Ég er svo heppin að búa í litlu samfélagi úti á landi, nánar tiltekið á Egilsstöðum. Við hjónin byggðum okkur hús í skógarjaðrinum og þar í skjóli alast piltarnir okkar tveir upp. Það er ekki ofsögum sagt að ég gleðst á haustin þegar byrjar að kólna og það hægir á drengjunum því þrír mánuðir ársins fara í að hlaupa á eftir þeim inn í skóg eða yfir í tjörn. Við foreldrarnir erum búnir að vera með lífið í lúkunum í sjö ár, en umhverfið er þess eðlis að hætturnar eru ekki miklar, svona miðað við stórborgir alla vega.
En það kom að því að farið var með piltana í höfuðborgina í apríl síðastliðnum. Til stóð að fara í fermingarveislu hjá frænku þeirra og foreldrarnir stefndu á árshátíð. Flug, bíll og hótel. Þetta yrði draumur einn. Eða þannig.
Eftir eltingarleik á flugvellinum var drengjunum mokað í flugvélina og ólaðir niður. Stálrörið nötraði alla leiðina og ég sat með samanherptar varir og neglurnar á kafi í sætinu fyrir framan mig á meðan drengirnir skemmtu sér yfir ærslaganginum. Þegar loksins var lent í Reykjavík og búið að klippa mig frá sætinu, hófst eltingarleikur við piltana í flugstöð númer tvö. Þetta getur aldrei verið kyrrt. Fyrsti dagurinn var svo sem skikkanlegur, enginn týndist, enginn grenjaði átakanlega mikið og slagsmál voru í lágmarki.
Dagur tvö var ekki eins hressandi. Piltarnir voru drifnir í dögurð á Hilton og mokað í þá alls konar góðgæti sem var á boðstólum. Eftir eina niðurhellingu, smá slagsmál út af litabók og káf á sætabrauðshlaðborðinu sagði sá eldri stundarhátt:
„Mamma, ertu að drekka BJÓR í morgunverð?“
Um það bil 30 höfuð sneru sér að okkur og litu rannsakandi á mig þar sem ég var við það að bera eplasafann að vörum mér. Þá segir sá yngri í varnartón:
„Hún má ALVEG DREKKA BJÓR Í MORGUNMAT EF HÚN VILL.“
Þegar þarna var komið sögu ákváðum við að snara þeim út í menningarrúnt. Fyrsta stopp, Harpan. Það gekk ágætlega, sá yngri datt í rúllustiganum og sá eldri lét sig hverfa. Þegar hann fannst var farið að óskum þeirra og efsta hæðin heimsótt. Eftir smá rölt þar tek ég eftir því að sá eldri stefnir á lyfturnar en hann er sérlegur áhugamaður um svoleiðis undur. Ég kippist við og byrja að hlaupa. Þar sem ég er í óskilgreindum kílóafjölda, eða þyngdarflokkun 75 kíló plús, þá var þetta ekki fögur sjón. Þetta gerðist í svona slow motion, ég er rétt að ná í lyftuna þegar hún byrjar að lokast og með skítaglott á vörum vinkar pilturinn mér hress. BAMM. Upphefst stigahlaup og kapp við að góma drenginn á hinum ýmsu hæðum og eftir korter eru drengirnir dregnir út úr aðalmenningarhúsi landans með það eina í farteskinu hvað lyfturnar eru frábærar.
Næsta stopp, Kolaportið. Tíu mínútur, þar af var sá eldri týndur í níu og sá yngri borinn út. Hressandi.
Einni Hagkaupsferð seinna þar sem sá yngri sópaði niður heilum rekka af blúndunærbuxum í hábleikum lit og smá grenjukast tekið vegna sælgætiskaupa var farið á hótelið í fataskipti fyrir ferminguna.
