Sigríður Á. Andersen greiddi fyrr í þessum mánuði, ásamt dómsmálaráðherrum annarra aðildarríkja Evrópuráðsins, atkvæði með yfirlýsingu sem að mati sérfræðinga „eykur vald ríkisstjórna á kostnað Mannréttindadómstóls Evrópu — án þess að reyna einu sinni að skýra hvernig breytingarnar ættu að auka virðingu fyrir mannréttindum“. Hefur yfirlýsingin vakið sérstakar áhyggjur af réttarvernd flóttafólks og innflytjenda í álfunni.
![Dómsmálaráðherrar aðildarríkja Evrópuráðsins, við samþykkt Kaupmannahafnaryfirlýsingarinnar.]()
Dómsmálaráðherrar aðildarríkja Evrópuráðsins, við samþykkt Kaupmannahafnaryfirlýsingarinnar.
Mannréttindadómstóllinn þvælist fyrir ríkisstjórnum
Í vikunni birtist frétt á DV.is undir fyrirsögninni „Sigríður samþykkti Kaupmannahafnaryfirlýsinguna“. Þar kemur fram að á ráðherrafundi Evrópuráðsins hafi dómsmálaráðherrar aðildarríkja ráðsins samþykkt „yfirlýsingu um afstöðu þeirra til Mannréttindasáttmála Evrópu og stöðu Mannréttindadómstóls Evrópu“.
Texti yfirlýsingarinnar er aðgengilegur á netinu —svo að segja. Yfirlýsingin er samsett úr löngu, lagalegu rósamáli, og ritskýringar þörf fyrir leikmenn.
Fréttatilkynning íslenska dómsmálaráðuneytisins um yfirlýsinguna gefur ásetninginn að baki henni að nokkru leyti til kynna, en þar segir að Danir hafi lagt fram tillögu sem fólst í að dómstóllinn skyldi „minnka málafjöldann“ og „ekki setja ný lög með framsækinni túlkun heldur dæma eftir gildandi réttarástandi og eftirláta aðildarríkjunum aukið svigrúm til túlkunar á efnisreglum Mannréttindasáttmálans.“
Er þetta sjónarmið rökstutt í tilkynningu ráðuneytisins með því að Mannréttindadómstóllinn hafi „gert stjórnvöldum margra ríkja Evrópu erfitt fyrir að grípa til ráðstafana sem þau hafa talið réttlætanleg til að halda uppi allsherjarreglu, t.d. að vísa erlendum afbrotamönnum, talsmönnum hryðjuverka og hatursorðræðu til síns heima.“
Í tilkynningunni er nefnt að gagnrýni hafi komið fram á drög að tilkynningunni og hún í kjölfarið tekið breytingum. Gagnrýnin er ekki tíunduð frekar en sagt að Ísland hafi setið hjá þegar greidd voru atkvæði um breytingatillögurnar.
Rósamál yfir pólitískan vilja til mismununar og mannréttindabrota
Gagnrýnin sem fram kom á yfirlýsinguna áður en hún var samþykkt var meðal annars reifuð á vef EJIL, European Journal of International Law. Þar skrifa Andreas Follesdal, prófesor í heimspeki og Geir Ulfstein, prófessor í alþjóðalögum, um hvernig óljósu orðalagi sé beitt í drögunum til að dylja þann ásetning að baki yfirlýsingunni að takmarka umdæmi dómstólsins og „valdefla“ ríkin gegn honum. Í drögum að yfirlýsingunni sé þannig kallað eftir „dreifðri ábyrgð“, „betra jafnvægi“, og „umburðarlyndi“ í garð ríkja (margin of appreciation). Í öllum tilfellum sé markmiðið að ríkjum verði meira í sjálfsvald sett hvernig þau túlka ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu innan landamæra sinna.
Höfundar greinarinnar vara við því að kallað sé eftir auknu umburðarlyndi eða svigrúmi til túlkunar ríkjar á mannréttindum, án fyrirvara um þau ákvæði mannréttindasáttmálans þar sem slíkt svigrúm á alls við. Hættulegt væri til dæmis að veita ríkjum verulegt svigrúm til eigin túlkunar á banni við pyntingum eða nauðungarvinnu.
