágalli lítið fyrir sýningunni sem slíkri. Hún er glæsileg afþreying og ber vott um fagmennsku þeirra listrænu stjórnenda sem að hafa komið. Leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar og tónlist Kristjönu Stefánsdóttur halda góðum dampi frá upphafi til enda, dansar Chantelle Carey eru fullir af fjöri og gáska, leikmynd Ilmar Stefánsdóttur með mörgum snjöllum lausnum, frábærir og skrautlegir búningar Maríu Th. Ólafsdóttur og litrík og lifandi lýsing Þórðar Orra Péturssonar gera allt sitt, samræmt og fallega, til að skapa bráðskemmtilega sýningu sem miðlar brýnum og viðkunnanlegum boðskap: að okkur beri að fara vel með jörðina okkar. Og Björn Stefánsson fer á kostum í hlutverki Gleði-Glaums.

En það sem öðru fremur vekur gleði þess sem hér skrifar er hinn stórkostlegi hópur barna, sem að öðrum ólöstuðum ber hita og þunga af sýningunni. Hér skal enginn nefndur, en enginn gleymdur heldur – hópurinn er skemmtilega jafn, allir fá að njóta sín og gera það ósvikið. Það leikhús er öfundsvert sem státar af slíkum hópi upprennandi stjarna, sem virðist hreinlega ráða við allt og geislar af óviðjafnanlegri og ósvikinni leikgleði. Sú trú á mannkynið sem leiksýningin Blái hnötturinn miðlar, sprettur fyrst og fremst af þeim krafti sem býr í þessum hópi ungra leikara og þeirri einlægu sannfæringu sem hvert og eitt þeirra smitar af sér yfir sviðsbrún og út í sal! Þessir krakkar eiga þakkir okkar áhorfenda skildar, þeirra er heiðurinn!

Borgarleikhúsið: Blái hnötturinn
Höfundur: Andri Snær Magnason
Leikstjórn, leikgerð og söngtextar: Bergur Þór Ingólfsson
Tónlist: Kristjana Stefánsdóttir
Danshöfundur: Chantelle Carey
Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir
Búningar: María Th. Ólafsdóttir
Lýsing: Þórður Orri Pétursson
Hljóð: Garðar Borgþórsson
Leikendur: Andrea Birna Guðmundsdóttir, Andrea Lapas, Ágúst Örn Wigum, Baldvin Alan Thorarensen, Bjarni Kristbjörnsson, Björgvin Ingi Ólafsson, Björn Stefánsson, Edda Guðnadóttir, Emilía Bergsdóttir, Erlen Ísabella Einarsdóttir, Gabríel Máni Kristjánsson, Grettir Valsson, Gríma Valsdóttir, Guðmundur Elías Knudsen, Guðríður Jóhannsdó´ttir, Gunnar Hrafn Kristjánsson, Hjörtur Jóhann Jónsson, Hjörtur Viðar Sigurðarson, Hulda Fanný Pálsdóttir, Iðunn Ösp Hlynsdóttir, Pétur Steinn Atlason, Rut Rebekka Hjartardóttir, Sóley Agnarsdóttir, Steinunn Lárusdóttir, Sölvi Viggósson Dýrfjörð, Vera Stefánsdóttir.

Af hverju ekki að birta myndbönd af draugagangi í sjónvarpsþáttum?

$
0
0

Félagsskapurinn Vantrú gagnrýnir RÚV fyrir að ýta undir hindurvitni í þáttunum Reimleikar. „Í öllum sex þáttunum var mikið af sögum af draugagangi, en af einhverjum ástæðum voru engar upptökur af draugagangi,“ segir á vef Vantrúar. Þá spyrja samtökin hvers vegna ekki séu birt myndbönd af draugum á netinu?

Auglýsing

„Nú þegar flestir landsmenn ganga um með snjallsíma með innbyggðri upptökuvél, þá hlýtur að vera til hellingur af upptökum af draugum. Nema auðvitað að draugar séu ekki til.“

Að lokum auglýsir Vantrú eftir myndböndum af draugagangi. „Ef þú lumar á draugamyndbandi, vinsamlegast sendu það á okkur á vantru@vantru.is, og við getum búið til almennilega draugaþætti. Ef ekkert kemur þá er hægt að búa til stuttan og hnitmiðaðan draugaþátt með einni setningu: “Draugar eru ekki til.”“

Alþingi þarf að fara í meðferð

$
0
0

Harpa Einarsdóttir skrifar:

Það kemur fyrir að ég vakni um miðja nótt og byrji að skrifa pistla sem aldrei líta dagsins ljós, en ritstýra þessa ágæta fjölmiðils hefur þó fengið að skemmta sér við skrif mín, t.d. þá áætlun mína að breyta álverinu í Straumsvík í skemmtigarð, ég guggnaði þó að á að láta þann pistil flakka og tel mig vera færari að tjá mig um andans efni og menningu en rita pólitíska ádeilu.

