Nú eru bara nokkrir dagar til jóla og í stað þess að að fá vægt kvíðakast, vegna þess að maður hefur ekki hugmynd um hvaða vín maður á að versla fyrir jólin, þá er einfaldast að setjast niður í rólegheitum, lesa þessa grein og fara svo með innkaupalistann út í næstu vínbúð! Málið leyst!
Það er alveg við hæfi að fá sér góð vín yfir hátíðarnar. Reyndar er alltílagi að fá sér góð vín allan ársins hring, ef útí það er farið, en ef maður fær sér ekki góð vín um jól og áramót, hvenær er þá eiginlega tilefnið?
Jólamatur er auðvitað margskonar og sem betur fer er ekkert eitt vín sem fer vel með öllu. Svo er auðvitað umdeilanlegt hvort vín sé eitthvað að bæta ákveðnar tegundir af jólamat og og gott dæmi um það er auðvitað hangikjötið sem er, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir vínáhugamanna, sérlega ó-vínvænt og það sama má segja um hamborgarhrygginn, þótt hann sé hugsanlega eilítið auðveldari með víni. En hér á eftir ætla ég að koma með nokkrar uppástungur af jólavínum sem ættu að gera lífið bæði auðveldara og skemmtilegra!
Fordrykkur
Fordrykkir eru ómissandi á jólunum. Það er vel við hæfi að skála í freyðivíni við gesti og auðvitað að súpa á því meðan staðið er yfir pottunum. Freyðivín koma reyndar í öllum útgáfum og öllum verðflokkum en ég ætla að mæla með tveimur að þessu sinni.
![snipimage]()
Villa Conchi Cava Brut Seleccion (kr. 1.960.-) kemur frá Spáni, er ódýrt en sannarlega ekki neitt rusl, blandað úr hefðbundnum Cava-þrúgum (sem engin hefur áhuga á að vita hverjar eru) en líka með góðum skammti af Chardonnay sem lyftir því verulega upp og gerir það eitt ljúffengasta Cava sem okkur stendur til boða. Frábært eitt og sér, en er líka gott með einfaldari forréttum og léttara fiskmeti.
![snipimage_1]()
Ferrari Maximum Brut (kr. 4.350.-) er hinsvegar alvöru stöff. Svo mikið alvöru að það er erfitt að greina það frá Kampavíni sé bundið fyrir augun á manni. En það skulum við ekki gera á jólunum, þá gæti maður hrasað um jólatréð og tengdapabba. Ferrari er gert einsog Kampavín, bragðast einsog Kampavín en er töluvert ódýrara en Kampavín. Það er dásamlega þurrt og léttleikandi með breiðan bragðprófíl sem fær munnvatnið til að streyma. Það er frábært eitt og sér en er líka býsna gott með matnum. Ég væri, til að mynda, alveg til í að hafa það með ostrunum ef maður fengi slíkt. Ég væri líka til í að hafa það með Scarlett Johansson ef hún væri til í það, en það er víst ekki að fara að gerast.
Fiskur og grænmeti
Margir eru með fiskmeti um hátíðarnar og ætli humarinn sé ekki vinsælastur. Sumir eru reyndar með allskonar laxafroður og rækjukokteila sem er bara alltílagi. Svo eru það þessi skrýtnu sem borða hvorki kjöt né fisk, allan ársins hring, en af einhverjum ástæðum þá eru þeir samt alveg til í að fá sér vínglas og af hverju þá ekki eitthvað gott?
![snipimage_2]()
Með fiski (og þá meina ég líka humri) er flott hvítvín nauðsynlegt. Ekta Búrgúndari er skotheldur og skemmtilegur. Chateau de Santenay Chardonnay Vielles Vignes (kr. 2.990.- og þetta síðasta þýðir að vínviðurinn er orðinn aldraður, sem þykir betra) er upprunalegur, fíngerður og matarvænn með þennan sérstæða Búrgúndarkeim sem allir eru að reyna að stæla en tekst ekki. Það vín er líka gott með laxa-eitthvað, -röndum eða –frauðum og margskonar öðrum forréttum.
![snipimage_3]()
Ég vil líka stinga uppá rósavíninu Miraval (kr. 2.945.-) fyrir þá sem vilja hafa smá bleikt í glasinu um hátíðarnar. Það er verulega hátíðlegt á litin og þolir reyndar bragðmeira fiskmeti en er flott með margskonar öðrum og ónefndum forréttum og vilji menn endilega úða mikið af hvítlauk á humarinn eða fiskinn þá er Miraval mun heppilegra en flest annað. Gleymum því ekki að það eru Brad og Angelina sem gera þetta vín og við verðum einhvernvegin að hjálpa þeim í gegnum þessa erfiðu tíma. Ég hef allavega tryggt mér nokkur gler af Miraval.
![snipimage_4]()
Fyrir grænmetisfólkið sem vill gott hvítvín þá er óhætt að mæla með Romeo og Juliet’s Passione Centimento (kr. 2.190.-), sem er mjúkt og ávaxtaríkt með góðri hryggsúlu sem gerir það verulega matarvænt. Látið ekki þetta dularfulla nafn og þessa undarlegu flösku hræða ykkur. Innihaldið er framleitt af Pasqua-fjölskyldunni og er gott stöff sem fer vel með grænmeti, hnetusteikum og solleis.
