Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all 8283 articles
Browse latest View live

Stefnumótaforritið Grindr deildi HIV-stöðu notenda með öðrum fyrirtækjum

$
0
0

Stefnumótaforritið Grindr, sem ætlað er samkynhneigðum karlmönnum, hefur orðið uppvíst að því að deila persónulegum upplýsingum um notendur til annarra fyrirtækja, þar á meðal hverjir meðal þeirra segjast HIV-smitaðir. Þar sem gögnunum fylgja GPS-staðsetningarhnit notanda, einkennisnúmer síma og netfang notanda eru þau persónugreinanleg.

Norski rannsóknarhópurinn SINTEF komst á snoðir um viðskiptin og var fyrst greint frá þeim í Svíþjóð. Um leið og fréttin hlaut útbreiðslu í fjölmiðlum um allan heim tilkynnti fyrirtækið að baki Grindr að það muni hætta að deila notendagögnunum sem um ræðir.

Alls nota yfir 3,5 milljón manna Grindr daglega, en hugbúnaðurinn var fyrsta stefnumótaforritið á snjallsímum til að hljóta verulega útbreiðslu, og ruddi brautina fyrir önnur hliðstæð öpp, á við Tinder sem er vinsælt meðal gagnkynhneigðra.

Tvö fyrirtæki reyndust hafa fengið aðgang að gögnunum. Bæði veita þau hugbúnaðarþjónustu og sérhæfa sig í að auka skilvirkni hugbúnaðar. Cooper Quintin, sérfræðingur hjá samtökunum Electronic Frontier Foundation, segir að jafnvel þó að kaupendur gagnanna ætli sér ekki að misnota þau sé ljóst að dreifing þeirra skapi áhættu. „Ef einhver með ásetning um að brjóta á fólki vill nálgast þessar upplýsingar er þar með ekki bara einn staður þar sem má finna þær, þ.e. Grindr, heldur þrír staðir þaðan sem upplýsingarnar gætu hugsanlega orðið opinberar.“


Facebook fylgist með einkaskilaboðum milli notenda

$
0
0

Fulltrúar Facebook hafa staðfest að fyrirtækið fylgist með hlekkjum og myndum sem fólk sendir hvert öðru í einkaskilaboðum á Facebook Messenger. Þá lesa starfsmenn fyrirtækisins einkaskilaboð sem fara á milli fólks ef hugbúnaður sem vaktar þau lætur vita af ákveðnum lykilorðum, sem vekja grun um að notendur brjóti notendaskilmála með samskiptunum.

Spurningar vöknuðu um hvort þetta væri raunin eftir viðtal blaðamannsins Ezra Klein við Mark Zuckerberg, stofnanda og forstjóra Facebook, þar sem Zuckerberg greindi frá upplýsingum sem honum hefði borist um samskipti milli fólks í Myanmar, þar sem hvatt var til ofbeldisverka og ofsókna gegn Róhingjum. Facebook hefði ákveðið að stöðva sendingu umræddra skilaboða.

Til að forðast þátttöku í þjóðarmorðum

Ásetningur Zuckerbergs virðist hafa verið að koma jákvæðum upplýsingum á framfæri, þeim að Facebook legði sig fram um að eiga ekki hlutdeild í þjóðarmorðum og glæpum gegn mannkyni. Um leið vöknuðu þó spurningar um hvort þetta þýddi að öll skilaboð milli notenda Facebook væru vöktuð með þessum hætti. Það hefur nú verið staðfest.

Aðrir, öruggari valkostir

WhatsApp skilaboðaþjónustan er einnig í eigu Facebook, en er rekin á öðrum forsendum: öll skilaboð sem fara á milli notenda forritsins eru sögð dulkóðuð enda á milli þannig að fyrirtækið sjálft getur ekki komist á snoðir um innihald þeirra.

Í ljósi þess hversu víðtækt kæruleysi Facebook hefur sýnt í meðferð persónuupplýsinga til þessa kjósa þó margir önnur kerfi fyrir trúnaðarsamskipti, á við Signal, hugbúnað sem Edward Snowden hefur mælt með fyrir almenna notendur. Þá er hliðstætt smáforrit að nafni Telegram vinsælt.

Landlæknir svarar ekki gagnrýni Læknafélagsins um meðferð persónuupplýsinga

$
0
0

Landlæknisembættið virðist ekki hafa brugðist við þeim athugasemdum sem Læknafélagið gerði þann 23. mars við nýlegan flutning viðkvæmra persónuupplýsinga embættisins til einkafyrirtækisins Advania.

Kvennablaðið hefur reynt að ná tali af fulltrúum Landlæknisembættisins í leit að viðbragði við athugasemdunum. Í símtali bað starfsmaður embættisins um að fyrirspurn bærist heldur með tölvupósti. Kvennablaðið varð við því en hefur ekki borist svar við fyrirspurninni þegar þetta er ritað.

Fyrirspurn Kvennablaðsins var svohljóðandi:

Þann 23. mars sendi Læknafélagið Landlækni opið bréf þar sem birtist nokkuð harðorð gagnrýni í garð embættisins vegna hýsingu gagna þess hjá einkafyrirtæki, auk umfangs gagnaöflunar embættisins. Hefur Landlæknir brugðist við þeirri gagnrýni sem kemur fram í bréfi Læknafélagsins, eða er slíks viðbragðs að vænta?

Athugasemdir Persónuverndar

Í marsmánuði skilaði Persónuvernd „alvarlegum athugasemdum“ til Landlæknis vegna brotalama á öryggiskröfum embættisins í kröfum sem gerðar voru við útboð á flutningi og hýsingu gagna um sjúkrasögu almennings. Gögnin voru flutt á netþjóna fyrirtækisins Advania, sem hýsir þau nú.

Í kjölfar þess álits og umfjöllunar sem fylgdi birti Læknafélag Íslands opið bréf til Heilbrigðisráðherra, þann 23. mars, þar sem félagið lýsti áhyggjum sínum yfir því að „embætti landlæknis skuli vera búið að flytja persónugreinanleg gagnasöfn sín til einkaaðila“, og yfir athugasemdum Persónuverndar.

Læknafélagið gagnrýnir umfang gagnasöfnunar

Um leið ítrekaði félagið athugasemdir „við umfang gagnasöfnunar embættis landlæknis“. Félagið segir gögnunum safnað frá sjálfstætt starfandi læknum, meðal annarar, en margir læknir telji sér óheimilt að senda embættinu þær upplýsingar sem um ræðir, leggist sjúklingar gegn því. Embætti Landlæknis hefur að sögn félagsins hunsað slíkar athugasemdir og segir í bréfi félagsins að læknum hafi borist hótanir um leyfissviptingu skili þeir ekki þeim gögnum sem embættið krefst.

Læknafélagið segir umfang gagnanna sem embættið safnar „miklu meira en þörf er á“ og í „engu samræmi við tilgang lagaákvæðisins“. Ákvæðið sem um ræðir er 8. grein Laga um landlækni og lýðheilsu.

Viðbragðsleysi ráðuneytis og embættis

Í bréfinu kemur fram að Læknafélagið hafi leitað álits Persónuverndar árið 2014, sem hafi skilað niðurstöðu í október 2016. Persónuvernd hafi meðal annars sagt þörf á að skoða hvort ástæða væri til að lögfesta andmælarétt sjúklinga í tengslum við umræddar skrár. Samkvæmt bréfi Læknafélagsins hefur Heilbrigðisráðuneytið ekki brugðist við þessu áliti Persónuverndar, og fer gagnasöfnun Landlæknis fram með sama hætti og fyrr.

Starfsmenn Google andmæla samstarfi fyrirtækisins við Bandaríkjaher

$
0
0

Yfir 3.000 starfsmenn Google hafa skrifað forstjóra fyrirtækisins opið bréf til að andmæla samstarfi fyrirtækisins við bandarísk hermálayfirvöld um þróun gervigreindarbúnaðar til notkunar í hernaði.

Verkefnið sem um ræðir kallast Project Maven og felst í þróun gervigreindar til eftirlits með stórum svæðum. Verkefnið mun nýtast við gögn úr eftirlitsdrónum bandarískra stjórnvalda til að bera kennsl á farartæki og fólk, fylgjast með ferðum þeirra og skila niðurstöðum til Varnarmálaráðuneytisins.

Starfsmennirnir segja að gagnrýni sem þeir hafi fært fram innanhúss hafi verið svarað með því að búnaðurinn sem Google þróar verði ekki nýttur til að stýra flygildum eða skjóta vopnum. Þessi afmörkuðu svör segja starfsmennirnir að breyti því ekki að búnaðurinn sé þróaður fyrir herinn og þegar hann sé til reiðu verði honum fyrirsjáanlega beitt til að styðja við slíkan verknað.

„Við getum ekki útvistað siðferðilegri ábyrgð á tæknilausnum okkar til þriðja aðila,“ segir í bréfinu. „Að þróa þennan búnað til að styðja bandarísk stjórnvöld við eftirlit í þágu hernaðar – og mögulega banvænar afleiðingar – er ekki ásættanlegt,“ segir ennfremur.

Starfsmennirnir fara fram á að Google hætti þegar í stað þátttöku í verkefninu, og móti í kjölfarið skýra stefnu sem útiloki þátttöku fyrirtækisins í þróun hergagna.

Bréfið birtist fyrst í New York Times og var meðal annars endurbirt í The Guardian.

Í alvöru!

$
0
0
Símon Vestarr

Símon Vestarr

Símon Vestarr skrifar:

Ókei, hættum nú þessu kjaftæði og tölum aðeins saman í alvöru.

82 prósent af þeim auð sem var skapaður á plánetunni árið 2017 rann í vasa hins allra ríkasta prósents jarðarbúa. Gleymdu í smástund hvað þér finnst sósíalismi vera óraunhæfur. Sjáðu bara fyrir þér partí með tíu gesti.

Allir urðu svangir og lögðu í púkk fyrir fimm pizzum. Sendillinn kom og Siggi fór til dyra með seðlana frá mannskapnum. Svo stóð hann í forstofunni og hámaði í sig fjórar heilar pizzur og kjagaði prumpandi inn í stofuna með hina síðustu. „Er ég ekki helvíti almennilegur að leyfa ykkur að skipta á milli ykkar síðustu pizzunni?”

Finnst þér Siggi hafa verið helvíti almennilegur? Ekki? Hvernig væri þá sleppa því að bjóða honum næst? Hann gerir þetta í hvert einasta skipti!