Ég hef ekki verið feimin að koma til dyranna í mínum skrifum eins og ég er klædd, og í þetta sinn er ég í snjakahvítu, eign þvottahúss spítalanna, aukahlutir eru þvagleggur, vökvi í æð og glæsilegir náraháir teygjusokkar. Ég fór einmitt á tískuvikuna í París í október þar sem ég var að kynna nýju fatalínuna mína, sem varð svo til þess að ég hef eytt talsvert miklum tíma í sloppi undanfarið, en þó ég lifi og hrærist í heimi tískunnar þá mun ég nú róa á önnur mið í þessari grein. Vil taka það fram að ég er ekki veik, var bara kölluð í litla aðgerð á Landspítalanum þar sem ég er búin að vera á biðlista í mörg ár, og ég er algjörlega agndofa yfir öllu stórkostlega starfsfólkinu og þjónustunni sem við búum að þrátt fyrir að heilbrigðiskerfið sé að hruni komið.

Í dag er mér því efst í huga mikið þakklæti, en ég hef eytt síðustu tveim mánuðum inni á ríkisstofnunum, meðal annars Vogi, þar sem ég var greind með heilasjúkdóminn alkohólisma. Edrúdagurinn minn er 26.10.16. Ég var búin að daðra við að taka þetta skref í langan tíma, en var ekki tilbúin að kýla á þetta fyrr en nú í mínum mini alkakomplexum. Ég hef áður opnað á umræðu um geðhvörf og heimilisofbeldi, því þá ekki um alkóhóllisma og velferðarkerfið okkar, ég hef aldrei skilið fordóma gagnvart slíkri umræðu og það er mun flottara að leita sér hjálpar en ekki og alls engin skömm að því. Það er bara kúl að vera edrú og óvirkir alkar eru upp til hópa magnaðir einstaklingar!

Við erum með eina bestu og ódýrustu meðferðarstofnun í heimi, og ég er óendanlega þakklát að hafa tekið þetta alla leið – Vog í 13 daga og Vík í kvennameðferð í 28 daga. Þessi stofnun er að gera kraftaverk og bjarga lífi fólks á hverjum degi. SÁÁ er vanmetin stofnun og fordómar gagnvart þessum sjúkdómi eru löngu úreltir.

Ég var á Vogi þegar kosið var en við alkarnir fengum að fara í rútu frá Vogi til að kjósa, það var einstaklega fögur „Englar alheimsins“-upplifun sem ég gleymi seint.

Auglýsing

En talandi um kosningar, hvað er að frétta? Afhverju er Bjarni Ben enn að spóka sig um alveg í sjokki yfir að ýmsir aðilar skuli tjá sig opinberlega um stöðu mála, er hann staðnaður í hugmyndinni um „Gamla Ísland“? Hann er bara alveg bit að þjóðin skuli ekki vera sátt við fjárlagafrumvarpið og að við séum hissa á að kirkjan fái hærri framlög en heilbrigðismálin þrátt fyrir meintan vilja þjóðarinnar. Að mínu mati er kirkjan sem ríkisrekin stofnun orðin úrelt, ég hef persónulega ekkert á móti henni sem slíkri, en það eru breyttir tímar og þörf á breyttum áherslum í þessum málum.

Er ekki tími komin á að „yfirstéttin“ fari að hugsa sinn gang og axla ábyrgð í ljósi þess að það er algjör sundrung í þjóðfélaginu, allir stjórnmálamenn skíthræddir við að vera teknir fyrir af almenningi og fjölmiðlum, enda myndun ríkistjórnar orðin að lélegum farsa. Það er kominn tími á róttækar breytingar og samstöðu! Óttinn kemur engum áleiðis, við þurfum fyrst og fremst að setja í forgang almannahag, heilbrigðis-, velferðar-, umhverfis-, mennta- og húsnæðismál!

Sérhagsmunir og stjórnmálamenn sem leita undir þeirra væng eru ekki farsæl þróun, við þurfum réttlátt skattakerfi, tekjudreyfingu og jöfnuð. Það er svo mikil grasserandi spilling alstaðar; meir að segja dómskerfið er rúið trausti.