Yfirlýsingunni er beint gegn flóttafólki
Þeir gjalda sérstakan varhug við ákvæði í 14. efnisgrein yfirlýsingarinnar, um að Mannréttindadómstóllinn skuli eftirláta ríkjum Evrópu að verja mannréttindi „í samræmi við stjórnskipulegar hefðir og í ljósi þjóðbundinna aðstæðna“. Að gefa hefðum svo mikið vægi á kostnað mannréttinda feli í sér hættu fyrir þá minnihlutahópa sem réttindaskránni er ætlað að verja, einmitt gegn hefðbundinni, sögulegri kúgun og aðstæðum.
Þá er sérstaklega tilgreint í drögum að yfirlýsingunni að dómstóllinn skuli halda að sér höndum og „forðast afskipti nema við allra sérstæðustu kringumstæður“ í málum sem varða hælisumsóknir og innflytjendur. „Þessi áhersla á hælisleitendur endurspeglar ríkjandi pólitískar sviptingar í nokkrum Evrópuríkjum, þar á meðal Danmörku,“ skrifa greinarhöfundar.
„Hins vegar er hér einmitt um að ræða þess háttar forgangsröðun meirihlutans gegn minnihlutahópum sem getur þarfnast sérstakra varna gegn illvilja eða fáfræði. Að ríki skuli kalla eftir minna aðhaldi af þeirri einni ástæðu að þau vilja það vekur verulegar áhyggjur í ljósi sögulegs bakgrunns mannréttindakerfis Evrópu.“
Sá sögulegi bakgrunnur sem höfundarnir vísa hér til er vitaskuld, öðru fremur, helförin, ofsóknir og útrýmingarherferð nasista gegn gyðingum í Evrópu en einnig gegn Roma-fólki, samkynhneigðum, kommúnistum og öðrum minnihlutahópum.
Follesdal og Ulfstein ljúka grein sinni á að segja drögin að yfirlýsingunni leiða hjá sér og jafnvel hvetja áfram „popúlísk öfl sem misnota valdastöðu sína til að grafa undan réttarríkinu innan sinna heimalanda og setja takmarkanir á réttindi minnihlutahópa.“ Þá vekja þeir sérstaka athygli á „að drögin draga út einn viðkvæman hóp, innflytjendur, og krefjast þess að meðferð ríkja á þeim skuli sæta minna aðhalds frá dómstólnum.“
![]()
Þorgeir Þorgeirson, rithöfundur.
Það er Mannréttindadómstólnum að þakka að þú mátt segja að ráðherra sé fífl
Hægrimenn á Íslandi eins og annars staðar hafa lengi haft horn í síðu Mannréttindadómstólsins fyrir að taka endurtekið, á grundvelli Mannréttindasáttmála Evrópu, undir málstað þeirra einstaklinga sem ríkin reynast hafa brotið á. Á Íslandi má nefna fjölmörg mál sem blaðamenn hafa höfðað og unnið fyrir dómstólnum, í þágu tjáningarfrelsis, eftir að hafa tapað meiðyrðamáli fyrir Hæstarétti.
Mál Þorgeirs Þorgeirsonar rithöfundar fyrir dómstólnum varð til þess að íslenskum meiðyrðalögum sem áður bönnuðu gagnrýni á stjórnvöld var breytt. 108. grein hegningarlaga var svohljóðandi:
„Hver, sem hefur í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum við opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu, eða við hann eða um hann út af því, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 3 árum. Aðdróttun, þótt sönnuð sé, varðar sektum, ef hún er borin fram á ótilhlýðilegan hátt.“
Eftir að Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að greinin fæli í sér mannréttindabrot var hún felld úr gildi —árið 1995. Síðan þá hefur mátt hafa í frammi skammaryrði og móðganir í garð íslenskra embættismanna.