Nú hugsarðu kannski: þetta er ekki hliðstæða við kapítalismann. Og það er satt. Ég er of mjúkhentur. Í dæmisögunni minni er Siggi tíu prósent viðstaddra. Til að líkingin haldi vatni er ekki nóg að hann borði frá níu manns heldur nítíu og níu. Auðmaðurinn stendur í forstofunni og borðar fjörtíu af þeim fimmtíu pizzum sem voru pantaðar og nítíu og níu manns þurfa að skipta á milli sín þeim tíu sem eftir eru. Þau fá hér um bil ein sneið á mann ef hver baka er skorin í tíu búta. Og Siggi át fjörtíu. Heilar. Pizzur.

Þú hugsar kannski: ef Siggi er ríkasta eina prósentið þá gefur hann mest frá sér í samneysluna. Borgar hann ekki hæstu skattana? En þá ertu að rugla saman raungildi og skiptagildi. Gleymdu orðum eins og skattar og samneysla. Leggðu meira að segja til hliðar peningahugtakið. Peningar eru ekki auður heldur ávísun á eignarhald á auði. Sjáðu þetta heildstætt fyrir þér:

Hvað skapar auð? Vinna. Og 82 prósent af auðnum fer í vasa fólksins í fínu fötunum. Eiga ekki allir að fá að njóta ávaxta erfiðis síns? Hefur fólkið í fínu fötunum virkilega unnið svona mikið meir en hin 99 prósentin? Vinnur einn milljarðamæringur á við nítíu og níu aðra? Hvað í andskotanum gæti ein manneskja gert til að verðskulda þessa ónáttúrulegu yfirburðastöðu?

Ekki segja: tja, svona er þetta bara.

Svona er þetta af því að við erum ekki búin að koma okkur saman um að breyta þessu.
Ekki segja: þetta hefur verið svona svo lengi að það á aldrei eftir að breytast.
Þrælahald var við lýði árhundruðum saman og fyrir rétt rúmri öld þótti það fáránleg hugmynd að konur fengju kosningarétt. Eða eigum við að tala um viðhorf til giftinga samkynhneigðra fyrir þrjátíu árum?

Ekki segja: vertu raunsær.

Vert þú raunsær!

Hvað heldurðu að þetta gangi lengi? Hvað heldurðu að fólk láti lengi nota sig sem rauðan dregil fyrir þá sem halda að þeir séu guðir á meðal manna? Hvað heldurðu að vistkerfi okkar þoli rányrkju okkar í þágu stjarnfræðilegs gróða ríka prósentsins lengi áður en þau gefa sig endanlega? Heyrirðu ekki brakið í spilaborginni, manneskja? Ertu með dulu fyrir augunum og sokka í eyrunum?

Sá sem sagði þér að endalok kapítalismans myndu leiða af sér endalok hagsældar gleymdi að segja þér að kapítalisminn er á góðri leið með að valda endalokum dýrategundarinnar sem þú tilheyrir. Að tala um þá áhættu sem fylgi því að útrýma auðvaldsskipulaginu sem við búum við er eins og að skamma farþegana í bílnum sínum fyrir að vera ekki með sætisbeltin spennt eftir að maður keyrir fram af kletti.

Heldurðu kannski að Siggi gefi þér aukasneið ef þú hjálpar honum að svíkja okkur hin? Eða jafnvel að þú verðir Siggi einn daginn? Heldurðu í vonina um það? Í guðs bænum fáðu þér þá smá sjálfsvirðingu. Er ekki betra að deyja standandi í lappirnar en lifa nötrandi á hnjánum?

Þú veist að þetta er rétt, félagi.

Komdu út úr skápnum og slástu í hópinn með okkur.

Þú ert ekki fáviti.

Þú ert sósíalisti.

Í alvöru, maður.

„Fangar mega fá gesti, flóttafólk ekki“ – Ráðherra viðheldur heimsóknabanni

$
0
0

Elínborg Harpa Önundardóttir segir að íslensk yfirvöld hýsi flóttamenn við aðstæður sem sé betur lýst sem fangelsi en gistiheimili. Elínborg greindi frá því á fimmtudag að hún hefði í marsmánuði farið, ásamt þremur öðrum, í heimsókn til flóttamanns sem dvalist hefur í um mánuði á „gistiheimili“ á vegum Útlendingastofnunar. Gistiheimilið, sem er á Ásbrú, Reykjanesi, kallast Airport Inn Guesthouse en réttara væri, að sögn Elínborgar, „að kalla það Airport Inn Prison“. Hún skrifar:

Vistmönnum er bannað að fá gesti. Okkur var mætt af öryggisverði sem er á staðnum allan sólarhringinn. Við gátum ekki einu sinni staðið í anddyrinu til þess að spjalla. Flóttafólk má almennt ekki fá gesti. Í öllu húsnæði á vegum ÚTL sem ég hef komið í má sjá skilti um að bannað sé að taka á móti gestum. Fangar mega fá gesti, flóttafólk ekki.

Elínborg lýsir því að eftirlitsmyndavélar séu staðsettar beggja vegna við innganginn. Hið svokallaða gistiheimili sé staðsett yst á Ásbrú, í 2,7 kílómetra fjarlægð frá næstu Bónus-verslun, sem standi í jaðri Njarðvíkur. Sérstök rúta fari tvær ferðir á viku milli flóttamannabúðanna og verslunarinnar. Annars hafi „flóttamenn á Ásbrú ekki við neitt að vera“ og séu gífurlega einangraðir.

Heimsóknir sjálfboðaliða frá 2006

Sjálfboðaliðar veittu hælisleitendum á Íslandi félagslegan og andlegan stuðning um árabil, í það minnsta frá árinu 2006, þegar Rauði krossinn, að frumkvæði séra Toshiki Toma, skipulagði vikulegar heimsóknar sjálfboðaliða til flóttafólks sem þá dvaldi á gistiheimilinu í FIT Hostel í Njarðvík, á meðan það beið afgreiðslu umsókna. Frá árinu 2008 fjölgaði þeim sem lögðu flóttafólki lið með heimsóknum og félagslegum stuðningi utan formlegra félagasamtaka, meðal annars að frumkvæði Hauks Hilmarssonar.

Tíu árum síðar, sumarið 2016, ákvað Innanríkisráðuneytið að banna heimsóknir til hælisleitenda sem dvelja í húsnæði á vegum yfirvalda. Guðrún G. Björnsdóttir, læknir á bráðamóttöku Landspítalans, skrifaði af því tilefni að sjálfboðaliðar hafi verið eina raunverulega tenging fólks í þeirri stöðu við umheiminn, „bæði kynnt þau fyrir menningu, aðstoðað þau við að verða sér úti um nauðsynjar og gætt þess að lágmarksmannréttindum sé sinnt.“ Heimsóknarreglurnar sagði hún að myndu „ýta undir mannréttindabrot hér og það mun verða mannslát á okkar allra ábyrgð.“

Ráðherra segir bannið vera til verndar flóttafólki

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, hefur viðhaldið heimsóknabanninu. Í svari við fyrirspurn á Alþingi hefur hún varið fyrirkomulagið á þeim forsendum að banninu sé ætlað að vernda friðhelgi einkalífs þeirra sem dvelja í húsnæði á vegum Útlendingastofnunar. Reglurnar séu þannig settar „til verndar umsækjendum um alþjóðlega vernd“.

Hér að neðan fylgir myndband Elínborgar frá heimsókninni á gistiheimilið, þar sem öryggisvörður meinaði henni og öðrum inngöngu.

Fjármálaáætlun: 3,5 milljarðar til „eflingar landamæravörslu“

$
0
0

Mesta hækkun útgjalda í fjárlögum næsta árs, miðað við fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin lagði fram í vikunni, er á sviði „Almanna- og réttaröryggis“, eða sem nemur 13,8%. Í krónum talið hækka útgjöld til málaflokksins úr rúmum 25,1 milljarði á þessu ári í 28,6 milljarða árið 2019.

Yfir fimm ára tímabilið sem áætlunin nær til nemur hækkun útgjalda í málaflokknum 14,5% á meðalári, eða alls tæpum 18,2 milljörðum króna. Þyrlukaup Landhelgisgæslunnar vega þar þungt, en gert er ráð fyrir að um 14 milljörðum króna verði varið til þeirra á tímabilinu. Eftir stendur ósundurliðuð útgjaldaaukning sem nemur 4,2 milljörðum.

Málaflokkurinn snýst um löggæslu og skyld mál og nær til fimm undirsviða: löggæslu, landhelgi, ákæruvalds og réttarvörslu, réttaraðstoðar og bóta og fullnustumála. Rekstur dómstólanna telst ekki til þessa málefnasviðs, enda er gert ráð fyrir að útgjöld til þeirra lækki á tímabili áætlunarinnar. Til sviðanna löggæslu og landhelgi telst aftur á móti, meðal annars, landamæravarsla.

Grafið sýnir hlutfallslega þróun útgjalda einstakra sviða, frá fjárlögum ársins 2018 til áætlunar ársins 2019, samkvæmt fjármálaáætlun næstu fimm ára, sem ríkisstjórnin lagði fram nú í byrjun apríl. Veigamesta hækkunin milli ára er til „Almanna- og réttaröryggis“.

„Að bæta landamæravörslu og samþætta landamærastjórnun“

Í fjármálaáætluninni felst ekki jafn ítarleg sundurgreining og í fjárlagafrumvarpi, og er því ekki gegnsætt í hvaða undirflokka málasviðsins útgjaldaaukningin rennur. Þó má að nokkru leyti ráða í fyrirhuguð útgjöld af kynningartexta áætlunarinnar og öðrum fyrirliggjandi gögnum.

Í inngangstexta fjármálaáætlunarinnar um áherslur og stefnumið er hækkunin útskýrð með eftirfarandi orðum: „Er þar miðað að því að bæta landamæravörslu og samþætta landamærastjórnun, meðal annars á grundvelli skuldbindinga Íslands vegna Schengen-samstarfsins, auk áðurnefndra kaupa á þyrlum.“ Þá er sagt að framlög verði aukin um 800 milljónir króna „til að styrkja löggæslu, auk þess sem auknum fjármunum verður varið til rekstrar Landhelgisgæslunnar.“

5x hærri aukning til landamæravörslu en annarra þátta

Síðar í áætluninni, undir fyrirsögninni „Helstu útgjaldamál og breytingar eftir málefnasviðum“ segir ennfremur:

Meginbreyting á útgjöldum málefnasviðsins snýr að áformum um kaup á þremur nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna í stað þeirra tveggja sem eru í leigu og þeirrar sem er í eigu gæslunnar. Áætlað er að verja samtals 14 ma.kr. á tímabilinu til kaupanna. Þá er gert ráð fyrir að verja 3,5 ma.kr. til að bregðast við alvarlegum aðfinnslum við landamæravörslu á grundvelli Schengen úttektar og tryggja þannig m.a. samkeppnishæfni alþjóðaflugvallarins í Keflavík.