Við þurfum að auka réttlæti í nýtingu takmarkaðra auðlinda okkar og færa inn í þjóðarbúið. Efla þarf til muna styrki til skapandi greina og nýsköpunar. Ísland er þekkt fyrir endalusa uppsprettu sköpunarkrafts, við verðum að virkja þann fjársjóð betur, og styrkja framúrskarandi einstaklinga til frekari sigra á heimsvísu. Við þurfum að sýna frumkvæði í náttúruvernd og vera róttækari í þessum málum.

Alþingi þarf að fara í meðferð – og við öll í Alanon!

————————————–

Lestu meira eftir Hörpu hér að neðan:

Til lögreglumannsins sem vildi vera í sumarfríi


Alþýðufylkingin vill umboðið frá Guðna

$
0
0

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, skrifar í opið bréf til forseta Íslands þar sem hann skorar á forsetann að fela Alþýðufylkingunni umboð til stjórnarmyndunar. „Í ljósi þess vandræðagangs sem einkennir tilraunir þeirra flokka sem sitja á Alþingi til að reyna að mynda ríkisstjórn viljum við hvetja þig til að leita til Alþýðufylkingarinnar og veita henni umboð til myndunar utanþingsstjórnar.“

Þorvaldur segir núverandi stjórnarkreppu varpa ljósi á djúpstæða kreppu í samfélaginu. „Þó að mikið sé talað um efnahagslegt góðæri, nær það aðeins til lítils hluta þjóðarinnar. Auk þess blasir við að þegar næsta efnahagsbóla springur verður það að óbreyttu enn á ný hinn fátæki skari sem verður látinn bera byrðarnar.“

Lesa má grein Þorvaldar í heild hér.

Einu sinni var –óskalisti yfir barnabækur

$
0
0

Lestur er skemmtilegur, þroskandi og fræðandi fyrir börn. Það er fátt notalegra en að kúra með barni og sökkva sér í bók. Barnabók er nefnilega svo mikið meira en textinn á hverri síðu. Bókin er myndskreytingarnar, spurningarnar sem vakna og umræðurnar sem spretta út frá þeim, minningin sem lifir með barninu fram á fullorðinsár. Kvennablaðið í samstarfi við bókaútgáfur er með lista yfir fyrsta flokks barnabækur sem fræða og kæta yngstu kynslóðina og passa fullkomlega í jólapakkann.

Sjá einnig: Frá Eskifirði til Ásgarðs – unglingabækur í úrvali

Einhver Ekkineinsdóttir eftir Kätlin Kaldmaa

vorbokatidindi-01

Einhver Ekkineinsdóttir mun vera fyrsta eistneska barnabókin sem kemur út á íslensku og er útgáfan styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta og Eesti Kulturkapital. Bókin kom fyrst út í Eistlandi árið 2012 og fékk þá mikið lof fyrir áhugaverð efnistök, góða myndskreytingu sem og að höfða jafnt til barna sem fullorðinna. Kätlin Kaldmaa er þekkt í sínu landi og hefur sent frá sér fjölda bóka, mest ljóðabóka og skáldsagna. Þetta er fyrsta barnabók hennar.

Einhver Ekkineinsdóttir er 8 ára gömul. Henni er strítt á að eiga engan pabba svo hún heldur út í heim að leita hans. Sagan gerist í eins konar ævintýraheimi sem á köflum er mjög íslenskur, enda er höfundurinn mikill Íslandsvinur og hefur dvalið langdvölum hér á landi. Í gegnum söguna liggja einnig þræðir úr rússneskum ævintýrum. Bókin kemur nú út í þýðingu Lemme Lindu Saukas Olafsdóttur. Myndskreytingar gerði Marge Nelk.

Einhver Ekkineinsdóttir er gefin út af Bókstaf ehf. 

Facebook síða Bókstafs ehf. 

Músadagar eftir Írisi Dórótheu Randversdóttur

Í bókinni er brugðið upp myndum úr lífi músaömmu og músaafa sem búa á Kjaftamyllustræti. Það er bakað og brasað og hlegið og glimmerað og skæpað milli skerja með smámýslum í dagsins önn. Yndislestur fyrir alla, sérstaklega ömmur og afa!

musadagar_kapa

Íris Dóróthea Randversdóttir er kennari að mennt og hóf að skrifa örsögur í músaformi af barnabörnum sínum á Facebook fyrir nokkrum árum. Unnur Sveinsdóttir myndskreytti bókina fagurlega.