Eftir að drengirnir höfðu rennbleytt baðherbergið og ég brennt mig tvisvar á straujárninu, stóðum við uppábúin, ég, maðurinn minn og sá yngri meðan sá eldri breikdansaði af miklum móð á brókinni af brjálæði því hann ætlaði ekki í sparifötin. Sveitt klæddum við hann með valdi og drógum út í bíl. Bara hálftíma of sein en það telst nú bara nokkuð gott í lífi okkar undanfarin sjö ár.
Í ferminguna komumst við og við tóku faðmlög og kossar og gleði. Í fimm mínútur. Það var nefnilega sá tími sem tók þann eldri að láta þann yngri pissa á sig af hlátri með samblöndu af kúk- og pissbröndurum og kitli. Sem betur fer voru aukabuxur í bílnum svo hann skartaði hárauðum pollapönksbuxum við skyrtuna. Yngri pilturinn var ekki sáttur við þessa niðurlægingu sem átti sér stað í barnahorni samkomunnar og þegar bróðir hans sá ekki til tók hann stígvélin hans (já, sveitamenn fara í stígvélum í veislur) og henti þeim í sjóinn fyrir utan Siglingaklúbb Kópavogs. Fjöldi gesta fylgdist með út um gluggana þar sem drengurinn, sótrauður af reiði á sokkunum, reyndi að veiða fótabúnaðinn upp með priki meðan hinn skondraðist íbygginn inn, ánægður með hefndirnar.
„Eru þetta drengirnir þínir, Ingunn mín?“
„HA … já neee … ég hef ALDREI séð þessi börn áður!“
Nú var tekið til við át og skvaldur og drengirnir upp á sitt besta í barnahorninu að lita. Við foreldrarnir önduðum léttar og brostum bæði út að eyrum þegar þeir bræður komu saman í salinn og tilkynntu að þeir hefðu teiknað mynd handa frænda sínum, bróður fermingarbarnsins. Þögn slær á salinn þar sem þeir nálgast frændann og afhenda honum með stolti myndina og segja svo hátt:
„ÞETTA ER MYND AF KÚK OG KÓNGULÓ!“
Svo hlupu þeir út með gerræðislegu flissi yfir eigin fyndni og ég mokaði kafrjóð upp í mig meira kjöti með sósu. Fari öll megrun í grængolandi galopið hurðalaust helvíti, af hverju er ekki opinn bar í svona veislum? Fyrir foreldra á barmi taugaáfalls.
Eftir að hafa bókstaflega rústað barnahorninu og slegið í gegn í partíinu var ákveðið að kveðja og koma þeim bræðrum í pössun svo við foreldrarnir gætum skverast á árshátíð. Önnur umferð af kossum og faðmlögum og svo mjökuðum við okkur að gjafaborðinu til þess að kvitta í gestabókina. Þar, við hliðina á bókinni, var enn ein teikningin. Af allsberum karli og upphafsstafir drengjanna minna prýddu hornið. Með höfuð ofan í bringu leiddum við þann yngri út í bíl en hinn var borinn æpandi með sjóblaut stígvél í fanginu.
Í anddyri Hilton var verið að bjóða upp á fordrykk þegar við mættum tætt til leiks. Sparibúinn ungur maður í stífpressaðri skyrtu bauð mér stimamjúkur glas.
„ER ÞETTA ÁFENGT?“ spyr ég heldur hátt.
Hann jánkar því eilítið klumsa.
„Eins gott, ekki fara langt og um LEIÐ og þú sérð að það er komið borð á glasið mitt, gæskur, fylltu þá á það!“
Ég rétt marði borðhaldið og datt með andlitið ofan í bólið um miðnætti í öllum fötunum og í öðrum spariskónum.
Strákarnir voru alsælir með þessa ferð. Við reyndar líka enda engin lognmolla í kringum þá bræður sem eru alla jafna óskaplega hressir og skemmtilegir. Við ætlum hins vegar bara að ferðast með þá innan Héraðs í sumar, helst að láta þá ganga á fjöll og eyða orkunni!