Hjónin Philippa og Eric Kempson hafa búið á grísku eyjunni Lesbos frá aldamótum. Frá því að ferðir sýrlenskra flóttamanna yfir Miðjarðarhaf komust í hámæli árið 2015 hafa þau starfað, í sjálfboðavinnu, við móttöku flóttafólks á eyjunni. Kvennablaðið ræddi við Philippu haustið 2015, þegar allt að 40 bátar lentu á eynni á dag, með þúsundir flóttamanna innanborðs. Við heyrum aftur í Philippu Kempson rúmum tveimur árum síðar, um hádegisbil föstudaginn 5. janúar 2018.
Að skaffa skó þúsundum skó
„Það hafa fáir komið allra síðustu daga, enda hefur verið rigning,“ segir hún mér. „Þegar opnast veðurgluggi fáum við alltaf fleira fólk.“ Í september, október og nóvember hafi fleiri flóttamenn komið sjóleiðina þetta haust en haustið 2016.
Philippa starfar enn, ásamt manni sínum og fleiri sjálfboðaliðum, við eftirlit með bátsferðum og móttöku fólksins um borð. Að vetrarlagi færast störf þeirra ekki síður að úthlutun nauðsynjavarnings. Flóttamannabúðirnar á Lesbos útvega þeim sem þar dveljast mat, en aðrar nauðþurftir ekki. Til dæmis hreinlætisvörur og skó, sem margir glata á leiðinni. „Þú getur ímyndað þér, að skaffa skó fyrir þúsundir fólks, það er endalaust verk. Við höfum alltaf þörf fyrir fleiri skó,“ segir hún síðar, þegar ég spyr hvernig fólk geti helst lagt þeim lið.
Stærsta móttökustöð flóttafólks á eynni heitir Moria. Hún er sögð hafa verið hönnuð og byggð fyrir 1.500 manns, en þar hafast nú um 6.000 við. „Það voru reyndar 8.000 fyrir ekki löngu síðan, en stjórnvöldum hefur tekist að fækka þeim niður í 6.000 með því að hraða ferlum nokkurra,“ segir Kempson mér.
![Philippa Kempson og samstarfsfólk við skólagerinn.]()
Philippa Kempson og samstarfsfólk við skólagerinn.
Kjöraðstæður fyrir farsóttir
Vorið 2016 tilkynnti Evrópusambandið um samkomulag við Tyrkland um að flóttafólk sem færi þessa leið til álfunnar yrði sent til baka, yfir hafið, þar sem tyrknesk yfirvöld myndu veita því móttöku. Við tilkynninguna dró saman, hvort tveggja, með siglingum flóttafólks til grísku eyjanna og, um leið, umfjöllun fjölmiðla um ferðirnar.
Fjölmiðlaumfjöllunin virðist aftur á móti hafa bæði minnkað meira, hraðar og varanlegar en siglingarnar. Samkvæmt nýrri ársskýrslu Aegean Boat Report, eða Bátaskýrslu Eyjahafs, sigldu alls 730 bátar til grísku eyjanna, með flóttafólk innanborðs, árið 2017. Heildarfjöldi þeirra sem komust á leiðarenda var 29.229 manns. Hliðstæður fjöldi lagði af stað en var stöðvaður á leiðinni, af lögreglusveitum eða landhelgisgæslu Tyrklands. Flestir þeirra sem komust yfir hafið lentu á eynni Lesbos, eða alls 292 bátar, með 12.709 manns innanborðs.
„Þetta eru fjölskyldur fyrst og fremst, sem hafast þarna við í tjöldum, litlum sumartjöldum,“ segir Kempson mér. „Það er svo þröngt um að sums staðar er ekki hægt að leggjast. Og miklu meira af börnum núna en við höfum átt að venjast, meðal annars nýfæddum, nokkurra vikna gömlum. Hér er enginn aðgangur að heilsugæslu, aðgangur að rennandi vatni er í besta falli gloppóttur, fæst bara á sumum svæðum, og þá aðeins kalt svo það eru engar sturtur. Klóak lekur gegnum búðirnar – það eru kjöraðstæður hérna fyrir farsóttir. Það er farið betur með fólk í fangelsum. Á síðasta ári dóu hér fullorðnir karlmenn við þessar aðstæður. Þetta haust höfum við verið heppin með veður. Það rigndi reyndar mikið í síðustu viku og þá flýtur vatn um tjöldin, en enn er ekki orðið jafn kalt og var í fyrra. Ef það gerist þá verða það ekki fullorðnir menn sem deyja í þetta sinn heldur ungabörn og krakkar.“
Smyglarar aka meiri áhættu með fólk eftir samkomulag ESB við Tyrkland
Ég spyr Kempson um samning Evrópusambandsins og Tyrklands, hvort hann hafi ekki breytt jafn miklu um þessa ferðaleið og ætla mætti.