Í viðtali við Austurfrétt segir Íris: „Ég nota ekki oft svona orð en ég held að ég hafi verið blessuð með því að hafa fengið að verða amma og upplifa barnabörnin mín. Sjálf átti ég alveg óskaplega blíða og góða ömmu og ég held að hluti af því að vera góð amma sé að kenna barnabörnunum hvernig amma á að vera. Ég nenni ekki að ala barnabörnin mín upp, það er ekki mitt hlutverk. Hjá ömmu og afa eiga þau að eiga skálkaskjól en ég flutti oft til ömmu eftir að hafa skellt hurðum hjá mömmu. Það er mitt hlutverk núna að vera vinur, góð, blíð og sú sem knúsar. Það eru bestu og þakklátustu hlutverk í heimi að vera amma og afi.“

Músadagar er gefin út af Bókstaf ehf.

Facebook síða Bókstafs ehf. 

Kláraðu jólagjafirnar hjá næsta bóksala: Spennan liggur í loftinu og undir jólatrénu

Íslenskar bækur í fortíð, framtíð og smákökur í framtíð

Augnablik í amstri dagsins með íslenskum bókmenntum

Kanínan sem vill fara að sofa eftir Carl-Johan Forssén Ehrlin

therabbitwhowantstofallasleep_cover_isl

Þetta er óvenjuleg en sniðug saga til að lesa fyrir svefninn sem byggir á sálfræðilegri tækni. Henni er ætlað að auðvelda börnum að sofna fyrr og að sofa betur á hverri nóttu. Sögunni fylgir slökun og leiðir til að innst inni vilji barnið sofna. Kanínan sem vill fara að sofa hentar vel þegar börn eiga að sofna í leikskóla og heima.

Í þessari sögu fylgir þú Kalla Kanínu eftir. Hann er þreyttur en getur ekki sofnað. Þess vegna fara Kalli Kanína og Kanínumamma til Trölla Frænda galdramanns til að fá hjálp. Á leiðinni hitta þau Syfjaða Snigilinn og úrræðagóðu Frú Uglu sem gefa þeim góð ráð. Enda þótt Kalla þyki hann vera þreyttari, halda þau áfram. Trölli Frændi stráir yfir þau dularfullu svefndufti. Kalli Kanína verður ennþá þreyttari og kemst tæplega heim áður en hann sofnar í rúminu sínu.

„Notið söguna Kanínan sem vill fara að sofa þegar spennandi hlutir eru að gerast, eða þegar það er tímabundið erfitt fyrir barnið þitt að sofna“ –  Mikael Odhage, sálfræðingur

„Hefur þú einhvern tímann átt í vandræðum með að fá barnið þitt til að sofna og óskað þess að þú gætir beitt töfrum til þess? Frábær bók Carl-Johan’s kemur börnum þínum fljótt í draumaheiminn.“ –  Matt Hudson, höfundur og atferlisfræðingur

„Besti hluti bókarinnar er að þú þarft ekki að minna börnin á að þau þurfi að leggjast niður og reyna að sofna, því það kemur fram í bókinni og ég þarf aðeins að lesa söguna fyrir þau. Kanínan sem vill fara að sofa er líka mjög skemmtileg og þjónar vel tilgangi sínum.“ –  Veronica Rydén, leikskólakennari

„Vinur okkar mælti með þessari fallegu myndskreyttu og hugljúfu bók og það kom fljótt í ljós að hún gerði mikið gagn og hjálpaði börnum okkar að sofna.“  – Christian Henwood, markaðsstjóri

Kanínan sem vill fara að sofa er gefin út af Draumsýn bókaforlagi 

Facebook síða Draumsýnar 

Tilfinningar: Stundum verðum við reið! & Tilfinningar: Þekkir þú afbrýðisemi? eftir Ástu Maríu Hjaltadóttur og Þorgerði Ragnarsdóttur

reidi_kapa

Sterkar tilfinningar geta verið yfirþyrmandi að upplifa fyrir yngstu börnin. Ásta María Hjaltadóttir, sérkennari, og Þorgerður Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur skrifuðu bækur um reiði og afbrýðissemi til að leiðbeina og fræða börn um tilfinningarnar. Þær unnu tilfinningabækurnar út frá aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar. Í bókunum eru, auk skemmtilegra teikninga eftir höfunda, skýringarmyndir um hvernig hægt er að takast á við erfiðar tilfinningar.

afbrydisemi_kapa

Stundum verðum við reið! er bók fyrir yngstu lesendurna. Hún fjallar um reiðina og hvernig hægt er að taka á málum þegar hún nær yfirhöndinni.