Hafa þar með verið taldir 17,5 milljarðar af þeim 18,2 sem lagt er upp með að bætist við útgjöld sviðsins alls á tímabilinu. Eftir standa þá af hækkuninni um 700 milljónir króna í önnur mál, yfir fimm ára tímabil. Sem hluti hækkunarinnar sem eyrnamerktur er almennri löggæslu og öðrum verkefnum virðist því umtalsvert lægri, raunar um fimmfalt lægri alls, en þeir 3,5 milljarðar sem ætlaðir eru til eflingar landamæravörslu.

„Mikil áhersla lögð á eflingu viðbúnaðar lögreglu við landamæravörslu“

Ærið tilefni virðist til þessarar eflingar, ef marka má texta fjármálaáætlunarinnar. Á blaðsíðu 209 í skjali ríkisstjórnarinnar er aftur minnst á úttekt sem sögð er hafa farið fram árið 2017, „um hvernig Ísland uppfyllir skyldur sínar um fyrirkomulag og framkvæmd landamæravörslu á grundvelli alþjóðaskuldbindinga á vettvangi Schengen-samstarfsins.“

Niðurstaða úttektarinnar kvað, samkvæmt texta skjalsins, „á um tilmæli til íslenskra stjórnvalda um að leggja áherslu á málefni landamæra með það að markmiði að tryggja áreiðanlega, hagkvæma og skilvirka aðkomu íslenskra stjórnvalda í samstarfinu og tryggða örugga umferð um landamæri. Mikil áhersla er því lögð“, er loks ítrekað „á eflingu viðbúnaðar lögreglu við landamæravörslu“.

Ráðherra kallar fjölgun flóttafólks 2016 „Áhlaup á Ísland“

Vefslóð fylgir í neðanmálsgrein við setninguna um Schengen-úttektina frá síðasta ári. Slóðin vísar aftur á móti ekki á slíka úttekt eða skýrslu, heldur almennan upplýsingavef Stjórnarráðsins um Schengen-samstarfið. Nýjasta skjalið á þeim vef er, þegar þetta er ritað, skýrsla innanríkisráðherra frá árinu 2012.

Út glærum við erindi sem dómsmálaráðherra hélt á fundi félagsins Varðberg 4. maí 2017.

Fyrstu tilraunir til leitar að Schengen-úttektinni á vefum Stjórnarráðsins og Alþingis skiluðu ekki árangri. Skyld skjöl komu þó í leitirnar. Þar á meðal glærur frá erindi sem Sigríður Á. Andersen hélt á fundi félagsins Varðberg 4. maí á síðasta ári.

Erindi ráðherrans ber yfirskriftina „Borgaraleg öryggisgæsla“. Glærurnar eru merktar Dómsmálaráðuneytinu, ásamt ráðherra sjálfum, og virðist erindið því hafa verið flutt í nafni embættisins.

Á fyrstu glæru ráðherrans segir: „Öryggis- og varnarmál ekki síður innanríkismál en utanríkismál.“

Út glærum við erindi sem dómsmálaráðherra hélt á fundi félagsins Varðberg 4. maí 2017.

Á glæru með fyrirsögnina „Landamæravarsla“ má lesa: „Óhefðbundnir fólksflutningar yfir ytri landamæri Schengen-svæðis sérstök öryggisógn“.

Undir fyrirsögninni „Fordæmalaus fjölgun hælisleitenda“ kallar ráðherra þá fjölgun flóttafólks sem leitaði til Íslands árið 2016, líkt og annarra Evrópulanda, „Áhlaup á Ísland“.

„
Til vopna og búnaðarkaupa sérsveitar“

Loks er í skjalinu að finna glæru með fyrirsögnina „Viðbrögð“ þar sem ráðherra virðist setja fram einhvers konar áætlun. Birtist þar þessi upptalning:

Út glærum við erindi sem dómsmálaráðherra hélt á fundi félagsins Varðberg 4. maí 2017.

  • Fjölgun í sérdeildum á sviði öryggismála
  • 
Fjárveiting til vopna og búnaðarkaupa sérsveitar
  • Farþegalistagreining

  • Heimildir lögreglu á sviði hryðjuverkavarna
  • 
Alþjóðasamvinna

  • Aukið vægi móttökumiðstöðva fyrir hælisleitendur
  • Löggæsluáætlun

Á meðan úttektin á uppfyllingu Schengen-samkomulagsins kemur ekki í leitirnar virðist þetta það næsta sem komist verður rökstuðningi, ásetningi og sundurliðun aukinna útgjalda til „almanna- og réttaröryggis“ á komandi árum: að í ljósi öryggisógnarinnar sem stafar af „áhlaupi“ flóttafólks á Ísland verði fjölgað í sérdeildum, fjárfest í vopnum og öðrum búnaði sérsveitar, ráðist í ítarlegri skimun farþegalista og breytingar á heimildum lögreglu til hryðjuverkavarna, meðal annars.

Fjármálaáætlun: Mest verður skorið niður í húsnæðisstuðningi – óljóst hvernig eða hvers vegna

$
0
0

Ef litið er á nýkynnta fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar út frá krónutölu frekar en prósentum verður ljóst að mestur niðurskurður áætlunarinnar liggur innan málaflokksins „Húsnæðisstuðningur“, lið 31. Í áætluninni er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs til húsnæðisstuðnings lækki um rúma 2 milljarða á ári. Er þá meðalár áætlunartímabilsins 2019–2023 borið saman við 2017, þegar núverandi ríkisstjórn stóð ekki að baki fjárlögum.

Grafið sýnir þróun árlegra útgjalda ríkisins til einstakra málasviða, til næstu fimm ára, miðað við útgjöld ársins 2017.

Grafið sýnir þróun árlegra útgjalda ríkisins til einstakra málasviða, til næstu fimm ára, miðað við útgjöld ársins 2017. Gögnin eru úr fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð var fyrir Alþingi í byrjun apríl 2018.

Í texta áætlunarinnar er málaflokknum lýst með svofelldum orðum:

Málefnasviðið tekur til húsnæðisstuðnings hins opinbera við ólík búsetuform og því er ætlað að stuðla að því að landsmenn hafi raunverulegt val um búsetuform og öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins, m.a. vegna lágra launa, þarfar fyrir sérútbúið húsnæði eða annarra félagslegra aðstæðna. Undir málaflokkinn falla vaxtabætur, stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð, húsnæðisbætur og leiguíbúðir, þar á meðal almennar íbúðir.

Í skjalinu má sjá merki um að stjórnvöld geri sér grein fyrir að verulegur vandi steðji að húsnæðismarkaði og heimilisöryggi fjölda fólks á síðustu árum. Þar má til dæmis lesa, undir liðnum „Framtíðarsýn og meginmarkmið“:

Framtíðarsýn málefnasviðsins er að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins og að þeir hafi raunverulegt val um búsetuform. Húsnæðismarkaðurinn verði laus undan því að vera mjög sveiflukenndur eins og reyndin hefur verið undanfarin ár, ýmist með offramboði af fasteignum eða framboðsskorti eins og nú er reyndin. Eftirlits- og greiningarhlutverk stjórnvalda í húsnæðismálum verði styrkt í því skyni að efla markvissa stefnumörkun á því sviði.

Í raun er ekki auðvelt að greina vísbendingar í texta skjalsins um að stjórnvöld ætli sér að lækka útgjöld til málaflokksins, rökstuðning fyrir slíkri stefnu eða sundurliðun á niðurskurðinum. Ef til vill felst helsta vísbendingin í því markmiði sem sett er fram að þeim sem greiða séreignarsparnað inn á lán fjölgi á næstu árum (í töflu, bls. 375.).

Eftir sem áður eru Excel-skjölin skýr: hvernig sem ætlunin er að skera niður í málaflokknum, og á hvaða forsendum, er gert ráð fyrir að útgjöld á sviðinu lækki um tæp 15% frá árinu 2017 til meðalárs á fimm ára tímabilinu framundan, eða alls um 2,1 milljarða á ári.


Fjármálaáætlun: 4 milljarðar á ári til að fækka efnahagslega óvirkum – í landi hinna ofvirku

$
0
0

Í nýkynntri fjármálaáætlun eru lögð fram tvö markmið í samhengi við örorkulífeyri. Annað markmiðið er að lífeyrisgreiðslur verði rétt reiknaðar og greiddar, en á því virðast hafa verið verulegir annmarkar til þessa. Þannig kemur fram að 39% örorkulífeyrisþega hafi fengið ofgreitt eða vangreitt sem nemur meira en 50.000 krónum árið 2017. Stefnt er að því að lækka hlutfall þeirra sem fá rangt greitt umfram þessi viðmiðunarmörk í 35% árið 2019 og 20% árið 2023.

Meginmarkmiðið að fækka örorkulífeyrisþegum

Hinu markmiðinu virðist gert hærra undir höfði, að draga úr „nýgengi örorku“, það er að fækka þeim sem fá í fyrsta sinn 75% örorkumat á hverju ári. Samkvæmt reglugerð um örorkumat er 75% örorka lágmarksskilyrði þess að fá fullan örorkulífeyri. Nýskráningar voru samkvæmt áætluninni 1.506 árið 2017. Stefnt er að því að þeim fækki í 1.500 árið 2019 en 1.200 við lok tímabilsins, árið 2023, þegar gert er ráð fyrir að nýtt „þverfaglegt starfsgetumat“ hafi rutt hefðbundnara örorkumati úr vegi.

Áformað er að veita auknu fjármagni til málaflokksins á tímabilinu. Þó er ekki gert ráð fyrir nokkurri hækkun örorkulífeyris. Komið hefur fram að viðbótarfjárveitingarnar eru annars vegar ætlaðar til að mæta fólksfjöldaþróun, en áætlað er að kostnaður vegna fjölgunar lífeyrisþega verði um 1,2 til 1,4 milljarðar á ári. Hins vegar er fjármagnið ætlað til innleiðingar hins nýja þverfaglega starfsgetumats, en kostnaður við það er talinn munu nema 4 milljörðum króna árlega.

Hvergi færri efnahagslega óvirkir

Vegna ólíkra bótakerfa ólíka landa er ekki jafn einfalt að bera saman tölur um fjölda örorkulífeyrisþega milli landa og til dæmis atvinnulausra. Í gögnum Norðurlandanna og Evrópu er aftur á móti haldið til haga fjölda og þróun „efnahagslega óvirkra“ samanalagt. Til hópsins teljast meðal annars öryrkjar, en einnig aðrir lífeyrisþegar, hverjir þeir sem hvorki eru með atvinnu né í atvinnuleit. Atvinnulausir teljast aftur á móti ekki efnahagslega óvirkir.