![snipimage_5]()
Altos R Bianco (2.125.-) frá Spáni er líka sérlega mjúkt, matarvænt og hátíðlegt hvítvín sem fer vel með flestum grænmetis- og forréttum.
Ljóst kjöt
Ljóst kjöt er eiginlega bara kalkúnn á jólunum. Kannski einhver risakjúklingur líka en það er nánast sami hluturinn. Önd verður líka að teljast til ljósa kjötsins, amk þessi sem hefur verið alin upp innanhúss. Sem betur fer er erfitt að finna sæmilegt vín sem ekki er gott með ljósu kjöti. Og það er hægt að brúka hvaðeina sem manni dettur í hug, hvítt, rautt, bleikt og freyðandi en ég skal mæla með einu hvítu og einu rauðu svona til að allir fá eitthvað.
![snipimage_6]()
Steingold Pinot Gris (kr. 2.890.-) kemur frá Alsace, er gert af Pfaffenheim-víngerðinni og hefur þetta mjúka og sæta fitulag um miðjuna sem gerir það svo heppilegt með ljósu kjöti og öllu meðlætinu. Það þolir nánast hvaða mat sem er svo séu menn í vafa má prófa það nánast með öllum jólamatnum nema kannski Riz á l’amande, það mun virka.
![reserva-especial-pinot-noir-2012]()
Cono Sur Pinot Noir Reserva Especial (kr. 2.390.-) er vissulega ekki rauður Búrgúndari en mikið svakalega er þetta gott vín og allur þessi rauði og kryddaði ávöxtur sem vínið inniheldur fer sérstaklega vel með ljósu kjöti og það hefur einnig nægjanleg tannín og sýru á móti ávextinum til að ráða við rjómasósur og margbreytilegt meðlæti.
Villibráð
Villibráð á jólunum er ekki lengur bara mauksoðin rjúpa með rjómasósu. Nú snöggsteikja menn rjúpu og sú-vídda hana svo dæmi séu tekin. En ekki nóg með það, allskonar framandi villidýr fást núna og gefa jólakokkinum óendanlega möguleika. Við getum valið á milli gæsa, anda, krónhjarta, dádýra, strúta og kengúra svo nokkur dæmi séu tekin. Sum þessara innfluttu dýra eru vissulega kannski ekki alveg rammvillt, en nóg til þess að velja svipuð vín með þeim. Með villibráðinni er auðvitað gaman að draga fram betra rauðvínin en þau þurfa samt ekkert að vera rándýr, þótt við séum að finna vín með villidýrum.
![snipimage_7]()
Doña Paula Estate Malbec (kr. 2.420.-) er stórt en fágað vín frá Argentínu sem hefur fullt af öllu, ávexti, tannínum og fyllingu. Það er dökkt og bragðmikið einsog villibráð og ræður við bragðmikið meðlæti.
![snipimage_8]()
Pago de Cirsus Cuvée Especial (kr. 3.350.-) er kraftmikið rauðvín frá Spáni sem er blandað úr þrúgunum Tempranillo, Merlot og Syrah. Það er mjúkt þrátt fyrir stærðina með heilmikla vanillu- og súkkulaðitóna sem fara vel með dökkri villibráðinni og reyndar með nautasteikinni líka, ef einhverjir skyldu vera með þannig skepnu á jólaborðinu.
Reykt og hangið
Maður verður víst að sætta sig við að stór hluti þjóðarinnar vill hafa hamborgarhrygg á jólaborðinu jafnvel þótt að það sé kvöl og pína að finna vín sem smellpassar með því. Salt, reykt og sætt saman á einum disk er martröð þess sem mælir með vínum og ég geri mér grein fyrir að allt sem maður stingur uppá er umdeilanlegt.
![snipimage_9]()
Cono Sur Bicicleta Gewurztraminer (kr. 1.935.-) er reyndar ekkert sérlega dýrt, (ég veit heldur ekki hvort ég myndi tíma að eyða stórum summum á vín með hamborgarhrygg) en það er kryddað og sætkennt hvítvín frá Chile með heilmikilli sýru sem getur amk ekki spillt fyrir þessu salta og reykta.
![snipimage_10]()
Romeo and Juliet’s Passione Centimento (kr. 2.290.- altso það rauða, ég mælti áðan með því hvíta) er gert með Passimento-aðferðinni þar sem hálfþurrkuðum þrúgum er bætt útí hálfgerjað rauðvín til að auka flækjustig þess. Það hefur sætu og sýru og mjúk tannín sem ráða við býsna öfgakenndan mat. Svo má alveg benda á Steingold Pinot Gris sem ég minntist á hérna á undan, það gengur með öllu þessu reykta, súrsæta og salta. Ég myndi sjálfur bara hafa malt og appelsín með hangikjötinu.
Svo er það bara að bera fram vínin við rétt hitastig (freyðivín beint úr ísskáp, hvítvín 8-12°C og rauðvín 16-19°C) í almennilegum glösum, en ég þreytist seint á benda fólki á að góð vínglös eru besta fjárfesting sem hægt er að gera.
![pepin-riedel-image]()
Riedel er málið þessi jól og þau mun endast út lífið og gera sæmileg vín góð og góð vín framúrskarandi. Reynið svo að stilla magninu í hóf. Betra er að fá sér lítið af frábærum vínum frekar en mikið af vondum vínum. Gleðileg jól!