Þekkir þú afbrýðisemi? Af hverju er alltaf allt flottara sem aðrir gera? Bókin er fyrir yngstu lesendurna og fjallar um afbrýðisemi og hvernig bera má kennsl á hana og vinna bug á henni.

Stundum verðum við reið! og Þekkir þú afbrýðisemi? eru gefnar út af Bókstaf ehf. 

Facebook síða Bókstafs ehf.  

Litadýrð dýraríkisins eftir Anita Ganeri

litadyrdforsidargb72p

Litadýrð dýraríkisins er falleg og vönduð bók til að fletta með börnum sem hafa unun af því að skoða fjölbreytileika dýralífsins á jörðinni. Köflum bókarinnar er skipt upp eftir litum dýranna og hver kafli byrjar á stuttum inngangstexta. Bókin er 80 blaðsíður og inniheldur hundruð dýramynda. Á sama tíma og börn fræðast um litina þá læra þau um fjöldann allan af dýrum.

Þónokkur dýranna sem birtast í bókinni áttu sér ekki skráð íslenskt heiti svo þar birtast í fyrsta skipti nokkur ný nöfn þeirra. Aftast í bókinni eru marglit dýr sem falla ekki undir neinn einn litakafla. Þetta er kjörin bók til að kveikja áhuga barna á að læra meira um dýrin. Stórt og veglegt brot gera þessa bók að tilvalinni jólagjöf.

Litadýrð dýraríkisins er gefin út af Óðinsauga útgáfu

Facebook síða Óðinsauga 

Herra T og dularfulla eggið eftir Maaria Paivinen og Hugin Þór Grétarsson

forsidaherrateggrgb72p

Þetta er önnur bókin í bókaflokknum um hann herra T og úrilla kjúklinginn hans sem heitir Asni. Fyrri bókin hefur nú verið gefin út í Finnlandi og er væntanleg í Kanada. Bækurnar er byggðar upp á þann veg að auðvelt er að skoða þær með börnum allt frá 2 ára og upp í 10 ára. Stuttur texti gerir börnum auðvelt að fylgjast með en eldri börn geta þá hlegið af glensinu sem leynist bæði í texta og myndum. Í þessari bók birtist allt í einu dularfullt egg á sófanum heima hjá Herra T. Í fyrstu reynir hann að komast til botns í ráðgátunni um hvernig standi á því, en gefst fljótt upp og tekur þá upp á því að leika listir sínar með eggið. Asni er ekki par hrifinn og bjargar því oftar en ekki á síðustu stundu áður en það fellur til jarðar og svo framvegis.

En hvað skildi vera inni í egginu og leysist ráðgátan um hver á þetta dularfulla egg?

Herra T og dularfulla eggið er gefin út af Óðinsauga útgáfu 

Facebook síða Óðinsauga 

Mjölnir – endursögn úr Þrymskviðu

MjolnirForsida2

Út er komin bók um Mjölni, hamar Þórs. Bókin er unnin upp frá Þrymskviðu og kom upphaflega út í Serbíu. Myndskreytir bókarinnar er Bojan en hann hefur unnið í tvígang fyrir Óðinsauga að bókum sem hafa komið út hjá forlaginu. Mjölnir var hluti af bókaseríu með þjóðlegum sögum frá hinum ýmsu heimshornum. Upprunalega útgáfan sem kom út í Serbíu og var þýdd yfir á ensku og fylgdi Þrymskviðu lauslega. Því ákvað þýðandi að endurskrifa textann út frá upprunalegu Þrymskviðu. Huginn Þór Grétarsson endurskrifaði og var þannig trúr sögunni en stílfærði svo börn hafi gaman af. Einnig lét hann góðvin sinn Bojan breyta myndunum, meðal annars voru horn tekin af hjálmum. Þannig má segja að verkið sé komið í nýja útgáfu sem er trú hinu góða kvæði.

Söguþráðurinn er sá að Þór reiðist heiftarlega þegar hamri hans, Mjölni, er stolið. Loki ferðast til Jötunheima og hittir þar Þrym þursadrottinn sem hefur tekið hamarinn og falið hann djúpt í iðrum jarðar. Hann segist láta Þór fá Mjölni aftur ef hann fái ástargyðjuna Freyju sem konu. Ekki fellst Freyja á að klæðast brúðarlíni og halda til Jötunheima. Þá eru góð ráð dýr enda munu Jötnar flæða yfir Ásgarð ef Þór heimtir ekki hamar sinn aftur. Þór og Loki deyja ekki ráðalausir og beita ýmsum skondnum bellibrögðum til að fá sínu framgengt.