Efnahagsleg óvirkni í Evrópu

Efnahagsleg óvirkni í Evrópu

Á Íslandi eru, samkvæmt gögnum Eurostat, færri efnahagslega óvirkir en í nokkru öðru Evrópulandi – raunar miklu færri. Meðalfjöldi efnahagslega óvirkra innan aðildarríkja ESB er yfir fjórðungur fólks á aldrinum 15–64 ára, eða 27,1%. Á Norðurlöndunum er hlutfallið frá 18% í Svíþjóð upp í 24% í Finnlandi. Á Íslandi, aftur á móti, teljast aðeins 10,7% íbúa á aldrinum 15–64 ára efnahagslega óvirkir. Næsta land á eftir Íslandi er Sviss, þar sem rúm 16% íbúa eru efnahagslega óvirkir. Þetta er í samræmi við aðrar skýrslur um sama efni.

Forgangsröðun þverfaglegs starfsgetumats

Þrátt fyrir Evrópumet í efnahagslegri virkni og atvinnuþátttöku virðist þverpólitísk samstaða hafa myndast um það sem forgangsmál, innan flokkanna, að fækka í hópi efnahagslega óvirkra: undirbúningur hins nýja þverfaglega starfsgetumats hefur nú staðið yfir, að heita má, gegnum öll hugsanleg stjórnarmynstur lýðveldisins. Verður nú veitt til innleiðingar þess 4 milljörðum á ári.

Sjá nánar: umfjöllun Steindórs J. Erlingssonar um fyrirhugað starfsgetumat.


Ljósmynd: Roger Goodman.

Verður Sýrlandi eytt?

$
0
0

Sverrir Agnarsson skrifar:

Sýrlandsstjórn verður örugglega kennt um eiturefnaárás í nágrenni Damaskus í gær.  Það kæmi mér ekki á óvart ef Damaskus yrði sprengd í tætlur eins og Baghdad árið 2003.

Þar sem margir lesa ekki innglegg nema til hálfs vil ég byrja á eftirfarandi:

Ég var í Hama  í Sýrlandi 1982 og fór þaðan viku áður en sýlenski herinn framdi þar hrikaleg fjöldamorð á yfir 30.000 manns og ég missti þar góða vini og verð seint stuðningsmaður Assad Sýrlandsforseta. En ég hef snúist til þeirrar skoðunnanar að nú sé mál að linni og einhversskonar samningum náð í Sýrlandi þó það kosti að hann haldi völdum en vonandi verður hægt að takmarka þau eitthvað.

Tímasetningin á árásinni er eftirtektaverð þar sem harðstjórinn Assad er við það að ná öllu svæðinu á sitt vald með ógeðfelldum loftársum og því í ósköpunum gæti það gagnast honum að beita eiturefnahernaði sem gætu afsakað loftárásir BNA á Damaskus í stíl við þær á Bagdad 2003. Ég spái að forsetahöllin verði fyrsta skotmarkið. Við erum með ákaflega hvatvísan Bleik í Hvíta húsinu sem gæti núna komið heimstyrjöld af stað.

Það hafa allir andspyrnuhóparnir sem börðust við stjórnarherinn í Austu Gouta í útjarði Damascus gefist upp og náð samningum um að yfirgefa svæðið ásamt fjölskyldum sínum nema öfgahópurinn Laysh al-Islam sem er stofnaður af saudíarabískum öfgamönnum sem dæla í hann peningum og ráðgjöfum.

Það er einmitt hópuinn sem nú verður fyrir þessari eiturefnaárás og heimildin er “Hvítu hjálmarnir” sem virðast svo til eingöngu starfa á svæðum Laysh–al Islam.

Laysh al Islam er sami hópurinn og stillti upp100 littlum búrum nýlega í Gouta með sjö Alawitum (ættbálkur Assads) konum jafnt sem körlum í hverju búri, sem vörn gegn loftárásum.

Hugmyndafræðingar Laysh al Islam hafa áður lýst sem stefnu sinni að hreinsa Sýrland af Shia múslímum og Alawítum og láta þá kenna á grimmilegu píningum í þessum heimi áður en Guð útskúfi þeim í sjálfu helvíti í þeim næsta.

Talsmaður hópsins viðurkendi 2016 að yfirmaður í þeirra röðum hefði af eigin hvötum beitt efnavopnum gegn Kúrdum og almenningi í Aleppó og Rauði hálfmáninn á svæðinu lýsti einkennum fórnalambanna í þeirri árás eins og þeim er lýst í þessari árás í Gouta í gær.

Grunsemdir um tengls Laysh al Islam við ISIS vöknuðu eftir ræðu sem John Kerry flutti sumarið 2016 þar sem hann virtist óvart klassa þá sem hreyfingu veranda undir beinni stjórn ISIS.

Hópurinn eins og ISIS notar sjáfsmorðssprengjur gegn almennum borgurum sem vopn og er alveg trúandi til að líta á eigin konur og börn sem píslarvotta sem fórna sér fyrir sigur. Muna menn eftir lyklabörnum Irans sem send voru til að hreinsa upp jarðsprengjusvæði með lykla af Paradís um hálsinn?

Starfsgetumat dró 10.000 manns til dauða í Bretlandi, á tveimur árum

$
0
0

10.000 manns létust í Bretlandi, á aðeins tveimur árum, eftir að vera synjað um fullar örorkubætur á grundvelli starfsgetumats.

Þetta kemur fram í svari breskra stjórnvalda til breska dagblaðsins Daily Mirror. Samkvæmt blaðinu tók það 18 mánaða baráttu blaðsins við stjórnsýsluna, í krafti upplýsingalaga, að nálgast gögnin, sem ná til tímabilsins frá desember 2011 til febrúar 2014.

2.380 manns dóu eftir að starfsetumat þótti leiða í ljós að það væri hæft til starfa. Því til viðbótar létust 7.200 eftir að vera skipað í vinnutengda iðjuhópa, sem fól í sér að bætur þeirra voru skertar og þeim sagt að leita vinnu. Fjöldinn jafngildir því að 80 manns úr þessum hópum hafi látist á viku hverri, í kjölfar starfsgetumats. Dánartíðni þeirra er þar með tvöfalt hærri en annars í Bretlandi.

Íslensk stjórnvöld hafa undirbúið innleiðingu „þverfaglegs starfsgetumats“ á síðustu árum, sem margir óttast að verði að breskri fyrirmynd. Ný fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að 4 milljörðum verði varið árlega til innleiðingar á hinum nýju viðmiðum, án þess þó að hækka örorkulífeyri.

Múr um Ísland: Tvöfalt meira fé til „eflingar landamæravörslu“ en Trump krefst í múrinn

$
0
0

Um helgina kom fram að í fjárlagafrumvarpi næsta árs, sem Donald Trump leggur fram í dag, mánudag, verði gert ráð fyrir framlagi til að hefja byggingu múrs eftir landamærum Bandaríkjanna að Mexíkó. Múrinn var á meðal umdeildustu kosningaloforða Trumps og komi til byggingar hans má gera ráð fyrir að framkvæmdin verði með þeim umdeildustu í seinni tíma sögu Bandaríkjanna.

Útgjöldin sem frumvarpið gerir ráð fyrir til múrsins árið 2019 nema 3 milljörðum Bandaríkjadala, eða tæpum 300 milljörðum króna. Kemur fjárhæðin til viðbótar við önnur, hefðbundin útgjöld til landamæravörslu.

Í fjármálaáætlun íslenska ríkisins sem kynnt var fyrir helgi er gert ráð fyrir að 3,5 milljörðum króna verði varið til að efla landamæragæslu á fimm ára tímabili, eða 700 milljónum króna á ári.

Viðbótarútgjöldin til múrsins, í bandaríska frumvarpinu, nema jafnvirði rúmlega 900 íslenskra króna á hvern íbúa Bandaríkjanna.

Viðbótarútgjöld til eflingar landamæravörslu í fjármálaáætlun íslenskra stjórnvalda nema á móti tæplega 2100 krónum á hvern íbúa Íslands á ári. Með öðrum orðum virðast íslensk stjórnvöld nú ætla að efla landamæravörslu um yfir tvöfalt hærri fjárhæð á hvern íbúa en Trump-stjórnin leggur í hinn umdeilda landamæramúr.

Langtum fleiri foreldrar í námi á Íslandi en öðrum löndum Evrópu

$
0
0

Miklu fleiri námsmenn eiga börn á Íslandi en í nokkru öðru Evrópulandi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýbirtri rannsókn EUROSTUDENT.

Hlutfall fólks sem á börn, meðal háskólanema, í löndum Evrópu.

Þriðjungur íslenskra námsmanna eru þegar foreldrar, samkvæmt rannsókninni, eða 33,4%. Það er yfir þrefalt hærra hlutfall en meðaltal Evrópulanda, þar sem tíundi hver námsmaður sinnir barnauppeldi. Hlutfall foreldra meðal námsfólks er næsthæst í Noregi, um 20%.

Að hluta mun Evrópumet Íslands í þessum flokki skýrast af háum aldri íslenskra námsmanna, en tæplega 60% íslensks námsfólks er yfir 25 ára aldri. Til samanburðar eru aðeins rúm 30% námsfólks yfir þeim aldri í Evrópu í heild. Ísland, Finnland og Svíþjóð skera sig úr í þessum efnum, sem einu Evrópulöndin þar sem meirihluti háskólanema er yfir 25 ára aldri.


Ljósmynd af Háskóla Íslands, cc: Maduarte/Flickr.

Íslenskir námsmenn tefjast öðrum fremur við launavinnu

$
0
0

Fleira íslenskt námsfólk hefur reynslu af vinnumarkaði en kollegar þeirra í öðrum Evrópulöndum. Þetta kemur fram í nýbirtri rannsókn EUROSTUDENT. Líkt og áður kom fram um barneignir íslenskra námsmanna, sker Ísland sig nokkuð úr í þessum samanburði, en það er eina landið þar sem meirihluti námsmanna hefur áður unnið „venjulega vinnu“ í eitt ár eða lengur. Til samanburðar liggur Evrópumeðaltalið rétt yfir 20%.

Hlutfall háskólanema sem áður hafa verið bundið launavinnu.

Hlutfall háskólanema sem áður hafa verið bundið launavinnu.

Íslenskir námsmenn eiga þó ekki Evrópumetið í launavinnu á meðan á námi stendur. Í Eistlandi, Lettlandi, Póllandi og Tékklandi er námsfólk bundið vinnu í 16 til 20 klukkustundir á viku, sem er ívið lengur en á Íslandi, þar sem námsfólk vinnur að jafnaði launavinnu í 15 klukkustundir á viku á námstímanum.

Í Ungverjalandi vinna námsmenn önnur störf í sama mæli og á Íslandi, að jafnaði 15 klukkustundir á viku. Í Slóveníu, Slóvakíu og Litháen ver námsfólk heldur færri stundum í launuð störf á námstímanum, en má þó segja að Ísland sé í þeim efnum samanburðarhæft við flest Austantjaldslöndin.