![Bjarni Benediktsson á ráðherrafundi NATO-ríkja í Reykjavík, 1968.]()
Bjarni Benediktsson á ráðherrafundi NATO-ríkja í Reykjavík, 1968.
Þjóðveldisdraumar dómsmálaráðherranna
Árið 2003 flutti Björn Bjarnason, þá dómsmálaráðherra fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, ræðu í tilefni af 50 ára afmæli Mannréttindasáttmálans. Þar vitnaði hann meðal annars til föður síns og forvera í embætti:
„Bjarni Benediktsson, þáverandi dómsmálaráðherra, lét þau orð falla í þingumræðum um fullgildinguna haustið 1951, að réttindin í sáttmálanum væru í öllu því sem nokkru máli skipti þá þegar veitt borgurunum berum orðum í íslenskri löggjöf og að nokkru leyti í stjórnarskránni. Þessi ummæli sýna ótvírætt, að ekki var talið, að með sáttmálanum væri verið að veita Íslendingum ný réttindi heldur staðfesta með alþjóðasamningi þau, sem þeir þegar nutu.
Var þannig frá upphafi talið, að íslensk löggjöf samræmdist í hvívetna ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu. Fullgilding hans leiddi til þjóðréttarlegrar skuldbindingar á réttindum, sem þegar voru talin vera fyrir hendi. Er þessi skoðun í samræmi við almennt viðhorf Íslendinga á 19. og 20. öld. Þeir töldu lýðréttindin, sem þá voru að ryðja sér rúms, í raun sama eðlis og réttur Íslendinga á þjóðveldisöld til að leysa mál í krafti laga og réttar með virðingu fyrir einstaklingnum og án framkvæmdavalds, sem deildi og drottnaði.“
Í krafti þess að íslensk stjórnvöld hafi ekki talið, á sínum tíma, að mannréttindi fælu í sér nokkra réttarbót fyrir almenning, heldur aðeins endurtekningu á grundvallaratriðum sem hefði mátt finna í íslenskum lögum um aldir, tjáði Björn í ræðunni efasemdir um hlutverk Mannréttindadómstólsins og þá réttindavörn hans sem stundum hefur gengið gegn vilja stjórnvalda hvers þjóðríkis. Björn sagði:
„Hinu má velta fyrir sér, hvort um of sé þrengt að svigrúmi þjóðríkisins með lögskýringum á alþjóðasamningum … Það er síður en svo í anda Evrópuráðsins að þrengja að þjóðríkinu eða valdi réttkjörinna stjórnvalda þar til að taka ákvarðanir um innri málefni sín.“
Rétturinn til að kalla fasista fasista
Fjöldi sérfræðinga í alþjóðalögum og á sviði mannréttinda lýsti yfir þungum áhyggjum af Kaupmannahafnaryfirlýsingunni á meðan hún var í vinnslu —að hún færi of nærri ofangreindum skilningi Björns Bjarnasonar á hlutverki þeirra stofnana sem ætlað er að standa vörð um mannréttindi, að Mannréttindadómstóllinn yrði gerður hættulega leiðitamur þjóðríkjunum.
Breytingar voru gerðar á yfirlýsingunni til að mæta þessari gagnrýni fyrir samþykkt hennar. Þar virðist til dæmis ekki lengur að finna ofangreindar klausur um að dómstóllinn skuli draga úr réttindavörn flóttafólks sérstaklega. Ekkert svo opinskátt. Eftir stendur ólæsileg rósablaðahrúga.
Eftir sem áður birtir yfirlýsingin, og ferlið að baki henni, skýran vilja til að taka skref frá þeirri almennu hugmynd um mannréttindi sem almenningur hefur notið góðs af síðustu áratugi í átt að óskertara, duttlungakenndara valdi þjóðríkja. Það er hættuleg þróun. Og hana verður of seint að stöðva þegar 108. greinin hefur verið endurvakin og bannað á ný að nefna að ráðherra sé, eftir því sem við á, illviljað fífl eða fasisti.