Mjölnir er gefin út af Óðinsauga útgáfu 

Facebook síða Óðinsauga

Umfjöllun unnin í samstarfi við Bókstaf ehf., Draumsýn forlag og Óðinsauga útgáfu.

Aumkunarverðir trúðar með tannlæknaskýrslur

$
0
0

Bókmenntir frá Albaníu rata ekki til Íslendinga á hverjum degi og fæstir þekkja ævaforna tungu, blóðuga sögu og menningu þessa harðbýla lands. Þó kemur eitt merkasta skáldverk tuttugustu aldar þaðan, Hershöfðingi dauða hersins (1963), eftir Ismail Kadaré.

hershofdingi_dauda_hersins_kapa-640x1024Hrafn E. Jónsson (1942-2003) þýddi söguna úr frönsku og var þýðing hans lesin sem framhaldssaga í ríkisútvarpinu árið 1992. Eftir lát þýðandans var handrit sögnnar týnt en kom nýlega í leitirnar og er loksins komið út á prenti. Þeir sem unna heimsbókmenntum í öndvegisþýðingum þurfa að krækja sér í eintak hið snarasta.

Kadaré (f. 1936) hefur hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga á ferli sínum og oft verið orðaður við nóbelsverðlaunin en ekki hreppt þau enn. Þó er hann nefndur í sömu andrá og Hómer, Gogol, Márques, Orwell og ekki síst Kafka, en er þó „einskis manns eftirherma“ (7).  Í verkum hans er vald, pólitík og andóf til umfjöllunar, með sterkum áhrifum frá menningu, söngvaseið og goðsögnum hins stríðshrjáða Balkan-skaga.

Í fróðlegum formála Jóns Guðna Kristjánssonar að sögunni er m.a. greint frá bakgrunni verksins og höfundi þess. Albanía, eitt fátækasta land í Evrópu, varð bitbein stórþjóða í seinni heimstyrjöldinni. Ítalir ruddust þangað með hervaldi en biðu ósigur fyrir skæruliðum í andspyrnuhreyfingu Albana, Þjóðverjar tóku við og þegar heimsstyrjöldinni lauk tók stalínísk einræðisstjórn við völdum. Saga Kadarés snýst um flókið verkefni sem ítalskur hershöfðingi tekst á hendur: að leita uppi jarðneskar leifar landa sinna í ómerktum gröfum víðs vegar um landið og flytja þær heim til syrgjandi ástvina. Vopnaður nafnalista, uppdráttum,  tannlæknaskýrslum, skóflu og haka tekur hann til starfa en verður brátt ljóst að þetta er hægara sagt en gert.

Helstu persónur í Hershöfðingjanum eru nafnlausar, s.s. hershöfðinginn sjálfur og þýskur starfsbróðir hans, herpresturinn sem talar albönsku og fullyrðir ýmislegt um sögu og eðli þjóðarinnar, svokallaður sérfræðingur og innfæddir verkamenn. Veðurfarið myndar þokugráan bakgrunn fyrir bjástur persónanna, landið er grýtt, forugt og illt yfirferðar, erfitt reynist að bera kennsl á morkin beinin; allt þetta undirstrikar fáránleika verkefnisins. Og húmorinn er svartur:

„Hann vissi ekki hvað hann ætti að gera og byrjaði ósjálfrátt aftur að lesa listana með vísbendingum og nöfnum og þýðingum innan sviga. Öll þessi nöfn á dölum, skörðum, sléttum, ám og bæjum voru undarleg og helþrungin. Honum fannst eins og allir þessir staðir, hver með sínum hætti, hefðu skipt hinum dauðu á milli sín og nú væri hann kominn til að heimta þá úr klóm þeirra.

Augu hans hvörfluðu aftur að einum listanna. Það var „listi horfinna“ og efst á blaðinu var nafn Z ofursta. „Einn áttatíu og tveir á hæð, hægri framtönn úr gulli,“ las hershöfðinginn. Svo fór hann yfir allan listann. Einn sjötíu og fjórir, vantar tvo jaxla. Einn sextíu og fimm, vantar jaxla í efri kjálka. Einn og níutíu, járnspöng við framtennurnar. Einn sjötíu og einn, allar tennur heilar. Tveir og tíu! „Þessi hlýtur að vera stærstur allra á listanum. Sá stysti er einn fimmtíu og einn. Það veit ég vel. Það er samkvæmt reglunum. Þeir voru yfirleitt hæstir í fjórðu varðliðasveitinni og minnstir í Alpasveitunum…“ (51).