Í löndum Vestur-Evrópu verja námsmenn aftur á móti að jafnaði töluvert færri stundum í launavinnu á námstímanum en á Íslandi: 5 klukkustundum á viku á Ítalíu, 7 í Danmörku, 11 í Þýskalandi, en hæst 12 í Noregi og Austurríki.


Ljósmynd af HR, cc: Finnur Bjarki Tryggvason/Flickr.

Leitin að Hauki: Óþekkt að lík þýskra sjálfboðaliða hverfi; Aðstoðin sem Merkel hét Katrínu skilar þó enn engu

$
0
0

Í dag, þriðjudaginn 10. apríl 2018, bárust Evu Hauksdóttur svör við fyrirspurn hennar til Utanríkisráðuneytisins frá 13. mars, um þau gögn sem ráðuneytið hefði aflað í eftirgrennslan um afdrif Hauks Hilmarssonar í Sýrlandi. Í svörum ráðuneytisins kemur meðal annars fram að engar upplýsingar hafa borist frá þýskum stofnunum, þrátt fyrir þá aðstoð sem Angela Merkel lofaði víst Katrínu Jakobsdóttur að veita í málinu.

Að neðan verður greint nánar frá þeim upplýsingum sem ekki hafa borist frá Þýskalandi, og þeirri reynslu sem Þjóðverjar hafa þegar af málum sem þessum. Þýskir ríkisborgarar hafa fallið við svipaðar aðstæður og Haukur Hilmarsson – en ólíkt tilfelli Hauks hefur hingað til aldrei, svo vitað sé, verið neitt á huldu um afdrif líkamsleifa þeirra.

Össur um Katrínu og Merkel

Katrín Jakobsdóttir og Angela Merkel í Berlín.

Samskipti íslenskra stjórnvalda við Þýskaland

Þegar Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heimsótti Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, þann 19. mars síðastliðinn, leitaði hún að sögn eftir liðsinni Þjóðverja í upplýsingaöflun um afdrif Hauks Hilmarssonar, sem sagt er að hafi látist í árás Tyrklands á Afrin-hérað í Norður-Sýrlandi. Í íslenskum fjölmiðlum var haft eftir Katrínu að Merkel hefði persónulega lofað henni aðstoð þýskra stofnana við leitina.

Fréttin af andláti Hauks barst 6. mars. Var hann þá sagður hafa fallið 24. febrúar. Enn hefur lík hans ekki fundist, né nokkrar upplýsingar um hvar það er niðurkomið. Þá hafa ekki komið fram bein vitni að andláti hans. Að sögn Evu Hauksdóttur, móður Hauks, lítur út fyrir að það sé vinnuregla innan sveita YPG/YPJ að líta svo á, þegar ekki hefur spurst til liðsmanns í tvær vikur eftir hernaðaraðgerð, að hann hafi fallið. Því virðist enn sem komið er um líkindi að ræða frekar en fullvissu.

Reynsla annarra ríkja af hliðstæðum málum getur augljóslega komið sér vel í upplýsingaöflun í þessu samhengi, enda íslensk yfirvöld reynslulítil þegar kemur að hernaðarátökum.

„… staðfestir að málið sé í skoðun“

Um samskipti íslenskra yfirvalda við þýsk yfirvöld, í þessu máli, kemur eftirfarandi fram í svörum ráðuneytisins til Evu:

19. mars: „Fundur forsætisráðherra og kanslara Þýskalands. Málið tekið upp og þýsk stjórnvöld beðin um aðstoð.“

5. apríl: „Sendiherra Íslands í Þýskalandi fær upplýsingar frá utanríkisráðuneyti Þýskalands um að verið sé að kanna málið en engar upplýsingar liggi fyrir.“

9. apríl: „Sendiherra Þýskalands staðfestir að málið sé í skoðun hjá þýskum stjórnvöldum og að sendiráði Íslands í Berlín verði haldið upplýstu“

Með öðrum orðum: þremur vikum eftir að forsætisráðherra segist hafa beðið um aðstoð Þýskalands hefur það eitt gerst að sendiherra Þýskalands staðfestir að málið sé í skoðun. Ekkert í svari ráðuneytisins bendir til að veruleg eftirgrennslan hafi átt sér stað eftir þessum boðleiðum, eða að íslensk yfirvöld hafi þrýst á um það að ráði.

Fjórir þýskir ríkisborgarar hafa fallið með YPG/YPJ

Að því er best var vitað fyrir um ári síðan höfðu 204 þýskir ríkisborgarar haldið til Sýrlands og Írak frá árinu 2013, til að berjast við hlið YPG/YPJ gegn ISIS. Af þeim höfðu þá 102 snúið aftur til Þýskalands.

Fjórir af þýsku sjálfboðaliðunum hafa, svo vitað sé, fallið í átökum á svæðinu, við hliðstæðar aðstæður og hermt er að Haukur Hilmarsson hafi fallið við. Í engu tilfellanna hefur neitt verið á huldu um afdrif líkamsleifa þeirra. Tilfellin eru eftirtalin:

Ivana Hoffmann.

Ivana Hoffmann.

Ivana Hoffmann

Fyrsti vestræni sjálfboðaliðinn með YPG/YPJ-sveitum Kúrda sem vitað er til að hafi fallið í baráttunni við ISIS í Sýrlandi, var Ivana Hoffmann, frá Duisburg í Þýskalandi, en hún var 19 ára gömul þegar hún lést þann 7. mars 2015. Var það í orrustu í Tal Tamr, í norðvesturhluta landsins. Leið Hoffmann til Sýrlands lá í gegnum hinn tyrknesk-kúrdíska kommúnistaflokk Marx-Lenínista.

Frá útför Ivönu Hoffmann.

Frá útför Ivönu Hoffmann.

Lík Hoffmanns var fært í hendur fjölskyldu hennar á landamærum Sýrlands og Tyrklands þann 12. mars, fimm dögum eftir andlátið. Þaðan var það flutt gegnum Tyrkland til Þýskalands þar sem útför hennar fór fram þann 14. mars. Heimildir herma að allt frá 500 til 6.000 manns hafi fylgt Hoffmann til grafar þann dag. Tímaritið Der Spiegel segir 2.000.

Samkvæmt frétt Spiegel um málið voru á þessum tíma 80 Þjóðverjar taldir staddir á átakasvæðum Sýrlands, sem þátttakendur í alþjóðasveitum Kúrda.

Kevin Joachim.

Kevin Joachim.

Kevin Joachim

Þann 6. júlí sama ár féll annar þýskur sjálfboðaliði í sveitum Kúrda, Kevin Joachim, í átökum nálægt borginni Kobane, við landamæri Sýrlands að Tyrklandi. Þá reyndust tyrknesk yfirvöld hafa breytt stefnu sinni um afhendingu líkamsleifa af svæðinu: mánuði eftir að Joachim féll var lík hans, ásamt líkum tólf tyrkneskra ríkisborgara sem börðust með YPG, enn í kæligeymslu flutningabíls við landamærin að Tyrklandi, sem landamæraverðir sögðust hafa fyrirmæli frá Ankara um að hleypa ekki yfir.

Í umfjöllun vefmiðilsins VICE á þeim tímapunkti kemur fram að utanríkisþjónusta Þýskalands hafi þá staðið í umleitunum gagnvart tyrkneskum yfirvöldum til að leysa málið. Það hefur lánast því þann 22. ágúst, rúmum mánuði eftir að hann féll, var Joachim borinn til grafar í Þýskalandi.

Gunter Helsten / Rustem Cudi.

Gunter Helsten / Rustem Cudi.

Gunter Helsten

Þriðji Þjóðverjinn til að falla, sem sjálfboðaliði með YPG/YPJ-sveitum Kúrda, svo vitað sé, var hinn 55 ára gamli Gunter Helsten, fyrrverandi hermaður í þýska hernum, en hann lést í átökum við ISIS í grennd við bæinn al-Shadadi, í febrúar 2016. Af frásögnum að dæma virðist engum vafa undirorpið undir hvaða kringumstæðum hann lést, en hér segir til dæmis af andláti hans daginn eftir að það bar að garði, í grennd við Al-Shaddadi, í norðausturhluta Sýrlands.

Helsten er grafinn í sýrlenskum grafreit fallinna úr liði Kúrda, sem virðist heita í höfuð hans, kúrdíska nafninu sem hann gekk undir, Rustem Cudi.

Anton Leschek.

Anton Leschek.

Anton Leschek

Fjórði þýski ríkisborgarinn sem féll í baráttu við hlið Kúrda í Sýrlandi, Anton Leschek, þá 24. ára gamall, féll aftur á móti ekki í átökum við ISIS, heldur í óvæntri loftárás Tyrklands, þann 24. nóvember 2016. Frá upphafi umfjöllunar um þann atburð í þýskum fjölmiðlum var vitnað í bein vitni að andláti Lescheks, félaga hans sem voru staddir í sömu aðgerð og hann þegar árásin var gerð. Alls létust tólf í árásinni, þar á meðal var einnig bandaríski sjálfboðaliðinn Michael Israel.

Meðfylgjandi myndband sýnir kveðjustund kúrdískra félaga þeirra, er kistur með líkamsleifum Israels og Lescheks eru fluttar frá Rojava áleiðis til aðstandenda hvors um sig.

Alltaf ljóst um afdrif líkamsleifa

Þetta eru þau fjögur tilfelli sem vitað er um, þar sem þýskir ríkisborgarar látast við hliðstæðar aðstæður og sagt er að Haukur Hilmarsson hafi fallið við. Þó er tilfelli Antons Leschek hliðstæðast, þar sem hann féll, líkt og hermt er um Hauk, í árás tyrkneska flughersins, en ekki í þeirri baráttu við ISIS sem hann hélt til þátttöku í.

Í engu ofantalinna tilfella hefur á neinum tímapunkti verið óljóst hvað varð um líkamsleifar hinna föllnu.

Keppni NATO-ríkja um linku í garð Tyrklands

Ulla Jelpke, þingmaður vinstriflokksins Die Linke, lagði fram fyrirspurn á sambandsþinginu, Bundestag, um viðbrögð þýskra stjórnvalda við þeirri árás tyrkneska flughersins sem varð Anton Leschek að bana. Að því er best fæst séð var þeirri fyrirspurn svarað með tómlæti:

Ríkisstjórn Þýskalands er ekki kunnugt um nákvæmar kringumstæður andláts þýska ríkisborgarans sem hér um ræðir. Þarafleiðandi hefur ekki komið fram tilefni til að taka andlátið til tals við tyrknesk stjórnvöld.

– Úr skjalafni þýska sambandsþingsins, 10. apríl 2017.