„Samningurinn var ólöglegur,“ svarar hún. „Felur einfaldlega í sér mannréttindabrot. Að ferja fólk aftur til Tyrklands eftir að það bíður úrvinnslu hælisumsóknar í eitt og hálft ár, það er ekki hægt. Þess vegna er ekki hægt að fylgja þessu samkomulagi eftir að neinu ráði. Það hægði á ferðum fólks yfir hafið í fyrstu, en nú hafa Sýrlendingar áttað sig á að hvað sem þeim hefur verið sagt er engin leið að fá hæli í Evrópu eftir löglegum leiðum. Svo þeir takast á við sjóleiðina á ný. En vegna þess að nú er meira eftirlit með ferðunum, hætta á að vera gripinn og færður aftur í höfn í Tyrklandi, tekur fólk meiri áhættu núna, og smyglarar taka meiri áhættu með farþegana, láta úr vör að nóttu til að forðast gæsluna. Hlutfallslega erum við því að missa fleira fólk en nokkru sinni á þessum ferðum.“
![Sjálfboðaliðar við störf á lager The Hope Project, eða Vonarverkefnisins, sem Philippa og Eric Kempson stýra.]()
Sjálfboðaliðar við störf á lager The Hope Project, eða Vonarverkefnisins, sem Philippa og Eric Kempson stýra.
Hversu margir sjálfboðaliðar starfa nú við móttöku og aðhlynningu flóttafólks á eyjunum?
„Ég veit það ekki – þetta eru svo margir hópar, orðið. Annars vegar er fjöldi sjálfboðaliða hérna sem hefur verið að sinna þessum störfum um árabil. Hins vegar er líka töluvert af mannúðarsamtökum sem bætast við, koma og fara … 90% þeirra sem starfa með mér í vöruhúsinu eru sjálfir flóttamenn. Annars vegar vegna þess að þeir vilja hjálpa fólki í hliðstæðri stöðu, hins vegar vegna þess að fyrr eða síðar verður fólk að hafa eitthvað að gera. Einn samstarfsmaður minn, frá Kongó, hefur verið hér í yfir ár. Hversu lengi geturðu bara setið og beðið eftir afgreiðslu umsóknar?“
„Ef þú héldir 6.000 dýrum við þessi skilyrði yrði það fordæmt“
Þú nefndir áðan fólk sem hefði beðið í eitt og hálft ár eftir afgreiðslu – er það algengur tími eða undantekning?
„Það er algengt. Sumir fara hratt í gegn, aðrir verða fyrir algerri hunsun. Einhverjir hafa verið hér í tvö ár. Grísk stjórnvöld vilja hraða ferlinu niður í 60 daga. En þetta er rugl, kerfið er ekki að virka. Það vantar lögfræðinga og lögfræðiaðstð fyrir flóttafólkið. Sumum lánast að finna lögfræðinga upp á eigin spýtur en þeir sem ekki eru svo vel í stakk búnir lenda í því að mæta aftur og aftur, og alltaf er búið að klúðra einhverju í skjölunum þeirra, þess vegna bara skrifa nöfnin þeirra vitlaust, svo það þarf að panta nýjan tíma, reyna aftur eftir mánuð. Fólk er svo örvæntingarfullt hérna, svo þunglynt, þú myndir ekki trúa því. Það er ekki hægt að halda fólki og meina því allar útgönguleiðir. En heimurinn sneri bakinu í flóttafólk og vonaði að það myndi bara hverfa. Ef þú héldir 6.000 dýrum við þessi skilyrði yrði það fordæmt. En þetta eru 6.000 manneskjur, í Evrópu. Fjölskyldur sem hafa ekkert brotið af sér, en er mætt sem glæpamönnum um leið og þau stíga fæti inn fyrir evrópsk landamæri.“
![Ljósmynd: Aegean Boat Report.]()
Ljósmynd: Aegean Boat Report.
Ljósmyndir af Facebook-síðum Philippu Kempson og Vonarverkefnisins.
Fjáröflunarsíða Vonarverkefnisins.
Nánari upplýsingar um bátsferðir flóttafólks um Eyjahaf.