Í fyrstu finnst hershöfðingjanum að hann sé í háleitri sendiför sem hæfi metnaði hans og muni baða hann dýrðarljóma. „Hann ætlaði að þræða grafreitina, kemba alla vígvelli til þess að endurheimta hina horfnu“ (29). En eftir því sem lengra líður verður þrautagangan æ dapurlegri; fjandsamlegt umhverfi, álag, svefnleysi og drykkja taka sinn toll.  Góðri trú og geðheilsu hershöfðingjans fer hrakandi eftir því sem hann fær meiri innsýn í þjáningu, grimmd og dauða og það verður sífellt harðsóttara að göfga þetta tilgangslausa traðk í aur og drullu.

„Ég sá fyrir mér alvöruþrungna viðhöfn er við bærum á brott jarðneskar leifarnar og vandræðalegt, reikandi augnaráð Albananna, eins og sakbitið augnaráð ruslaradurga sem hafa brotið ómetanlegan vasa og standa þarna, skammast sín og gjóa augunum á brotin. Við bærum kistur hermanna okkar stoltir í gegnum þvögu þeirra og létum í ljósi að jafnvel dauðir hermenn okkar væru göfugri en líf þeirra. En þegar við komum hingað reyndist þetta allt öðruvísi. Ég þarf ekki að segja yður það. Stolt okkar var það fyrsta sem lét undan og áður en leið á löngu varð ljóst að alvaran hvarf úr þessu líka. Síðasta tálsýn mín fölnaði og nú verðum við bara að halda áfram verkinu meðal almenns afskiptaleysis og hæðnislegra, óskiljanlegra augnagota, aumkunarverðir trúðar stríðsins. Aumkunarverðari en þeir sem börðust hér einu sinni og voru sigraðir“ (166).

Inn í söguna fléttast svo ýmsir þræðir, s.s. um skapferli og örlög albönsku þjóðarinnar, dramatísk dagbók liðhlaupa sem dregur upp beitta mynd af firringu stríðsins, afdrif Z ofursta og nöturleg frásögn um vændiskonur sem vissulega voru látnar legga sitt af mörkum á stríðstímum.

Hershöfðingi dauða hersins er ekki bara saga um gamalt stríð og sársauka, heldur líka um einmanaleika og eilífa firringu. Þýðing Hrafns er hörkugóð. Fjarlægur og hlutlaus stíllinn varpar ljósi á vald í sinni grimmilegustu mynd og nöturleika hernaðarlegs skrifræðis sem nær hámarki í sögulok, afhjúpar vestræna fordóma í garð innfæddra og sýnir fáránlega tilburði til friðþægingar fyrir ofbeldisverk. Enn er stríð um heim allan og eftirköst þess varanleg, enn eru þjóðarmorð framin og réttlætt og fjöldagrafir uppgötvaðar. Ítalski hershöfðinginn er enn á meðal okkar eins og aumkunarverður trúður.

Höfundaútgáfan, 2016

285 bls.

Að geta ekki leyft sér læknisheimsókn

$
0
0

Ójöfnuður á sér margar birtingarmyndir og misskýrar. Ein sú skýrasta skín í gegnum nýja skýrslu Hagstofunnar, þar sem kemur fram að 8000 manns hafi neitað sér um þjónustu læknis eða sérfræðings árið 2015 vegna kostnaðar. Enn fleiri höfðu ekki efni á að fara til tannlæknis, um 25 þúsund manns.

Þessar upplýsingar eru mikilvæg áminning fyrir okkur þingmenn á sama tíma og vinna við fjárlög stendur sem hæst. Í evrópskum samanburði er Ísland með einna hæsta hlutfall fólks sem neitar sér um læknisaðstoð vegna kostnaðar. Það er staða sem við hljótum að vilja laga.

Auglýsing

Hverjir eru það helst sem ekki hafa efni á því að fara til læknis? Jú, þar skiptir félagsleg staða fólks gríðarlegu máli.

Tvöfalt fleiri í lægsta tekjufimmtunginum sleppa því að fara til tannlæknis en að​ meðaltali. Hlutfallið er langhæst hjá atvinnulausum, einn af hverjum fjórum, þá hjá öðrum sem ekki eru á vinnumarkaði, eins og öryrkjum, námsmönnum og heimavinnandi.

Sama gildir um læknisþjónustu, þar sem um 4% kvenna og 2% karla komust ekki til læknis á síðasta ári – kostnaður er fyrirstaðan hjá 6% fólks í lægsta tekjufimmtungi á móti 1% fólks í tekjuhæstu hópunum.