Frá því að Þýskaland brást ekki við árásinni sem felldi Anton Leschek hefur ríkisstjórn Angelu Merkel þó fordæmt aðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum í Sýrlandi. Ekkert slíkt hafa íslensk stjórnvöld gert.

Hvort linka íslenskra stjórnvalda eða þýskra gagnvart ráðamönnum í Tyrklandi vegur þyngra í máli Hauks Hilmarssonar er ekki gott að segja að svo stöddu. Eftir stendur að 35 dögum eftir að fréttir bárust fyrst af andláti hans hafa þær ekki fengist staðfestar, og ekkert er vitað með vissu um hvar hann er niðurkominn, lífs eða liðinn.


Texti fréttarinnar hefur verið snyrtur eftir birtingu

„Ef hann var hryðjuverkamaður, af hverju segið þið ekki neitt? Ef hann var ekki hryðjuverkamaður, af hverju segið þið ekki neitt?“

$
0
0

Lárus Páll Birgisson, sjúkraliði, ávarpaði Alþingi frá þingpöllum í gær, þriðjudaginn 10. apríl, í umræðum um fundarstjórn forseta.

Lárus hóf ræðuna á að kynna sig sem vin Hauks Hilmarssonar. Þá spurði hann hvers vegna enginn hafi hjálpað aðstandendum hauks „almennilega til þess að komast til botns í þessu“, en rúmum mánuði eftir að fyrstu fregnir bárust af falli hans í árás Tyrklands hefur hún ekki fengist staðfest. „Bandamenn ykkar eru með svæðið sem hann á að vera á,“ áréttaði Lárus við þingmenn. „Það hefur enginn séð lík hans. Það sá hann enginn falla.“

„Þögn ykkar er ærandi“

Lárus sagði þögn íslenskra stjórnvalda um mál Hauks og aðgerðir Tyrklands í Afrin vera ærandi. Hann sagði bandamenn íslenska ríkisins kalla Hauk hryðjuverkamann, og því svari íslensk stjórnvöld með afstöðuleysi: „Ef hann var hryðjuverkamaður, af hverju segið þið ekki neitt? Ef hann var ekki hryðjuverkamaður, af hverju segið þið ekki neitt?“

Ennfremur ásakaði Lárus stjórnvöld um þögn frammi fyrir voðaverkum bandamanna sinna:

„Af hverju segið þið ekki neitt þegar er verið að drepa fólk af bandamönnum ykkar? Og ekki bara fólk, vin minn, hann Hauk?“

Ræða Lárusar Páls í heild

„Ég heiti Lárus Páll, ég er vinur Hauks Hilmarssonar sem endaði í Sýrlandi. Við erum að leita að vini okkar. Bandamenn ykkar eru með svæðið sem hann á að vera á. Það hefur enginn séð lík hans. Það sá hann enginn falla. Hvar standið þið þegar þið þegið yfir þessu? Þau kalla Hauk hryðjuverkamann. Var hann hryðjuverkamaður? Ef hann var hryðjuverkamaður, af hverju segið þið ekki neitt? Ef hann var ekki hryðjuverkamaður, af hverju segið þið ekki neitt? Af hverju segið þið ekki neitt þegar er verið að drepa fólk af bandamönnum ykkar? Og ekki bara fólk, vin minn, hann Hauk? Af hverju hefur enginn hjálpað okkur almennilega til þess að komast til botns í þessu? Hjálpið okkur í þessu. Það eina sem við þurfum er bréf sem segir að við megum fara á svæðið að leita að honum. Það er það eina sem við erum að biðja ykkur um núna. Það er fólk við landamærin, það bíður fólk eftir að komast inn. En það er verið að bíða eftir svörum frá ykkur. Þetta eru bandamenn ykkar. Þögn ykkar er ærandi.“

„Fólk við landamærin bíður eftir svörum frá ykkur“

Lárus Páll lauk ávarpinu á að setja fram kröfu til ráðamanna um aðstoð í formi skjals, ferðaheimildar til svæðisins í Norður-Sýrlandi þar sem Haukur er sagður hafa fallið og nú er undir tyrkneskum yfirráðum.

„Það eina sem við þurfum er bréf sem segir að við megum fara á svæðið að leita að honum. Það er það eina sem við erum að biðja ykkur um núna. Það er fólk við landamærin, það bíður fólk eftir að komast inn. En það er verið að bíða eftir svörum frá ykkur.“

Lárus Páll hefur um langt árabil verið ötull gagnrýnandi og mótmælandi stríðsrekstrar og beint aðgerðum sínum bæði að íslenskum yfirvöldum og erlendum. Hann er meðal þeirra aðstandenda Hauks Hilmarssonar sem hafa nú í 36 daga leitað svara um afdrif Hauks, eftir að fregnir bárust af því að hann hefði fallið í árásum tyrkneska hersins á Afrin í Sýrlandi. Þær fréttir eru enn óstaðfestar. Hvorki lík Hauks, bein vitni né önnur ummerki um andlátið hafa komið í leitirnar.

Fljótlegra að fara til Afrin en bíða eftir ráðuneytinu

Sama dag fékk Eva Hauksdóttir, móðir Hauks, í hendur þau gögn Utanríkisráðuneytisins sem hún á kröfu til í krafti upplýsingalaga, um framvindu málsins innan stjórnsýslunnar. Í greininni „Upplýsingatregða“ sem hún birti í kjölfarið á vefsvæði sínu, norn.is, segir Eva:

„kaldhæðnislegt að það hefði sennilega verið fljótlegra fyrir nokkra úr hópi fjölskyldu og vina að finna Hauk, lífs eða liðinn, með því að fara til Afrín en að bíða eftir að þetta 30 manna teymi hjá ráðuneytinu fái fullnægjandi svör“

– en utanríkisráðherra sagði í þingræðu þann 22. mars að „30 manns“ hefðu „komið að máli Hauks“.

Í greininni nefnir Eva þá kröfu sem Lárus Páll setti fram á þingpöllum, að „ef stjórnvöld geta ekki fundið Hauk með sínum leiðum, þá greiði þau að minnsta kosti fyrir því að vinir hans komist til Afrín til að leita hans“. Hún segir að það sé vissulega hættuspil og um þessar mundir þyrfti aðstoð stjórnvalda til þess. Hún segir að bestu vinir Hauks, sem hafi „lifað og hrærst í jaðarpólitík“ og séu „betur að sér en flest okkar um vinnubrögð fasista, stríðsglæpi og annan hrylling sem fylgir stríði“ séu hrædd um „að það versta kunni að hafa gerst og treysta því ekki að ráðuneytið geti aflað réttra upplýsinga.“ Eva segist ekki treysta því heldur.

Fyrstu fréttir fullyrtu að Tyrkir hefðu lík Hauks

Lárus Páll var ekki einn á þingpöllum á þriðjudag. Í kjölfar ávarps hans barst fjölmiðlum bréf sem er undirritað af „Vinum Hauks“. Í bréfinu segir að gögnin sem Utanríkisráðuneytið afhenti Evu Hauksdóttur á þriðjudag, fjórum vikum eftir að hún lagði fram beiðni um þau, sýni ekki fram á „að reynt hafi verið að komast til botns í fréttaflutningi af því að lík Hauks sé í höndum Tyrkja“ og í raun sé „sáralítið á þessari afgreiðslu að græða.“

Er hér vísað til fyrstu frétta af andláti Hauks í tyrkneskum fjölmiðlum, þar sem því var haldið fram að lík hans væri í fórum tyrkneskra yfirvalda, sem ynnu þá þegar að því að koma því til fjölskyldu hans á Íslandi. Ekkert hefur komið fram sem styður þessa fullyrðingu, hvorki við eftirgrennslan opinberra stofnana né rannsókn aðstandenda sjálfra.

Tilvísanir ráðuneytis til óljósra „aðila á svæðinu“

Í bréfi vina Hauks til fjölmiðla segir ennfremur að í samantekt ráðuneytisins sé endurtekið vísað í samskipti við „aðila á svæðinu“ en „engar upplýsingar veittar um það hvers konar „aðilar“ það eru, blaðamenn, andspyrnumenn, stuðningsmenn Erdogans, einhver úr stjórnsýslu Tyrkja, persónulegir vinir einhvers hjá Utanríkisráðuneytinu eða einhver annar.“

Bréfinu lýkur á sömu kröfu til stjórnvalda og Lárus Páll setti fram á þingpöllum: að reynist þau ófær um að afla upplýsinga um afdrif Hauks eftir öðrum leiðum, greiði þau fyrir því að „einhver úr okkar hópi komist sjálf til Afrín til að leita hans“.

Bréf frá vinum Hauks til fjölmiðla
Reykjavík. Miðvikudagur 10. apríl.

Fyrir rúmlega mánuði síðan, þann 6. mars bárust fréttir af falli Hauks Hilmarssonar í innrás Tyrklands á sjálfsstjórnarsvæði Rojava í Sýrlandi. Frá því að fréttirnar bárust hafa ástvinir og fjölskylda Hauks leitað upplýsinga með öllum tiltækum ráðum og ítrekað farið þess á leit við stjórnvöld að þau beiti sér af fullri alvöru í að komast að afdrifum Hauks. Svo virðist sem stjórnvöld hafi frá fyrsta degi gengið út frá því að Haukur sé látinn, þrátt fyrir vísbendingar um að fjölskyldan hafi ekki fengið réttar upplýsingar. Þó svo að rétt kunni að vera að Haukur sé látinn er óviðunandi að leit að líki skuli ekki vera tekin alvarlega, einkum í ljósi þess að hætta er á að líkið verði sett í fjöldagröf og aðstandendur fái aldrei staðfestingu á því hvað varð um Hauk.

Í mánuð hafa ástvinir og fjölskylda Hauks beðið um upplýsingar um framgang mála hjá Utanríkisráðuneytinu. Það var svo loksins í morgun að fjölskyldan fékk svar frá ráðuneytinu um framgang málsins en var synjað um aðgang að þeim gögnum sem eiga að sýna fram á að haft hafi verið samband við erlend ríki og alþjóðastofnanir. Vísað er í samskipti við “aðila á svæðinu” en engar upplýsingar veittar um það hverskonar “aðilar” það eru, blaðamenn, andspyrnumenn, stuðningsmenn Erdoğans, einhver úr stjórnsýslu Tyrkja, persónulegir vinir einhvers hjá Utanríkisráðuneytinu eða einhver annar. Gögnin sem ráðuneytið afhendir sýna ekki fram á að reynt hafi verið að komast til botns í fréttaflutningi af því að lík Hauks sé í höndum Tyrkja, og í raun er sáralítið á þessari afgreiðslu að græða. Taldir eru upp fjölmargir aðilar sem haft hefur verið haft samband við en lítið um gögn því til staðfestingar.