Þetta er ekki spurning um að fólk verði að neita sér um einhvern óþarfa, heldur lífsnauðsynlega þjónustu.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar varði hið opinbera um 155 milljörðum króna til heilbrigðismála árið 2015. Við þetta bættu heimilin svo um 35 milljörðum úr eigin vasa í heilbrigðisútgjöld. Og þá er ótalinn lyfjakostnaður einstaklinga – að ekki sé talað um þau lyf sem fólk neitar sér um vegna þess að það hefur ekki efni á þeim.

Svona birtist ójöfnuður og fátækt í auðugu samfélagi og hér sést að kostnaðarþátttaka einstaklinga er allt of há í velferðarþjónustunni. Fjársvelt heilbrigðiskerfi heldur fólki frá því að leita til læknis – og það heilum 8000 manns!

Sem löggjafi á tímum markmiðasettrar áætlanagerðar getur þingheimur sett sér einfalt markmið: Að ná þessum tölum niður í núll.

Snákaolían

$
0
0

Árshátíð Trygginga og lífeyrissparnaðarráðgjafa var haldin í dag í símanúmerinu mínu. Þegar fjórði snillingurinn hringdi var nú farið að þykkna í rafvirkjanum sem mátti ekkert vera að því að fara á trúnó með einhverjum gaurum úti í bæ á vinnutíma. Gott og vel, hann kynnti sig sem ráðgjafa hjá einhverju útlendu orði.

Ég spurði hann hvernig best væri að undirvinna 20 ára gamlan Cherokee fyrir sprautun, hann var ekki viss, þá spurði ég hann hvar best væri að byrja að leita að draugagangi í bensínfæðingu á 37 ára gömlum Econoline, hann hafði aldrei heyrt um slíka skepnu, til að hafa eitthvað gagn af honum bað ég um góð ráð í kvennamálum, þá fór snáði bara að ræskja sig mjög taktfast, ég í örvæntingu minni spurði þá hvort hann mælti með einhverju frekar en öðru til að hafa í kvöldmatinn. Ekkert, ekki eitt skíta ráð frá fagmanninum, við sammæltumst um það að hann væri líklega ekkert sérlega góður ráðgjafi.

Fyrir nokkru vatt sér upp að mér spjátrungslegur drengur í morgunkaffinu og spurði hvort ég væri ekki kominn með viðbótarallíans (eða eitthvað), honum var tilkynnt með þjósti að hann varðaði ekkert um það mál, þá byrjaði þetta ólukkans eintak að básúna sig um það að hann væri einmitt hingað kominn til að græja viðbótar eitthvað fyrir mig. Áður en ræða unga fjármálarisans varð lengri gelti ég á hann að ég væri í kaffi og nennti ekki að hlusta á svona lagað meðan ég einbeitti mér að kanilsnúðinum mínum. Hann spyr mig þá hvenær hann eigi annars að geta talað við mig um þessi mál, ég taldi mig geta lifað langa og hamingjusama ævi án þess að fá nokkurntímann svar við þeirri spurningu.

Mér sýnist að goggunarröð sölumanna sé nokkurnveginn svona; Þeir skástu fá að höndla með verðbréf, þar á eftir koma fasteignasalar, dugi menn ekki til svoleiðis verka fá þeir að vera bílasalar og hinir sem teljast gagnslausir til alls sem máli skiptir eru munstraðir upp í sanseruð jakkaföt og snákaskinnsskó og látnir standa í verslunarmiðstöðvum og veifa viðbótarsparnaði framan í kaupglaðan landann.

Þessum greyjum sem sigað var á okkur inn í vinnuskúr hafði greinilega verið bannað að klæðast hefðbundnum einkennisbúningi (snákaskinnsskóm etc.) og gert að mæta í lopapeysu til þess að við órökuðu táfýlukallarnir fengjum það á tilfinninguna að þeir væru af okkar sauðahúsi. Ekki fór það nú betur en svo að greinilegt var að þeir þurftu að leita til ættingja til að fá slíkan klæðnað lánaðan. Ég er að giska á að annar þeirra eigi smávaxna norska ömmu miðað við stærð og mynstur magabolanna sem þeir höfðu troðið sér í. Þeim virtist líða jafn vel í þessu og ef mér væri troðið í jógabuxur.

Annað tveggja eða bæði virðist alltaf gerast eigi maður viðskipti við svona týpur, ég borga meira eða fæ minna. Og af hverju í andskotanum ætti ég að þiggja ráðleggingar frá botnuppskafningi í allt of lítilli lopapeysu sem dugði ekki einu sinni til að selja notaðan Skoda.

Viewing all 8283 articles
Browse latest View live