Með því að mæta á þingpalla viljum við minna ríkisstjórnina á að við munum ekki linna látunum fyrr en stjórnvöld axla þá ábyrgð að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að upplýst verði um afdrif Hauks, sem íslensks ríkisborgara. Stjórnvöldum ber skylda til þess að rannsaka mannshvörf og voveifleg mannslát og má þá einu gilda hvaða álit stjórnvöld hafa á pólitískum skoðunum þess manns sem saknað er. Ef vangeta stjórnvalda til þess að komast að afdrifum vinar okkar er alger, er það minnsta sem þau geta gert að greiða fyrir því að einhver úr okkar hópi komist sjálf til Afrín til að leita hans.

Vinir Hauks

Reykjavík í 3. sæti á lista 150 borga yfir mesta hækkun fasteignaverðs 2017

$
0
0

Reykjavík var í þriðja sæti þeirra borga heims þar sem fasteignaverð hækkaði mest á síðasta ári, samkvæmt alþjóðlegri fasteignavísitölu Knight Frank, fasteignaráðgjafarfyrirtækis í London.

Úrklippa úr skýrslu Knight Frank um fasteignaverð heims við lok árs 2017.

Úrklippa úr skýrslu Knight Frank um fasteignaverð heims við lok árs 2017.

Hin hraða hækkun einsdæmi á Norðurlöndum

Fyrirtækið tekur árlega saman fasteignaverð í 150 borgum víða um heim. Á síðasta ári, 2017, hækkaði verð í borgunum að meðaltali um 4,5%. Það er nokkuð yfir hagvexti í heiminum, sem mældist um 3,7% sama ár.

Fasteignaverð í Reykjavík hækkaði hins vegar um 16,6%. Borgirnar tvær þar sem verð hækkaði meira voru Berlín, þar sem hækkunin nam 20,5%, og Ízmir í Tyrklandi, þar sem fasteignaverð hækkaði um 18,5%.

Ekki verður mikið vart við önnur Norðurlönd meðal heimsborganna þar sem fasteignaverð rís nú hraðast. Aðeins ein önnur borg á Norðurlöndum er í efstu 20 sætum listans: Malmö í Svíþjóð, í 20. sæti, en þar nam hækkunin milli ára 10,8%. Gautaborg er í 24. sæti með 10,1% hækkun, Kaupmannahöfn er í 54. sæti listans, með 6,3% hækkun og Helsinki í 95. sæti, með 2,7% hækkun, eða undir heimsmeðaltali. Í Osló lækkaði fasteignaverð milli ára.

Ferðaiðnaðurinn eykur arðsemi íbúðarhúsnæðis

Samkvæmt fréttum RÚV óx umfang AirBnB á gistimarkaði í Reykjavík um 100% á sama tímabili. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði hefur sennilega aldrei verið ábatasamari, en samkvæmt frétt RÚV er meðalverð hverrar gistinætur á heimili í Reykjavík 21.600 krónur. Sé íbúð í slíkri leigu hverja nótt nemur það 648.000 krónum í leigutekjur á mánuði. Jafnvel við 70% nýtingu, það er um 20 útleigðar gistinætur á mánuði, nema leigutekjur hvers mánaðar vel yfir 400.000 krónum.

Eva óskar þjóðhöfðingja verðskuldaðra martraða

$
0
0

Eva Hauksdóttir sendi í dag, miðvikudag, ræðismanni Tyrklands á Íslandi skeyti sem ætlað er forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdoğan, og hefst á orðunum:

„Hi Shithead Erdoğan!“

Skeytið hefst á þeim orðum að herafli Erdoğans virðist hafa orðið syni hennar að bana. Hún segist aftur á móti hata forsetann, ekki aðeins af þeim sökum, heldur og vegna þjóðarmorðs Kúrda sem hann fremji og almennrar grimmdar hans.

Viðurstyggilegur fasisti

„Þú ert einn viðurstyggilegasti fasisti okkar tíma,“ skrifar Eva forsetanum. Hún sjái aftur á móti ekki hvernig hæfileg refsing yfir honum gæti rúmast innan viðmiða mannréttinda. Hún voni því að samviska hans refsi honum, og hann megi lifa við draumfarir um að blóðhundar hans snúist gegn honum, skeri úr honum tunguna, aflimi hann og stingi úr honum hægra augað. Hún segist munu gera það sem í hennar valdi stendur til að senda honum slíka drauma.

„Megirðu þjást af sektarkennd og eftirsjá“

Eva kveður Erdoğan með orðunum: „Þú munt heyra frá mér aftur. Megirðu þangað til þjást hvern dag og hverja nótt af verðskuldaðri sektarkennd og eftirsjá.“

Í bloggfærslu á vef sínum, norn.is, setur Eva orðsendinguna í samhengi við fréttir af syni hennar, sem talið er að hafi látist í loftárásum tyrkneska hersins á sjálfsstjórnarsvæði Kúrda í Sýrlandi. Um leið segir hún aftur á móti að þar með vilji hún láta reyna á þau lög sem enn gera refsivert á Íslandi að móðga erlenda þjóðhöfðingja:

„Ekki bara svona upp á grínið heldur af því að mér finnst full ástæða til þess að móðga tiltekna þjóðhöfðingja. Í augnablikinu er það níðingurinn Erdoğan sem mér finnst liggja mest á að smána og auðvitað spilar það inn í að ég get ekki reiknað með að sjá son minn aftur.“

95. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940

Stundin hefur greint frá því að Utanríkisráðuneytið leggst gegn frumvarpi Steinunnar Þóru Árnadóttur og þriggja annarra þingmanna VG, um að lagagreinin sem um ræðir verði afnumin. Umsögn Utanríkisráðuneytisins var samin af Sturlu Sigurjónssyni, ráðuneytisstjóra, sem áður hefur komið við sögu í umfjöllun Kvennablaðsins um málefni ráðuneytisins.

Skeyti Evu

Á Íslandi er refsivert að mógða erlenda þjóðhöfðingja. Sú ágæta þingkona Steinunn Þóra (ein af þeim fáu sem hefur tekið raunverulega afstöðu með kúguðum og hrjáðum) hefur beitt sér fyrir því að þessi miðaldastemning verði afnumin úr íslenskum lögum en uppáhaldsráðuneytið mitt leggst gegn því. Það þarf að vernda fínimenn – valdníðinga jafnt sem þá virðingarverðu – frá skoðunum almennra borgara á þeim.

Ég er tilbúin til þess að láta reyna á þessi lög. Ekki bara svona upp á grínið heldur af því að mér finnst full ástæða til þess að móðga tiltekna þjóðhöfðingja. Í augnablikinu er það níðingurinn Erdoğan sem mér finnst liggja mest á að smána og auðvitað spilar það inn í að ég get ekki reiknað með að sjá son minn aftur. Ég er að vísu stödd utan íslenskrar lögsögu í augnablikinu en ef kemur að því að við sjáum ástæðu til að halda minningarathöfn getur hinn viðurstyggilegi þjóðhöfðingi Tyrkja haft samband við yfirvaldið og látið reyna á móðgunarrétt sinn gegn málfrelsi mínu.

Ég sendi þetta kort hér að ofan á ræðismann Tyrklands á Íslandi núna áðan með eftirfarandi texta:

Æruverðugi ræðismaður Tyrklands á Íslandi

Getur þú komið til skila þessari hugvekju minni til þjóðarleiðtogans og fasistaforingjans Erdoğans? Ég mun einnig birta hana á vefsvæði mínu http://www.norn.is en tel öruggast að koma henni í þínar hendur svo hún fari áreiðanlega ekki fram hjá honum.

Með kveðju
Eva Hauksdóttir


Ljósmynd: Heiða Halls

Söfnun hefst til styrktar þeim sem urðu fyrir tjóni í stórbrunanum í Miðhrauni

$
0
0
Geymslur, bruni, rústir

Húsnæði Geymslna í Miðhrauni, eftir brunann. Ljósmynd frá fyrirtækinu sjálfu.

Kristjana Björg Sveinsdóttir og Rannveig Tenchi hafa hafið fjársöfnun til styrktar þeim sem áttu muni í geymslu í Miðhrauni í Garðabæ, þar sem stórbruni varð í liðinni viku.

Yfir 300 geymslur brunnu til kaldra kola, segir í tilkynningu um söfnina, „og ekki fást nema 15% bætt af hverju tjóni“. Sumir fái jafnvel engar bætur.

Tekið verður við smáum sem stórum framlögum í söfnuninni á reikninginn:

0101-05-010074,
kt: 201075-2979.

Aðstandendur söfnunarinnar hvetja almenning til að deila tilkynningunni sem víðast. Tilkynningin fylgir, í heilu lagi, hér að neðan:

Tilkynning um söfnun
Í ljósi þess gríðarlega tjóns sem fjölmargar fjölskyldur og einstaklingar urðu fyrir vegna eldsvoðans í Miðhrauni í Garðabænum í síðustu viku, höfum við ákveðið að setja í gang fjársöfnun til að styrkja þá, sem áttu eigur sínar í geymslunum hjá Geymslur.is. Mörg þeirra standa nú uppi algerlega allslaus og eru aftur komin á byrjunarreit við að búa sínum fjölskyldum íbúðarhæf heimili.

Það er ljóst að yfir 300 geymslur brunnu til kaldra kola og ekki fást nema 15% bætt af hverju tjóni. Sumir fá jafnvel engar bætur en öruggt er að mjög margir hafa orðið fyrir verulegum fjárhagslegum skaða.

Ákveðið tjón verður þó aldrei hægt að bæta en það er tilfinningalegs eðlis, ljósmyndir, erfðagripir, verk barnanna, listaverk, hljóðfæri, ýmis söfn o.s.frv.

Við Íslendingar erum rúmlega 300 þúsund og ættum öll að geta lagt hönd á plóginn og aðstoðað þessar fjölskyldur við að koma undir sig fótunum á ný. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi!

Þrátt fyrir að allir séu vitaskuld þakklátir að engan sakaði í brunanum og að einungis um veraldlega hluti hafi verið að ræða, er það engu að síður svo að aldrei verður hægt að bæta fyrir minningar og tilfinningar tengdum þeim hlutum sem við höfum í kringum okkur á heimilum okkar og í nánasta umhverfi. Við vitum öll hversu dýrt það er að lifa og búa á Íslandi og svona fjárhagslegt skipbrot getur haft mjög mikla erfiðleika í för með sér.

Flest okkar hafa tengsl á einn eða annan hátt þegar svona áföll verða. Við eigum vini og/eða fjölskyldur sem misstu allar sínar búslóðir eða eigur sínar og önnur okkar hefur einnig reynslu af því að hafa farið í gegnum missi vegna bruna. Hugur okkar er því hjá fólkinu sem varð fyrir þessu áfalli og við vonum því innilega að allir sem vettlingi geta valdið séu tilbúnir að sýna samkennd sína í verki með þessum fjölskyldum og einstaklingum og hvetjum alla til þess að leggja sitt af mörkum við að bæta há fjárhagsleg tjón sem ekki fást bætt útúr tryggingunum.

Söfnunin verður í gangi til 10. maí næstkomandi og um helgina verður opnaður Facebook hópur fyrir velunnara hennar þar sem hægt verður að fylgjast með framgangi hennar. Við munum tilkynna vikulega hvernig söfnuninni framvindur inni í þessum hóp þar til styrkirnir verða greiddir út til þeirra fjölskyldna og einstaklinga sem misstu sínar eigur í brunanum. Höfum við nú þegar leitað til forsvarsmanna „Geymslur.is” til þess að fá nauðsynleg gögn yfir þessa aðila svo við getum skipt upphæðinni á milli þeirra á sanngjarnan hátt.

Við vonumst auðvitað innilega til þess að allir leggist á eitt og styrki málefnið!

Við biðjum ykkur nú kæru vinir um að deila þessum pósti áfram og hvetja alla í kringum ykkur til þess að leggja lóð sín á vogarskálarnar og millifæra á þennan söfnunarreikning í Landsbanka Íslands. Öll upphæðin sem safnast saman mun renna óskipt til þeirra sem urðu fyrir þessu áfalli.

Upphæðirnar mega vera allt frá 1000 kr.- og upp úr því margt smátt gerir eitt stórt!!!

Vinsamlegast leggið inn á þennan reikning 0101-05-010074 kt: 201075-2979

MUNA AÐ DEILA ÁFRAM TAKK, TAKK og aftur TAKK ❤

Kristjana Björg Sveinsdóttir & Rannveig Tenchi

Samtök ríkja gegn spillingu lýsa áhyggjum af íslensku lögreglunni

$
0
0

Vefsíða GRECO, samtaka ríkja gegn spillinu, skjáskot 12. apríl 2018.

Opni lesandi vefsíðu Samtaka ríkja gegn spillingu, GRECO, í dag, fimmtudaginn 12. apríl 2018, blasir við þeim íslenski fáninn, við fyrirsögnina: „Ísland þarf virkari viðbúnað til að verja heilindi stjórnvalda og lögreglu“.

Tilefnið er skýrsla GRECO sem kom út í dag, og greint hefur verið frá í fréttum, um stöðuna í átökum Íslands við spillingu innan hins opinbera. Skýrslan er ítarleg, og skiptist í 200 liði á 45 blaðsíðum. Kalla samtökin þar eftir öflugri og samræmdari reglum um rétta breytni embættismanna, „til dæmis hvað varðar gjafir og önnur gæði, ásamt samskiptum við þá þriðju aðila sem reyna að hafa áhrif á starfsemi stjórnvalda, að meðtöldum lobbíistum,“ eins og það er tekið saman í fréttatilkynningu samtakanna.

„Frekari aðgerða er einnig þörf varðandi hringhurðir og önnur störf þeirra sem gegna opinberum stöðum“ – revolving doors and parallel activities á ensku. Hugtakið hringhurð er notað yfir opnar gáttir fólk sem starfar til skiptis fyrir hið opinbera og einkaaðila sem geta átt hagsmuna að gæta í opinberum ákvörðunum.

Hagsmunaskráning gloppótt

Segir í samantektinni að hingað til hafi Forsætisráðuneytið fyrst og fremst unnið gegn spillingu með því að auka meðvitund um viðfangsefnið og með ráðgjöf, en „skýr þörf“ sé a á aflmeiri nálgun og „trúverðugum leiðum til að knýja fram“ niðurstöðu í spillingarmálum. GRECO mælir með að stjórnvöld nálgist viðfangsefnið með nálgun sem nái til æðstu stjórnenda á öllum sviðum hins opinbera í senn, einkum í sambandi við hagsmunaárekstra, og bendir í því samhengi sérstaklega á að styrkja þurfi kerfi hagsmunaskráningar, meðal annars með þá hættu í huga að hlutaðeigandi skrái eignir undir nafni annars, til dæmis maka.

Samtökin nefna það sem jákvæða afleiðingu af vaxandi óþoli Íslendinga fyrir misferli í embætti að nú leiði slíkt framferði „stundum“ til afsagna, sem áður var óþekkt. Hins vegar megi það ekki vera eina viðbragðið við alvarlegu misferli.

Ráðningarfyrirkomulag í lögreglu skapar hættu á pólitískum þrýstingi

Þá beina samtökin sjónum sérstaklega að löggæslu í landinu. Í fréttatilkynningu minnast þau á að Lögreglan og Landhelgisgæslan séu meðal þeirra stofnana sem Íslendingar treysti best, en að því sögðu þurfi að endurskoða skipulag lögreglunnar.

Nú heyri allir stjórnendur hennar beint undir vald ráðherra. Útbreitt sé það fyrirkomulag að ráða fólk með 5 ára samningum, sem skapi viðbótarhættu á pólitískum þrýstingi, „einkum á þá sem fara með ábyrgð stjórnenda“. Þá ætti að jafnaði að ráða í stöður í opnum samkeppnisferlum út frá hlutlægum viðmiðum.

Í 140. lið skýrslunnar sjálfrar kemur ennfremur fram að rannsóknarnefnd samtakanna hafi verið upplýst um að lögreglan eigi sér langa hefð fyrir tengslum við tiltekinn stjórnmálaflokk og að flokksaðild og pólitísk sjónarmið geti stundum haft áhrif á störf hennar. Má ætla að þar sé átt við Sjálfstæðisflokkinn.

Samtökin mæla með að stjórnvöld komi á laggirnar miðlægum stofnunum sem fáist við innra eftirlit og rannsóknir hugsanlegum brotum í starfi lögreglunnar. Þau nefna líka að þörf sé á frekari breytingum til takast á við ummerki um „þagnarsáttmála“ innan lögreglunnar og nefna til dæmis að þörf sé að fullnægjandi vernd fyrir þá sem láta vita af grun um misferli.

Meðal annarra tiltekinna ábendinga er að konur séu fáar í liðsafla lögreglunnar, ef frá eru taldar æðstu stjórnunarstöður.

Engin heildstæð stefnumótun gegn spillingu innan lögreglunnar

Í skýrslunni sjálfri koma fram áhyggjur af undirmönnun lögreglunnar og lágum launum, sem geti haft áhrif, til að mynda með því að vinnuálag á einstaka lögreglumenn geri þeim erfitt að fylgja þeirri vinnureglu sem lögreglan hefur þó lýst yfir vilja til að miða við, að „betur sjá augu en auga“ (Multiple eyes principle) – sem virðist snúast um að embættismenn standi ekki einir frammi fyrir vafaatriðum. Eru yfirvöld í skýrslunni hvött til að tryggja lögreglunni næg úrræði til að sinna störfum sínum af skilvirkni, ekki síst til að innleiða í reynd stefnumótun um heilindi í starfi (liður 121).

Í skýrslunni kemur fram að sem stendur hafi engin stefna verið mótuð innan lögreglunnar sérstaklega til að vinna gegn spillingu: „there is no dedicated corruption prevention policy within law enforcement“ (liður 134).

Þau úrræði sem eru til staðar og er ætlað að koma í veg fyrir spillingu og stuðla að heilindum innan löggæslunnar komi úr „ýmsum lögum“ um stjórnsýsluna, að meðtöldum lögreglulögum og refsilöggjöfinni. Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að móta stefnu um heilindi og siðferði innan lögreglunnar og til varnar gegn spillingu innan hennar – og segist vonast til að sú vinna verði forgangsatriði.

Siðareglur lögreglunnar of almennar og óskýrar

Í 139. lið skýrslunnar segjast samtökin fagna sérstökum siðareglum fyrir starfsfólk innan löggæslu en að því sögðu geti verið erfitt fyrir lögregluþjón að þýða hinar almennu siðareglur yfir í daglega breytni. Til dæmis sé í lögreglueiðnum vísað til mútuþægni og spillingar, en engar skýrar skilgreiningar, viðmið eða dæmi fylgi um hvað felist í þessum hugtökum. Minnst sé á hagsmunaárekstra, en hvað þar er í húfi eða hvað gera skal í tilteknum aðstæðum sé ekki alltaf skýrt. Þá sé í siðareglunum ekki minnst á mögulega hagsmunaárekstra við ráðningar, til dæmis.

Þörf á óháðum aðilum til leiðbeiningar og viðbragðs

Síðast en ekki síst, segir í þeim hluta skýrslunnar sem snýr að störfum lögreglu, séu engin skýr úrræði til staðar sem knýi á um viðbragð við brotum á siðareglum lögreglunnar. Rannsóknarnefndinni hafi verið tjáð að í sumum tilfellum sé slíkum málum vísað til Ríkislögreglustjóra, en ekkert bendi til að í þeim ferlum sé kveðið á um sérstakar aðgerðir, sérstakar deildir séu sérhæfðar í viðbragði við slíkum málum eða um þau gildi tilteknar reglugerðir.

Segir að samtökin hafi bent á þörfina á úrræðum til að knýja á um að reglum um starfshætti sé fylgt, og til að knýja fram viðbragð við brotum á þeim, frá árinu 2001. Samkvæmt viðmælendum rannsóknarnefndarinnar sé hefðbundið ferli enn, þegar starfslið lögreglunnar stendur frammi fyrir vafamálum, að það leiti til næsta yfirmanns eða náinna samstarfsmanna:

„Ísland þarf að koma á laggirnar sérhæfðri stofnun eða starfsliði sem ekki er í daglegu sambandi við starfslið lögreglunnar, til að veita einstökum lögregluþjónum utanaðkomandi, hlutlaus ráð í trúnaði, um mál sem varða heilindi í starfi.“

– Úr lið 141.

Ísland og GRECO

Aðildarríki GRECO eru 49 – öll ríki Evrópuráðsins, ásamt Bandaríkjunum.

Ísland hefur verið aðili að GRECO frá stofnun, árið 1999, og er þetta í fimmta sinn sem samtökin gefa út mat á stöðu spillingar á landinu. Fyrri skýrslurnar komu út 2001, 2004, 2008 og 2013. Í þetta sinn dvaldi matsnefnd stofnunarinnar á Íslandi í október árið 2017, og átti fundi með dómsmálaráðherra, ráðuneytisstjóra Dómsmálaráðuneytisins, ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra, lögreglustjóra Höfuðborgarsvæðisins, yfirmanni Landhelgisgæslunnar, tollstjóra, umboðsmanni Alþingis, Persónuvernd og fleirum.

Viewing all 8283 articles
Browse latest View live